Fara í efni

Hverfisráð Raufarhafnar 2019 - 2021

Málsnúmer 201908035

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 310. fundur - 28.11.2019

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 11. fundar hverfisráðs Raufarhafnar frá 28. október s.l.
Byggðarráð vísar liðum númer 3, 4, 6 og 9 til skipulags- og framkvæmdaráðs og liðum 5 og 7 til fjölskylduráðs.

Byggðarráð felur staðgengli sveitarstjóra að eiga samtal við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra varðandi uppsetningu eftirlitsmyndavéla í byggðakjarnanum.

Byggðarráð þakkar ábendingu í lið 8 um viðveru starfsmanna og kjörinna fulltrúa á Raufarhöfn og stefnir að því að halda reglubundinn fund sinn þar í upphafi nýs árs.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 53. fundur - 17.12.2019

Á fundi byggðaráðs var tekin fyrir fundargerð 11. fundar hverfisráðs Raufarhafnar frá 28. október s.l.
Byggðarráð vísar liðum númer 3, 4, 6 og 9 til skipulags-og framkvæmdaráðs.
3) Viðhald eigna á Raufarhöfn
4) Öryggisvöktun með eftirlitsmyndavélum á Raufarhöfn
6) Staðan á SR-lóð
9) Ósk um lista yfir eignir NÞ á Raufarhöfn ásamt rekstrarkostnað þeirra.
Liður 3 - Viðhald eigna á Raufarhöfn
Til stendur að fara í viðhald á þaki ráðhússins. Sömuleiðis stendur til að fara í endurbætur á kvennasalerni í Hnitbjörgum.

Liður 4 - Öryggisvöktun með eftirlitsmyndavélum á Raufarhöfn
Byggðaráð hefur þegar falið sveitarstjóra að eiga samtal við embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.

Liður 6 - Staðan á SR-lóð
Enginn nefnd er sértaklega að störfum varðandi SR-lóðina. Fyrir liggur niðurstaða starfshóps sem skilaði niðurstöðum haustið 2018. Ráðið tekur undir áhyggjur hverfisráðsins varðandi hættu af foktjóni.

Liður 9 - Ósk um lista yfir eignir NÞ á Raufarhöfn ásamt rekstrarkostnað þeirra.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að taka saman lista yfir eignir á Raufarhöfn og rekstrarkostnað og senda á hverfisráðið

Fjölskylduráð - 52. fundur - 06.01.2020

Á 310. fundi Byggðarráðs var liðum 5 og 7 úr 11.fundargerð Hverfisráðs Raufarhafnar vísað til Fjölskylduráðs Norðurþings.
Á 2. fundi fjölskylduráðs samþykkti ráðið kaup á tveimur ærslabelgjum sem skyldu staðsettir á Kópaskeri og á Húsavík. Ráðið lýsti einnig áhuga á að kaupa þann þriðja til þess að staðsetja á Raufarhöfn. Ráðið sér sér ekki fært að verða við ósk Hverfisráðs Raufarhafnar um kaup á ærslabelg á árinu 2020.

Fjölskylduráð ber fullt traust til skólastjórnenda að taka ákvörðun um hagkvæmasta fyrirkomulagið á íþrótta- og sundkennslu. Ákvörðun um lokun sundlaugarinnar á Raufarhöfn yfir vetrartímann var m.a. byggð á aðsóknartölum í sundlaugina sem og niðurskurðarkröfu í rekstri sveitarfélagsins. Einnig hefur verið tekin ákvörðun um að taka upp aðgangsstýringu sem eykur opnunartímann í íþróttamannvirkinu sbr. 7 lið þessarar fundargerðar.

Ráðið hvetur ibúa Raufarhafnar til að nýta sér aðgangskort að íþróttamannvirkjum.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 57. fundur - 04.02.2020

Fyrir ráðinu liggur fundargerð fundar Hverfisráðs Raufarhafnar og fulltrúa Norðurþings frá því 30. janúar síðastliðinn. Mikið var rætt um framtíð Breiðabliks og SR - lóðarinnar. Til kynningar fyrir ráðið og umræðu.
Lagt fram til kynningar.

