Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

167. fundur 12. september 2023 kl. 13:00 - 14:45 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Soffía Gísladóttir formaður
  • Eysteinn Heiðar Kristjánsson aðalmaður
  • Ingibjörg Benediktsdóttir varaformaður
  • Birkir Freyr Stefánsson aðalmaður
  • Rebekka Ásgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Kristján Friðrik Sigurðsson varamaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Elvar Árni Lund sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir stjórnsýslufulltrúi
Dagskrá

1.Deiliskipulag íbúðarsvæðis Í1 á Húsavík

Málsnúmer 202309044Vakta málsnúmer

Fyrir fundi liggur tillaga að skipulags- og matslýsingu fyrir íbúðarsvæði Í1 á Húsavík. Skipulagssvæði spannar Lyngbrekku og óbyggt svæði norðan Lyngbrekku.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að vinna lagfæringar á skipulags- og matslýsingunni til samræmis við umræður á fundinum. M.a. vantar tímaáætlun á skipulagsferlið. Ráðið leggur til við sveitarstjórn að skipulagslýsingin með breytingum verði kynnt samkvæmt ákvæðum skipulagslaga.

2.Umsókn um breytingu á deiliskipulagi miðhafnarsvæðis Húsavíkur

Málsnúmer 202309057Vakta málsnúmer

Norðursigling ehf. óskar eftir að gerð verði breyting á deiliskipulagi miðhafnarsvæðis þar sem horft er til breytingar byggingarreits Naustagarðs 2.
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur vel í erindið og vísar deiliskipulagsbreytingu til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2024.

3.Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Laugarbrekku 18

Málsnúmer 202309020Vakta málsnúmer

Þórsteinunn Rut Sigurðardóttir og Óðinn Sigurðsson óska eftir byggingarleyfi fyrir anddyri og svölum við Laugarbrekku 18. Teikningar eru unnar af Almari Eggertssyni hjá Faglausn. Fyrir liggur undirskrifað samþykki nágranna að Laugarbrekku 16.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur fyrirhugaða viðbyggingu svo óverulega að hún hafi lítil áhrif á aðra nágranna en eigendur Laugarbrekku 16. Í ljósi þess að þeir hafa skrifað upp á samþykki fyrir framkvæmdinni heimilar ráðið byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi fyrir henni.

4.Ábending um lækkandi yfirborð tjarna við Kópasker

Málsnúmer 202309018Vakta málsnúmer

Með bréfi dagsettu 2. september 2023 vekur Sigurlína Jóhanna Jóhannesdóttir athygli sveitarstjórnar á lækkandi yfirborði tjarna við Kópasker.
Um er að ræða þrjár tjarnir, Skólatjörn, Klifatjörn og Kotatjörn og leiðir bréfritari líkum að því að boranir Rifóss vegna starfsemi fyrirtækisins hafi haft áhrif á vatnsyfirborð tjarnanna og kallar eftir viðbrögðum.

Sveitarfélaginu hefur einnig borist erindi frá Guðmundi Erni Benediktssyni á Kópaskeri, dags. 5. september s.l., með sömu ábendingum og áhyggjum af niðurdrætti í tjörnum vegna vatnstöku laxeldis við Kópasker. Guðmundur sendi einnig ljósmyndir af svæðinu frá 20. ágúst s.l.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar fram komnar ábendingar. Ráðið felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að koma ábendingunum áfram til hlutaðeigandi eftirlits- og rekstraraðila.

5.Verksamningur um uppsetningu á girðingu í landi Húsavíkur

Málsnúmer 202309033Vakta málsnúmer

Til kynningar er verksamingur um uppsetningu á girðingu milli Laxamýrar og Saltvíkur.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi samning.

6.InstaVolt Iceland ehf.óskar eftir stæðum fyrir hraðhleðslustöðvar

Málsnúmer 202306052Vakta málsnúmer

Til kynningar eru drög af leigusamningi við InstaVolt Iceland ehf. fyrir stæðum undir hraðhleðslustöðvar.
Lagt fram til kynningar. Endanlegur samningur verður til umfjöllunar í ráðinu þegar hann liggur fyrir.

Fundi slitið - kl. 14:45.