Fara í efni

Friðlýsing vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum

Málsnúmer 201810124

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Norðurþings - 85. fundur - 30.10.2018

Fyrir liggur til kynningar hjá Umhverfisstofnun tillaga að friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum á grundvelli flokkunar svæðisins í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar, sbr. ályktun Alþingis nr. 13/141, frá 14. janúar 2013. Í fyrirliggjandi tillögu að friðlýsingu svæðisins kemur m.a. fram að tilgangur og markmið friðlýsingarinnar sé að vernda vatnasvið vatnasvið Jökulsár á Fjöllum: 12 Arnardalsvirkjun og 13 Helmingsvirkjun gegn orkuvinnslu. Fyrirhuguð friðlýsing snýr eingöngu að virkjun Jökulsár á Fjöllum og vatnasviðs hennar til orkuframleiðslu og hefur engin áhrif á hefðbundnar landnytjar.
Til máls tóku: Hrund, Óli, Hjálmar, Bergur, Kristján og Guðbjartur.

Guðbjartur leggur fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn fresti málinu eða því vísað frá.

Tillagan er felld með atkvæðum Benónýs, Heiðbjartar, Helenu, Kristjáns og Óla.
Bergur, Guðbjartur, Hjálmar og Hrund greiddu atkvæði með tillögunni.


Óli Halldórsson, fulltrúi V-lista, leggur fram eftirfarandi tillögu til afgreiðslu:
Sveitarstjórn Norðurþings lýsir ánægju með fram komna tillögu að friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum fyrir orkuvinnslu. Jökulsá á Fjöllum er meðal verðmætustu náttúrufyrirbrigða Íslands og um leið eitt af höfuðdjásnum náttúru Norðurþings sem standa ber vörð um með öllum ráðum. Sveitarstjórn bendir á mikilvægi þess að byggð geti þróast áfram við Jökulsá á Fjöllum með hefðbundnum landnytjum og nýjum tækifærum í kjölfar samgöngubóta en lýsir eindregnum stuðningi við friðlýsingu Jökulsár fyrir vatnsaflsvirkjunum. Bent er á mikilvægi þess að haft verði samráð við landeigendur á svæðinu við vinnslu málsins, m.a. við ákvörðun svæðismarka.

Tillagan er samþykkt með atkvæðum Benónýs, Heiðbjartar, Helenu, Kristjáns og Óla.
Bergur og Guðbjartur greiddu atkvæði á móti tillögunni. Hjálmar og Hrund sátu hjá.



Bergur leggur fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn óski eftir umsögn Orkuveitu Húsavíkur um málið.
Tillagan er samþykkt með atkvæðum Bergs, Guðbjarts, Kristjáns, Hjálmars og Hrundar.
Benóný, Helena, Heiðbjört og Óli sátu hjá.

Orkuveita Húsavíkur ohf - 184. fundur - 23.11.2018

Á fundi sveitarstjórnar Norðurþings þann 30. október sl. var tekið fyrir erindi frá Umhverfisstofnun varðandi friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum.
Málinu var vísað til umsagnar hjá Orkuveitu Húsavíkur ohf sem hagsmunaaðila í málinu, en frestur til þess að skila athugasemdum til Umhverfisstofnunar vegna málsins er til 23. janúar.
Stjórn Orkuveitu Húsavíkur felur framkvæmdastjóra að fylgja málinu eftir í samstarfi við hagsmunaaðlia og leggja fram drög að umsögn um málið.

Orkuveita Húsavíkur ohf - 187. fundur - 16.01.2019

Fyrir liggja drög að athugasemdum til Umhverfisstofnunar vegna fyrirhugaðrar friðlýsingar vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum í tengslum við virkanakosti 2. hluta rammaáætlunar, 12 Arnardalsvirkjunar og 13 Helmingsvirkjunar.
Gert er ráð fyrir að friðlýsingin nái yfir farveg Jökulsár frá jökli til sjávar, 500 m frá miðlínu núverandi árfarvega til beggja handa.
Fyrir stjórn liggur að taka afstöðu til þeirra athugasemda sem lagðar hafa verið fram.
Framkvæmdastjóra er falið að koma athugasemdum stjórnar OH sem birtar eru í minnisblaði (Athugasemdir til Umhverfisstofnunar, dags. 27.12.2018) til skila við Umhverfisstofnun fyrir 23. janúar 2018.

Sjálfbær nýting orkuauðlinda og annarra landgæða fellur mjög vel að stefnu og starfsemi Orkuveitu Húsavíkur ohf. og er sú nálgun sem félagið vill sjá í umgengni við náttúruna á sem flestum sviðum.

