Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

176. fundur 05. desember 2023 kl. 13:00 - 15:45 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Soffía Gísladóttir formaður
  • Eysteinn Heiðar Kristjánsson aðalmaður
  • Birkir Freyr Stefánsson aðalmaður
  • Rebekka Ásgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Kristján Friðrik Sigurðsson varamaður
  • Aldey Unnar Traustadóttir varamaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Sigurdís Sveinbjörnsdóttir Ritari
  • Elvar Árni Lund sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs
Fundargerð ritaði: Sigurdís Sveinbjörnsdóttir Aðstoðarmaður skipulags- og byggingarfulltrúa
Dagskrá

1.Umhverfis- og loftlagsstefna Norðurþings

Málsnúmer 201707063Vakta málsnúmer

Ákvörðun skipulags- og framkvæmdaráðs um skipun starfshóps vegna vinnu við gerð umhverfis- og loftslagsstefnu Norðurþings.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að skipa Heiðar Hrafn Halldórsson, Örnu Ýr Arnarsdóttur og Aldey Unnar Traustadóttur í starfshóp vegna vinnu við gerð umhverfis- og loftslagsstefnu Norðurþings.

2.Verkefni um kostnað og tekjur sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs 2024

Málsnúmer 202311119Vakta málsnúmer

Samband íslenskra sveitarfélaga óskar eftir áhugasömum sveitarfélögum til þátttöku í verkefni um kostnað og tekjur sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að Norðurþing sæki um þátttöku í verkefninu og felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að sækja um fyrir 7. desember.


3.Refa- og minkaveiði í Norðurþingi

Málsnúmer 202210111Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs lagði fram minnisblað um veiðar á refum og minkum og kynnti drög að samningum um veiðar á refum og minkum árið 2024.
Einnig var lagt fram bréf frá Búnaðarfélagi Norður-Þingeyinga sem var sent á sveitarstjórn 30. nóvember sl.
Eysteinn Heiðar Kristjánsson leggur fram þá tillögu að haldinn verði vinnufundur um fyrirkomulag minka- og refaveiða í Norðurþingi. Boðin verði þátttaka þeim veiðimönnum sem hafa verið síðustu 3 ár með samning við Norðurþing um minka- eða refaveiðar og einnig þeim landeigendum sem samningar um refa- og minkaveiðar ná yfir. Markmið fundarins er að skapa vettvang fyrir landeigendur og veiðimenn til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og gera tillögur að útfærslu veiða á refum og minkum.

Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að haldinn verði vinnufundur á næstunni og felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að skipuleggja fundinn.

4.Umsókn um æfingasvæði dráttarhunda

Málsnúmer 202311107Vakta málsnúmer

Íslenska dráttarhundafélagið sækir um að fá að halda keppnir og stunda æfingar fyrir dráttarhunda á gönguskíðasvæði við Húsavík.
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur jákvætt í erindið og felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að ræða við aðstandendur Íslenska dráttarhundafélagsins um nánari útfærslu.

5.Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í landi Saltvík Yggdrasill

Málsnúmer 202310059Vakta málsnúmer

Á fundi sínum þann 23. október s.l. lagði skipulags- og framkvæmdaráð til við sveitarstjórn að Yggdrasill Carbon fengi framkvæmdaleyfi til skógræktar á 160 ha landi við Saltvík, skv. framlagðri skógræktaráætlun. Samþykkið var gert með fyrirvara um jákvæða umsögn Minjastofnunar. Með bréfi dags. 7. nóvember s.l. leggst Minjastofnun gegn skógræktaráformum Yggdrasils Carbon vestan forngarðs (fornleifar nr. 3063-10), austan húsa í Saltvík. Afstaða Minjastofnunar byggir á því að skráðar fornleifar við Saltvík sýni samfellt búsetulandslag frá miðöldum. Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur látið vinna tillögu að hnitsettu 160 ha skógræktarlandi austan forngarðsins og leggur til að Yggrasil Carbon verði boðið það land í stað þess sem áður var samið um.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Yggdrasil Carbon verði úthlutað landi skv. fyrirliggjandi tillögu í stað þess lands sem Minjastofnun telur tilefni til að vernda. Nýr samningur um landafnot verði til samræmis við ákvæði fyrirliggjandi samnings, sem hinsvegar úreldist með nýjum samningi.

6.Deiliskipulag íbúðarsvæðis Í1 á Húsavík

Málsnúmer 202309044Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar vegna deiliskipulags Íbúðarsvæðis Í1 á Húsavík. Umsagnir bárust frá Minjastofnun, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Rarik, Vegagerðinni, Skipulagsstofnun og Slökkviliði Norðurþings.

Minjastofnun telur að vinna þurfi nýja fornleifaskráningu á skipulagssvæðinu í ljósi þess að fyrirliggjandi skráning uppfylli ekki staðla Minjastofnunar. Ennfremur telur Minjastofnun að útbúa þurfi skrá yfir fyrirliggjandi mannvirki innan skipulagssvæðisins, þar sem fram komi lóðarheiti, byggingarár og aðalhönnuður.

HNE gerir ekki athugasemd við skipulagslýsinguna en minnir engu að síður á að skipulagssvæðið liggur nærri Tjörnesbrotabelti.

