Fara í efni

Umhverfis- og samgöngunefnd: Til umsagnar frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, 369. mál.

Málsnúmer 202012091

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 349. fundur - 07.01.2021

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis óskar eftir umsögn um frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð, 369.mál.
Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 1. febrúar 2021 nk.
Byggðarráð vísar málinu til umfjöllunar í sveitarstjórn.
Lagt fram til kynningar.

Sveitarstjórn Norðurþings - 109. fundur - 19.01.2021

Á 349. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað;

Byggðarráð vísar málinu til umfjöllunar í sveitarstjórn.
Til máls tóku: Kristján, Kolbrún Ada, Hjálmar, Hrund, Bergur og Hafrún.

Sveitarstjórn Norðurþings telur nauðsynlegt að um hálendisþjóðgarð ríki breið samstaða þegar frumvarp til slíkra laga er samþykkt. Sveitarstjórn tekur undir þau markmið sem sett eru fram í 3. gr. frumvarps um hálendisþjóðgarð, þar sem m.a. kemur fram að lögð sé áhersla á verndun náttúru og sögu, bætt aðgengi almennings, eflingu rannsókna, aukið samstarf og eflingu og styrkingu byggða og atvinnulífs.
Vaxandi umsvif hafa fylgt þjóðgarðsstarfsemi í Norðurþingi undanfarin ár, einkum í Ásbyrgi og við Jökulsárgljúfur, sem nú teljast innan Vatnajökulsþjóðgarðs en myndu færast undir Hálendisþjóðgarð við samþykkt frumvarpsins. Hálendisþjóðgarður getur orðið mikilvæg undirstaða atvinnusköpunar í dreifðum byggðum umhverfis garðinn, þar á meðal innan Norðurþings. Vakin er athygli á því að í skýrslu þverpólitískrar nefndar er gengið út frá því að við Ásbyrgi verði ein af þjóðgarðsgáttum Hálendisþjóðgarðsins. Þá er bent á að tækifæri kunna að liggja í uppbyggingu þjónustu og innviða fyrir þjóðgarðinn við Grímsstaði á Fjöllum og nærliggjandi svæði innan Norðurþings nærri mörkum þjóðgarðs og hálendisins. Sveitarstjórn telur að reynsla af rekstri Vatnajökulsþjóðgarðs sé um margt ágæt, sérstaklega allra síðustu ár. Þó hefur framan af skort verulega á að fjármagn hafi fylgt nauðsynlegri starfsemi og uppbyggingu innviða sem nauðsynlegt er að bæta úr til frambúðar svo efla megi traust á að þjóðgarðurinn standi undir nafni.
Það er til mikils unnið að góð sátt ríki á sveitarstjórnarstiginu um þá leið sem farin verði og að skipulagsvald sveitarfélaga verði virt innan áformaðs Hálendisþjóðgarðs. Lykilatriði er að sveitarfélög séu ekki í einu og öllu bundin af stjórnunar- og verndaráætlun garðsins og þurfa ekki að taka allt sem þar kæmi fram inn í skipulag sveitarfélags.
Þegar frumvarp sem hefur áhrif á það hvernig jafn stórum hluta landsins verði stjórnað og hvernig vernd innan svæðisins verður háttað þarf að tryggja sameiginlegan skilning á því að ekki sé verið að útiloka til framtíðar ákveðna uppbyggingu nauðsynlegra innviða þjóðarinnar m.t.t. raforkuflutninga og veglagningar sérstaklega. Þjóðhagslega mikilvæg mannvirki er tengjast sjálfbærri orkunýtingu eru á hálendinu og nauðsynlegt að þau geti áfram nýst með eðlilegum hætti og að orkunýting og flutningur samræmist áætlunum Alþingis þar um.
Sveitarstjórn Norðurþings sér ýmis tækifæri sem felast í formun hálendisþjóðgarðs til framtíðar. Undirrituð leggja á það áherslu að í meðförum þingsins verði leitað allra leiða til að ná þverpólitískri samstöðu um málið eins og starfshópur um miðhálendisþjóðgarð lagði upp með í skýrslu sinni.


Undirrituð vilja taka undir fyrirvara sem þingflokkur Framsóknarflokks gera við frumvarp um miðhálendisþjóðgarð. Fyrirvaranir lúta að stærðarmörkum, valdsviði umdæmisráða, fjármögnun uppbyggingar, hefðbundnar nytjar, samgöngum, orkunýtingu, samtali um sátt auk reglugerðar um sjálfbæra beit og ábyrgð mismunandi stofnana ríksins.
Það er mikilvægt að vandað sé til verka um jafn stórt og mikilvægt mál og þetta er fyrir land og þjóð. Það er til mikils að vinna að flýta sér hægt til að ná sem breiðastri samstöðu um málið.
Virðingafyllst
Bergur Elías Ágútsson
Hjálmar Bogi Hafliðason
Hrund Ásgeirsdóttir

Fulltrúi V-lista Kolbrún Ada óskar bókað;
Málefni þjóðgarða hafa verið meðal áhersluefna V-lista innan meirihluta Norðurþings á síðustu árum. Auk náttúrverndar hefur mikill árangur náðst í starfseminni sjálfri undanfarið, m.a. með eflingu starfsemi innan Norðurþings, fjölgun starfsfólks, aukinni þjónustu og umtalsverðri fjárfestingu í innviðum. Full ástæða er til að ætla að tilkoma Hálendisþjóðgarðs muni hafa enn frekari jákvæð áhrif á samfélagslega þætti og rekstur innan Norðurþings.