Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

326. fundur 07. maí 2020 kl. 08:30 - 11:25 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir formaður
  • Silja Jóhannesdóttir varaformaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Hafrún Olgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá
Fundurinn fer fram í gegnum Teams fjarfundabúnað í samræmi við samþykkt sveitarstjórnar Norðurþings þann 23. mars sl.

1.Rekstur Hafnasjóðs Norðurþings 2020

Málsnúmer 202005013Vakta málsnúmer

Bergur Elías Ágústsson hefur óskað eftir umræðu um um rekstur Hafnasjóðs Norðurþings.
Greinargerð;
Í ljósi þeirra aðstæðan sem Covid-19 faraldurinn hefur skapað, liggur nokkuð ljóst fyrir að tekjur Hafnarsjóðs verða minni en áætlanir gerðu ráð fyrir. Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir þeim viðfangsefnum sem sjóðurinn stendur frammi fyrir á þessu ári hið minnsta. Þess er óskað að formaður sjóðsins og hafnarstjóri mæti á fund byggðarráð og fari yfir þær fjárhagslegu áskorannir sem nú hafa litið dagsins ljós og mögulegar sviðsmyndir í þeim efnum.
Þórir Örn Gunnarsson hafnastjóri sat fundinn undir þessum lið.
Byggðarráð þakkar Þóri Erni fyrir yfirferð á minnisblaði um áskoranir í rekstri Hafnasjóðs Norðurþings á næstu vikum og misserum og mun aðgerðahópurinn vinna áfram, í samráði við hafnastjóra, að greiningu á stöðu sjóðsins.

2.Umræða um stöðu sorpmála

Málsnúmer 202004077Vakta málsnúmer

Á 325. fundi byggðarráðs var bókað;
Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi sat fundinn undir þessum lið.

Silja Jóhannesdóttir biður um vikufrest í viðbót til að leggja fram frekari greiningar og minnisblað varðandi hækkun á tilboðsskrá frá Eflu 2020 á núverandi gjöldum. Beiðnin byggist á því að umhverfisstjóri kemur til starfa aftur að loknu fæðingarorlofi 4. maí og hann getur aðstoðað við greiningu svo hún verði nægjanlega ítarleg.

Byggðarráð samþykkir beiðni Silju um vikufrest og tekur málið fyrir aftur að viku liðinni.
Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi sat fundinn undir þessum lið.
Byggðarráð þakkar Gunnari Hrafni fyrir yfirferð á minnisblaði um sorpmál.

Spurningar sem Bergur Elías lagði fram:

a) Hverjar eru helstu breytingarnar sem fela í sér 50% hækkun á kostnaðarmati?
b) Hver er skýringin á mismuninum þ.e. frá 50% til 66% og í hverju felst hann?
c) Hver verða sorphirðugjöld á heimili á Húsavík og Reykjahverfi í krónum og aurum gefið þau verði hækkuð um 66%?


Spurt er um í lið a) hvað skýri um 50% hækkun á kostnaðarmati EFLU sem gert var í aðdraganda nýliðins útboðs frá andvirði þess samnings sem unnið hefur verið eftir frá útboðinu 2015.
Helstu skýringar sem hér koma til eru eftirfarandi. Hækkun launavísitölu frá 2015 til dagsins í dag nemur skv. Hagstofu Ísl. um 37% en hlutfall launa ÍG vegna sorphirðu er í áætlað í kringum 75%. Verðlagsbreytingar tímabilsins 2015-2020 nema skv. Hagstofu Ísl. 11,2%. Gjöld vegna móttöku endurvinnsluúrgangs hafa hækkað umtalsvert á undanförnum árum og hafa mótframlög úrvinnslusjóðs ekki náð á hanga í þeim hækkunum sem orðið hafa. Hækkun gjalda vegna móttöku á lífrænum úrgangi til moltugerðar nemur 15% á milli ára en ekki er hægt að merkja hækkun gjalda svo neinu nemi vegna móttöku sorps til urðunar á Sölvabakka.

Spurt er um í b) lið hvað skýri mismuninn í samanburði á hækkun samninganna frá 2015 og 2020, sem í meðförum hefur annarsvegar verið líst sem 50% eða 64%.
Eins og að ofan greinir er um 50% hækkun á andvirði nýliðins samnings Norðurþings við ÍGF frá 2015 og því kostnaðarmati sem EFLA lagði til grundvallar nýafstöðnu útboði. Sé hinsvegar horft til samanburðar andvirðis samningsins við ÍGF frá 2015 og tilboðsins sem barst frá sama fyrirtæki núna eftir útboðið 2020 er um að ræða 64% hækkun.

