Keldan
Keldan

Keldan er úrræði í snemmtækri íhlutun fyrir börn og ungmenni þar sem þau ásamt foreldrum og fagaðilum sameinast í teymi til að veita aðstoð í daglegu umhverfi eða í skóla.
Með verklaginu skapast sterk tenging og virkt samband milli fjölskyldu, skóla, félags- og heilbrigðisþjónustu. Mál eru leyst með öflugri og virkri þátttöku starfsmanna við vinnslu mála frá upphafi, fjölbreyttum úrræðum beitt í samstarfinu. Unnið er eins nálægt barninu og fjölskyldunni og mögulegt er.
Foreldrar og þjónustuveitendur barna og ungmenna geta leitað til teymisins.
Alla jafna er leitast við að vinna í máli barns í daglegu umhverfi þess þar sem nánustu starfsmenn, t.d. kennarar og aðrir starfsmenn skólans leggjast á eitt um að veita barninu nauðsynlegan stuðning. Ef þörf þykir er kallað á að fleiri komi að máli til að styðja barnið eða fjölskylduna þá er leitað eftir upplýstu samþykki foreldra.
Í Keldunni sitja fagaðilar eins og félagsráðgjafar, sálfræðingar, forstöðumaður í málefnum barna, umsjónarkennarar, deildarstjórar, skólahjúkrunarfræðingar og aðrir sérfræðingar eftir eðli hvers máls. Teymið hefur viðveru í skólum minnst mánaðarlega og oftar eftir þörfum.
Þjónustan er stigskipt:
Fyrsta stig – grunnþjónusta og snemmtækur stuðningur.
Fyrsta stigi þjónustu í þágu farsældar barna tilheyrir grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum og foreldrum. Þá tilheyra fyrsta stigi úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn snemmtækur stuðningur með það að markmiði að styðja við farsæld barns. Snemmtækur stuðningur er veittur í samræmi við frummat á þörfum barns og fylgt eftir á markvissan hátt.
Annað stig – markvissari stuðningur.
Öðru stigi þjónustu í þágu farsældar barna tilheyra úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn markvissari stuðningur með það að markmiði að tryggja farsæld barns. Markvissari stuðningur er veittur í samræmi við faglegt mat og/eða frumgreiningu á þörfum
barns. Leitast skal við að veita markvissari stuðning á grundvelli stuðningsáætlunar um samþætta þjónustu og eftirfylgd.
Þriðja stig – sérhæfðari stuðningur.
Þriðja stigi þjónustu í þágu farsældar barna tilheyra úrræði þar sem er veittur er einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur með það að markmiði að tryggja að farsæld barns verði ekki hætta búin. Sérhæfðari stuðningur er veittur í samræmi við sérhæft og ítarlegt mat og/eða greiningu á þörfum barns. Leitast skal við að veita sérhæfðari stuðning á grundvelli stuðningsáætlunar um samþætta þjónustu og eftirfylgd.
Tengiliður þjónustu í þágu farsældar barns.
Öll börn og foreldrar skulu hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur. Frá fæðingu og þar til barn hefur nám í leik- eða grunnskóla er tengiliður starfsmaður heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar í heilbrigðisumdæmi barns. Sama á við ef þörf er á samþættingu þjónustu á meðgöngu. Þegar barn er við nám í leik-, grunn- eða framhaldsskóla er tengiliður starfsmaður skólans þar sem barn er við nám. Skólar, heilsugæsla og félagsþjónusta eru þjónustuaðilar sem ætlað er að vinna saman sem ein heild ásamt foreldrum og að unnið sé að því út frá þeirri stigskiptingu sem er hér fyrir ofan.
Eyðublaðið má nálgast hér - upplýst samþykki
Reglur um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna