Fara í efni

Covidpistill sveitarstjóra #13

Engar fréttir eru góðar fréttir. Allt með kyrrum kjörum varðandi smit í Norðurþingi og enginn nýr greinst með covid-19. Hrósum happi yfir því. Eitt af aðal verkefnum almannavarna þessa dagana er að þrýsta á um að sýni komist með sem greiðustum hætti til greiningar í Reykjavík. Það er hægara sagt en gert þegar allt samgöngukerfið er hálf lamað og alla jafna ekki nema eitt flug á milli Akureyrar og Reykjavíkur á dag, ef það þá næst. Það sjá allir hve bagalegt það er ef biðin verður of löng eftir svörum um hvort smit greinist eður ei. Unnið er hart að því að finna leiðir svo málin strandi allavega ekki vegna samgönguerfiðleika.

Í dag var kallað til fundar fulltrúa Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), Markaðsstofu Norðurlands og þingmanna kjördæmisins. Fundinn sátu formaður og varaformaður SSNE, auk framkvæmdastjóra samtakanna og framkvæmdastjóra markaðsstofunnar, auk þingmannanna. Fjarfundurinn var gagnlegur og mikilvægt að upplýsingar um stöðuna á okkar svæði komist greiðlega inn á borð þingsins í gegnum okkar þingmenn. Fram kom á fundinum ánægja með fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar en ljóst væri að meira þyrfti til, líkt og unnið er að. Líklegt má telja að atvinnuleysi á starfssvæði SSNE verði nokkuð mismunandi milli sveitarfélaga og þau sem stóla að mjög miklu leyti á ferðaþjónustuna fá aukinn skell m.v. önnur. Það er að mínum dómi sérstaklega mikilvægt að þau atvinnutengdu úrræði sem farið verður af stað með séu sem allra fjölbreyttust og t.a.m. mjög mikilvægt að atvinnuátak í samstarfi hins opinbera og Vinnumálastofnunar verði unnið á breiðum grunni þar sem lærdómur fjármálahrunsins 2008 verði nýttur til gagns. Stefnt er að öðrum fundi um framhaldið og mótun fleiri efnahagslegra aðgerða á svæðinu með fulltrúum sveitarfélaga og þingmönnum eftir páska.

Að lokum vil ég hvetja íbúa til þess að gæta enn betur að því hvenær og hvernig gengið er um verslanir í sveitarfélaginu. Það hefur borið við að of mikill fjöldi er inni í matvöruverslunum á sama tíma sem gerir okkur mjög erfitt fyrir að athafna okkur við innkaupin og fylgja fjarlægðarmörkum. Ef þeir sem ætla í búð sjá að fjöldi bifreiða á bílastæðum verslana bendi til þess að töluverð traffík sé í búðinni, þá er tilvalið að smella t.d. nýju plötunni með Ljótu hálfvitunum á grammófón bifreiðarinnar, taka einn tvo rúnta og hlusta á nokkur lög þar til um hægist. Það er ekkert hálfvitalegt við það. Verum skynsöm og flýtum okkur hægt.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri