Fara í efni

Ársreikningur 2017

Málsnúmer 201804151

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 249. fundur - 20.04.2018

Fyrir byggðarráði liggur ársreikningur Norðurþings fyrir árið 2017. Ragnar Jóhann Jónsson frá Deloitte kom til fundarins og fór yfir helstu atriði ársreikningsins.
Byggðarráð samþykkir að vísa framlögðum ársreikningi Norðurþings til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Norðurþings - 80. fundur - 24.04.2018

Á 249. fundi byggðarráðs Norðurþings var eftirfarandi bókað;

Byggðarráð samþykkir að vísa framlögðum ársreikningi Norðurþings til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Til máls tóku: Kristján, Stefán, Gunnlaugur, Örlygur og Olga.

Meirihluti sveitarjórnar lagði fram eftirfarandi bókun:

"Meirihluti sveitarstjórnar Norðurþings lýsir mikilli ánægju með ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2017. Allir meginmælikvarðar á rekstur og efnahag sýna afgerandi jákvæða þróun. Skuldahlutfall A-hluta er nú komið niður í 106% og samstæðunnar í heild 127% og lækkar enn frá fyrra ári. Í tvö ár í röð hefur skuldahlutfall Norðurþings því mælst verulega undir viðmiði eftirlitsnefndar sveitarfélaga (150%). Rekstrarafkoma A-hluta er jákvæð um 236 m.kr. og samstæðunnar í heild um 342 m.kr. Þessi niðurstaða næst þrátt fyrir að enn hafi bæst við háar upphæðir í lífeyrisskuldbindingu og fjárfestingarþörf verið mikil í tengslum við innviði atvinnuuppbyggingar. Skýringar á þessari góðu niðurstöðu í rekstri Norðurþings eru margar, bæði ytri og innri aðstæður verið okkur hagfelldar. Vel hefur gengið að ná utan um rekstur sveitarfélagsins. Þær hagræðingaraðgerðir sem innleiddar hafa verið fyrr á kjörtímabilinu skila sér í rekstrinum á þessu ári. Vel hefur gengið að halda utan um íbúaskráningu og gott samstarf verið byggt upp við stéttarfélögin og atvinnurekendur á svæðinu um þau mál, sem skilar sér í hækkun útsvarstekna. Þá hafa ytri aðstæður verið hagfelldar að ýmsu leyti. Atvinnuvegirnir fjárfest og aukið umsvif, sem hefur aukið tekjur, ekki síst ferðaþjónustan og atvinnustarfsemi á Bakka. Ársreikningurinn sýnir mikinn viðsnúning í rekstri Norðurþings og endurspeglar þann mikla árangur sem náðst hefur í rekstri á kjörtímabilinu. Meirihluti sveitarstjórnar vill færa sveitarstjóra og öðru starfsfólki Norðurþings í öllum deildum og sviðum, þakkir fyrir árangur í rekstri sveitarfélagsins. Mannauður sveitarfélagsins er forsenda árangurs í rekstrinum.

Örlygur, Olga, Stefán, Sif og Kolbrún Ada."


Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að vísa ársreikningi Norðurþings til seinni umræðu.

Byggðarráð Norðurþings - 251. fundur - 04.05.2018

Gunnlaugur Stefánsson hefur óskað eftir að tekin verði saman svör við fyrirspurnum á 80. fundi sveitarstjórnar Norðurþings þann 24. apríl s.l. sem snúa að ársreikningi Norðurþings 2017 ásamt fleiru er tengist uppgjörum sveitarfélagsins á kjörtímabilinu.
Sveitarstjóri gerði grein fyrir þeim málum sem spurt var um og voru lagðar fram greiningar á þeim fyrirspurnum sem fyrir lágu.

Byggðarráð Norðurþings - 252. fundur - 11.05.2018

Gunnlaugur Stefánsson hefur óskað eftir að lagt verði fram fjárfestingayfirlit Orkuveitu Húsavíkur fyrir árið 2017.
Lagt var fram fjárfestingayfirlit Orkuveitu Húsavíkur.

Sveitarstjórn Norðurþings - 81. fundur - 15.05.2018

Fyrir sveitarstjórn liggur ársreikningur Norðurþings til síðari umræðu.
Til máls tóku; Kristján, Örlygur, Gunnlaugur og Óli.


Gunnlaugur og Soffía leggja fram eftirfarandi bókun:

Ársreikningar Norðurþings fyrir árið 2017 sýna glökkt að áhrif uppbyggingar á Bakka og framkvæmdir við önnur verkefni tengt þeirri uppbyggingu hafa gríðaleg áhrif á afkomu sveitarfélagsins. Áhrifin eru mikil hækkun útsvarstekna, auknar tekjur Hafnasjóðs, hækkað fasteignaverð og veruleg fjölgun íbúa sveitarfélagsins.
Einnig er ánæjulegt að sjá að áhrifin eru í takti við þær áætlanir sem gerðar voru af sveitarfélaginu árið 2012. Voru þessar áætlanir kynntar Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sem leið sveitarfélagsins Norðurþings til að uppfylla kröfur reglugerðar um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga.
Ytra umhverfi í rekstri sveitarfélaga á Íslandi er mjög hagstætt núna sem kemur fram í aukinni atvinnuþáttöku og mikilli hækkun launa á síðustu árum. Á sama tíma hækkar framlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélag og leiðir þetta til verulegrar hækkunar á tekjum sveitarfélaga. Því má segja að sveitarfélagið Norðurþing sé að ganga í gegnum einstakt hagvaxtaskeið í rekstri sínum.
Þegar vel gengur í rekstri sveitarfélaga er mikilvægt að gæta ýtrustu ráðdeildar í rekstri og hafa alltaf langtíma hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Mikilvægt er að auka enn frekar framlegð sveitarfélagsins á komandi árum. Það gerist með áframhaldandi öflugri sókn í atvinnumálum og viðvarandi fjölgun íbúa.
Óskum við nýrri sveitarstjórn og starfsmönnum sveitarfélagsins velfarnaðar í störfum sínum á komandi árum.

Gunnlaugur Stefánsson
Soffía Helgadóttir



Meirihlutinn leggur fram eftirfarandi bókun:
Meirihluti sveitarstjórnar Norðurþings lýsir mikilli ánægju með ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2017. Allir meginmælikvarðar á rekstur og efnahag sýna afgerandi jákvæða þróun. Skuldahlutfall A-hluta er nú komið niður í 106% og samstæðunnar í heild 127% og lækkar enn frá fyrra ári. Í tvö ár í röð hefur skuldahlutfall Norðurþings því mælst verulega undir viðmiði eftirlitsnefndar sveitarfélaga (150%). Rekstrarafkoma A-hluta er jákvæð um 236 m.kr. og samstæðunnar í heild um 342 m.kr. Þessi niðurstaða næst þrátt fyrir að enn hafi bæst við háar upphæðir í lífeyrisskuldbindingu og fjárfestingarþörf verið mikil í tengslum við innviði atvinnuuppbyggingar. Skýringar á þessari góðu niðurstöðu í rekstri Norðurþings eru margar, bæði ytri og innri aðstæður verið hagfelldar. Vel hefur gengið að ná utan um rekstur sveitarfélagsins. Þær hagræðingaraðgerðir sem innleiddar hafa verið fyrr á kjörtímabilinu skila sér í rekstrinum á þessu ári.
Meirihluti sveitarstjórnar hefur unnið markvisst á kjörtímabilinu að úrbótum í rekstri sveitarfélagsins. Teknar hafa verið afgerandi ákvarðanir sem haft hafa jákvæð áhrif á efnahag og rekstur, s.s. um uppgreiðslu gengisláns Orkuveitu Húsavíkur og breytingar á fjárhagslegum samskiptum milli A- og B-hluta. Þá hefur verið fylgt ráðgjöf endurskoðenda og fagaðila sem fengnir voru í upphafi kjörtímabils til greiningar á fjárhag og rekstri, sem haft hefur jákvæð áhrif inn í rekstur deilda og sviða.
Vel hefur gengið að halda utan um íbúaskráningu og gott samstarf verið byggt upp við stéttarfélögin og atvinnurekendur á svæðinu um þau mál, sem skilar sér beint í hækkun útsvarstekna. Þá hafa ytri aðstæður verið hagfelldar að ýmsu leyti. Atvinnuvegirnir fjárfest og aukið umsvif, sem hefur aukið tekjur, ekki síst ferðaþjónustan og atvinnustarfsemi á Bakka.
Ársreikningurinn sýnir mikinn viðsnúning í rekstri Norðurþings og endurspeglar þann mikla árangur sem náðst hefur í rekstri á kjörtímabilinu. Meirihluti sveitarstjórnar vill færa sveitarstjóra og öðru starfsfólki Norðurþings í öllum deildum og sviðum, þakkir fyrir árangur í rekstri sveitarfélagsins. Mannauður sveitarfélagsins er forsenda árangurs í rekstrinum.

Óli, Kolbrún Ada, Örlygur, Olga og Stefán.


Ársreikningur Norðurþings er samþykktur samhljóða.