Fara í efni

Tillaga að breytingu aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 og nýju deiliskipulagi vegna fiskeldis á Röndinni á Kópaskeri

Tillaga að breytingu aðalskipulags Norðurþings 2010-2030 og nýju deiliskipulagi vegna fiskeldis á Röndinni á Kópaskeri

Sveitarstjórn Norðurþings auglýsir hér með til almennrar kynningar eftirfarandi skipulagstillögur og tilheyrandi umhverfisskýrslur.

1. Breyting aðalskipulags vegna fiskeldis á Röndinni á Kópaskeri. Breytingin felst í að athafnasvæði A3 (4,3 ha) skv. gildandi skipulagi breytist í iðnaðarsvæði I1. Ekki er um að ræða breytingar á stærð eða afmörkun svæðisins. Svæðið verði ætlað undir fiskeldi á landi þar sem byggja megi þjónustuhús, fiskeldisker og önnur tilheyrandi mannvirki. Ennfremur er gert ráð fyrir að aflað verði jarðsjávar með borunum innan svæðisins. Skipulagstillagan, greinargerð og umhverfisskýrsla, er sett fram í A4 hefti.

Tillaga um breytingu á Aðalskipulagi Norðurþings 2008-2028

2. Deiliskipulag vegna uppbyggingar fiskeldis á Röndinni á Kópaskeri. Skipulagstillagan felst í skilgreiningu lóðar umhverfis fiskeldi á Röndinni. Skilgreindir eru byggingarreitir umhverfis mannvirki innan lóðarinnar og ákveðnir byggingarskilmálar fyrir byggingarreitina. Gert er ráð fyrir að umfang fiskeldis verði um 2.000 tonn á ári og að vatnstaka verði að jafnaði um 150 l/sek af jarðsjó úr borholum. Í umhverfisskýrslu skipulagstillögunnar er fjallað um rask sem fylgir fyrirhugaðri uppbyggingu og áhrif reksturs fiskeldisins á umhverfis og samfélag.   Skipulagstillagan er sett fram á uppdrætti í blaðstærð A1 auk greinargerðar og umhverfisskýrslu í A4 hefti.   

 

Skipulagstillögurnar ásamt umhverfisskýrslum verða til sýnis á sveitarstjórnarskrifstofum Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík og að Bakkagötu 10 á Kópaskeri frá 23. desember 2019 til og með miðvikudeginum 5. febrúar 2020.  Ennfremur verður hægt að skoða skipulagstillögurnar á heimasíðu Norðurþings (nordurthing.is).  Þeim sem eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillögurnar til og með miðvikudeginum 5. febrúar 2020.  Skila skal skriflegum athugasemdum til bæjarskrifstofu Norðurþings að Ketilsbraut 7-9 á Húsavík.  Þeir sem ekki gera athugasemdir við tillögurnar teljast þeim samþykkir.  

 

Húsavík 17. desember 2019
Gaukur Hjartarson
Skipulags- og byggingarfulltrúi