Byggðarráð Norðurþings - 320. fundur - 12.03.2020

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð hverfisráðs Raufarhafnar frá 25.febrúar 2020.
Byggðarráð vísar máli 1 og 3 til fjölskylduráðs og máli 4 til skipulags- og framkvæmdaráðs.

Mál 2 "Tækjakaup í heilsurækt" hefur þegar verið tekið fyrir í skipulags- og framkvæmdaráði og var vísað til byggðarráðs. Málið verður á dagskrá á næsta fundi ráðsins.

Fundargerð hverfisráðs verður birt á vef sveitarfélagsins.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 62. fundur - 24.03.2020

Byggðarráð vísaði lið 4 frá fundargerð hverfisráðs Raufarhafnar til skipulags- og framkvæmdaráðs.
4. liður í fundargerð lýtur að opnun og umgengni við gámasvæði á Raufarhöfn.
Skipulags- og framkvæmdaráð ákveður að sorpmóttakan á Raufarhöfn verði opin milli kl. 08:00 og 17:00 virka daga. Starfsmaður Norðurþings hafi viðveru í sorpmóttöku á milli kl. 16:00 og 17:00 mánudaga-fimmtudaga í þrjár vikur. Að þeim tíma liðnum verði fyrirkomulagið endurskoðað.

Byggðarráð Norðurþings - 326. fundur - 07.05.2020

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð hverfisráðs Raufarhafnar frá 28. apríl sl.
Byggðarráð vísar máli númer 2 til fjölskylduráðs og málum 1, 2, 3, 5 og 6 til skipulags- og framkvæmdaráðs.
Mál númer fjögur sem snýr að endurbótum Breiðabliks á Raufarhöfn hefur verið til umfjöllunar í byggðarráði og á fundi ráðsins þann 30. apríl sl. var sveitarstjóra falið að undirrita samning milli sveitarfélagsins, Hólmsteins Helgasonar ehf. og félags eldri borgara á Raufarhöfn um endurbætur og eignarhald á Breiðabliki.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 67. fundur - 12.05.2020

Fundargerð hverfisráðs Raufarhafnar. Byggðarráð vísar málum 1, 2, 3, 5 og 6 til skipulags- og framkvæmdaráðs.
1. Hreinsunardagur 23. maí.
2. Íþróttahús, ýmsar spurningar.
3. Félagsheimili. Hvenær á að fara í viðgerðir/framkvæmdir?
5. Almennar framkvæmdir. Hverfisráð óskar eftir verkefna- og framkvæmdalista fyrir Raufarhöfn fyrir árið 2020.
6. Vegaskemmdir í þorpinu.
1. Hreinsunardagur 23. maí.
Skipulags- og framkvæmdaráð fagnar frumkvæðinu og hvetur Nönnu Steinu að vera í sambandi við umhverfisstjóra ef eitthvað vantar til að dagurinn takist sem best.

2. Íþróttahús, ýmsar spurningar. Hvaða dag verður framkvæmdum lokið í húsinu og vatn komið í laugina?
Skipulags- og framkvæmdaráð felur Framkvæmda- og þjónustufulltrúa að svara erindinu. Umsjónarmaður fasteigna er í fæðingarorlofi en kemur til vinnu í næstu viku. Öðrum spurningum þessa liðs er vísað til fjölskylduráðs.

3. Félagsheimili. Hvenær á að fara í viðgerðir/framkvæmdir?
Framkvæmdum við húsið er slegið á frest vegna breytinga á framkvæmdaáætlun.

5. Almennar framkvæmdir. Hverfisráð óskar eftir verkefna- og framkvæmdalista fyrir Raufarhöfn fyrir árið 2020.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að svara erindinu.

6. Vegaskemmdir í þorpinu.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að kostnaðarmeta viðgerðir á götum á Raufarhöfn og Kópaskeri og leggja fyrir ráðið á næsta fundi ráðsins.


Fjölskylduráð - 64. fundur - 25.05.2020

Á 326. fundi Byggðarráðs Norðurþings var máli nr. 2 úr fundargerð Hverfisráðs Raufarhafnar þann 28.apríl 2020 vísað til fjölskylduráðs þar sem óskað var eftir formlegum svörum við eftirfarandi spurningum:
1. Hvernig verður opnunartíma háttað í sumar?
2. Hvernig verður opnunartíma háttað á komandi vetri?
Verður tekið tillit til óska heimamanna um opnunartíma?
3. Hvaða dag verður framkvæmdum lokið í húsinu og vatn komið í laugina.
4. Þar sem börn komust ekki í Lund í sundkennslu þetta vor spyrjum við: hvort lögboðin sundkennsla verði í boði hér á Raufarhöfn, það sem eftir lifir skólaárs.
Fjölskylduráð þakkar hverfisráðinu fyrirspurnirnar.

