Fara í efni

Orkuveita Húsavíkur ohf

219. fundur 21. apríl 2021 kl. 10:00 - 10:45 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sigurgeir Höskuldsson formaður
  • Bergur Elías Ágústsson varaformaður
  • Guðmundur Halldór Halldórsson varamaður
Starfsmenn
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
Fundargerð ritaði: Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmdastjóri
Dagskrá
AÐALFUNDUR OH 2021
Eftirfarandi aðilar sátu fundinn auk stjórnarmanna Orkuveitu Húsavíkur ohf.
Fundarstjóri - Drífa Valdimarsdóttir.
Fulltrúi eiganda OH - Helena Eydís Ingólfsdóttir.
Endurskoðandi OH (ENOR) - Níels Guðmundsson.

1.Aðalfundur OH 2021-Starfsemi OH á árinu 2020

Málsnúmer 202104046Vakta málsnúmer

Staða og starfsemi félagsins á liðnu rekstrarári skýrð fyrir hluthafa félagsins.
Formaður stjórnar Orkuveitu Húsavíkur ohf. fór yfir starfsemi félagsins á liðnu rekstrarári og skýrir frá því helsta sem markað hefur rekstur OH.

2.Aðalfundur OH 2021-Ársreikningur vegna rekstrarársins 2020

Málsnúmer 202104047Vakta málsnúmer

Undirritaður ársreikningur Orkuveitu Húsavíkur ohf. vegna rekstrarársins 2020 lagður fram til samþykktar ásamt athugasemdum endurskoðenda félagsins.
Endurskoðandi Orkuveitu Húsavíkur fór yfir ársreikning félagsins vegna rekstrarársins 2020.
Ársreikningurinn er samþykktur af hluthafa og undirritaður af stjórn og framkvæmdastjóra félagsins.

Bergur Elías Ágústsson, varaformaður stjórnar óskar að eftirfarandi verði bókað vegna ársreiknings Orkuveitu Húsavíkur ohf. fyrir árið 2020.
Rétt er að það komi fram að undirritaður ritar nafn sitt við ársreikning félagsins fyrir 2020 með fyrirvara. Þar sem slíkt er ekki algengt geri ég hér ítarlega grein fyrir þeirri ákvörðun.
Ástæða þess er að ekki hefur verið skýrt, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um, ákveðna kostnaðarlið í ársreikningi félagsins. Fyrir það fyrsta hefur verið óskað eftir skýringu sem og kostnaðargreiningu á skrifstofukostnaði að upphæð 109.828.441 krónum á árinu. Í öðru lagi hefur komið fram að Orkuveita Húsavíkur hef greitt og eignfært hlutdeild A hluta í framkvæmdum fyrir um 16.000.000 krónur.
Það er ábyrgðarhlutur að sitja í stjórn félags í eigu íbúa sveitarfélagsins Norðurþings og þar af leiðand mikilvægt að rauntekjur- og raunkostnaður sé ávallt til staðar í reikningum félagsins og hann sé vel skilgreindur og skiljanlegur fyrir íbúa.
Sveitarfélagið Norðurþing (móðurfélagið A hlutinn ) sem selur Orkuveitu Húsavíkur ( B hluta félag) þjónustu, beri því að sýna stjórn með óyggjandi hætti hvað felist í veittri þjónustu og hver afleiddur kostnaður er.
Hægt er færa rök fyrir því að A hluti (sveitasjóður) er að sækja óskilgreint fé í B hluta félag (OH) án þess að skýrar upplýsingar um kostnað liggi fyrir (of eða van). Eitt er að kaupa skilgreinda fjárhags- og bókhaldsþjónustu og eftir atvikum aðkeypt vinnuafl en annað gildir um óskilgreinda kostnaðarþátttöku í framkvæmdum á vegum A hluta. Þessi verkefni þarf að skýra og jafnframt þarf að liggja fyrir verkbókhald og kostnaður um þá hluti sem snúa að aðkeyptri þjónustu sbr. vinnu starfsmanna og frágang og umsýslu með reikningagerð og bókhaldi.
OH gæti hugsanlega fengið þessa þjónustu ódýrari frá þriðja aðila eða framkvæmt hana sjálf. Sé það staðan, ber stjórn að hugsa um hag félagsins. Í annan stað hafi A hlutinn þurft á fjármögnun að halda fyrir verklegum framkvæmdum er eðlilegt að slíkt sé reikningsfært á A hlutann. Það breytir því ekki að önnur aðkeypt þjónusta þarf að vera skilgreind og þekkt þannig að ljóst sé hvað er verið að greiða fyrir.
Sjálfstæð og löglega skipuð stjórn í OH fer með ákvörðunarvaldið og vinnur samkvæmt samþykktum félagsins - eigandinn kemur að félaginu á árs eða hluthafafundi, þess á milli bera stjórnarmenn einir ábyrgð á rekstri félagsins.
Rétt er að benda á að hér er um milliverðlagningu að ræða. En hugtakið milliverðlagning vísar til þess hvernig tengdir lögaðilar verðleggja viðskipti sín á milli. Reglum um milliverðlagningu er ætlað að tryggja að verðákvörðun í viðskiptum slíkra aðila sé í samræmi við verð í sambærilegum viðskiptum milli ótengdra aðila, þ.e. að verð sé í samræmi við svokallaða armslengdarreglu. Reglurnar eru jafnframt leiðbeinandi fyrir skattyfirvöld um hvernig eigi að ganga úr skugga um að verðlagningin uppfylli þessi skilyrði. Ef verðlagning er innan armslengdar (þ.e. milli tengdra aðila), og verð er frábrugðið því sem væri í viðskiptum ótengdra aðila, ber að leiðrétta verðið og ákvarða skattstofn eða skattstofna að nýju eftir því hvort verð reynist of- eða vanmetið.
Reglur um milliverðlagningu eiga við um viðskipti milli tengdra lögaðila þrátt fyrir að á þeim hvíli ekki krafa um skjölunarskyldu. Ef tengsl milli lögaðila eru með öðrum hætti en greinir í ákvæði um milliverðlagningu geta almennar reglur um skattasniðgöngu átt við vegna viðskipta þeirra á milli. Reglurnar eiga ekki við ef um málamyndagerninga eða sýndargerninga er að ræða. Í þeim tilvikum gilda almenn ákvæði um skattasniðgöngu.
Reglurnar eiga eingöngu við þegar tiltekin tengsl eru á milli lögaðila sem eiga í viðskiptum. Það er:
- Þegar lögaðilar eru hluti af sömu samstæðunni eru þeir ótvírætt tengdir lögaðilar.
- Þegar lögaðili er undir beinu og/eða óbeinu meirihlutaeignarhaldi eða stjórnunarlegum yfirráðum tveggja eða fleiri lögaðila innan samstæðu telst hann tengdur öllum lögaðilum innan samstæðunnar.
- Þegar lögaðili á meira en 50% í öðrum lögaðila með óbeinum hætti teljast þeir tengdir í skilningi ákvæðis laganna um milliverðlagningu. Ef annar lögaðilinn er hluti af samstæðu telst hinn lögaðilinn tengdur öllum öðrum lögaðilum innan samstæðunnar.
Það er mín einlæg ósk að framangreint verði skýrt ítarlega fyrir seinni umræðu um ársreikninga í sveitarstjórn. Spurningin sem þarf að svara er, hvort Orkuveitan vangreiðir, greiðir rétta upphæð eða ofgreiðir fyrir þjónustu A-hluta og hver sinnir kostnaðareftirliti félagsins.

