Fara í efni

Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna (SES)

Megináhersla félagsráðgjafar er að gæta velferðar og réttar barna í samfélaginu sem heild og innan fjölskyldunnar. Félagsþjónusta Norðurþings býður nú foreldrum upp á nýja þjónustu í formi námskeiðs undir yfirskriftinni Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna (SES). Er um að ræða sérhæfða skilnaðarráðgjöf til foreldra barna á tveimur heimilum sem vilja draga úr ágreiningi sín á milli við uppeldi barna.

,,Það er ekki skilnaðurinn sjálfur sem veldur mestum skaða, heldur það hvernig staðið er að honum gagnvart börnunum.‘‘

SES á rætur sínar að rekja til Danmerkur og er gagnreynt námsefni sem ætlað er að hjálpa foreldrum að takast á við breytingar og algengar áskoranir í kjölfar skilnaðar eða sambúðarslita. Markmið ráðgjafarinnar er að bæta líðan barna og foreldra með því að draga úr hugsanlegum ágreiningsmálum foreldra. Með því að nýta sérSESgefst foreldrum tækifæri til að efla foreldrasamvinnu sína sem og færni í að takast á við óvæntar uppákomur tengdar skilnaðinum og auka skilning sinn á viðbrögðum barna við skilnaði.

Stuðst er við rannsóknir danskra félagsvísindamanna sem hafa þróað haldgott og árangursríkt úrræði til að bæta samskipti foreldra eftir skilnað. Rannsóknir og klínísk reynsla hafa sýnt að það er ekki skilnaðurinn sjálfur sem veldur mestum skaða, heldur hvernig er staðið að honum gagnvart börnunum. Enn fremur hafa rannsóknir sýnt að SEShefur ýtt undir góða foreldrasamvinnu, dregið úr einkennum vanlíðanar, kvíða og þunglyndis meðal foreldra, andúð þeirra í millum og fækkað veikindadögum nýfráskilinna foreldra á ársgrundvelli. Er um að ræða mikilvægt verkefni en börn eiga rétt á að hafa báða foreldra sína sem þeim þykir vænt um í lífi sínu og njóta þeirra gæða sem foreldrarnir geta veitt þeim hvort á sinn hátt.

SESer fyrir alla foreldra sem eru að skilja, hafa skilið eða íhuga að skilja. Ekki er um að ræða sáttamiðlun eða fjölskylduráðgjöf heldur aðgengilegar ráðleggingar um samskipti og samskiptahætti eftir skilnað, auk fræðslu um þau viðbrögð sem má vænta bæði hjá fullorðnum og börnum þeirra þegar skilnaður stendur yfir og eftir skilnað.

Þjónustan stendur öllum íbúum Norðurþings til boða og er þeim að kostnaðarlausu. Annars vegar er um að ræða aðgang að rafrænu námskeiði auk þess sem fólk getur sótt ráðgjöf til félagsráðgjafa og námskeið sem í boði verða eftir þörfum. Ekki er skilyrði að foreldrar nýti sér þjónustuna saman.

Áhugasömum er bent á að heimsækja vefinn https://samvinnaeftirskilnad.is/ eða hafa samband við félagsráðgjafa félagsþjónustu Norðurþings, Láru Björgu Friðriksdóttur.