Hvað varðar lið c) má segja að miðað við forsendur sem nú liggja fyrir má gera ráð fyrir að stofn sorphirðugjalda í Norðurþingi þurfi að hækka sem nemur 44,7%. Því má áætla að ef sveitarstjórn tekur ákvörðun um að velta þeirri hækkun á íbúa, þyrftu sorphirðugjöld að vera kr. 68.418 pr. íbúðareiningu á árinu 2021 til þess að standa undir kostnaði vegna sorphirðu næsta árs.

Silja Jóhannesdóttir óskar bókað;
Ljóst er að þetta eru staðreyndir varðandi kostnað á sorphirðu. Hinsvegar er ekki búið að taka neina ákvörðun um hækkun á sorphirðugjöldum til íbúa og sveitarfélögum gert að horfa til lífskjarasamninga í allri ákvarðanatöku um gjaldhækkanir. Mín afstaða er sú að ekki er hægt að velta þessum hækkunum á íbúa að öllu leyti.

Bergur Elías Ágústsson óskar bókað;
Undirritaður vill benda á að þegar upp er staðið munu íbúar sem og fyrirtæki sveitarfélagsins þurfa að bera þann kostnað sem af sorphirðu hlýst.

Kolbrún Ada Gunnardóttir óskar bókað;
Ekki verður tekin ákvörðun um breytingu á gjaldskrá fyrir sorphirðu fyrr en við umræðu um fjárhagsáætlun 2021.
Helena Eydís Ingólfsdóttir tekur undir bókun Kolbrúnar Ödu.

3.Rekstur Norðurþings 2020

Málsnúmer 202002108Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur yfirlit yfir rekstur sveitarfélagsins á tímabilinu janúar til mars 2020.
Lagt fram til kynningar.

4.Aðgerðarhópur Norðurþings til að fást við efnahagsmál vegna Covid-19

Málsnúmer 202003079Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð aðgerðahóps Norðurþings til að fást við efnahagsmál vegna COVID-19 frá 4. maí sl. sem og uppfært minnisblað vegna innheimtumála.
Lagt fram til kynningar.
Minnisblaði vegna innheimtumála er vísað til fjölskylduráðs og skipulags- og framkvæmdaráðs.

5.Málefni Leigufélags Hvamms ehf.

Málsnúmer 202004069Vakta málsnúmer

Umræða um Leigufélagið Hvamm ehf. Fyrir byggðarráði liggur til kynningar minnisblað um stöðu félagsins og framtíðarhorfur.
Lagt fram til kynningar.

6.Hverfisráð Raufarhafnar 2019 - 2021

Málsnúmer 201908035Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð hverfisráðs Raufarhafnar frá 28. apríl sl.
Byggðarráð vísar máli númer 2 til fjölskylduráðs og málum 1, 2, 3, 5 og 6 til skipulags- og framkvæmdaráðs.
Mál númer fjögur sem snýr að endurbótum Breiðabliks á Raufarhöfn hefur verið til umfjöllunar í byggðarráði og á fundi ráðsins þann 30. apríl sl. var sveitarstjóra falið að undirrita samning milli sveitarfélagsins, Hólmsteins Helgasonar ehf. og félags eldri borgara á Raufarhöfn um endurbætur og eignarhald á Breiðabliki.

7.Fundargerðir 2020 - Samband íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 202002019Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 882. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 29. apríl sl.
Lagt fram til kynningar.

8.Bærinn minn, nýr þáttur á Hringbraut - Norðurþing

Málsnúmer 202004105Vakta málsnúmer

Sjónvarpsstöðin Hringbraut fer af stað með nýja þáttaröð í lok maí sem kallast "Bærinn minn" þar fer Sigmundur Ernir hringinn í kringum Ísland og heimsækir bæjarfélög. Norðurþingi býðst tækifæri til að kynna sveitarfélagið fyrir landsmönnum í einum af 8 þáttunum sem gerðir verða.
Byggðarráð þakkar erindið en sér sér ekki fært að taka tilboðinu að þessu sinni.

9.Allsherjar- og menntamálanefnd: Til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna, 715. mál.

Málsnúmer 202004109Vakta málsnúmer

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskar eftir umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna (aðilar utan Evrópska efnahagssvæðisins, landeignaskrá, ráðstöfun landeigna, aukið gagnsæi o.fl.),715. mál.
Þess er óskað að undirrituð umsögn berist eigi síðar en 21. maí nk.
Lagt fram til kynningar.

10.Ósk um styrk vegna birtingarátaks á innanlandsmarkaði

Málsnúmer 202005028Vakta málsnúmer

Borist hefur ósk frá Húsavíkurstofu um styrk frá sveitarfélaginu vegna birtingarátaks á innanlandsmarkaði í tengslum við tilboð ferðaþjónustuaðila á svæðinu í sumar.
Byggðarráð samþykkir að veita 500 þúsund króna styrk til birtingarátaks í tengslum við tilboð ferðaþjónustuaðila á svæðinu í sumar.

Fundi slitið - kl. 11:25.