Bergur Elías Ágústsson.
Varaformaður stjórnar OH ohf.

3.Aðalfundur OH 2021-Ákvörðun um ráðstöfun hagnaðar/taps á reikningsárinu

Málsnúmer 202104048Vakta málsnúmer

Tillaga borin upp til samþykktar um hvernig hagnaði/tapi félagsins á reikningsárinu skuli ráðstafað.
Fyrir liggur tillaga frá eiganda félagsins um að hagnaður af rekstri Orkuveitu Húsavíkur ohf. verði greiddur út sem arður og að arðgreiðsla nemi kr. 60.000.000
Tillagan var samþykkt.

Þann 11. nóvember 2020 tók stjórn Orkuveitu Húsavíkur ohf. afstöðu til mögulegara arðgreiðsla til eiganda og taldi unnt að greiða allt að 60.000.000 kr arð. Ákveðið var á fundi sveitarstjórnar þann 1. desember 2020 að á næstu árum muni OH ohf. greiða eiganda sínum arð af hagnaði. Arður er greiddur af uppsöfnuðum hagnaði fyrri ára af rekstri hitaveitu OH ohf.

4.Aðalfundur OH 2021-Kjör stjórnar Orkuveitu Húsavíkur ohf

Málsnúmer 202104049Vakta málsnúmer

Tillaga hluthafa að stjórn Orkuveitu Húsavíkur ohf. fyrir komandi starfsár félagsins borin upp til samþykktar.
Tillaga hluthafa er að stjórn Orkuveitu Húsavíkur ohf. sitji óbreytt.
Aðalmenn: Sigurgeir Höskuldsson, Bergur Elías Ágústsson, Kolbrún Ada Gunnarsdóttir.
Varamenn: Guðmundur Halldór Halldórsson, Hafrún Olgeirsdóttir, Birna Ásgeirsdóttir.
Tillagan er samþykkt.

5.Aðalfundur OH 2021-Kjör endurskoðanda Orkuveitu Húsavíkur ohf

Málsnúmer 202104050Vakta málsnúmer

Tillaga um endurskoðanda Orkuveitu Húsavíkur ohf. á komandi rekstrarári borin upp til samþykktar.
Tillaga liggur fyrir um að ENOR verði áfram endurskoðandi félagsins og er sú tillaga samþykkt.

6.Aðalfundur OH 2021-Ákvörðun um laun stjórnarmanna OH

Málsnúmer 202104051Vakta málsnúmer

Ákvörðun skal tekin um laun stjórnarmanna fyrir störf þeirra í þágu félagsins.
Tillaga liggur fyrir um að greiðslur til stjórnarmanna verði til samræmis við greiðslur fyrir nefndarsetu hjá Norðurþingi og er sú tillaga samþykkt.

7.Aðalfundur OH 2021-Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur mál

Málsnúmer 202104052Vakta málsnúmer

Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin.
Engin mál borin upp undir þessum fundarlið.

Fundi slitið - kl. 10:45.