Fara í efni

Ársreikningur Norðurþings 2017

Málsnúmer 201704101

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 212. fundur - 27.04.2017

Fyrir byggðarráð mætti Ragnar Jónsson endurskoðandi Deloitte ehf og kynnti ársreikning Norðurþings fyrir árið 2016.
Byggðarráð samþykkir að vísa ársreikningi 2016 til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Norðurþings - 68. fundur - 02.05.2017

Á 212. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað og samþykkt:

"Byggðarráð samþykkir að vísa ársreikningi 2016 til fyrri umræðu í sveitarstjórn."
Til máls tóku: Kristján, Jónas, Soffía, Hjálmar, Óli, Erna.

Meirihluti sveitarstjórnar lagði fram eftirfarandi bókun.

"Ánægjulegt er að sjá þann viðsnúning á afkomu sveitarfélagsins sem ársreikningur 2016 sýnir. Rekstrarniðurstaða samstæðu Norðurþings er jákvæð um 282 milljónir króna og jákvæð um 100 milljónir króna ef horft er til A-hluta eingöngu. Skuldahlutfall samkvæmt reglum um fjárhagsviðmið sveitarfélaga er komið niður í 136% fyrir samstæðuna og 128% fyrir A-hlutann. Með því er Norðurþing komið vel niður fyrir 150% viðmið eftirlitsnefndar sveitarfélaga, mun fyrr en áætlað hefur verið.  Meirihluti sveitarstjórnar Norðurþings er stoltur af þeirri niðurstöðu sem fyrir liggur. Þessi viðsnúningur er sérstaklega athyglisverður fyrir það að undanfarið hefur verið mikill uppbyggingartími hjá sveitarfélaginu, m.a. við mannaflsfreka samningagerð, skipulagsvinnu, útfærslu og framkvæmd ýmissa verkefna í tengslum við atvinnulífið á svæðinu. Meirihlutinn vill þakka stjórnsýslu, stjórnendum og öðru starfsfólki Norðurþings sérstaklega fyrir vel unnin verk á álagstímum.

Óli, Erna, Sif, Örlygur, Olga."

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að visa ársreikningi Norðurþings til seinni umræðu.

Sveitarstjórn Norðurþings - 69. fundur - 16.05.2017

Fyrir sveitarstjórn liggur ársreikningur Norðurþings til síðari umræðu.
Til máls tóku: Kristján, Kjartan, Hjálmar, Óli og Jónas.

Kjartan lagði fram eftirfarandi bókun:


"Það er ánægjuefni hversu vel ársreikningur Norðurþings 2016 kemur út.
Hafa ber í huga að framundan eru ýmis kostnaðarsöm verkefni sem eru nauðsynleg til að fylgja eftir þeim framkvæmdum sem nú eru í gangi.
Mikilvægt er að sýna aðhald og skynsemi við stjórnun sveitarfélagsins og ber sérstaklega að nefna að sveitarfélaginu er nú sem áður óheimilt að fara að upp fyrir 150% skuldahlutfall."

Kjartan Páll Þórarinson, Jónas Einarsson

Hjálmar lagði fram eftirfarandi bókun:
"Sveitarfélagið Norðurþing og fjölmargir aðilar hafa undanfarin ár unnið hörðum höndum að atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Ársreikningur fyrir árið 2016 liggur nú fyrir og reglulega ánægjulegt að sjá að áætlanir síðustu ára um auknar tekjur hafa gengið eftir. Ástæður tekjuaukningarinnar eru m.a. uppbygging í orkufrekum iðnaði, ferðaþjónusta og fleiri greinar atvinnulífsins.
Sú uppbygging gjörbreytir tekjumyndun samstæðu sveitarfélagsins og hefur jákvæð áhrif á íbúaþróun til framtíðar. Íbúum fjölgaði um 175 á árinu 2016. Fjárfestingar undanfarinna ára eru að skila sér. Það er gríðarlega mikilvægt að huga að frekari uppbyggingu á Bakka til að tryggja að þær fjárfestingar sem farið hefur verið í nýtist og rekstur sveitarfélagsins haldi áfram að batna.
Rekstrarumhverfi sveitarfélaga er hagstætt; hækkun á fasteignaverði, lágir vextir og lág verðbólga, styrking krónunnar og aukin framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Á sama tíma hafa skuldir Norðurþings aukist og gengið umtalsvert á handbært fé sveitarfélagsins. Lántökur eru því fyrirsjáanlegar nema aðhalds sé gætt í rekstri sveitarfélagsins.
Tekjur á árinu 2016 svipar til þriggja ára áætlunar sem gerð var árið 2013 fyrir árin 2015 til 2017 enda uppbygging á Bakka komin í góðan farveg.
Veltufé frá rekstri samtæðureiknings er 584 milljónir og handbært fé frá rekstri 405 milljónir. Það er góður árangur en ganga þurfti á handbært fé samstæðunnar um 162 milljónir.
Í ársbyrjun 2016 var handbært fé A-hluta 268 milljónir en í árslok 193 milljónir. Því var gengið á handbært fé aðalsjóðs um rúmar 74 milljónir þrátt fyrir að veltufé frá rekstri hafi verið 390 milljónir en 211 milljónir fóru í afborganir langtímalána. Því er alls ekki tímabært að taka ný vaxtaberandi lán, hvorki í A-hluta eða B-hluta fyrirtækjum sem heyra ekki undir uppbyggingu á Bakka. Eigið fé A-hluta var neikvætt um 417 milljónir á árinu en var neikvætt um 564 milljónir árið 2015 sem er skref í rétta átt um 147 milljónir.
Samkvæmt reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga er viðmiðunarhlutfallið skulda 150% af tekjum. Skuldahlutfall Norðurþings í árslok 2016 var 136% sem er mjög ánægjulegt en mikilvægt að greina forsendur lækkunar skuldahlutfallsins. Ástæður þessa eru ytri þættir í rekstri sveitarfélagsins, ekki beinn rekstur þess. Það þarf að sýna ráðdeild og aga í rekstri sveitarfélagsins. Sveitarfélögum er ekki heimilit að fara yfir 150% skuldahlutfallið.
Það er ástæða til að hafa áhyggjur af beinum rekstri sveitarfélagsins. Í skýrslu KPMG frá árinu 2014 er varað við aukinni skuldsetningu. Það er óskynsamlegt að sveitarfélagið ýti undir frekari þenslu á svæðinu og haldi þess í stað að sér höndum, styrki innviði sína, stofnanir og fyrirtæki og hugi að þeim framkvæmdum þegar mestu framkvæmdum vegna Bakka er lokið.
Við erum ánægð með að spár okkar um atvinnuuppbygginu í Þingeyjarsýslu hafi gengið eftir og framtíðin bjartari fyrir vikið fyrir Þingeyinga alla."

Hjálmar Bogi Hafliðason, Soffía Helgadóttir.



Óli lagði fram eftirfarandi bókun:

"Meirihluti sveitarstjórnar ítrekar fyrri bókun sína um ársreikning 2016:

Ánægjulegt er að sjá þann viðsnúning á afkomu sveitarfélagsins sem ársreikningur 2016 sýnir. Rekstrarniðurstaða samstæðu Norðurþings er jákvæð um 282 milljónir króna og jákvæð um 100 milljónir króna ef horft er til A-hluta eingöngu. Skuldahlutfall samkvæmt
reglum um fjárhagsviðmið sveitarfélaga er komið niður í 136% fyrir samstæðuna og 128% fyrir A-hlutann. Með því er Norðurþing komið vel niður fyrir 150% viðmið eftirlitsnefndar sveitarfélaga, mun fyrr en áætlað hefur verið. Meirihluti sveitarstjórnar Norðurþings er stoltur af þeirri niðurstöðu sem fyrir liggur. Þessi viðsnúningur er sérstaklega athyglisverður fyrir það að undanfarið hefur verið mikill og uppbyggingartími hjá sveitarfélagin, m.a. við mannaflafreka samningagerð, þróun, skipulag og útfærslu og framkvæmd ýmissa verkefna í tengslum við atvinnulífið á svæðinu. Meirihlutinn vill þakka stjórnsýslu, stjórnendum og öðru starfsfólki Norðurþings sérstaklega fyrir vel unnin verk á álagstímum."

Óli Halldórsson, Erna Björnsdóttir, Olga Gísladóttir, Jóhanna S. Kristjánsdóttir, Trausti Aðalsteinsson.

Ársreikningur Norðurþings er samþykktur samhljóða.