Rarik gerir ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna, en minnir á jarðstrengi sem liggja í gegn um fyrirhugað íbúðarsvæði.

Vegagerðin bendir á að drög að vegtengingum (utan skipulagssvæðis) kalla á færslu Norðausturvegar (85). Útfærsla, hönnun og staðsetning hringtorgs þarf að vera í samráði við Vegagerðina. Vegagerðin mælir gegn fimm arma hringtorgi eins og sýnd er á uppdrætti í greinargerð.

Skipulagsstofnun veltir því upp hvort tilefni sé til að skilgreina varúðarsvæði vegna jarðganga með takmörkunum á framkvæmdum. Stofnunin telur einnig að gera þurfi grein fyrir núverandi byggingum og setja fram viðeigandi skilmála ef við á.

Slökkvilið Norðurþings minnir á að fyrirhuguð íbúðarbyggð mun liggja nærri Tjörnesbrotabelti. Æskilegt sé að kanna hvort óþekktar jarðsprungur séu innan skipulagssvæðisins.




Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar framkomnar ábendingar og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að láta vinna tillögu að deiliskipulagi þar sem tekið verður tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í umsögnum.

7.Breyting deiliskipulags miðhafnarsvæðis

Málsnúmer 202311118Vakta málsnúmer

Fyrir liggja óskir um tvær breytingar á fyrirliggjandi deiliskipulagi Miðhafnarsvæðis á Húsavík. Annarsvegar liggur fyrir ósk frá Hvalasafninu að Hafnarstétt 1 um að endurskilgreindur verði byggingarréttur norðan til á lóðinni og hinsvegar hefur skipulags- og framkvæmdaráð tekið vel í að breyta byggingarrétti austan við húsið að Naustagarði 2.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja undirbúning að breytingu deiliskipulagsins.

8.Breyting deiliskipulags Stórhóll- Hjarðarholt

Málsnúmer 202311126Vakta málsnúmer

Í kafla 24.2.1 í aðalskipulagi Norðurþing er umfjöllun um mikilvægi þéttingar íbúðarbyggðar. Innan skipulagssvæðis deiliskipulags Stórhóls - Hjarðarholts á Húsavík frá árinu 2001 eru nokkur tækifæri til þéttingar íbúðarbyggðar.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur mikilvægt að nýta möguleika til þéttinga á þegar byggðum svæðum áður en ný byggingarsvæði eru tekin til notkunar. Ráðið felur skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja undirbúning að endurskoðun deiliskipulags Stórhóll - Hjarðarholt með það að markmiði að þétta byggð innan svæðisins.

9.Stöðuleyfi Helguskúrs við Hafnarstétt

Málsnúmer 202312002Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur að taka afstöðu til stöðu Helguskúrs á Hafnarstétt á Húsavík. Á fundi sveitarstjórnar Norðurþings þann 19. desember 2017 var samþykkt að húsið fengi að standa á þessum stað til loka árs 2023, en fyrir lok þess tíma yrði tekin afstaða til áframhaldandi stöðu hússins. Helguskúr er án lóðarréttinda, en stendur á byggingarlóðinni að Hafnarstétt 15. Með bréfi dags. 28. ágúst s.l. fór lögmaður eiganda Hafnarstéttar 13 fram á að sveitarfélagið hlutist til um að Helguskúr verði fjarlægður innan hæfilegs frests.
Í gildandi deiliskipulagi Miðhafnarsvæðis Húsavíkur er gert ráð fyrir að Helguskúr víki og hefur svo verið allt frá því að fyrsta deiliskipulag svæðisins var samþykkt árið 1997.
Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs metur það sem svo að ekki séu forsendur til að veita frekari leyfi fyrir stöðu Helguskúrs á lóðinni að Hafnarstétt 15. Núverandi staðsetning hússins samræmist ekki gildandi deiliskipulagi. Ennfremur hafa framkvæmdir á aðliggjandi lóð miðað við að húsið víki til samræmis við ákvæði deiliskipulags. Ráðið fer því fram á að húsið verði fjarlægt af Hafnarstétt fyrir 1. nóvember 2024.

Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að tilkynna eiganda hússins þessa niðurstöðu ráðsins. Jafnframt felur ráðið sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að bjóða eiganda hússins aðstoð sveitarfélagsins hvað varðar framkvæmd og kostnað við verkið.

Aldey og Rebekka óska bókað:
Undirritaðar leggjast gegn því að Helguskúr verði fjarlægður. Í 25. kafla gildandi Aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 frá árinu 2010 segir m.a.
„Á fundi með bæjarbúum og á fundum með ýmsum hagsmunaaðilum kom fram að í margra huga er Helguskúr nánast eins mikilvægur bæjarlífinu eins og kirkjan er í bæjarmyndinni. Þó svo ekki sé um merkilega byggingu að ræða þá er hún hjarta samfélags smábátasjómanna. Hana ætti því að vernda sem „lifandi safn“ til að vega upp á móti annarri starfsemi sem sett er sérstaklega á fót fyrir ferðamenn.“
Aldey Unnar Traustadóttir og Rebekka Ásgeirsdóttir

Fundi slitið - kl. 15:45.