1. Hvernig verður opnunartíma háttað í sumar?
Ráðið ítrekar bókun sína frá því á 56. fundi og 61. fundi ráðsins, um opnunartíma sundlaugarinnar í sumar, þ.e. virka daga frá kl. 16:30 - 19:30 og um helgar frá kl. 14:00 - 17:00.

2. Hvernig verður opnunartíma háttað á komandi vetri?
Verður tekið tillit til óska heimamanna um opnunartíma?
Ráðið ítrekar bókun sína frá 57. fundi ráðsins að opnunartími sundlaugarinnar næsta vetur verði ákveðinn á fundi ráðsins í ágúst.

3. Hvaða dag verður framkvæmdum lokið í húsinu og vatn komið í laugina?
Framkvæmdum er nú lokið við sundlaugina og verið er að láta renna í laugina og hita vatnið. Vonir standa til að hægt verði að opna sundlaugina næstkomandi föstudag, 29. maí.

4. Þar sem börn komust ekki í Lund í sundkennslu þetta vor spyrjum við: hvort lögboðin sundkennsla verði í boði hér á Raufarhöfn, það sem eftir lifir skólaárs?

Þann 21. apríl sendu skólastjórar á Raufarhöfn og í Lundi sviðstjórum og sveitarstjóra bréf þar sem þeir tilkynntu um ákvörðun sína um að fella niður skólasund vorið 2020 vegna Covid-19 og að nemendur fái sundkennslu þess í stað haustið 2020. Stefnt er á kennslu á Raufarhöfn og í Lundi.


Byggðarráð Norðurþings - 336. fundur - 20.08.2020

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð hverfisráðs Raufarhafnar frá 15. júlí sl.
Byggðarráði vísar málum úr fundargerðinni sem hér segir;

Máli nr. 1 til sveitarstjórnar.
Máli nr. 2 og 4 til fjölskylduráðs.
Máli nr. 3 og 5 til skipulags- og framkvæmdaráðs.

Varðandi mál nr. 6 þakkar byggðarráð fyrir ábendinguna og vísar máli nr. 6 til fjárhagsáætlunargerðar.

Sveitarstjórn Norðurþings - 105. fundur - 25.08.2020

Á 336. fundi byggðarráðs vísaði ráðið máli nr. 1 úr fundargerð hverfisráðs Raufarhafnar til sveitarstjórnar.

Eftirfarandi var bókað hjá hverfisráði Raufarhafnar undir máli nr. 1 í fundargerð þeirra frá 15.7.2020 sl.:
Frumherji hefur ákveðið að hætta þjónustu á Kópaskeri og nágrenni eftir að starfsmaður Frumherja á Húsavík hættir störfum. Samstarfssamningi við verkstæðið Röndin á Kópaskeri hefur verið sagt upp.
Hverfisráð Raufarhafnar harmar þá ákvörðun Frumherja að hætta bifreiðaskoðun á Kópaskeri og hvetur stjórnendur fyrirtækisins að endurskoða hana. Íbúar Kópaskers,Raufarhafnar og nágrennis þurfa eftir þetta að aka um langan veg eða 260 km, og taka sér frí úr vinnu a.m.k. í einn dag til að láta skoða ökutæki sín, sem er óboðlegt.Einnig er staðan hjá vertökum með vörubíla bagaleg hvað þetta varðar.
Hverfisráð Raufarhafnar óskar eftir því að sveitastjórn komi þessum mótmælum á framfæri og aðstoði íbúar við þetta brýna mál, einnig að leita til annara aðila sem mögulega gætu sinnt þessari þjónustu við íbúa sveitarfélagsins.


Til máls tóku: Kristján Þór, Hjálmar og Kolbrún Ada.