Orkuveita Húsavíkur ohf. stóð á árinu 2005 að borun holu BA-04 sem stendur á bökkum Jökulsár á Fjöllum, vestan Bakkahlaups og er handhafi nýtingarréttar holunnar. Fyrirhuguð nýting þeirrar holu er til hitaveitu í Kelduhverfi, skapist forsendur til slíkra framkvæmda í náinni framtíð.
Tengd félög Orkuveitu Húsavíkur ohf. sem einnig eiga hagsmuna að gæta á þessu svæði eru Íslensk Orka ehf. sem á nýtingarrétt á holum BA-01, BA-02 og BA-03 austan Bakkahlaups, Hitaveita Öxarfjarðar sem rekur holu ÆR-03 í Austursandi við Ærlækjarsel í tengslum við hitaveitu í Öxarfirði og Seljalax hf. sem er eigandi þeirrar holu sem Hitaveita Öxarfjarðar nýtir til sinnar veitustarfsemi.

Orkuveita Húsavíkur hefur undanfarin ár, ásamt fleiri aðilum, haft áform uppi um nýtingu á heitu vatni úr borholum á söndunum við Jökulsá í Kelduhverfi og/eða Öxarfirði. Áhyggjur stjórnar Orkuveitu Húsavíkur snúa að orðalagi í tillögu að auglýsingu Umhverfisstofnunar sem stjórn telur að geti hæglega valdið misskilningi þar sem 4. gr. kveður á um að „Orkuvinnsla innan marka verndarsvæðisins er óheimil.“ Sé ekki skýrt kveðið á um að ofangreindar borholur, eða aðrar nýjar borholur sem nýttar eru til orkuframleiðslu séu undanskildar þessu ákvæði, verður að breyta orðalaginu. Áform þessi mega ekki binda hendur starfandi aðila á svæðinu m.t.t. uppbyggingar og sjálfbærrar nýtingar vatnsauðlindarinnar í sandinum. Stjórn leggur alla áherslu á að tryggt verði með skýru orðalagi að landnytjar sem þessar falli utan afmörkunar áformaðrar friðlýsingar, enda er markmið tillögunnar byggt á þingsályktunar 13/141 og laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun þar sem gildandi stærðarviðmið eru 10 MW eða þar yfir. Því er lagt til að orðalag friðlýsingarinnar og/eða áform um stærð friðlýsts svæðis verði endurskoðað og þetta verði dregið skýrt fram.

Samþykkt af Sif Jóhannesdóttur og Sigurgeiri Höskuldssyni.

Bergur Elías Ágústsson óskar bókað.
Undirritaður leggst gegn friðlýsingu neðan brúar Jökulsár á Fjöllum við Ásbyrgi. Hverfisvernd á þessu svæði er til staðar og skilgreind í aðalskipulagi Norðurþings. Ekki er ástæða til þess að breyta því fyrirkomulagi sem sátt hefur verið um til þessa. Af þessum sökum get ég ekki samþykkt fyrirliggjandi umsögn meirihluta í stjórn Orkuveitu Húsavíkur ohf.

Sveitarstjórn Norðurþings - 88. fundur - 22.01.2019

Sveitarstjóri hefur óskað eftir því að mál 201810124 er varðar fyrirhugaða friðlýsingartillögu Jökulsár á Fjöllum verði tekið aftur til umfjöllunar í sveitarstjórn Norðurþings í ljósi umræðna og áhyggja ýmissa aðila í sveitarfélaginu af því hve vítt má túlka orðalag tillögunnar er snýr að áhrifum friðlýsingarinnar á orkuvinnslu innan hins afmarkaða svæðis sem lagt er til að friðlýst verði. Málið hefur verið til kynningar hjá Umhverfisstofnun þar sem tillaga liggur fyrir að friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum á grundvelli flokkunar svæðisins í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar, sbr. ályktun Alþingis nr. 13/141, frá 14. janúar 2013. Í fyrirliggjandi tillögu að friðlýsingu svæðisins kemur m.a. fram að tilgangur og markmið friðlýsingarinnar sé að vernda vatnasvið Jökulsár á Fjöllum: 12 Arnardalsvirkjun og 13 Helmingsvirkjun gegn orkuvinnslu.
Til máls tóku: Kristján, Hjálmar, Bergur, Helena, Silja, Kolbrún Ada og Örlygur.

Meirihlutinn leggur fram eftirfarandi bókun:
Sveitarstjórn Norðurþings vill ítreka fyrri bókun frá því 30.10.2018 um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum gagnvart vatnsaflsvirkjunum tilgreindum í rammaáætlun. Jökulsá á Fjöllum er eitt af höfuðdjásnum íslenskrar náttúru og er það mat sveitarstjórnar að náttúrufarsleg og hagræn verðmæti Jökulsár verði best nýtt til ókominnar framtíðar með öðrum hætti en með vatnsaflsvirkjunum. Sveitarstjórn vill þó koma á framfæri athugasemd við þá tillögu að auglýsingu friðlýsingarinnar sem lögð hefur verið fram af Umhverfisstofnun. Á umræðuvettvangi íbúa í Kelduhverfi og Öxarfirði hafa m.a. komið fram áhyggjur af því að friðlýsingaráformin geti haft áhrif á möguleika á nýtingu jarðvarma úr borholum sem eru á söndunum fyrir botni Öxarfjarðar, t.d. til hitaveitu á svæðinu, nýtingu borhola við Bakkahlaup til virkjunar gufuafls eða aðrar eðlilegar landnytjar innan fyrirhugaðs svæðis sem friðlýsingin tekur til. Með vísan til þessara ábendinga íbúa bendir sveitarstjórn Umhverfisstofnun á að fyrir liggur að umrædd friðlýsingartillaga er lögð fram á grundvelli laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun og þingsályktunar 13/141. Til að fyrirbyggja mistúlkun er lagt til að orðalag auglýsingar friðlýsingarinnar verði betrumbætt þannig að þetta verði dregið alveg skýrt fram og það tilgreint sérstaklega að hér sé verið að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu vatnsafls 10 MW eða stærri. Enda er tilgangur þessara laga ekki að friðlýsa gagnvart annarri orkuvinnslu eins og fyrr segir. Sveitarstjórn Norðurþings leggur áherslu á að við friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum útfrá þeim skilgreindu markmiðum sem liggja friðuninni til grundvallar verði þess gætt að í engu verði gengið á núverandi né mögulega framtíðarnýtingu auðlinda svæðisins neðan gljúfra, hvort sem er til jarðvarmaorkuvinnslu, né annarrar nýtingar. Þá leggur sveitarstjórn sömuleiðis ríka áherslu á að áður en frá friðlýsingunni verði gengið verði haft samráð við landeigendur og aðra beina hagsmunaaðila á svæðinu um friðlýsingarskilmálana og endanlega afmörkun hins friðlýsta svæðis.

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir
Helena Eydís Ingólfsdóttir
Kristján Þór Magnússon
Silja Jóhannesdóttir
Örlygur Hnefill Örlygsson



Undirrituð leggja til að athugasemd verkefnisstjórnar Öxarfjörður í sókn verði athugasemd sveitarstjórnar vegna fyrirhugaðrar friðlýsingar vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum:
Verkefnisstjórnin fagnar því að fram sé komin tillaga um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum gagnvart byggingu Arnardalsvirkjunar og Helmingsvirkjunar í ánni. Tilgangur friðlýsingarinnar byggist á grundvelli verndarflokks þingsályktunar nr. 13/141, frá 14. janúar 2013, að friðlýsa vatnasvið Jökulsár á Fjöllum: 12 Arnardalsvirkjun og 13 Helmingsvirkjun 1 eins og segir í friðlýsingartillögunni. Forsendur friðlýsingarinnar eru því skýrar en jafnframt skilyrtar skv. 53. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 hvar segir svo um friðlýsingu svæða í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar: „Svæði sem falla í verndarflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar sem Alþingi hefur samþykkt skal friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Friðlýsingin felur í sér að orkuvinnsla er óheimil á viðkomandi svæði.“

Í ljósi ofanritaðs telur verkefnisstjórnin að svæðisafmörkun friðlýsingartillögunnar sé of viðtæk þar sem skilja mætti sem svo skv. orðanna hljóðan að öll orkuvinnslu innan friðlýsingarmarkanna eins og þau eru skilgreind í auglýsingunni, sem eru farvegur árinnar ásamt allt að 1 km breiðri landræmu allt til sjávar, sé með öllu óheimil. Í stað þess að styðjast við almenna nálgun um afmörkun verndarsvæðisins skv. skilgreiningu faghóps 1 í 2. áfanga rammaáætlunar telur verkefnisstjórnin að taka verði tilliti til aðstæðna og þeirra hagsmuna sem á svæðinu eru, ekki síst á söndunum fyrir botni Öxarfjarðar. Þar er bæði um að ræða orkuvinnslu úr jarðhita sem fellur innan friðlýsingarmarkanna eins og þau eru skilgreind í auglýsingunni en einnig ýmis önnur landnotkun sem með engu tengjast því að áin verði friðlýst gagnvart vatnsaflsvirkjunarkostunum tveimur sem tilgreindir eru; Arnardalsvirkjun og Helmingsvirkjun. Sem dæmi má nefna að um árabil hefur verið horft til ræktunar og/eða eldis af ýmsu tagi þar sem jarðhitinn ásamt öðrum aðstæðum í sandinum yrðu nýtt til matvælaframleiðslu. Þessi áhersla endurspeglast m.a. vel í einu af fjórum megin markmiðum byggðaeflingarverkefnisins Öxarfjarðar í sókn sem er framsækni í matvælaframleiðslu, auk að minnsta kosti þriggja starfsmarkmiða sem því tengjast. Annað skilgreint megin markmið verkefnisins er framandi áfangastaður og þar undir eru skilgreind tvö starfsmarkmið sem þau friðlýsingarmörk sem eru í friðlýsingartillögunni myndu útiloka eða a.m.k. torvelda til muna. Annars vegar er um að ræða að „ljúka kortlagningu á vatnsbólum og uppsprettum á svæðinu ásamt greiningu á nýtingu jarðhita til rafmagnsframleiðslu, baðstaða og/eða ræktunar.“ Hins vegar „ að hanna baðstað sem nýtir jarðhita fyrir árslok 2019.“

