Orkuveita Húsavíkur ohf

226. fundur 16. desember 2021 kl. 13:00 - 14:45 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sigurgeir Höskuldsson formaður
  • Bergur Elías Ágústsson varaformaður
  • Guðmundur Halldór Halldórsson varamaður
Starfsmenn
  • Benedikt Þór Jakobsson rekstrarstjóri
Fundargerð ritaði: Benedikt Þór Jakobsson Rekstrarstjóri Orkuveitu Húsavíkur
Dagskrá

1.Beiðni um upplýsingar varðandi vatnsgjald og leiðbeiningar ráðuneytisins þar að lútandi.

202105115

Fyrir stjórn Orkuveitu Húsavíkur liggja drög að útreikningum vatnsgjalds í samræmi við leiðbeiningar Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Von er á að Þorsteinn frá KPMG komi og sitji undir þessum lið.
Magnús Kristjánsson frá KPMG fór yfir gögn varðandi vatnsgjald í samræmi við leiðbeiningar ráðuneytisins þar að lútandi.

2.Framtíð Fjárfestingafélags Þingeyinga hf.

202110036

Á 117. fundi sveitarstjórnar Norðurþings var til umræðu erindi frá Fjárfestingafélagi Þingeyinga hf. þar sem óskað var eftir afstöðu Norðurþings til mögulegrar framtiðar félagsins.
Á fundinum var eftirfarandi bókað;
Bergur leggur fram eftirfarandi tillögu.
Um er að ræða gamla Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. sem breytt var í Atvinnuþróunarfélaga Þingeyinga ses. og síðan aftur, með nafnabreytingu í Fjárfestingafélag Þingeyinga hf. Eitt stykki hringur takk.
Í Fjárfestingarfélagi Þingeyinga hf., er að finna nokkrar eignir og því er spurt með hvaða hætti Norðurþing geti styrkt félagið með eignasafni sínu í félögum sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi Norðurþings, þannig að virkt fjárfestingarfélag geti litið dagsins ljóss í Þingeyjarsýslu. Markmiðið er að búa til félag sem getur orðið áhrifavaldur til góðar verka í atvinnumálum svæðisins, ekki stórt en vonandi skynsamt.
Í ljósi framangreinds, leggur undirritaður fram þá tillögu að skoðað verið að eftirfarandi félög verði lögð inn í Fjárfestingafélag Þingeyinga hf. Félögin eru;
Skúlagarður- fasteignafélag ehf., Verslunarhúsið á Kópaskeri ehf., Greið leið ehf., Seljalax hf., Fjallalamb hf., Síldarvinnslan hf., Sparisjóður Suður-Þingeyinga sem og tvö félög í eigu Orkuveitu Húsavíkur ohf. (með samþykki stjórnar þess félags) þ.e. Sjóböðin ehf. og Mýsköpun ehf.
Mikilvægt er að framangreindar eignir verði endurmetnar áður en endanleg afgreiðsla málsins verði staðfest, sem og mögulegar tæknilegar fyrirstöður.
Bergur Elías Ágústsson.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða tillögu Bergs.
Stjórn Orkuveitu Húsavíkur telur hugmyndina að styrkja fjárfestingarfélag Þingeyinga áhugaverða og mun taka endanlega ákvörðun um ráðstöfun eigna í félögum sem Orkuveitan á í þegar vilji þeirra sem koma að félaginu liggur fyrir.

3.Umræða um mögulega raforkuframleiðslu í orkustöð OH að Hrísmóum á Húsavík

202110113

Bergur Elías óska eftir umræðu um mögulega raforkuframleiðslu í orkustöð OH að Hrísmóum á Húsavík og samningagerð vegna þess.
Frá áramótum 2018-2019 hefur Orkuveita Húsavíkur unnið að endur vakningu á raforkuframleiðslu í orkuveri að Hrísmóum. Verulegir fjármunir hafa farið í undirbúning og viðræður um hvernig mögulegt sé að standa sem best að þessu verkefni.
Nú þremur árum seinna er ekki komin niðurstaða sem réttlætir að okkar mati þá áhættu og fjárfestingu sem til þarf til að ráðast í verkefnið.
Því hefur stjórn ákveðið að þessu verkefni verði hætt að svo stöddu og Orkuveita Húsavíkur einbeiti sér fyrst og fremst að kjarnastarfsemi OH, það er rekstri vatnsveitu, fráveitu og hitaveitu í náinni framtíð.

4.Breyting á framkvæmdastjórn og prókúru Orkuveitu Húsavíkur ohf.

202112064

Fyrir stjórn Orkuveitu Húsavíkur ohf. liggur að samþykkja breytingar á framkvæmdastjórn og prókúru félagsins þar sem Benedikti Þór Jakobssyni rekstrarstjóra Orkuveitu Húsavíkur ohf. er falin prókúra og framkvæmdastjórn Orkuveitunnar.
Stjórn samþykkir fyrirliggjandi breytingu að Benedikt Þór Jakobsson verði prókúruhafi Orkuveitu Húsavíkur ohf.

5.Leiga á Vallholtsvegi 3

202112068

Núverandi leigjendur af Vallholltsvegi 3 hafa sagt upp samningu um leigu. Aðrir aðilar hafa óskað eftir að fá húsnæðið leigt. Fyrir stjórn Orkuveitu Húsavíkur að taka ákvörðun um áframhaldandi notkun á húsinu.
Lagt fram.

6.Staða framkvæmda OH 2021

202112069

Fyrir stjórn Orkuveitu Húsavíkur liggur staða framkvæmda við árslok 2021.
Lagt fram.

Fundi slitið - kl. 14:45.