Fara í efni

Skipulags- og byggingarnefnd Norðurþings

121. fundur 14. október 2014 kl. 14:00 - 14:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Röðull Reyr Kárason aðalmaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson aðalmaður
  • Soffía Helgadóttir aðalmaður
  • Jónas Hreiðar Einarsson aðalmaður
  • Guðmundur Halldór Halldórsson varamaður
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingarfulltrúi
Dagskrá

1.Breyting aðalskipulags v/ norðurhafnar

Málsnúmer 201406081Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar aðalskipulagsbreytingar vegna fyrirhugaðrar landfyllingar innan norðurhafnar auk breytinga á brimvörn og lengingu viðlegukannts Bökugarðs. Umsagnir um skipulagslýsingu bárust frá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands Eystra og Vegagerðinni. Skipulagsstofnun telur í bréfi sínu frá 24. september að skoða þurfi eftirfarandi atriði í skipulags- og umhverfismatsvinnu:1. Stækkun hafnarinnar er breyting á höfn fyrir skip stærri en 1.350 tonn. Tillagan fellur því undir lög um umhverfismat áætlana og þarf því að meta áhrif hennar og gera grein fyrir í umhverfisskýrslu. Skipulagsstofnun mælir með því að framkvæmdin verði tilkynnt til ákvörðunar um matsskyldu samhliða vinnslu og kynningu aðal- og deiliskipulags.Viðbrögð: Metin verða umhverfisáhrif skipulagsbreytingarinnar og gerð grein fyrir þeim í umhverfisskýrslu. Þegar hefur verið fjallað um umhverfisáhrif Bakkavegar og Húsavíkurhafnar og birti Skipulagsstofnun niðurstöðu sína þar að lútandi í apríl 2014.2. Gæta verður þess að í greinargerð verði fjallað um alla breytingarþætti, þar með talið lengingu hafnarbakka á autanverðum Bökugarði auk tilfærslu brimvarnar til norðurs að vestanverðu.Viðbrögð: Í greinargerð verður fjallað um alla breytingarþætti skipulagstillögunnar.3. Sýna skal á uppdrætti gildandi aðalskipulag með staðfestum breytingum frá 2014.Viðbrögð: Sýndur verður gildandi aðalskipulagsuppdráttur.4. Minnt er á að kynna þarf skipulagstillöguna á vinnslustigi áður en hún er samþykkt til auglýsingar.Viðbrögð: Frumtillaga að umræddri aðalskipulagsbreytingu var kynnt á opnu húsi þann 9. september s.l. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Norðulands Eystra (HNE) frá 29. september kemur fram: 5. HNE bendir á að um er að ræða umtalsverða breytingu á hafnarsvæði og nauðsynlegt sé að gerð verði grein fyrir hugsanlegum áhrifum sjávarfallastrauma og öðrum umhverfisáhrifum.Viðbrögð: Metin verða umhverfisáhrif skipulagsbreytingarinnar og gerð grein fyrir í umhverfisskýrslu.6. HNE telur að miðað við fyrirliggjandi áform hverfi síðasta fjaran í norðurhöfn undir landfyllingu. Ljóst sé að fjaran hafi verndargildi og spurning hvort ekki sé tilefni til að varðveita hana.Viðbrögð: Skipulags- og byggingarnefnd bendir á að í fyrirliggjandi skipulagshugmyndum sé einmitt lítið sem ekkert gengið á síðustu fjöruna í norðurhöfn þar sem nefndin telur hana hafa verndargildi.7. Fram þurfi að koma hvernig staðið verði að framkvæmdum, s.s. hversu langan tíma framkvæmdin tekur, hvaða tæki þurfi við framkvæmdina og hver verði hljóðstyrkur meðan á framkvæmdum stendur.Viðbrögð: Fjallað verður um umhverfisáhrifs skipulagsbreytingarinnar eftir því sem við á á aðalskipulagsstigi. Í skipulagi verður gert ráð fyrir takmörkunum á vinnutíma við framkvæmdir.8. Mikilvægt er að íbúar á Bakkanum fái að kynna sér fyrirhugaðar framkvæmdir og þeir upplýstir um möguleg óþægindi sem þeir verða fyrir með aukinni umferð og stafsemi með tilliti til hækkunar hljóðstigs.Viðbrögð: Skipulagstillagan verður kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010. Umhverfisstofnun gerir í bréfi sínu frá 30. september ekki athugasemd við skipulagslýsinguna, en vekur athygli á því að opin landfylling flokkast sem varp í hafið sbr. lög nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.Viðbrögð: Umsögn Umhverfisstofnunar gefur ekki tilefni til viðbragða. Vegagerðin tilkynnti með bréfi dags. 10. október að stofnunin geri ekki athugasemd við skipulagslýsinguna.Viðbrögð: Umsögn Vegagerðarinnar gefur ekki tilefni til viðbragða. Vigfús Sigurðsson kynnti tillögu að aðalskipulagsbreytingu þar sem tekið hefur verið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komu við kynningu skipulagslýsingar. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við framkvæmda- og hafnanefnd og bæjarstjórn að tillagan að aðalskipulagsbreytingu verði kynnt skv. ákvæðum 1. mgr. 36 gr. og 31. gr. skipulagslaga að undangenginni athugun Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga.

2.Breyting á deiliskipulagi norðurhafnar

Málsnúmer 201406082Vakta málsnúmer

Vigfús Sigurðsson gerði grein fyrir fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi norðurhafnar. Skipulags- og byggingarnefnd telur að skipulagstillagan sé í samræmi við umræður á síðasta fundi. Hún leggur þó til að hámarkshæð húsa á svæði H2 og við Slippinn verði 8 m. Með þeirri breytingu leggur nefndin til við framkvæmda- og hafnanefnd og bæjarstjórn að skipulagstillagan verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga eins og hún var lögð fram.

3.Rarik ohf. óskar eftir breytingu á deiliskipulagi lóðar Ketilsbrautar 22

Málsnúmer 201410042Vakta málsnúmer

Skv. samþykktu deiliskipulagi er gert ráð fyrir að byggja skuli steinsteypta veggi á tvo vegu við fyrirhugaða spennistöð við Stóragarð. RARIK telur veggina óþarfa, enda fyrirhugað hús sérstaklega skermað fyrir rafsegulbylgjum, og óskar því eftir að kvöðin verði afnumin. Skipulags- og byggingarfulltrúi gerði grein fyrir forsögu málsins. Skipulags- og byggingarnefnd telur að RARIK hafi gefist tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri um gildi umræddra skjólveggja við nýlega afstaðið skipulagsferlið. Ekki hefur komið fram skýr rökstuðningur fyrir þörf á breytingu skipulagsins. Nefndin fellst því ekki á að breyta deiliskipulaginu.

4.Rarik sækir um byggingarleyfi fyrir spennistöð á lóð við Ketilsbraut 22

Málsnúmer 201410041Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir spennistöð við Stóragarð skv. teikningum unnum af Eflu Verkfræðistofu. Um er að ræða 6,6 m² hús. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að RARIK verði úthlutað lóð undir spennistöð skv. skipulaginu. Skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að gefa út byggingarleyfi fyrir spennistöðinni að því gengnu að samhliða verði byggðir upp snyrtilegir steinveggir skv. ákvæðum deiliskipulags.

5.Sýslumaðurinn á Húsavík, ósk um umsögn vegna leyfisveitingar til handa Berki Emilssyni vegna heimagistingar

Málsnúmer 201409106Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar um leyfi fyrir sölu heimagistingar að Stóragarði 7. Skipulags- og byggingarnefnd veitir jákvæða umsögn um erindið, enda verði eingöngu leigð út til gistingar þau rými sem til þess eru ætluð á samþykktum teikningum.

6.Axel Yngvason sækir um byggingarleyfi fyrir gistihús á óstofnaðri lóð úr landi Krossdals

Málsnúmer 201404056Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir gistihúsi á lóð úr landi Krossdals í Kelduhverfi. Fyrir liggja jákvæðar umsagnir Vinnueftirlits, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands Eystra og Eldvarnareftirlits Norðurþings. Erindi var móttekið 16. apríl s.l. og samþykkt 30. september s.l. Skipulags- og byggingarnefnd gerir ekki athugasemd við afgreiðslu erindisins.

7.Benedikt Kristjánsson, Val ehf. f.h. Fasteigna ríkissjóðs óskar eftir leyfi til breytinga á aðalinngangi Útgarði 1

Málsnúmer 201409073Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi fyrir breytingu á aðalinngangi Útgarðs 1 á Húsavík. Meðfylgjandi umsókn er mynd af breytingunni. Erindi var móttekið og samþykkt 23. september s.l. Skipulags- og byggingarnefnd gerir ekki athugasemd við afgreiðslu erindisins.

8.Rifós hf. sækir um stöðuleyfi fyrir tvo 40 feta gáma sem ætlaðir eru undir rafstöðvar

Málsnúmer 201410052Vakta málsnúmer

Óskað er eftir stöðuleyfi fyrir tvo 40 feta gáma sem ætlaðir eru undir rafstöðvar á lóð fyrirtækisins við Lón í Kelduhverfi. Meðfylgjandi umsókn er rissmynd af afstöðu og ljósmynd af gámunum. Skipulags- og byggingarnefnd leggur til við bæjarstjórn að veitt verði stöðuleyfi fyrir rafstöðvargámunum til eins árs með því skilyrði að þeir verði snyrtilega málaðir í lit sem fellur að umhverfinu.

Fundi slitið - kl. 14:00.