Fram kemur á vef Umhverfisstofnunar að við undirbúning að friðlýsingu þeirra landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti í verndarflokki rammaáætlunar sé lögð fram tillaga að friðlýsingarskilmálum þar sem fram komi að orkuvinnsla sem fellur undir lög um verndar- og orkunýtingaráætlun sé óheimil. Jafnframt að ekki sé gert ráð fyrir að friðlýsingarskilmálar taki til annarra atriða eða að landvarsla eða sérstök umsjón sé á viðkomandi svæðum. Skv. þessu skulu friðlýsingarskilmálar í þessu tilviki einungis taka til tveggja ofangreindra virkjanakosta, en hvorki til orkuvinnslu í smærri einingum né annarrar nýtingar. Að mati verkefnisstjórnar gengur sú tillaga sem fyrir liggur mun lengra en þau yfirlýstu markmið sem að baki friðlýsingartillögunni liggja.
Samantekið gengur friðlýsingartillagan hvað varðar svæðisafmörkun og inntak því að mati verkefnisstjórnar mun lengra en nauðsynlegt er til að ná fram yfirlýstu markmiði og gæti hún því brotið í bága við eina af þremur meginreglum stjórnsýslunnar, meðalhófsregluna, sem kveður skýrt á um það að til að ná skilgreindu markmiði skuli beita því úrræði sem minnstri röskun veldur á hagsmunum borgaranna. Einnig skulu stjórnvöld gæta hófs við beitingu þess úrræðis sem valið hefur verið og ekki má beita því á harkalegri hátt en nauðsynlegt er.

Verkefnisstjórn Öxarfjarðar í sókn leggur áherslu á að við friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum útfrá þeim skilgreindu markmiðum sem liggja friðuninni til grundvallar verði þess gætt að í engu verði gengið á núverandi né mögulega framtíðarnýtingu auðlinda svæðisins neðan gljúfra, hvort sem er til jarðvarmaorkuvinnslu, né annarrar nýtingar. Því leggur verkefnisstjórnin til að skýrt verði kveðið á um það í friðlýsingarskilmálum að friðlýsingin taki einungis til þeirra skilgreindu virkjanakosta sem nefndir eru í tillögunni eða a.m.k. verði friðlýsingin skilyrt við vatnsaflsvirkjanir sem falla undir rammaáætlun og eðli máls í þessu tilviki, þ.e. virkjana 10 MW eða stærri. Einnig að friðlýsingarmörkin verði dregin þannig að þau nái ekki til árinnar eftir að hún kemur norður úr gljúfrunum. Fyrir utan beina hagsmuni sem verkefnisstjórnin telur vera af þeim mörkum bendir hún á að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina friðlýsingarsvæðið þar sem gljúfrum árinnar sleppir þar sem farvegur hennar er breytilegur á söndunum. Að lokum leggur verkefnisstjórnin ríka áherslu á að áður en frá friðlýsingunni verði gengið verði haft samráð við landeigendur og aðra beina hagsmunaaðila á svæðinu um friðlýsingarskilmálana og endanlega afmörkun hins friðlýsta svæðis.

Virðingafyllst
Bergur Elías Ágústsson
Hafrún Olgeirsdóttir
Hjálmar Bogi Hafliðason
Hrund Ásgeirsdóttir

Tillagan er samþykkt með atkvæðum Bergs, Hafrúnar, Hjálmars og Hrundar.
Helena, Kolbrún Ada, Kristján, Silja og Örlygur sátu hjá.

Byggðarráð Norðurþings - 295. fundur - 11.07.2019

Til kynningar er greinargerð Umhverfisstofnunar um framkomnar athugasemdir vegna fyrirhugaðrar friðlýsingar vatnasviðs Jökulsár á fjöllum.
Lagt fram til kynningar.

Orkuveita Húsavíkur ohf - 195. fundur - 01.08.2019

Fyrir liggur umsögn Umhverfisstofnunar um framkomnar athugasemdir vegna tillögu að friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum: 12 Arnardalsvirkjun og 13 Helmingsvirkjun.
Umsögn Umhverfisstofnunar lögð fram til kynningar.