Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings

129. fundur 09. júní 2015 kl. 14:00 - 17:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Sif Jóhannesdóttir formaður
  • Röðull Reyr Kárason aðalmaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson aðalmaður
  • Soffía Helgadóttir aðalmaður
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Breyting á aðalskipulagi Norðurþings vegna sjóbaða

Málsnúmer 201504022Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar fyrir breytingu aðalskipulags. Umsagnir við skipulagslýsinguna bárust frá Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Skipulagsstofnun.

Umhverfisstofnun telur skv. bréfi sínu dags. 27. maí s.l. breytinguna jákvæða en bendir á að borun eftir jarðhita á lághitasvæðum er tilkynningarskyld framkvæmd og leggur jafnframt áherslu á að göngustígur meðfram klettóttri ströndinni verði færður inn á deiliskipulagsuppdrátt.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra tilgreinir í bréfi sínu dags. 12. maí s.l. að ekki séð gerð athugasemd við skipulagslýsinguna.

Skipulagsstofnun bendir á að gera þarf grein fyrir stærð þess svæðis sem breytingin nær til, gera grein fyrir aðkomu að svæðinu sem og umfangi og yfirbragði byggðar. Tilefni sé til að víkja sérstaklega að samspili breyttrar landnotkunar við landnotkun og fyrirhugaða starfsemi á nærliggjandi svæðum s.s. iðnaðarsvæði á Bakka, hafnarsvæði og athafnasvæði á Höfða.

Skipulags- og byggingarnefnd þakkar fram komnar ábendingar. Gert er ráð fyrir að göngustígur meðfram ströndinni verði færður inn á deiliskipulag. Ábendingum Skipulagsstofnunar verður fylgt.

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu frá Alta að aðalskipulagsbreytingu þar sem tekið hefur verið tillit til athugasemda og ábendinga sem bárust við kynningu skipulagslýsingar. Skipulags- og byggingarnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að kynna tillöguna á almennum fundi skv. ákvæðum 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga. Jafnframt leggur nefndin til við bæjarstjórn að skipulagstillagan verði auglýst til athugasemda skv. ákvæðum skipulagslaga að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar.

2.Deiliskipulag á Höfða vegna sjóbaða

Málsnúmer 201504023Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar fyrir deiliskipulag þjónustusvæðis á Höfða. Umsagnir við skipulagslýsinguna bárust frá Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Skipulagsstofnun.

Umhverfisstofnun telur skv. bréfi sínu dags. 27. maí s.l. breytinguna jákvæða en bendir á að borun eftir jarðhita á lághitasvæðum er tilkynningarskyld framkvæmd og leggur jafnframt áherslu á að göngustígur meðfram klettóttri ströndinni verði færður inn á deiliskipulagsuppdrátt.

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra tilgreinir í bréfi sínu dags. 12. maí s.l. að ekki sé gerð athugasemd við skipulagslýsinguna.

Skipulagsstofnun bendir á í bréfi sínu dags. 6. maí s.l. að mikilvægt sé að settir verði skýrir skilmálar í deiliskipulagi um útlit mannvirkja og form. Ennfremur er minnt á að kynna þarf tillöguna skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga áður en bæjarstjórn samþykkir hana til auglýsingar.

Skipulags- og byggingarnefnd þakkar fram komnar ábendingar. Gert er ráð fyrir að göngustígur meðfram ströndinni verði færður inn á deiliskipulag. Settir verða skýrir skilmálar fyrir útlit mannvirkja og form.

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu að deiliskipulagi þar sem tekið hefur verið tillit til framkominna athugasemda og ábendinga. Skipulags- og byggingarnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að kynna tillöguna á almennum fundi skv. ákvæðum 4. mgr. 40 gr. skipulagslaga. Jafnframt leggur nefndin til við bæjarstjórn að skipulagstillagan verði auglýst til athugasemda skv. ákvæðum skipulagslaga samhliða tillögu að aðalskipulagsbreytingu sama svæðis.

3.Deiliskipulag á Öskjureit

Málsnúmer 201411061Vakta málsnúmer

Arnhildur Pálmadóttir arkitekt mætti til fundarins og gerði grein fyrir frumhugmyndum að deiliskipulagi Öskjureits. Hún fjallaði m.a. um það samráð sem hún hefur haft við lóðarhafa á svæðinu og vinnu við húsakönnun á svæðinu.

Skipulags- og byggingarnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að kynna á almennum fundi frumtillögur að deiliskipulagi svæðisins.

4.Faglausn ehf. f.h. Gentle Giants-Hvalaferðir ehf. óskar eftir að kynna stöðu hönnunar á Hafnarstétt 5

Málsnúmer 201506021Vakta málsnúmer

Til fundarins mætti Almar Eggertsson og kynnti stöðu hönnunar húss á lóðina að Hafnarstétt 5.

5.Frágangur úthlutaðra lóða

Málsnúmer 201305024Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti vettvangsskoðun sína á frágangi úthlutaðra en óbyggðra lóða.

Að hausti 2014 var efni ekið í lóðina að Lyngholti 2a þannig að hún getur ekki talist sérlega hættuleg. Þar þyrfti þó nokkra tiltekt og sáningu til að loka yfirborði.

Lóðin að Laugarbrekku 23 virðist tryggilega frágengin. Þar hefur þó hrunið undan slitlagðri gangstétt svo skemmdir liggja við. Ekki hefur verið gerð tilraun til að græða upp lóðina.

Lóðir í Stakkholti virðast í sæmilegu lagi að öðru leyti en því að uppgræðslu er þörf.

Skipulags- og byggingarnefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að krefja lóðarhafa ófragenginna lóða um taka til á sínum lóðum og græða upp en skv. bókun byggingarnefndr frá september 2014 var farið fram á að sáningu yrði lokið fyrir 1. maí s.l. Ennfremur fer nefndin fram á að gengið verði tafarlaust frá jarðvegsfyllingu undir gangstétt við Laugarbrekku 23 áður en slys verða eða gangstéttin skemmist frekar en orðið er.

6.Júlíus Jónasson óskar eftir leyfi til að byggja svalir vestan á efri hæð að Höfðavegi 18

Málsnúmer 201505091Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að byggja svalir við Höfðaveg 18. Fyrir liggja teikningar og uppáskrifað samþykki nágranna að Höfðavegi 17, 19 og 20.

Skipulags- og byggingarnefnd telur grenndarkynningu fullnægjandi og heimilar byggingarfulltrúa að samþykkja byggingu svalanna þegar fullnægjandi gögn hafa borist.

7.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, ósk um umsögn vegna leyfisveitingar til handa Rúnari Traustasyni

Málsnúmer 201506019Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar um leyfi til sölu heimagistingar að Fossvöllum 22 á Húsavík.

Skipulags- og byggingarnefnd veitir jákvæða umsögn um sölu heimagistingar að Fossvöllum 22, enda verði eingöngu leigð út til gistingar þau rými sem ætluð eru sem svefnherbergi á samþykktum teikningum.

8.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra, ósk um umsögn vegna leyfisveitingar til handa Gunnari Magnússyni f.h. Ff. Sólheima ehf.

Málsnúmer 201505063Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar um sölu íbúðargistingar að Iðavöllum 6 á Húsavík.

Skipulags- og byggingarnefnd veitir jákvæða umsögn um sölu íbúðargistingar að Iðavöllum 6, enda verði eingöngu seld út til gistingar þau rými hússins sem ætluð eru til gistingar skv. samþykktum teikningum.

9.Halldór Svanur Olgeirsson sækir um byggingarleyfi fyrir ferðaþjónustuhús að Bjarnastöðum

Málsnúmer 201406071Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir 74 m² gistiskála að Bjarnastöðum í Öxarfirði. Húsið er byggt úr timbri og klætt með bárustáli eða sambærilegu efni. Fyrir fundi liggur teikning unnin af Marínó Eggertssyni. Erindi var áður tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 1. júlí 2014, en þá frestað vegna óvissu um réttindi til lands. Fyrir liggur nú skriflegt samþykki meðeiganda landsins.

Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir að heimila byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir húsinu þegar fullnægjandi gögnum hefur verið skilað. Þar verði m.a. gerð grein fyrir hvernig eldvörnum verði háttað í mannvirkinu.

10.Faglausn ehf. f.h. Saltvíkur ehf. sækir um leyfi til að breyta gömlu fjósi og hlöðu í Saltvík í gistirými og jafnframt að stækka húsin með viðbyggingu

Málsnúmer 201505038Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að breyta gömlu fjósi í Saltvík í gistirými og jafnframt að byggja við 80,7 m² viðbyggingu. Alls yrðu útbúin sjö ný gistirými, þar af eitt með aðgengi fyrir hreyfihamlaða.

Skipulags- og byggingarnefnd fellst á breytta notkun hússins og þá viðbyggingu sem fyrirhuguð er. Nefndin heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni þegar fullnægjandi gögnum hefur verið skilað.

11.Tryggvi Hrafn Sigurðsson sækir um byggingarleyfi fyrir einbýlishús að Sandfellshaga 2A

Málsnúmer 201505051Vakta málsnúmer

Óskað var eftir leyfi til að byggja 203,5 m² íbúðarhús að Sandfellshaga 2A. Teikningar eru unnar af Stefáni Ingólfssyni hjá Mannvirkjameistaranum ehf.

Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti erindið 19. maí s.l.

Skipulags- og byggingarnefnd gerir ekki athugasemd við þessa afgreiðslu.

12.Kristján M. Önundarson og Þóra B. Sigurðardóttir óska eftir leyfi til að færa inngangsdyr á Uppsalavegi 17

Málsnúmer 201506022Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að loka inngangsdyrum á norðurhlið og setja nýjar á vesturhlið íbúðarhússins að Uppsalavegi 17.

Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti erindið 5. júní s.l.

13.Minjastofnun Íslands, drög að stefnu í minjavernd

Málsnúmer 201506023Vakta málsnúmer

Minjastofnun vekur athygli á því með tölvupósti dags. 3. júní s.l. að drög að stefnu um minjavernd hafa verið gerð aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar. Þeim sem áhuga hafa á að koma á framfæri athugasemdum gefst tækifæri til þess til 22. júní n.k.

14.Samskip hf. óska eftir leyfi fyrir breyttri notkun á hluta húsnæðis að Suðurgarði 2 fyrir flutningastarfsemi

Málsnúmer 201506026Vakta málsnúmer

Óskað er eftir heimild til að breyta notkun hluta húsnæðis að Suðurgarði 2 fyrir flutningastarfsemi.

Skipulags- og byggingarnefnd fellst fyrir sitt leiti á breytta notkun húsnæðisins. Nefndin minnir hinsvegar á að lóð við húsið er takmörkuð og gæti því verið óhentug fyrir starfsemina til lengri tíma. Leggja þarf fram teikningar sem sýna fullnægjandi aðstöðu fyrir starfsemina í rýminu með fullnægjandi brunavörnum gagnvart aðliggjandi rýmum.

Fundi slitið - kl. 17:00.