Fara í efni

Stöðuleyfi Helguskúrs við Hafnarstétt

Málsnúmer 202312002

Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð - 176. fundur - 05.12.2023

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur að taka afstöðu til stöðu Helguskúrs á Hafnarstétt á Húsavík. Á fundi sveitarstjórnar Norðurþings þann 19. desember 2017 var samþykkt að húsið fengi að standa á þessum stað til loka árs 2023, en fyrir lok þess tíma yrði tekin afstaða til áframhaldandi stöðu hússins. Helguskúr er án lóðarréttinda, en stendur á byggingarlóðinni að Hafnarstétt 15. Með bréfi dags. 28. ágúst s.l. fór lögmaður eiganda Hafnarstéttar 13 fram á að sveitarfélagið hlutist til um að Helguskúr verði fjarlægður innan hæfilegs frests.
Í gildandi deiliskipulagi Miðhafnarsvæðis Húsavíkur er gert ráð fyrir að Helguskúr víki og hefur svo verið allt frá því að fyrsta deiliskipulag svæðisins var samþykkt árið 1997.
Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs metur það sem svo að ekki séu forsendur til að veita frekari leyfi fyrir stöðu Helguskúrs á lóðinni að Hafnarstétt 15. Núverandi staðsetning hússins samræmist ekki gildandi deiliskipulagi. Ennfremur hafa framkvæmdir á aðliggjandi lóð miðað við að húsið víki til samræmis við ákvæði deiliskipulags. Ráðið fer því fram á að húsið verði fjarlægt af Hafnarstétt fyrir 1. nóvember 2024.

Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að tilkynna eiganda hússins þessa niðurstöðu ráðsins. Jafnframt felur ráðið sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að bjóða eiganda hússins aðstoð sveitarfélagsins hvað varðar framkvæmd og kostnað við verkið.

Aldey og Rebekka óska bókað:
Undirritaðar leggjast gegn því að Helguskúr verði fjarlægður. Í 25. kafla gildandi Aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 frá árinu 2010 segir m.a.
„Á fundi með bæjarbúum og á fundum með ýmsum hagsmunaaðilum kom fram að í margra huga er Helguskúr nánast eins mikilvægur bæjarlífinu eins og kirkjan er í bæjarmyndinni. Þó svo ekki sé um merkilega byggingu að ræða þá er hún hjarta samfélags smábátasjómanna. Hana ætti því að vernda sem „lifandi safn“ til að vega upp á móti annarri starfsemi sem sett er sérstaklega á fót fyrir ferðamenn.“
Aldey Unnar Traustadóttir og Rebekka Ásgeirsdóttir

Skipulags- og framkvæmdaráð - 182. fundur - 27.02.2024

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur bréf frá lögfræðingi Helga Héðinssonar vegna Helguskúrs og ákvörðunar ráðsins frá 176. fundi frá því 5. desember sl.
Einnig liggur fyrir ráðinu svar lögfræðings sveitarfélagsins í málinu.
Bergþór Bjarnason, fjármálastjóri, sat fundinn undir þessum lið.

Lagt fram til kynningar.