Fara í efni

Sveitarstjórn Norðurþings

141. fundur 18. janúar 2024 kl. 13:00 - 14:45 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
 • Hjálmar Bogi Hafliðason Forseti
 • Aldey Unnar Traustadóttir 1. varaforseti
 • Hafrún Olgeirsdóttir 2. varaforseti
 • Helena Eydís Ingólfsdóttir aðalmaður
 • Soffía Gísladóttir aðalmaður
 • Áki Hauksson aðalmaður
 • Benóný Valur Jakobsson aðalmaður
 • Ingibjörg Benediktsdóttir aðalmaður
 • Bylgja Steingrímsdóttir 1. varamaður
Starfsmenn
 • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
 • Bergþór Bjarnason fjármálastjóri
 • Berglind Jóna Þorláksdóttir stjórnsýslustjóri
 • Anna Gunnarsdóttir skjalastjóri
Fundargerð ritaði: Berglind Jóna Þorláksdóttir stjórnsýslustjóri
Dagskrá
Í upphafi fundar las sveitarstjóri upp eftirfarandi kveðju sveitarstjórnar Norðurþings til Grindvíkinga:

Sveitarstjórn Norðurþings sendir hlýjar kveðjur og styrk til íbúa Grindavíkur og samúðarkveðjur til þeirra sem hafa misst. Einnig til kollega sinna í bæjarstjórn Grindavíkur sem horfa fram á forsendubrest og algera óvissu um framtíðaráform. Sveitarstjórn hvetur ríkisstjórn Íslands og Alþingi til að leggjast á eitt með að finna sem allra fyrst lausnir sem tryggja íbúum Grindavíkur heimili og nauðsynlegan stuðning við þessar erfiðu aðstæður sem eru uppi.

1.Fundaáætlun sveitarstjórnar Norðurþings

Málsnúmer 202401031Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur eftirfarandi fundaáætlun fram til júní nk. til samþykktar:

Fundi í febrúar verði seinkað um viku og verður 22. feb.
Fundi í mars verði felldur niður.
Fundi í apríl verði flýtt um þrjár vikur og verður 4. apríl.
Fundi í maí verði flýtt um eina viku og verður 2. maí.
Til máls tók: Hjálmar.

Fyrirliggjandi fundaáætlun er samþykkt samhljóða.

2.Kjarasamningar og verðstöðugleiki

Málsnúmer 202401072Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur umræða sem tengist yfirstandandi kjaraviðræðum og gjaldskrárhækkunum.
Til máls tók: Katrín og Hjálmar.

Sveitarstjórn Norðurþings leggur fram eftirfarandi bókun:

Það er að mati sveitarstjórnar Norðurþings allra hagur að það takist að koma böndum á verðbólguna sem knýr áfram háa vexti og verðlag í landinu um þessar mundir. Ef í burðarliðnum er sátt um stöðugt verðlag, þar sem bæði launþegahreyfingar starfsfólks á almenna markaðnum og opinberra starfsmanna ganga í takt, þá er sveitarstjórn Norðurþings reiðubúin að leggja sitt að mörkum og endurskoða orðnar og fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir. Það er hagur íbúa, fyrirtækja og sveitarfélagsins að verðlag sé stöðugt og fyrirsjáanleiki sé til lengri tíma en verið hefur síðustu misseri. Sveitarstjórn minnir á að innan samstæðunnar eru einingar á borð við sorphreinsun. Lögum samkvæmt er gert ráð fyrir að slíkar einingar séu sjálfbærar og verða gjaldskrár að taka mið af því.

Það er vilji sveitarstjórnar að slík sátt nái fram að ganga í komandi kjarasamningum sem yrðu þá til lengri tíma. Sveitarstjórn Norðurþings mun ekki skorast undan þeirri ábyrgð að leggja sitt að mörkum um að svo megi verða.


3.Erindi til sveitarstjórnar varðandi stuðning við Flugklasann Air66N

Málsnúmer 202309140Vakta málsnúmer

Benóný Valur Jakobsson óskar eftir að málið sé tekið fyrir sem sér liður á dagskrá sveitarstjórnar.

Á 450. fundi byggðarráðs var eftirfarndi bókað um málið:

Meirihluti byggðarráðs hafnar að styrkja Flugklasann Air 66N á árinu 2024.
Hafrún óskar bókað að hún hefði vilja styrkja Flugklasann áfram á árinu 2024.
Aldey og Benóný taka undir bókun Hafrúnar og óska eftir að málið verði tekið upp í sveitarstjórn.
Til máls tóku: Benóný, Hjálmar, Hafrún og Aldey.


