Fara í efni

Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í landi Saltvík Yggdrasill

Málsnúmer 202310059

Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð - 171. fundur - 23.10.2023

Yggdrasill Carbon óskar framkvæmdaleyfis til skógræktar á ræktunarlandinu Saltvík Yggdrasill landnr. 235.736. Fyrir liggur skógræktaráætlun, dags. 10. október 2023, unnin af Guðríði Baldvinsdóttur hjá Skógræktinni. Unnin hefur verið fornminjaskráning fyrir svæðið og tekið tillit til skráðra minja í áætluninni, en ekki liggur hinsvegar fyrir umsögn Minjastofnunar um áætlunina. Auk þess eru undandskilin skógrækt svæði undir umferðarleiðir, lagnir og berjatínslu. Alls er horft til þess að tré verði gróðursett í 102,8 ha af þeim 160 ha sem landið spannar. Lögð er áhersla á fjölbreyttan og þróttmikinn skóg og horft til þess að skógurinn bindi kolefni, skapi skjól og nýtist til útivistar.
Meirihluta skipulags- og framkvæmdaráðs lýst vel á framlagða skógræktaráætlun fyrir landskikann og leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að veita framkvæmdaleyfi fyrir skógræktinni á grundvelli áætlunarinnar, með fyrivara um að jákvæð umsögn Minjastofnunar liggi fyrir áður en framkvæmdaleyfið er veitt.

Kristinn Lund situr hjá.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 176. fundur - 05.12.2023

Á fundi sínum þann 23. október s.l. lagði skipulags- og framkvæmdaráð til við sveitarstjórn að Yggdrasill Carbon fengi framkvæmdaleyfi til skógræktar á 160 ha landi við Saltvík, skv. framlagðri skógræktaráætlun. Samþykkið var gert með fyrirvara um jákvæða umsögn Minjastofnunar. Með bréfi dags. 7. nóvember s.l. leggst Minjastofnun gegn skógræktaráformum Yggdrasils Carbon vestan forngarðs (fornleifar nr. 3063-10), austan húsa í Saltvík. Afstaða Minjastofnunar byggir á því að skráðar fornleifar við Saltvík sýni samfellt búsetulandslag frá miðöldum. Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur látið vinna tillögu að hnitsettu 160 ha skógræktarlandi austan forngarðsins og leggur til að Yggrasil Carbon verði boðið það land í stað þess sem áður var samið um.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Yggdrasil Carbon verði úthlutað landi skv. fyrirliggjandi tillögu í stað þess lands sem Minjastofnun telur tilefni til að vernda. Nýr samningur um landafnot verði til samræmis við ákvæði fyrirliggjandi samnings, sem hinsvegar úreldist með nýjum samningi.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 178. fundur - 09.01.2024

Með bréfi dags. 19. desember 2023 leggst Þorkell Lindberg Þórarinsson f.h. Náttúrustofu Norðausturlands, gegn fyrirhuguðum skógræktaráformum Yggdrasils Carbon ehf við Saltvík vegna neikvæðrar áhrifa á fuglalíf. Þorkell bendir á 1) Fyrirhuguð skógrækt sé í vel grónu mólendi sem lítið sé orðið af við Húsavík, 2) Svæðið sé mikilvægt búsvæði rjúpu, heiðlóu og spóa. Tugir para þessara tegunda myndu missa búsvæði sín til frambúðar. Ráðstöfun svæðisins falli ekki að stefnu aðalskipulags um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. 3) Fyrirhugað skógræktarsvæði skarast á við vöktunarsvæði rjúpu sem talið hefur verið reglulega allt frá árinu 1981.
Skipulags- og framkvæmdaráð bendir á:
1. Fyrirhugað skógræktarsvæði er á rýru mólendi. Sambærilegt kjörlendi er mjög umfangsmikið í Norðurþingi og á Tjörnesi, að líkindum tugþúsundir hektara að flatarmáli.
2. Á þessu rýra mólendi er fuglalíf fábreytt og þar nánast eingöngu að finna fuglategundir sem teljast algengar á landsvísu, þ.m.t. rjúpur, heiðlóur og spóa. Ráðið fellst á að með tímanum muni óverulegur hluti íslenska heiðlóu- og spóastofnsins missa kjörlendi vegna skógræktarinnar. Á hinn bóginn er óvissa meiri með áhrif skógræktar á rjúpnastofninn. Ráðið fellst ekki á að landnýtingin brjóti í bága við stefnu aðalskipulags um verndun líffræðilegrar fjölbreytni.
3. Bréfritari gerir ekki grein fyrir því að hversu miklu leiti fyrirhugað skógræktarsvæði skarast á við nánar óskilgreint vöktunarsvæði rjúpu. Ekki liggja fyrir gögn hjá sveitarfélaginu um það hvernig það er afmarkað. Afmörkun vöktunarsvæðisins getur hinsvegar ekki verið grundvöllur ákvarðanatöku um landnýtinguna.

Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs telur ekki að þær áhyggjur sem reifaðar eru í bréfi Þorkels Lindbergs vegi það þungt að tilefni sé til að falla frá áformum um skógrækt á því landi sem um ræðir.
Kristinn Jóhann Lund og Ingibjörg Benediktsdóttir sitja hjá.

Sveitarstjórn Norðurþings - 141. fundur - 18.01.2024

Á 176. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Yggdrasil Carbon verði úthlutað landi skv. fyrirliggjandi tillögu í stað þess lands sem Minjastofnun telur tilefni til að vernda. Nýr samningur um landafnot verði til samræmis við ákvæði fyrirliggjandi samnings, sem hinsvegar úreldist með nýjum samningi.
Til máls tók: Soffía, Ingibjörg, Hjálmar, Áki, Aldey, Helena, Benóný og Hafrún.


Ingibjörg Benediktsdóttir, Aldey Unnar Traustadóttir fyrir hönd V-lista og Áki Hauksson fyrir hönd M-lista leggja fram eftirfarandi tillögu:
Að málinu verði frestað og það verði sent aftur til skipulags- og framkvæmdaráðs og það skoðað betur áður en ákvörðun verður tekin.

Ingibjörg, Aldey og Áki leggja fram eftirfarandi bókun með ofangreindri tillögu:
Undirrituð harma þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við afgreiðslu meirihluta skipulags- og framkvæmdaráðs á umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í landi Saltvíkur. Ábendingar um fyrirhugaða skógrækt bárust frá Náttúrustofu Norðausturlands. Náttúrustofan er rannsóknarstofnun með mikla sérþekkingu á náttúrufari svæðisins og ábendingar hennar ætti því að taka alvarlega og ekki hunsa nema að vel ígrunduðu máli. Svo virðist þó ekki hafa verið gert í þessu máli.
Í fyrstu ábendingunni var bent á að fyrirhuguð skógrækt yrði í vel grónu mólendi sem lítið er af við Húsavík. Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs fullyrðir hins vegar að mólendið sé rýrt án þess að geta heimilda eða hvernig komist er að þeirri niðurstöðu. Miðað við vistgerðakort Náttúrufræðistofnunar Íslands verður ekki annað séð en að meiri hluti svæðisins sé gróðurríkt mólendi.
Önnur ábending lítur að líffræðilegri fjölbreytni og stefnu Norðurþings. Bent er á fjölda rjúpna, heiðlóu og spóa á svæðinu. Svæðið er með mjög háan þéttleika rjúpna og Íslendingar bera alþjóðlega ábyrgð á stofnum heiðlóu og spóa þar sem um 50% allra heiðlóa heimsins og 40% spóa eiga sumarheimkynni hér á landi. Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs telur skógræktina ekki brjóta í bága við stefnu Norðurþings um líffræðilega fjölbreytni vegna þess hve lítill hluti íslensku stofnanna myndu missa kjörlendi sitt. Það er ekki rétt að bera fjölda fugla á litlum svæðum saman við fjölda á landsvísu. Með slíkum samanburði væri hægt að eyða öllum bestu mófuglasvæðum sveitarfélagsins, bút fyrir bút og stefna Norðurþings um líffræðilega fjölbreytni þar með marklaus. Réttast hefði verið að fá sérfræðiálit á áhrifum skógræktarinnar á líffræðilega fjölbreytni á sama hátt og leitað var til Minjastofnun vegna fornminja.
Þriðja ábendingin snýr að vöktunarsvæði rjúpu því rjúpur hafa verið taldar með skipulegum hætti frá árinu 1981 á hluta svæðisins. Þessi vöktun er liður í viðamikilli vöktun rjúpnastofnsins á landsvísu sem notuð er sem grunnur í veiðiráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Íslands. Fram kemur í bókun meirihluta skipulags- og framkvæmdaráðs að ekki séu til gögn um afmörkun vöktunarsvæðisins hjá sveitarfélaginu og að vöktunarsvæðið geti ekki verið grundvöllur ákvörðunartöku um landnýtingu. Það hefði verið auðvelt að kalla eftir þessum upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þannig hefði verið hægt að athuga hvort gera mætti breytingar á skógræktarsvæðinu til að draga úr áhrifum á vöktunina. Nú stendur yfir endurskoðun á aðalskipulagi Norðurþings er réttast að taka þetta mál upp innan þeirrar vinnu og finna skógræktinni stað þar sem öruggt er að hún hafi ekki áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika.
Að framansögðu virðist ljóst að rannsóknarregla stjórnsýslulaga virðist ekki hafa verið virt.

Tillögu Aldeyjar, Áka og Ingibjargar er hafnað með atkvæðum Bylgju, Benónýs, Hafrúnar, Hjálmars, Helenu og Soffíu.
Aldey, Áki og Ingibjörg greiddu atkvæði með tillögunni.


Tillaga skipulags- og framkvæmdaráðs er samþykkt með atkvæðum Bylgju, Benónýs, Hafrúnar, Hjálmars og Soffíu.
Helena sat hjá.
Aldey, Áki og Ingibjörg greiddu atkvæði á móti.