Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

171. fundur 23. október 2023 kl. 14:00 - 16:30 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
 • Soffía Gísladóttir formaður
 • Kristinn Jóhann Lund aðalmaður
 • Birna Björnsdóttir varamaður
  Aðalmaður: Eysteinn Heiðar Kristjánsson
 • Ingibjörg Benediktsdóttir varaformaður
 • Birkir Freyr Stefánsson aðalmaður
 • Rebekka Ásgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
 • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
 • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
 • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
 • Elvar Árni Lund sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs
Fundargerð ritaði: Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá

1.Framkvæmdaáætlun 2024

Málsnúmer 202310038Vakta málsnúmer

Önnur umræða um drög að framkvæmdaáætlun 2024 og þriggja ára áætlun.
Lagt fram til kynningar. Ráðið heldur áfram umfjöllun um framkvæmdaáætlun á næstu fundum.

2.Vegagerð á Röndinni Kópaskeri

Málsnúmer 202106077Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs kynnti tilboð í hönnun að nýjum vegi að fiskeldi Rifóss á Kópaskeri ásamt hönnunarforsendum og lagði fram tillögu varðandi vegagerð.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir tillögu sviðsstjóra umhverfis og skipulagssviðs að vegagerð að fiskeldi Rifóss við Kópasker. Tillagan felur í sér að láta hanna nýjan veg að fiskeldi Rifóss við Kópasker, óska eftir breytingu á deiliskipulagi á svæðinu, bjóða út vegagerðina og hrinda framkvæmdum af stað eins fljótt og unnt er þegar breyting á deiluskipulagi hefur verið samþykkt. Hluti verksins felst í því að koma veginum um Röndina sem byrjað var á í ásættanlegt horf, þ.e. að lagfæra vegbrún milli eldri vegar og þess nýja og rykbinda með malarlagi.
Þegar nýr vegur verður tilbúinn og tekinn í notkun verði leiðinni um Röndina að fiskeldinu lokað fyrir umferð fólks- og flutningabíla og nýttur sem göngu og hjólaleið.

Samkvæmt hönnunarforsendum verður kostnaður við nýjan veg minni eða sá sami og við vegagerð um Röndina sem var áður samþykkt.

3.Refa- og minkaveiði í Norðurþingi

Málsnúmer 202210111Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs lagði fram bráðabirgðarskýrslu um refa- og minkaveiði á tímabilinu 1.9.2022 til 31.8.2023

Samkvæmt bráðabirgðaskýrslu um refa- og minkaveiðar fyrir tímabilið 1.9.2022 til 31.8.2023 voru veiddir 201 refir og 216 minkar. Verðlaun voru kr. 7.595.853 m.vsk. Til frádráttar kemur framlag Umhversstofnunar.
Frá 1.1.2023 til og með 31.8.2023 voru verðlaun fyrir veiðar á ref og mink kr. 4.296.400-
Grenjavinnsla á ref og mink var mun minni en áður og skýrir það færri veidd dýr á árinu 2023, en það sem af er ári hafa verið veiddir 127 refir og 138 minkar í Norðurþingi.
Lagt fram til kynningar. Sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs falið að vinna málið áfram og leggja fyrir ráðið að nýju í nóvember.

4.Ósk um samstarf - Umsókn til Framkvæmdasjóðs Ferðamannastaða bætt aðgengi að Selaskoðunarskýli við Bakkahlaup

Málsnúmer 202310100Vakta málsnúmer

Fuglastígur á Norðausturlandi óskar eftir samstarfi við Norðurþing vegna styrkumsóknar til Framkvæmdasjóðs Ferðamannastaða. Fyrir Skipulags- og framkvæmdaráði liggja drög að samstarfssamningi milli Fuglastígs og Norðurþings.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur sviðsstjóra að uppfæra samninginn og ganga frá undirritun fyrir hönd Norðurþings.

5.Húsnæði fyrir frístund barna

Málsnúmer 202111135Vakta málsnúmer

Á 164. fundi fjölskylduráðs 10.10.2023, var eftirfarandi bókað: Fjölskylduráð vísar uppfærðu vinnuskjali sem inniheldur þarfagreiningu fyrir húsnæðið til skipulags- og framkvæmdaráðs vegna hönnunar og byggingar hússins.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs að ræða við arkitekt um hönnun hússins byggt á þeirri þarfagreiningu sem liggur fyrir.

6.Ósk um leiguhúsnæði fyrir Tónasmiðjuna

Málsnúmer 202310079Vakta málsnúmer

Fyrir liggur erindi frá Tónasmiðjunni, ósk um húsnæði til leigu. Horft er til Túns eða annarra kosta til lengri tíma svo starfsemin geti dafnað í öruggu skjóli.
Skipulags- og framkvæmdaráð getur ekki fallist á útleigu á Túni til verkefnisins vegna ástands húsnæðisins með vísan til afgreiðslu fjölskylduráðs á 110. fundi ráðsins þann 7. febrúar 2022. Ráðið hvetur forsvarsmenn Tónasmiðjunnar til að leita að hentugu húsnæði undir starfsemina á almennum markaði þar sem sveitarfélagið hefur ekki yfir að ráða húsnæði sem hentar starfseminni.

7.Grænuvellir - Starfsemi

Málsnúmer 202208023Vakta málsnúmer

Á 165. fundi fjölskylduráðs þann 17. október var eftirfarandi bókað undir 2. lið fundarins:

"Spretthópur um bættar starfsaðstæður á leikskólanum Grænuvöllum leggur fram tillögur sínar til umfjöllunar og kynningar í ráðinu.

Tillögu 5, hvað varðar úrbætur á hljóðvist, er vísað til umfjöllunar og útfærslu í skipulags- og framkvæmdaráði."
Sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs er falið að fá sérfræðinga til að gera úttekt á hljóðvist á Grænuvöllum og koma með tillögur til úrbóta.

8.Tillaga að breytingu á starfsleyfi fyrir Röndina fiskeldi á Kópaskeri

Málsnúmer 202310061Vakta málsnúmer

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að breytingu á starfsleyfi vegna landeldis Fiskeldis Austfjarða hf. á Röndinni við Kópasker. Um er að ræða aukningu á umfangi úr allt að 400 tonna lífmassa í allt að 2.700 tonna lífmassa á hverjum tíma. Tillagan er nú til kynningar á vef Umhverfisstofnunar og er athugasemdafrestur til og með 7. nóvember n.k.
Lagt fram til kynningar.

9.Umsókn um lóðina að Hrísmóum 3 undir þurrkstöð

Málsnúmer 202308050Vakta málsnúmer

GG2023 ehf óskar tímabundinna afnota af lóðinni að Hrísmóum 3 undir færanlega þurrkstöð fyrir korn. Óskað er eftir afnotum lóðarinnar til næstu fimm ára. Til lengri tíma er hugsað til uppbyggingar varanlegrar þurrkstöðvar fyrir fleiri framleiðsluþætti s.s. gras og heyköggla, grisjunarvið og jafnvel lífræna áburðarframleiðslu. Um erindið hefur verið fjallað í tvígang á undanförnum vikum hjá skipulags- og framkvæmdaráði. Nú liggur fyrir áætlun um umferð vegna kornþurrkunarinnar.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að umsækjanda verði veitt vilyrði fyrir afnot af lóðinni að Hrísmóum 3 til loka nóvember 2028. Sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs verði falið að vinna tillögu að samningi um afnot lóðarinnar og bera undir ráðið.

10.Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í landi Saltvík Yggdrasill

Málsnúmer 202310059Vakta málsnúmer

Yggdrasill Carbon óskar framkvæmdaleyfis til skógræktar á ræktunarlandinu Saltvík Yggdrasill landnr. 235.736. Fyrir liggur skógræktaráætlun, dags. 10. október 2023, unnin af Guðríði Baldvinsdóttur hjá Skógræktinni. Unnin hefur verið fornminjaskráning fyrir svæðið og tekið tillit til skráðra minja í áætluninni, en ekki liggur hinsvegar fyrir umsögn Minjastofnunar um áætlunina. Auk þess eru undandskilin skógrækt svæði undir umferðarleiðir, lagnir og berjatínslu. Alls er horft til þess að tré verði gróðursett í 102,8 ha af þeim 160 ha sem landið spannar. Lögð er áhersla á fjölbreyttan og þróttmikinn skóg og horft til þess að skógurinn bindi kolefni, skapi skjól og nýtist til útivistar.
Meirihluta skipulags- og framkvæmdaráðs lýst vel á framlagða skógræktaráætlun fyrir landskikann og leggur til við sveitarstjórn að skipulagsfulltrúa verði falið að veita framkvæmdaleyfi fyrir skógræktinni á grundvelli áætlunarinnar, með fyrivara um að jákvæð umsögn Minjastofnunar liggi fyrir áður en framkvæmdaleyfið er veitt.

Kristinn Lund situr hjá.

11.Umsókn um lóð að Hraunholti 7-9

Málsnúmer 202208069Vakta málsnúmer

Daníel Jónmundsson og Hafdís Rún Höskuldsdóttir óska eftir að fá úthlutað byggingarlóðinni að Hraunholti 7 þar sem þau vilja byggja upp einbýlishús á tveimur hæðum. Erindi var áður til umfjöllunar á fundi skipulags- og framkvæmdaráðs á síðasta ári og þá tekið jákvætt í það frávik á deiliskipulagi sem óskin innifelur. Skipulagsfulltrúi hefur látið vinna tillögu að breyttri lóð sem fellur að hugmyndum umsækjenda.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Daníel og Hafdísi verði úthlutað lóðinni að Hraunholti 7, eins og hún er teiknuð á fyrirliggjandi lóðaruppdrætti.

12.Deiliskipulag fyrir íbúðarsvæði Í1 á Kópaskeri

Málsnúmer 202306047Vakta málsnúmer

Fyrir liggja fyrstu drög að deiliskipulagi íbúðarbyggðar á Kópaskeri. Skipulagshugmyndin nær til svæðis norðan Duggugerðis.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að óska umsagnar Hverfisráðs Öxarfjarðar um fyrirliggjandi drög að deiliskipulagi.

Fundi slitið - kl. 16:30.