Benóný leggur fram eftirfarandi tillögu:
Benóný leggur til að Flugklassinn Air 66N verði styrktur árið 2024 um þá upphæð sem óskað var eftir.

Tillagan er samþykkt með atkvæðum Aldeyjar, Benónýs, Bylgju, Hafrúnar, Helenu, Ingibjargar og Soffíu.
Áki og Hjálmar greiða atkvæði á móti.

4.Vegna endurnýjunar undanþágu frá skilyrði um lágmarksíbúafjölda vegna barnaverndarþjónustu

Málsnúmer 202311086Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur til kynningar umsókn um tímabundna undanþágu frá skilyrðum um lágmarksíbúafjölda vegna barnaverndarþjónustu meðan unnið er að framtíðarlausn.
Til máls tók: Katrín.

Lagt fram til kynningar.

5.Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í landi Saltvík Yggdrasill

Málsnúmer 202310059Vakta málsnúmer

Á 176. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Yggdrasil Carbon verði úthlutað landi skv. fyrirliggjandi tillögu í stað þess lands sem Minjastofnun telur tilefni til að vernda. Nýr samningur um landafnot verði til samræmis við ákvæði fyrirliggjandi samnings, sem hinsvegar úreldist með nýjum samningi.
Til máls tók: Soffía, Ingibjörg, Hjálmar, Áki, Aldey, Helena, Benóný og Hafrún.


Ingibjörg Benediktsdóttir, Aldey Unnar Traustadóttir fyrir hönd V-lista og Áki Hauksson fyrir hönd M-lista leggja fram eftirfarandi tillögu:
Að málinu verði frestað og það verði sent aftur til skipulags- og framkvæmdaráðs og það skoðað betur áður en ákvörðun verður tekin.

Ingibjörg, Aldey og Áki leggja fram eftirfarandi bókun með ofangreindri tillögu:
Undirrituð harma þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við afgreiðslu meirihluta skipulags- og framkvæmdaráðs á umsókn um framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í landi Saltvíkur. Ábendingar um fyrirhugaða skógrækt bárust frá Náttúrustofu Norðausturlands. Náttúrustofan er rannsóknarstofnun með mikla sérþekkingu á náttúrufari svæðisins og ábendingar hennar ætti því að taka alvarlega og ekki hunsa nema að vel ígrunduðu máli. Svo virðist þó ekki hafa verið gert í þessu máli.
Í fyrstu ábendingunni var bent á að fyrirhuguð skógrækt yrði í vel grónu mólendi sem lítið er af við Húsavík. Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs fullyrðir hins vegar að mólendið sé rýrt án þess að geta heimilda eða hvernig komist er að þeirri niðurstöðu. Miðað við vistgerðakort Náttúrufræðistofnunar Íslands verður ekki annað séð en að meiri hluti svæðisins sé gróðurríkt mólendi.
Önnur ábending lítur að líffræðilegri fjölbreytni og stefnu Norðurþings. Bent er á fjölda rjúpna, heiðlóu og spóa á svæðinu. Svæðið er með mjög háan þéttleika rjúpna og Íslendingar bera alþjóðlega ábyrgð á stofnum heiðlóu og spóa þar sem um 50% allra heiðlóa heimsins og 40% spóa eiga sumarheimkynni hér á landi. Meirihluti skipulags- og framkvæmdaráðs telur skógræktina ekki brjóta í bága við stefnu Norðurþings um líffræðilega fjölbreytni vegna þess hve lítill hluti íslensku stofnanna myndu missa kjörlendi sitt. Það er ekki rétt að bera fjölda fugla á litlum svæðum saman við fjölda á landsvísu. Með slíkum samanburði væri hægt að eyða öllum bestu mófuglasvæðum sveitarfélagsins, bút fyrir bút og stefna Norðurþings um líffræðilega fjölbreytni þar með marklaus. Réttast hefði verið að fá sérfræðiálit á áhrifum skógræktarinnar á líffræðilega fjölbreytni á sama hátt og leitað var til Minjastofnun vegna fornminja.
Þriðja ábendingin snýr að vöktunarsvæði rjúpu því rjúpur hafa verið taldar með skipulegum hætti frá árinu 1981 á hluta svæðisins. Þessi vöktun er liður í viðamikilli vöktun rjúpnastofnsins á landsvísu sem notuð er sem grunnur í veiðiráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Íslands. Fram kemur í bókun meirihluta skipulags- og framkvæmdaráðs að ekki séu til gögn um afmörkun vöktunarsvæðisins hjá sveitarfélaginu og að vöktunarsvæðið geti ekki verið grundvöllur ákvörðunartöku um landnýtingu. Það hefði verið auðvelt að kalla eftir þessum upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þannig hefði verið hægt að athuga hvort gera mætti breytingar á skógræktarsvæðinu til að draga úr áhrifum á vöktunina. Nú stendur yfir endurskoðun á aðalskipulagi Norðurþings er réttast að taka þetta mál upp innan þeirrar vinnu og finna skógræktinni stað þar sem öruggt er að hún hafi ekki áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika.
Að framansögðu virðist ljóst að rannsóknarregla stjórnsýslulaga virðist ekki hafa verið virt.

Tillögu Aldeyjar, Áka og Ingibjargar er hafnað með atkvæðum Bylgju, Benónýs, Hafrúnar, Hjálmars, Helenu og Soffíu.
Aldey, Áki og Ingibjörg greiddu atkvæði með tillögunni.


Tillaga skipulags- og framkvæmdaráðs er samþykkt með atkvæðum Bylgju, Benónýs, Hafrúnar, Hjálmars og Soffíu.
Helena sat hjá.
Aldey, Áki og Ingibjörg greiddu atkvæði á móti.

6.Ósk um frest fyrir byggingarframkvæmdum að Stakkholti 7

Málsnúmer 202312031Vakta málsnúmer

Á 177. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Jónasi verði veittur frestur til að hefja framkvæmdir á lóðinni að því gefnu að samþykktar aðalteikningar liggi fyrir í lok mars 2024 og framkvæmdir hefjist eigi síðar en 15. júní 2024.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

7.Breyting deiliskipulags miðhafnarsvæðis

Málsnúmer 202311118Vakta málsnúmer

Á 178. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð telur að komið hafi verið til móts við óskir stjórnar Hafnarsjóðs og skipulags- og framkvæmdaráðs með fullnægjandi hætti við gerð breytingartillögunnar. Ráðið leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan með fyrrgreindum breytingum verði kynnt samkvæmt ákvæðum skipulagslaga.
Til máls tók: Soffía.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs.

8.Ungmennaráð 2023-2024

Málsnúmer 202310120Vakta málsnúmer

Á 173. fundi fjölskylduráðs var eftirfarandi bókað:

Fjölskylduráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu að skipun ungmennaráðs og fyrirliggjandi samþykkt um ungmennaráð með áorðnum breytingum og vísar til staðfestingar í sveitarstjórn.

Ungmennaráð 2024 skipi eftirfarandi aðilar:
Aðalmenn
Íris Alma Kristjánsdóttir - Borgarhólsskóli
Hreinn Kári Ólafsson - FSH
Hrefna Björk Hauksdóttir - FSH
Bergsteinn Jökull Jónsson - Öxarfjarðarskóli
Bergdís Björk Jóhannsdóttir - Fulltrúi af vinnumarkaði

Varamenn
Andri Már Sigursveinsson - FSH
Einar Örn Elíasson - Borgarhólsskóli
Björn Grétar Ríkharðsson - Gunnskólanum á Raufarhöfn
Brynja Ósk Baldvinsdóttir - Fulltrúi af vinnumarkaði
Hafrún vék af fundi undir þessum lið.

Til máls tóku: Helena og Hjálmar.

Sveitarstjórn samþykkir tillögu fjölskylduráðs með öllum greiddum atkvæðum.

9.Frístundastyrkir 2024

Málsnúmer 202311103Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur að staðfesta bókun fjölskylduráðs um uppfærðar reglur um frístundastyrki þar sem lagt er til að frístundastyrkur verði 22.500 kr. á árinu 2024.
Hafrún vék af fundi undir þessum lið.

Til máls tóku: Helena og Aldey.

Sveitarstjórn samþykkir tillögu fjölskylduráðs með öllum greiddum atkvæðum.

10.Úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2023- 2024

Málsnúmer 202312019Vakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur að staðfesta bókun byggðarráðs frá 450 fundi ráðsins varðandi úthlutun byggðakvóta á fiskiveiði árinu 2023-2024. Bókunin var eftirfarandi:

Byggðarráð samþykkir að óska eftir samsvarandi sérreglum og undanfarin ár sem eru eftirfarandi;

Norðurþing (breyting á viðmiðun um úthlutun, afmörkun landaðs afla, vinnsluskylda innan sveitarfélags).
Ákvæði reglugerðar nr. 1370/2022 gilda um úthlutun byggðakvóta Kópaskers og Raufarhafnar með eftirfarandi breytingum:

a)
Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2022 til 31. ágúst 2023.

b)
Ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Afli sem landað er í sveitarfélagi úr fiskiskipum sem ekki eru skráð innan viðkomandi sveitarfélags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.

c)
Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1.september 2023 til 31. ágúst 2024.

Byggðarráð felur sveitarstjóra að koma þessum óskum á framfæri við ráðuneytið.
Samþykkt samhljóða.

11.Stafræn húsnæðisáætlun Norðurþings 2024

Málsnúmer 202309019Vakta málsnúmer

Á 453. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað:

Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi húsnæðisáætlun Norðurþings vegna ársins 2024 og vísar henni til samþykktar í sveitarstjórn.
Til máls tók: Katrín.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi húsnæðisáætlun.

12.Reglur um afslátt af fasteignaskatti 2024

Málsnúmer 202312116Vakta málsnúmer

Á 453. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað:

Fyrir byggðarráði liggja drög að breytingum á reglum um afslátt af fasteignaskatti til tekjulágra elli- og örorkulífeyrisþega og aðila sem misst hafa maka eða sambýling. Viðmiðunarfjárhæðir hækka um 8% á milli ára í samræmi við vísitölu.

Formaður byggðarráðs leggur fram eftirfarandi tillögu um breytingar á tekjumörkum í 5. gr. reglnanna:

Tekjumörk eru sem hér segir:
1. Einstaklingar og örorkulífeyrisþegar:
a. Skattskyldar tekjur allt að krónur 4.122.981.- veita 100% afslátt.
b. Skattskyldar tekjur frá 4.122.981.- til 4.923.015.- króna veita 50% afslátt.
c. Skattskyldar tekjur frá 4.923.015. til 6.403.779.- króna veita 25% afslátt.
d. Skattskyldar tekjur yfir 6.403.779.- veita engan afslátt.

2. Örorkulífeyrisþegar, hjón og samskattað sambýlisfólk:
a. Skattskyldar tekjur allt að 7.844.775.- krónur veita 100% afslátt.
b. Skattskyldar tekjur frá 7.844.775.- til 8.644.779.- krónur veita 50% afslátt.
c. Skattskyldar tekjur frá 8.644.779.- til 9.605.084.- króna veita 25% afslátt.
d. Skattskyldar tekjur yfir 9.605.084.- króna veita engan afslátt.

Tillagan er samþykkt samhljóða.

Byggðarráð vísar reglunum með áorðnum breytingum til staðfestingar í sveitarstjórn.
Til máls tók: Hafrún.

Sveitarstjórn samþykkir reglurnar samhljóða.

13.Skipulags- og framkvæmdaráð - 176

Málsnúmer 2311012FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 176. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs.
Til máls tóku undir lið 8 "Breyting deiliskipulags Stórhóll-Hjarðarholt": Soffía og Helena.

Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.

14.Skipulags- og framkvæmdaráð - 177

Málsnúmer 2312002FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 177. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs.
Til máls tók undir lið 7 "Meðhöndlun textíls í Norðurþingi": Aldey.

Aðrir liðir fundargerðarinnar lagðir fram til kynningar.

15.Skipulags- og framkvæmdaráð - 178

Málsnúmer 2401001FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 178. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs.
Lagt fram til kynningar.

16.Fjölskylduráð - 170

Málsnúmer 2311011FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 170. fundar fjölskylduráðs.
Lagt fram til kynningar.

17.Fjölskylduráð - 171

Málsnúmer 2311014FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 171. fundar fjölskylduráðs.
Lagt fram til kynningar.

18.Fjölskylduráð - 172

Málsnúmer 2312001FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 172. fundar fjölskylduráðs.
Lagt fram til kynningar.

19.Fjölskylduráð - 173

Málsnúmer 2312005FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 173. fundar fjölskylduráðs.
Lagt fram til kynningar.

20.Byggðarráð Norðurþings - 450

Málsnúmer 2311013FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 450. fundar byggðarráðs.
Lagt fram til kynningar.

21.Byggðarráð Norðurþings - 451

Málsnúmer 2312003FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 451. fundar byggðarráðs.
Lagt fram til kynningar.

22.Byggðarráð Norðurþings - 452

Málsnúmer 2312007FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 452. fundar byggðarráðs.
Lagt fram til kynningar.

23.Byggðarráð Norðurþings - 453

Málsnúmer 2401002FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 453. fundar byggðarráðs.
Lagt fram til kynningar.

24.Orkuveita Húsavíkur ohf - 250

Málsnúmer 2311009FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 250. fundar Orkuveita Húsavíkur ohf.
Lagt fram til kynningar.

25.Stjórn Hafnasjóðs Norðurþings - 18

Málsnúmer 2312004FVakta málsnúmer

Fyrir sveitarstjórn liggur fundargerð 18. fundar stjórn hafnasjóðs Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 14:45.