Sveitarstjórn Norðurþings tekur heilshugar undir bókun Hverfisráðs Raufarhafnar vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á þjónustu Frumherja við íbúa sveitarfélagsins, sem nú þurfa að sækja lögbundna bifreiðaskoðun um alltof langan veg. Það er afar slæmt að ekki sé hægt að tryggja lágmarksþjónustu sem þessa við bifreiðaeigendur sem búa lengra frá stærri þéttbýliskjörnum á landsbyggðinni. Skorar sveitarstjórn Norðurþings á Frumherja, í samtali við ríkisvaldið að snúa þessari ákvörðun við og finna leið til þess að þjónusta íbúa sveitarfélagsins austan Húsavíkur með viðunandi hætti.

Fjölskylduráð - 71. fundur - 31.08.2020

Á 336. fundi byggðarráðs vísaði ráðið fundarlið nr.2 er varðar tjaldvæðið á Raufarhöfn og fundarlið nr.4 er varðar Ærslabelg á Raufarhöfn úr 14. fundargerð hverfisráðs Raufarhafnar til fjölskylduráðs.

Hverfisráð óskar eftir því að framtíðarlausn verði fundin sem fyrst fyrir sumarið 2021 er varðar tjaldstæðið, það verður að ráða inn starfsmann sem sinnir tjaldstæðinu á þeim tíma sem gestir eru að koma og fara eða skoða aðrar lausnir ss útboð.

Hverfisráð ítrekar ósk sína vegna ærslabelgs á Raufahöfn. Og reiknar með að gert sé ráð fyrir honum í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021. Slíkir belgir voru settir upp á Kópaskeri og á Húsavík sumarið 2019
Fjölskylduráð vísar umræðu um ærslabelg á Raufarhöfn og framtíðarlausn hvað varðar t.a.m aðstöðu- og starfsmannamál fyrir tjaldsvæðið á Raufarhöfn til fjárhagsáætlunargerðar 2021.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 76. fundur - 01.09.2020

Byggðarráð vísar liðum 3 og 5 til skipulags- og framkvæmdaráðs.
3. Framkvæmdir í sundlaugarrými. Hverfisráð gerir athugasemdir varðandi glugga sem settir voru upp í vor.
5. Hafnarmannvirki: Hverfisráð vekur athygli á því að viðhald á bryggjum á Raufarhöfn er verulega ábótarvant og þarf nauðsynlega að koma endurbótum í farveg sem fyrst.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar hverfisráði Raufarhafnar fyrir ábendingarnar. Ekki stendur til að skipta um nýja glugga í sundlaugarrými og ekki stendur til að fara að vinna í hljóðvistun árið 2020. Reynt er að viðhalda hafnamannvirkjun eftir bestu getu.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 82. fundur - 10.11.2020

Fyrir fundi Skipulags- og framkvæmdaráðs liggur fundargerð Hverfisráðs Raufarhafnar frá 28.10.2020, en hún er lögð fyrir ráðið án viðkomu í byggðaráði þar sem innihaldið lýtur mestmegnis að viðhaldi húsnæðis og hafnarmannvirkja.

Skipulags- og framkvæmdararáð hefur tekið saman minnisblað og fær hverfisráð það sent.

Byggðarráð Norðurþings - 351. fundur - 28.01.2021

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð Hverfisráðs Raufarhafnar frá 28. október 2020.
Kristján Þór Magnússon vék af fundi kl. 11:20.
Byggðarráð frestar afgreiðslu liða númer 4 og 5.
Byggðarráð vísar máli númer 6 til fjölskylduráðs.
Önnur mál hafa hlotið umfjöllun í skipulags- og framkvæmdaráði.

Byggðarráð Norðurþings - 352. fundur - 04.02.2021

Á 351. fundi byggðarráðs var bókað;
Byggðarráð frestar afgreiðslu liða númer 4 og 5.
Byggðarráð fellst ekki á kaup á eftirlitsmyndavélum við innkomu í þorpið á Raufarhöfn þar sem ráðið telur að uppsetning og rekstur eftirlitsmyndavéla eigi að vera á höndum ríkisins en ekki sveitarfélagsins.

Byggðarráð tekur hins vegar undir sjónarmið hverfisráðs Raufarhafnar um nauðsyn aukins eftirlits í þorpinu. Lögreglan hefur ekki fastan starfsmann í þorpinu en eftirlitsmyndavélar gætu orðið að miklu gagni við eftirlit.
Sveitarstjóra er falið að eiga samtal við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra um uppsetningu og rekstur eftirlitsmyndavéla á Raufarhöfn.

