Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2023 afgreidd í sveitarstjórn 1. desember sl.

Fjárhagsáætlun Norðurþings fyrir árið 2023 og þriggja ára áætlun 2024-2026 voru samþykktar í síðari umræðu í sveitarstjórn Norðurþings þann 1. desember sl. Einnig voru samþykktar álagningaprósentur, gjaldskrár og framkvæmdaáætlun 2023 í sér dagskrárliðum.

Fjárhagsáætlunin er birt sem fylgiskjal með fundargerð sveitarstjórnar á heimasíðu Norðurþings, sjá nánar hér

Þá vann Bergþór fjármálastjóri greinagerð með fjárhagsáætluninni með töflum til útskýringa og eru íbúar hvattir til að kynna sér hana, sjá nánar hér

Úr samantekt sveitarstjóra:
Í fjárhagsáætlun næsta árs og þriggja ára áætlun er lögð áhersla á grunnþjónustu sveitarfélagsins og áhersla á málefni barna og unglinga endurspeglast í fjárhagsáætluninni. Þar má nefna t.d. byggingu nýs frístundarheimilis. Einnig er gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á næsta ári sem eflir og bætir grunnþjónustu aldraðra til mikilla muna. Ýmis viðhaldsverkefni eru á framkvæmdaáætlun og áhersla er á að ljúka þeim verkum sem hafin eru.

Samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun Norðurþings 2023 er gert ráð fyrir að rekstrarhalli A-hluta verði um 99 m.kr og neikvæð rekstrarniðurstaða samstæðureiknings A og B hluta um 157 m.kr. Þegar horft er á samstæðuna, A og B hluta,  er rekstrarniðurstaða án fjármunatekna og fjármagnsgjalda jákvæð upp á 247 milljónir í útkomuspá ársins og jákvæð upp á 234 milljónir í áætlun 2023. Þegar tekið er tillit til fjármagnsliða verður rekstarniðurstaðan neikvæð upp á tæpar 250 milljónir kr. í útkomuspá ársins 2022 og neikvæð upp á 158 milljónir í áætlun fyrir árið 2023. Þriggja ára áætlun gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða bæði A-hluta og samstæðureiknings verði líka neikvæð árið 2024 en jákvæð árin 2025 og 2026.

Heildartekjur samstæðu Norðurþings eru áætlaðar 6.003 millj.kr í fjárhagsáætlun vegna ársins 2023. Þær skiptast þannig að áætlaðar útsvarstekjur eru 2.146 millj.kr og hækka um 2% miðað við útgönguspá ársins 2022. Tekjur af fasteignasköttum nemi 477 millj.kr og hækki um 10,4% milli ára og eru þá meðtaldar nýjar eignir sem bæst hafa við á árinu 2022. Gert er ráð fyrir að framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Norðurþings nemi um 880 millj.kr á næsta ári. Aðrar tekjur samstæðunnar eru áætlaðar 2.500 millj.kr á næsta ári.

Heildarútgjöld samstæðu Norðurþings eru áætluð 5.357 millj.kr í fjárhagsáætlun vegna ársins 2023. Útgjöld til málaflokka A- hluta Norðurþings árið 2023 eru áætluð 4.630 millj.kr.

Launakostnaður samkvæmt áætlun samtals 3.270 millj.kr árið 2023 í A og B hluta.

Annar rekstrarkostnaður samstæðureiknings er áætlaður 1.856 millj.kr. og hækkar um 2% milli ára miðað við útgönguspá 2022 en hefur hækkað um 14% frá ársreikningi 2021 sem skýrist að verulegum hluta með mikilli hækkun á verði á ýmsum aðföngum og að keyptri þjónustu á árinu.

Fjárhagsstaða Norðurþings er viðunandi og breytist frekar til batnaðar á næstu árum miðað við þriggja ára áætlun 2023- 2026. Sveitarfélagið hefur ekki tekið ný lán hvorki á þessu ári né því síðasta. Skuldir eru töluverðar en samkvæmt framlagðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir að skuldahlutfallið verði 130%. Skuldareglan kveður á um skyldur sveitarfélaga til að sjá til þess að heildarskuldir og skuldbindingar A og B hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. sveitarstjórnarlaga séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum þannig að Norðurþing er undir þeim viðmiðum í áætluninni.

Áætlun samstæðu gerir ráð fyrir að lántaka verði að upphæð 395 m.kr á árinu 2023 sem skiptist þannig að 300 milljónir er áætluð fyrir A-hluta, einkum vegna byggingar hjúkrunarheimilis og Frístundarhúsnæðis og 95 milljónir hjá Hafnasjóði vegna endurbyggingar þvergarðs og norðurhafnasvæðis. Þá eru afborganir langtímalána og leiguskulda áætlaðar alls um 242 milljónir kr. Í þriggja ára áætlun er gert ráð fyrir lántöku öll árin en árin 2025 og 2026 er lántaka lægri en afborganir langtímalána.

Veltufé frá rekstri er áætlað að verði 376 m.kr hjá A sjóði og 650 m.kr í samstæðureikningi. Veltufé frá rekstri er áætlað 10,8% samanborið við 12,6% samkvæmt áætlun 2022.

Eiginfjárhlutfall er áætlað að verði 0,21 og veltufjárhlutfall 1,9. Gert er ráð fyrir að laun og launatengd gjöld nemi 54,5% af tekjum og annar rekstrarkostnaður 30,9%. Skuldir og skuldbindingar nemi samtals 7.803 millj. kr. og þar af langtímaskuldir við lánastofnanir 4.250 millj. kr og 2.515 millj.kr vegna lífeyrisskuldbindinga.

Framkvæmdir samstæðu eru áætlaðar 827 m.kr árið 2023 en voru áætlaðar 726 m.kr árið 2022. Töluvert af framkvæmdum er að hliðrast á milli ára og koma þær framkvæmdir inn á framkvæmdaáætlun ársins 2023.

Íbúaþróun í Norðurþingi er jákvæð. Íbúafjöldi í árslok 2021 var 3070 og hafði þá fjölgað um 40 manns árið 2021. Íbúatalan núna 1. des. er 3164 þannig að fjölgun fyrstu 11 mánuði ársins er um 94. Eitt af meginmarkmiðum sveitarstjórnar var að fjölga íbúum um 100 manns á kjörtímabilinu þannig að mögulega er hægt að haka við það markmið strax á fyrsta ári og endurskoða það í kjölfarið. Það er þrýstingur á húsnæðismarkaði og vöntun á húsnæði víða í sveitarfélaginu en búið er að úthluta mikið af lóðum á Húsavík síðustu mánuði, bæði undir íbúðir og hótelrými. Endurskoðuð húsnæðisáætlun var til samþykktar í sveitarstjórn þann 1. desember, fundarliður 19.

Stefna um þjónustustig sem átti að afgreiða með fjárhagsáætlun 2023 og þriggja ára áætlun skv. 130 gr. sveitarstjórnarlaga frestast fram á árið en Byggðastofnun er að útfæra þá vinnu með Norðurþing sem tilraunasveitarfélag. Áætlað er að sú vinna verði grunnur að vinnu annarra sveitarfélaga í gerð stefnu um þjónustustig.

Ég vil að endingu þakka kjörnum fulltrúum í nefndum og ráðum fyrir þeirra vinnu við gerð fjárhagsáætlunar. Þá þakka ég starfsfólki sveitarfélagins þeirra miklu vinnu í fjárhagsáætlunargerðinni og sérstaklega Bergþóri, fjármálastjóranum okkar, sem er að vinna sína fyrstu fjárhagsáætlun fyrir Norðurþing og kemur einstaklega vel inn í þá vinnu alla.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.