Fara í efni

Útnefning listamanns Norðurþings 2020 - Pétur Jónasson, ljósmyndari

Kæru íbúar í Norðurþingi - gleðilega þjóðhátíð!

Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti í september á síðasta ári tillögu B-lista þess efnis að ár hvert, frá og með árinu 2020 yrði listamaður Norðurþings útnefndur á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní. Það er af því tilefni sem við erum hingað komin og er það mér mikill heiður að upplýsa ykkur um hvaða einstaklingur verður útnefndur, hér á eftir.

Í mars sl. auglýsti fjölskylduráð Norðurþings eftir því að tilnefningar bærust til ráðsins, en því var falið það hlutverk að velja og rökstyðja útnefningu listamanns sveitarfélagsins. Alls bárust sex tilnefningar eða umsóknir og vil ég koma góðum þökkum til allra fulltrúa í fjölskylduráði sem og starfsmönnum ráðsins fyrir vel unnin störf að þessu tilefni.

Sveitarfélagið og sá útnefndi munu gera með sér samning til eins árs sem hefur það að markmiði eins og kveður á um í reglum um útnefninguna „að stuðla að fjölbreyttu og öflugu lista- og menningarlífi í sveitarfélaginu og skapa vettvang fyrir listafólk til að koma list sinni á framfæri. Með samningi þar um vill Norðurþing hvetja listamann sveitarfélagsins til samstarfs við félög innan sveitarfélagsins og skóla, eldri borgara og/eða aðra listamenn í Norðurþingi með það að markmiði að auka sýnileika og samstarf þeirra sem vinna að listsköpun í samfélaginu.

Fjölskylduráð Norðurþings veitir listamanni Norðurþings árið 2020 starfsstyrk að upphæð 500.000,- kr sem nýta ber til samræmis við þau markmið sem útlistuð voru hér að framan. Norðurþing mun að auki útvega húsnæði í eigu sveitarfélagsins til listviðburða ef þörf er á.

En þá er ekkert að vanbúnaði að upplýsa um hver útnefndur er fyrsti listamaður Norðurþings. Einróma ákvörðun fjölskylduráðs var að útnefna Pétur Jónasson ljósmyndara, listamann Norðurþings 2020. Það er alveg óhætt að segja að Pétur hefur frá upphafi verið einhver framsæknasti ljósmyndari landsins og rekur enn Ljósmyndastofu sína sem hann opnaði 1962 á Húsavík. Hún er því í dag elsta ljósmyndastofa landsins. Pétur hefur ávallt verið meðal þeirra fremstu í að tileinka sér nýja tækni og framfarir er tengjast ljósmyndun og framköllun. Í gegnum tíðina hefur hann því bæði sinnt faglegum hliðum síns starfs til jafns við þær listrænum með einstakri natni og næmni fyrir minnstu smáatriðum. Margar kynslóðir Húsvíkinga hefur hann myndað á stofu sinni, í skólum bæjarins, í Húsavíkurkirkju, í leikhúsinu eða við önnur tilefni. Það er mér heiður að fá að útnefna þig Pétur, listamann Norðurþings 2020.

Áður en ég bið Heiðbjörtu Ólafsdóttur, formann fjölskylduráðs að færa þér viðurkenningu og skrifa undir samstarfssamninginn vil ég fá að lesa upp þann rökstuðning sem barst með tilnefningu þinni inn til sveitarfélagsins. En hann var eftirfarandi 

„Eftir nám í ljósmyndun setti Pétur upp ljósmyndastofu á Húsavík 1962 og hefur rekið hana síðan. Á þessum tíma hefur eðli málsins samkvæmt verið tekinn aragrúi mynda á stofunni hans sem og við ýmis tilefni. Til gamans má geta þess að fyrstu myndirnar sem Pétur seldi, þá táningur að aldri, voru úr leikritum sem voru sett upp í fæðingarbæ hans Suðureyri. Meðan hann var í námi í höfuðborginni myndaði hann svo m.a. revíur.

Pétri hefur alla sína starfstíð verið umhugað um gæði mynda og gott verklag og hefur kappkostað að hagnýta bestu fáanlega tækni á hverjum tíma. Oftar en ekki hefur hann verið frumkvöðull í að fá fram betri tæknilega lausn en áður hafði þekkst. Pétur hefur myndað sýningar Leikfélags Húsavíkur frá því ljósmyndastofan var sett á laggirnar, eða samfellt í 58 ár. Ekki aðeins hefur hann komið og ljósmyndað hverja uppfærslu heldur unnið myndirnar af alþekktri natni, valið úr og prentað út. Myndir hans úr starfi Leikfélags Húsavíkur telja án efa einhver þúsund, og hefur ómæld vinna og efniskostnaður verið framlag Péturs til samfélagsins. Þetta framlag hans hefur skilað ómetanlegum menningarverðmætum sem mikilvægt er að varðveita og miðla.“

Hugmynd að samstarfi listamannsins við Norðurþing fylgdi þessari tilnefningu og hún er í þremur þáttum; 1) Þingeysk „portrait“. Valdar myndir Péturs til sýningar sem hugsuð er í sýningarsal í Safnahúsinu. Tímabil; 1962 til dagsins í dag. 2) Svipmyndir úr leikhúsinu. Valdar myndir á sýningu, sem síðan yrði til varðveislu hjá Leikfélagi Húsavíkur. Tímabil; 1962 til dagsins í dag. 3) Námskeið eða tilsögn um hvernig taka megi betri myndir með símanum þínum.

Nú er það samstarfsaðilanna Norðurþings og Péturs að útfæra nánar þau tækifæra sem vonandi gefast til að gera list Péturs hátt undir höfði næsta árið. Það á hann sannarlega skilið því ævistarf hans hér í samfélaginu verður seint full þakkað. Innilega til hamingju, kæri Pétur með útnefninguna listamaður Norðurþings 2020.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri