Covidpistill sveitarstjóra #10

Rakningar-appið komið í dreifingu.
Rakningar-appið komið í dreifingu.

Enn sem komið er í dag eru engar breytingar á opinberum tölum smitaðra hér í Norðurþingi. Þótt meirihluti þeirra sem voru í sóttkví séu losnaðir úr henni, þá eru enn þónokkrir sem bíða hana af sér. Við gerum áfram ráð fyrir því að tölur fyrir okkar svæði muni birtast á Facebook síðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra þegar þær hafa verið uppfærðar.

Frá upphafi þessa faraldurs hefur íbúum í Norðurþingi tekist mjög vel að fara eftir þeim fyrirmælum sem gilda í samkomubanninu. Fyrir það eru allir þakklátir. Vítið sem við fengum til varnaðar við upphaf faraldursins þegar margir heilbrigðisstarfsmenn á Húsavík voru sendir í sóttkví held ég að hafi hert okkur öll sem eitt að halda línunni. En, nú eru margir að upplifa þreytueinkenni á þessu ástandi, sem er bæði varasamt en samt svo eðlilegt. Sóttvarnarlæknir hefur lagt til að samkomubanninu verði eigi aflétt fyrr en í fyrsta lagi 4. maí og því rúmar fjögurra vikna úthald eftir í það minnsta.

Munum að þessar ráðstafanir yfirvalda eru gerðir til þess að vernda okkur. Vernda fólkið í kringum okkur. Vernda viðkvæmustu hópa samfélagsins frá smiti, því þessi pest er fyrir löngu búin að sýna að allir geta smitast og allir geta í raun fengið alvarleg einkenni þótt fólk sé í mismikilli áhættu eftir aldri, undirliggjandi sjúkdómum o.s.frv. Af þessum sökum verður ekki tíundað nægjanlega oft mikilvægi handþvotta og sprittunar, þrifa á yfirborðsflötum og að við berum virðingu fyrir fjarlægðarmörkunum við næsta mann, 2 metrar takk. Þvoi þið ykkur með jafn reglubundnum hætti um hendurnar í dag og þið gerðuð fyrir viku síðan? Ég vona það. Því þá erum við á réttri leið. Þar viljum við vera.

Það er ekki af ástæðulausu sem þríeykið í brúnni hefur miklar áhyggjur af næstu viku og mögulegum ferðalögum okkar innanlands. Það held ég að væri erfið staða fyrir sálartetrið að glíma við ef maður þyrfti óvænt á aðstoð neyðarþjónustu að ræða á afskekktum stað í sumarbústað í næstu viku. Í því ljósi að áhyggjustuðull margra er almennt mjög hár um þessar mundir þá er hér hægt að spara sér  að hafa áhyggjur af þessu og sitja einfaldlega heima um páskana. Fyrir þá sem þrá „bústaðafílínginn“ má benda á að heimilt er að vera í náttbuxum, ullarsokkum og vinnuskyrtu heima og það er hægt að leyfa krökkum að sofa í svefnpoka eina nótt til uppbrots heimavið. Víðir hefur ekkert við það að athuga.

Að lokum skal bent á að „Rakning C-19“ snjallforritið hefur nú verið tekið í notkun og vil ég hvetja alla íbúa til að hlaða því niður á símann sinn. Forritið er í boði bæði fyrir Apple og Android stýrikerfi.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri