Starfsreglur leikskóla Norðurþings

Leikskólar Norðurþings starfa samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008, aðalnámskrá leikskóla,  reglugerð um starfsemi leikskóla og reglugerð um starfsumhverfi leikskóla. 655/2009. Einnig starfar hver leikskóli samkvæmt eigin skólanámskrá.  

Starfræktur er einn leikskóli og tvær leikskóladeildir í sveitarfélaginu.

Grænuvellir
Átta deilda leikskóli á Húsavík.
Leikskólastjóri: Sigríður Valdís Sæbjörnsdóttir - siggavaldis@graenuvellir.is
Sími: 464 6160

 

Leikskóladeild Öxarfjarðarskóla
Samrekin leik- og grunnskóli í Lundi í Öxarfirði. Leikskóladeild á Kópaskeri tilheyrir deildinni einnig.
Heimasíða: oxarfjardarskoli.nordurthing.is/
Deildarstjóri leikskóladeildar Öxarfjarðarskóla í Lundi: Elisabeth Erichsen Hauge.
Sími: 465 2344
 

 

Leikskóladeild Grunnskóla Raufarhafnar
Samrekin leik- og grunnskóli á Raufarhöfn.
Skólastjóri: Hrund Ásgeirsdóttir - hrund@nordurthing.is
 

Umsókn og innritun

Sótt er um leikskólanám á Grænuvöllum á heimasíðu leikskólans undir upplýsingar.
Umsóknir um leikskólanám í leikskóladeildum Öxarfjarðarskóla og Grunnskóla Raufarhafnar skulu berast skólastjórum í viðkomandi skóla.
Foreldrar/forráðamenn  fá tölvupóst með staðfestingu á að umsókn hafi verið móttekin. Sækja má um leikskólanám  frá skráningu kennitölu barns.  Hægt er að sækja um leikskóla þótt lögheimili sé í öðru sveitarfélagi en til að fá inngöngu þarf lögheimili að vera í Norðurþingi. Úthlutun er háð því  að foreldri/forráðamaður sé ekki í vanskilum með leikskólagjöld. Tekið er á móti umsóknum allt árið.
Börn eru innrituð í leikskólann eftir aldri þannig að eldri börn ganga fyrir þeim yngri. Börn eru skráð á biðlista frá eins árs aldri og raðast þau á biðlistann eftir fæðingardegi og ári. Leikskólanám er að jafnaði í boði fyrir börn sem náð hafa eins árs aldri í ágúst og svo aftur í janúar árið eftir. Það skal tekið fram að ekki er unnt að tryggja öllum börnum leikskólanám við eins árs aldur.
Ekki eru skilgreindir sérstakir forgangshópar vegna leikskólanáms en læknar og/eða sérfræðingar félagsþjónustu geta óskað eftir forgangi enda liggi fyrir vottorð frá viðurkenndum greiningaraðila um staðfest frávik eða greiningarferli.
Þegar aðstæður leyfa eru yngstu börnin aðlöguð í leikskólann þrisvar til fjórum sinnum á ári. Miðað er við að foreldrar/forráðamenn fái staðfestingu á leikskólanámi með mánaðar fyrirvara. Þegar barn hefur fengið inngöngu í leikskólann er bréf sent í tölvupósti með upplýsingum um hvenær leikskólagangan hefst og hvernig aðlögun verði hagað. Þegar skrifleg staðfesting á leikskólanámi hefur borist frá leikskólastjóra telst plássinu úthlutað þó eldri börn kunni að koma á biðlista áður en leikskólanám hefst. Eldri börnin bíða þá næstu innritunar. 
 
Uppsagnarfrestur og ósk um breytingar á dvalarsamningi
 
Gagnkvæmur uppsagnafrestur á leikskólasamningi er einn mánuður og miðast við 1. eða 15. hvers mánaðar. Óski foreldrar/forráðamenn eftir breytingu á leikskólasamningi eða segja honum upp er það gert á eftirfarandi hátt:
 
Grænuvellir: Með tölvupósti til leiksskólastjóra.
Leikskóladeildir Öxarfjarðarskóla: Með tölvupósti til skólastjóra
Grunnskóli Raufarhafnar: Með tölvupósti til skólastjóra.
 
Leikskólagjöld
 
Leikskólagjöld eru greidd fyrirfram, gjalddagi miðast við fyrsta virka dag hvers mánaðar. Dvalargjald skal greitt samkvæmt leikskólasamningi hvers barns. Eindagi er 20 dögum eftir gjalddaga og reiknast dráttarvextir frá gjalddaga. Greitt er fyrir 11 mánuði á ári. Foreldrar greiða dvalar- og fæðisgjöld  samkvæmt gjaldskrá sem að ákveðin er af sveitarstjórn.  Norðurþing greiðir stærstan hluta kostnaðar við rekstur leikskólans. 
Breytingar á gjaldskrá eru kynntar foreldrum  með tilkynningu frá leikskólanum, jafnframt er uppfærð gjaldskrá birt á heimasíðu leikskólans og á heimasíðu sveitarfélagsins.
Ef til  þriggja mánaða vanskila kemur er foreldrum leiðbeint með að semja um greiðslu gjalda, annars er leikskólastjóra skylt  að segja upp leikskólasamningi.
 

Afsláttur

Hjón eða fólk í sambúð greiða almennt gjald, einstæðir foreldrar geta sótt um afslátt hjá leikskólastjóra en þá þarf viðkomandi að vera skráður einstæður í þjóðskrá. Endurnýja þarf umsókn um afslátt sem einstætt foreldri ár hvert. Hefji einstæðir foreldrar sambúð skal greiða hærra gjald þegar sambúð hefst og ber þeim að tilkynna þær breytingar. Systkinaafsláttur er gefinn samkvæmt gjaldskrá leikskóla Norðurþings:

Með 2. Barni 50%
Með 3. Barni 100%
 
Námsmenn sem stunda fullt lánshæft nám samkvæmt reglum Lánasjóðs Íslenskra námsmanna fá 20% afslátt af leikskólagjöldum. Umsóknum skal skila til leikskólastjóra/skólastjóra fyrir uppaf námsárs. Skila þarf innritunarvottorði frá skóla í upphafi hverrar annar. 
Einungis er veittur einn afsláttur fyrir hvert barn.
Ekki er veittur afsláttur af fæðisgjöldum en hægt er að fá fæðiskostnað felldan niður ef nemandi er fjarverandi samfellt í 4 vikur eða lengur.
 
Geti nemandi ekki sótt leikskóla vegna veikinda samfellt 4 vikur eða lengur er hægt að óska eftir niðurfellingu fæðis og vistunargjalda gegn framvísun læknisvottorðs.
Foreldrum ber að tilkynna leikskólastjóra um breytingu á högum sínum s.s. breytt heimilisfang, símanúmer og hjúskaparstöðu.
 
Opnunartími og skipulagsdagar
 
Leikskólarnir eru opnir frá 7.45-16.15 og börn geta dvalið á leikskóla í fjórar til átta og hálfa klukkustund að hámarki á dag.
  • Skipulags og námskeiðsdagar Grænuvalla eru 4 á ári. Leikskólastjóri sér alfarið um að skipuleggja skipulags- og námskeiðsdaga. Dagar þessir eru á skóladagatali leikskólans og auglýstir með mánaðar fyrirvara. Reynt er að samræma þessa daga við grunnskóla eins og kostur er.
  • Skipulags og námskeiðsdagar leikskóladeildarinnar eru 2 á ári. Skólastjóri/deildarstjóri sér um að skipuleggja skipulags- og námskeiðsdaga. Dagar þessir eru á skóladagatali Grunnskóla Raufarhafnar. Starfsdagar þessir eru samræmdir við starfsdaga grunnskólans. Frekari upplýsingar um opnunartíma er að finna í skóladagatali Grunnskóla Raufarhafnar á heimasíðu skólans.
  • Starfsdagar Öxarfjarðarskóla (leik- og grunnskóladeild) er að finna á skóladagatali Öxarfjarðarskóla.
 
Leikskólasamningar eru aðeins miðaðir við heila tímann og greitt er samkvæmt því. Foreldrar hafa 15 mínútna svigrúm fyrir og eftir umsaminn dvalartíma til að koma með barn  í leikskólann og sækja það. Vakin er athygli á því að 15 mínúturnar eftir heila tímann eru aðeins hugsaðar fyrir foreldri til að hafa svigrúm til að sækja barnið. Ætlast er til að foreldri  og barn hafi yfirgefið leikskólann innan 15 mínútna eftir að umsömdum vistunartíma lýkur. Séu  börn sótt  seinna  án þess að gild skýring liggi fyrir skal viðkomandi greiða 1000 kr. fyrir hvert skipti.
Leikskólarnir eru lokaðir á aðfangadag og gamlársdag.
Leikskólagjöld lækka ekki vegna lokana á skipulags- og starfsdögum og á aðfangadag og gamlársdag.
Barn í leikskóla skal taka að lágmarki fjögurra vikna samfellt sumarleyfi ár hvert.
 
Sérfræðiþjónusta
Í leikskólum Norðurþings er boðið uppá þjónustu sérfræðinga vegna sérþarfa. Félagsþjónusta Norðurþings annast sérfræðiþjónustu og stuðning við leikskólana. Hlutverk sérfræðinga er að annast ráðgjöf, þjálfun og stuðning við nemendur, starfsfólk og foreldra. Þyki ástæða til að kalla eftir þjónustu sérfræðinga fyrir barn  er leitað eftir skriflegu samþykki foreldra. Einnig er, að fengnu samþykki foreldra haft samráð við sérfræðinga á  Heilbrigðisstofnun Norðurlands varðandi ungbarnaeftirlit.
 
Þagnarskylda
Allt starfsfólk leikskóla Norðurþings er bundið þagnarskyldu og helst þagnarskylda þó látið sé af störfum. Tilkynningaskylda til barnaverndar gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu starfsstétta Samkvæmt 17. Gr. Barnaverndarlaga nr. 80/2002.
 
Meðferð ágreiningsmála 
Komi upp ágreiningur um framkvæmd þessara reglna er hægt að vísa málinu til fræðslufulltrúa  sem  fer með málefni leikskólans. Náist ekki samkomulag ber að vísa málum til fræðslu- og menningarnefndar. Ákvarðanir sveitarfélagsins um réttindi einstakra barna eru kæranlegar til menntamálaráðherra samkvæmt 10. kafla laga um leikskóla nr. 90/2008.
 
Samþykkt af fræðslu- og menningarnefnd 10. febrúar 2016
Staðfest af sveitarstjórn 16. febrúar 2016
Reglur endurskoðaðar og uppfærðar á 79. fundi Fjölskylduráðs Norðurþings 23. nóvember 2020 og staðfestar í sveitarstjórn Norðurþings 1. desember 2020.