Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

178. fundur 09. janúar 2024 kl. 13:00 - 15:20 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Soffía Gísladóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund aðalmaður
  • Eysteinn Heiðar Kristjánsson aðalmaður
  • Ingibjörg Benediktsdóttir varaformaður
  • Birkir Freyr Stefánsson aðalmaður
  • Rebekka Ásgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
  • Sigurdís Sveinbjörnsdóttir Ritari
  • Elvar Árni Lund sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs
Fundargerð ritaði: Sigurdís Sveinbjörnsdóttir Aðstoðarmaður skipulags- og byggingarfulltrúa
Dagskrá

1.Ósk um umsögn á skipulags- og matslýsingu vegna Aðalskipulags Múlaþings 2025-2045

Málsnúmer 202312086Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Múlaþings samþykkti 13. desember 2023 að kynna skipulags- og matslýsingu vegna nýs Aðalskipulags Múlaþings 2025-2045 í samræmi við 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.Þar eru settar fram áherslur sveitarstjórnar við aðalskipulagsgerðina, upplýsingar um forsendur, núverandi stefnu og væntanlegt skipulagsferli, svo sem um kynningu og samráð gagnvart íbúum og öðrum hagsmunaaðilum.
Óskað er eftir að umsagnir, ábendingar og sjónarmið sem varða efni skipulagslýsingarinnar berist fyrir 31. janúar 2024 í gegnum Skipulagsgátt.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings gerir ekki athugasemdir við skipulags- og matslýsinguna.

2.Ósk um umsögn vegna tillögu að aðalskipulagi Þingeyjarsveitar

Málsnúmer 202312100Vakta málsnúmer

Á skipulagsgátt er nú til kynningar tillaga á vinnslustigi af Aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2023-2043. Umsagnarfrestur er til 22. janúar n.k.
Lagt fram.

3.Breyting deiliskipulags miðhafnarsvæðis

Málsnúmer 202311118Vakta málsnúmer

Nú liggur fyrir tillaga skipulagsráðgjafa að breytingum deiliskipulags Miðhafnarsvæðis Húsavíkur til samræmis við óskir Skipulags- og framkvæmdaráðs og stjórnar Hafnarsjóðs.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur að komið hafi verið til móts við óskir stjórnar Hafnarsjóðs og skipulags- og framkvæmdaráðs með fullnægjandi hætti við gerð breytingartillögunnar. Ráðið leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan með fyrrgreindum breytingum verði kynnt samkvæmt ákvæðum skipulagslaga.

4.Tillaga að breytingu á starfsleyfi fyrir Fiskeldið Haukamýri ehf.

Málsnúmer 202312098Vakta málsnúmer

Umhverfisstofnun kynnir nú tillögu að breytingu starfsleyfis fyrir fiskeldi í Haukamýri sunnan Húsavíkur. Nú er gert ráð fyrir allt að 850 tonna lífmassa í stöðinni á hverjum tímapunkti. Umhverfisstofnun mun hafa eftirlit með starfseminni.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings gerir ekki athugasemdir við tillögu að starfsleyfi.

5.Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í landi Saltvík Yggdrasill

