Skólastefna Norðurþings 2020 - 2025

 
Staðan við upphaf skólastefnu
 
Í sveitarfélaginu eru þrír grunnskólar; Grunnskóli Raufarhafnar, samrekinn leik- og grunnskóli, Öxarfjarðarskóli, samrekinn leik- og grunnskóli einnig með leikskóladeild á Kópaskeri. Á Húsavík er Borgarhólsskóli, leikskólinn Grænuvellir og tónlistarskóli sem
þjónustar allt Norðurþing.
 
Nýtt ytra mat liggur fyrir í Öxafjarðarskóla (2019) og ytra mat fyrir Borgarhólsskóla er frá árinu 2015. Þetta eru mikilvæg gögn til að nýta til samanburðar þegar líður á innleiðingu  skólastefnunnar.
 
Skólastefna Norðurþings var unnin í samráði við starfsfólk, foreldra, börn, stjórnendur og öllum íbúum sveitarfélagsins gafst kostur á að hafa áhrif á skólastefnuna á opnum stafrænum fundi. Með skýrri skólastefnu er skólastarf í stöðugri þróun til að mæta þörfum samfélagsins.
 
Við upphaf endurskoðunar á skólastefnu Norðurþings kom fram að skólasamfélagið lítur með trausti til sinna stofnanna og sveitarfélagið er ríkt af fjölbreyttu skólastarfi. Einnig kom fram ósk um það að samstarf milli stofnana væri meira og reglubundnara og hafi augljósan tilgang. Skólastarf þarf að þróast í takt við hraðar samfélagsbreytingar, tækniþróun og starfsþróun starfsfólksins. Rauði þráðurinn í gerð skólastefnunnar var að óhætt væri að setja markið hátt og hafa metnað til þess að vera í allra fremstu röð, sérstaklega við að jafna aðstöðu nemenda til náms óháð búsetu.
 
Framtíðarsýn
Skólastarf í sveitarfélaginu ber skýr einkenni gæðastarfs þar sem jöfn áhersla er lögð á siðvit, bókvit, verkvit og skapandi greinar. Áhersla er lögð á læsi, tækni, sköpun, sjálfbærni, mannrækt, heilbrigði og velferð enda er Norðurþing heilsueflandi samfélag. Nemendum líður vel, hafa gott sjálfstraust og trú á framtíðinni.
 
Börn hafa jafnan aðgang að námi hvar í sveitarfélaginu sem þau kunna að búa og er fjartækni nýtt til þess. Börn og foreldrar upplifa að námið hafi augljósan tilgang og skipulagið beri þess merki að verið sé að undirbúa börn fyrir frekara nám og þátttöku í lýðræðissamfélagi. Þá skal leiknum gert hátt undir höfði, bæði í leik- og grunnskóla þar sem hann er leið ungra barna til að læra á heiminn.
 
Skýr áhersla er á persónumiðað nám þar sem styrkleikar hvers og eins eru nýttir og nemendur eru virkir þátttakendur í skólastarfinu. Litið er á heilbrigði og velferð hvers og eins sem lykil að árangri, sérfræðingar eru til staðar og styðja við þegar þess er þörf.
 
Öflugt samstarf er á milli skólanna innan sveitarfélagsins og við skóla utan þess. Samstarf er ekki aðeins á milli leik,- grunn-, framhalds- og tónlistarskóla heldur einnig við stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök þar sem mannauður og sérstaða á hverjum stað er nýtt til hins ítrasta.
 
Traust ríkir á fagmennsku starfsfólks skólanna og virkri starfsþróun þess í samræmi við skólastefnu sveitarfélagsins og áherslur yfirvalda. Traust og trú á nemendum er einkennandi. Samstarf við foreldra er reglubundið þar sem báðir aðilar hafa frumkvæði og einkennist af því að sífellt sé verið að leita leiða til þess að bæta hag nemenda.
 
Leitað verði allra leiða til að samfella í vinnudegi barna verði sem mest og sniðin að þörfum þeirra á hverjum stað.
 
Hlutverk
Hlutverk sveitarfélagsins er að tryggja lögbundið og öruggt skólastarf og allan nauðsynlegan aðbúnað til að framfylgja skólastefnu sveitarfélagsins. Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmið um sjálfbæra þróun eru meðal þeirra verkefna sem sveitarfélagið og skólasamfélagið vinna saman að. Í víðfeðmu sveitarfélagi er það hlutverk þess að hafa frumkvæði að og gera kröfu á náið samstarf heimila og skóla, samvinnu við íbúana, svo skólastarf þjóni öllum nemendum eins og best verður á kosið hvar í sveitarfélaginu sem þeir búa.
 
Sveitarfélagið tryggir eftirlit og stuðning til þess að skólastarf geti fallið að viðmiðum um gæðastarf og að stöðugt umbótaferli sé í gangi. Sveitarfélagið styður við starfsþróunaráætlanir skólanna og reynir eftir fremsta megni að laða til sín hæft starfsfólk.
Sérfræðiþjónusta Norðurþings beinist að því að efla skólana sem faglegar stofnanir sem geti leyst viðfangsefni sem upp koma í skólastarfi. Sveitarfélagið sér annarsvegar til þess að nemendur hafi aðgang að sérfræðiþjónustu og hinsvegar að starfsfólk skólanna njóti stuðnings við að framkvæma stefnu sveitarfélagsins og yfirvalda menntamála.
 
Sveitarfélagið stuðlar að því að slagkraftur myndist í samfélaginu um innleiðingu skólastefnunnar og að hún birtist með skýrum hætti í starfsemi skólanna. Sveitarfélagið hvetur til og styður við að starfsemi skólanna þróist í takt við hraðar samfélagsbreytingar og tækniþróun.

Meginmarkmið skólastefnunnar
Metnaður til þess að setja háleit markmið og skýr viðmið um framúrskarandi skólastarf.
Ábyrgð með því að styðja skólasamfélagið til þess að tryggja að stöðugar umbætur séu alltaf í gangi.
Traust til starfsfólks um að framkvæma skólastefnu sveitarfélagsins og að vinna saman að háleitum markmiðum.
Virðing fyrir umhverfi og sérstöðu allra byggðra bóla í sveitarfélaginu og loforð um að allir hafi eitthvað til síns máls.