Fara í efni

Skrúðgarðurinn

Búðarárfoss neðst í Skrúðgarðinum á Húsavík/mynd: Daria

Skrúðgarðurinn á Húsavík liggur upp með Búðará en áin rennur úr Botnsvatni ofan við bæinn og er farvegur hennar samhliða Ásgarðsvegi niður að Garðarsbraut en þar er henni beint í stokk undir aðalgötu bæjarins og niður til sjávar.

Lengi höfðu verið uppi hugmyndir um skrúðgarð og upphaflega var honum ætlaður staður við hlið Húsavíkurkirkju. Það var ekki fyrr en árið 1975 að Kvenfélag Húsavíkur beitti sér fyrir stofnun Skrúðgarðsins á núverandi stað og var þetta gert í tilefni af 80 ára afmæli félagsins.

Reynir Vilhjálmsson skipulagsarkitekt Húsavíkurbæjar teiknaði garðinn og gaf Kvenfélagið fyrstu plönturnar og sá um gróðursetningu á þeim. Plönturnar voru valdar af Reyni í samráði við Sigurð Blöndal skógarvörð á Hallormsstað.

Næstu ár unnu kvenfélagskonur ásamt fleirum í góðu samstarfi við garðyrkjumann Húsavíkurbæjar við gróðursetningu og stígagerð.  Kvenfélagið skilaði garðinum af sér til Húsavíkurbæjar 1985 og gaf um leið listaverkið Dans eftir Sigrúnu Guðmundsdóttur.

Húsið Kvíabekkur stendur í garðinum við Reykjaheiðarveg og var það fyst leigt og síðan keypt  og átti að nota það sem aðstöðuhús fyrir starfsmenn í garðinum. Húsið hefur nú verið gert upp og einnig hafa vegghleðslur útihúsa úr torfi verið endurreistar.

Búðarárfoss fellur neðarlega í ánni þar sem manngert uppistöðulón er neðst í ánni. Stífla þessi var gerð árið 1916 þegar fyrsta rafstöð Húsavíkinga var reist en hún gaf af sér 50 kílóvött.