Málsnúmer 202310059Vakta málsnúmer

Með bréfi dags. 19. desember 2023 leggst Þorkell Lindberg Þórarinsson f.h. Náttúrustofu Norðausturlands, gegn fyrirhuguðum skógræktaráformum Yggdrasils Carbon ehf við Saltvík vegna neikvæðrar áhrifa á fuglalíf. Þorkell bendir á 1) Fyrirhuguð skógrækt sé í vel grónu mólendi sem lítið sé orðið af við Húsavík, 2) Svæðið sé mikilvægt búsvæði rjúpu, heiðlóu og spóa. Tugir para þessara tegunda myndu missa búsvæði sín til frambúðar. Ráðstöfun svæðisins falli ekki að stefnu aðalskipulags um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. 3) Fyrirhugað skógræktarsvæði skarast á við vöktunarsvæði rjúpu sem talið hefur verið reglulega allt frá árinu 1981.
Skipulags- og framkvæmdaráð bendir á:
1. Fyrirhugað skógræktarsvæði er á rýru mólendi. Sambærilegt kjörlendi er mjög umfangsmikið í Norðurþingi og á Tjörnesi, að líkindum tugþúsundir hektara að flatarmáli.
2. Á þessu rýra mólendi er fuglalíf fábreytt og þar nánast eingöngu að finna fuglategundir sem teljast algengar á landsvísu, þ.m.t. rjúpur, heiðlóur og spóa. Ráðið fellst á að með tímanum muni óverulegur hluti íslenska heiðlóu- og spóastofnsins missa kjörlendi vegna skógræktarinnar. Á hinn bóginn er óvissa meiri með áhrif skógræktar á rjúpnastofninn. Ráðið fellst ekki á að landnýtingin brjóti í bága við stefnu aðalskipulags um verndun líffræðilegrar fjölbreytni.
3. Bréfritari gerir ekki grein fyrir því að hversu miklu leiti fyrirhugað skógræktarsvæði skarast á við nánar óskilgreint vöktunarsvæði rjúpu. Ekki liggja fyrir gögn hjá sveitarfélaginu um það hvernig það er afmarkað. Afmörkun vöktunarsvæðisins getur hinsvegar ekki verið grundvöllur ákvarðanatöku um landnýtinguna.

Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs telur ekki að þær áhyggjur sem reifaðar eru í bréfi Þorkels Lindbergs vegi það þungt að tilefni sé til að falla frá áformum um skógrækt á því landi sem um ræðir.
Kristinn Jóhann Lund og Ingibjörg Benediktsdóttir sitja hjá.

6.Ósk um umsögn vegna stofnunar lögbýlis að Krummaholti

Málsnúmer 202401024Vakta málsnúmer

Atli Jespersen, eigandi Krummaholts í Reykjahverfi, óskar umsagnar Norðurþings varðandi að samþykkja Krummaholt sem lögbýli. Krummaholt er 11,5 ha land sem nýtt hefur verið undir hrossabúskap og skógrækt til margra ára.
Skipulags- og framkvæmdaráð veitir jákvæða umsögn um að Krummaholt verði skilgreint sem lögbýli.

7.Hönnun Stangarbakkastígs.

Málsnúmer 201808065Vakta málsnúmer

Orkuveita Húsavíkur hefur til kynningar hönnun að nýjum stiga niður í Árgil.
Lagt fram til kynningar.

8.Ábending vegna slysahættu á stíg

Málsnúmer 202312103Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráði barst ábending um slysahættu á stíg milli Sölku og Hvalasafns.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar fyrir erindið og felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að láta fjarlægja málninguna á umræddum stíg.

9.Verkefni um kostnað og tekjur sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs 2024

Málsnúmer 202311119Vakta málsnúmer

Samband íslenskra sveitarfélaga auglýsti í lok nóvember 2023 eftir áhugasömum sveitarfélögum til að taka þátt í verkefni um kostnað og tekjur sveitarfélaga í úrgangsstjórnun og sóttist Norðurþing eftir þátttöku. Eftir yfirferð umsókna hafa sveitarfélögin Garðabær, Ísafjörður, Rangárþing eystra, Skagafjörður og Suðurnesjabær verið valin til þátttöku en sveitarfélög sem ekki voru valin býðst að taka þátt í bakhópi.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að óska eftir að Norðurþing taki þátt í bakhópi sveitarfélaga í verkefninu.

10.Eftirlitsskýrsla Vinnueftirlitsins

Málsnúmer 202401011Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissvið kynnti drög að eftirlitsskýrslu Vinnueftirlitsins vegna starfsstöðvar þjónustumiðstöðvar á Húsavík.
Lagt fram til kynningar.

11.Refa- og minkaveiði í Norðurþingi

Málsnúmer 202210111Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs kynnti tillögur að fyrirkomulagi minkaveiða í Norðurþingi.
Eysteinn Heiðar Kristjánsson gerir tillögu að sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs verði falið að eiga samtal við nágrannasveitarfélög Norðurþings um mögulegt samstarf um minkaveiðar.

Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir tillöguna samhljóða.

Fundi slitið - kl. 15:20.