Fara í efni

Umræða um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Málsnúmer 201903010

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 283. fundur - 07.03.2019

Bergur Elías Ágústsson hefur óskar eftir umræðu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Undirritaður vill vekja athygli á bókun byggðarráðs Húnaþings vestra á fundi ráðsins sem haldinn var mánudaginn 25. febrúar 2019, en hún er svohljóðandi.

„Byggðarráð lýsir yfir vonbrigðum sínum með framkomið frumvarp. Matvælaöryggi og lýðheilsa eiga alltaf að vega þyngra en viðskiptahagsmunir. Byggðarráð hvetur íslensk stjórnvöld til að kanna hvort endurskoða megi viðkomandi ákvæði innan EES samningsins með það að markmiði að sækja um undanþágu fyrir Ísland vegna lítillar notkunar á sýklalyfjum í landbúnaði og alþjóðlegra skuldbindinga hvað varðar verndun íslenskra búfjárkynja.
Ef frumvarpið verður að lögum má búast við auknum kostnaði innan heilbrigðiskerfisins vegna sýkinga af völdum fjölónæmra baktería í framtíðinni, lág sjúkdómastaða og hreinar landbúnaðarvörur eru mikils virði.
Byggðarráð gagnrýnir einnig hversu skammt á veg undirbúningur fyrirhugaðra mótvægisaðgerða virðist vera kominn og krefur stjórnvöld um að innflutt kjöt og egg verði ekki leyst úr tolli fyrr en Mast hefur staðfest með sýnatöku að ekki séu sýklalyfjaónæmar bakteríur til staðar í viðkomandi vörum.“

Ein af grunnstoðum sveitarfélagsins Norðurþings er sauðfjárrækt og vinnsla landbúnaðarafurða. Jafnframt skal vakin athygli á því að innan og í nágrenni sveitarfélagsins er stærsta líflambasvæði landsins. Í ljósi framangreinds er hér með skorað á þingmenn kjördæmisins að beita sér af fullum þunga gegn frumvarpinu og leitað verði allra leiða til að tryggja hreinleika íslenskra bústofna. Matvælaöryggi og lýðheilsa eiga alltaf að vega þyngra en skammtíma viðskiptahagsmunir.

Bergur Elías Ágústsson

Helena Eydís Ingólfsdóttir og Kolbrún Ada Gunnarsdóttir taka undir áskorunina.