Sveitarstjóra er falið að leita tilboða vegna kaupa á vefmyndavél og uppsetningu hennar við höfnina á Raufarhöfn.

Fjölskylduráð - 83. fundur - 08.02.2021

Á 351. fundi byggðarráðs var fundarlið 6 úr fundargerð hverfisráðs Raufarhafnar frá 28. október sl. vísað til fjölskylduráðs en þar segir eftirfarandi: Hverfisráð ítrekar ósk sína vegna ærslabelgs á Raufarhöfn. Og vonast til að hægt verði að gera ráð fyrir honum í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 eins og lagt var upp með þegar slíkir belgir voru settir upp á Kópasker og á Húsavík sumarið 2019.
Fjölskylduráð óskar eftir því við skipulags- og framkvæmdaráð að málefni Ærslabelgs á Raufarhöfn verði tekið upp við gerð fjárhagsáætlunar 2022.

Byggðarráð Norðurþings - 360. fundur - 29.04.2021

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð Hverfisráðs Raufarhafnar frá 20. apríl sl.
Byggðarráð vísar málum númer 1 - 6 og 9 til skipulags- og framkvæmdaráðs og máli númer 7 til fjölskylduráðs.
Byggðarráð tekur undir mál númer 6.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 96. fundur - 04.05.2021

Fyrir fundi liggur fundargerð hverfisráðs Raufarhafnar frá 20. apríl sl.
Byggðarráð vísar málum númer 1 - 6 og 9 til skipulags- og framkvæmdaráðs og máli númer 7 til fjölskylduráðs.
Byggðarráð tekur undir mál númer 6.
1. Umhverfið á Raufarhöfn
Skipulags- og framkvæmdaráð telur jákvætt að íbúar og félög taki sig saman á svona opinberum hreinsunardögum.
2. Lýsing ljósastaurar. Skipulags- og framkvæmdaráð bendir fulltrúum hverfisráðs á að senda póst á Vegagerðina og biðja um upplýsingar. Fulltrúar Vegagerðarinnar mættu á 92. fund ráðsins og þar voru þessi mál meðal annars rædd.
3. Lækkun hámarkshraða. Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að senda erindið til Vegagerðar og upplýsa hverfisráð um framgang málsins.
4. Þak á ráðhúsi. Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar áskorunina um að ganga í það að skipta um þak og býður eftir uppfærðri kostnaðaráætlun en það rúmast ekki innan framkvæmdaáætlunar fyrir árið 2021 og vísar málinu til fjárhagsáætlunargerðar árið 2022.
5. Gangstéttir á Raufarhöfn. Fyrirhugað er að skoða ráðningar sumarstarfsfólks á Raufarhöfn og er skipulags- og framkvæmdaráð jákvætt hvað það varðar. Framkvæmda- og þjónustufulltrúi er að vinna í þessum málum og er málið í farvegi.
6. SR lóð. Skipulags- og framkvæmdaráð tekur undir með Hverfisráði og lóðin og frágangur varðandi hana verið til umræðu. Ljóst er að í dag kostar um 100 milljónir ef það ætti að hreinsa lóðina og hefði þurft að taka á þessu máli miklu fyrr.
9. Höfnin. Umrædd verkefni eru í farvegi eða afgreidd nú þegar.

Undirritaður óskar bókað undir lið 6. SR lóð á Raufarhöfn. Á sínum tíma voru lagði fram fjármunir af SVN, ríkissjóði og sveitarfélaginu Norðurþingi til þessa verkefnis. Rætt var um að nota fjármunina til uppbyggingar eða niðurrifs. Því miður náðist ekki sátt um á sínum tíma hvaða leið skildi farin, enda verkefni umfangsmikið og í hjarta Raufarhafnar. Sé orðin almenn sátt um að taka niður eignir SR á Raufahöfn, er rétt að benda á að eyrnamerktir hafa verið fjármunir sem nema um helming þess kostnaðar sem getið er við frágang svæðisins. Er þá vísað til samkomulags milli fyrrnefndar aðila. Ríki sátt er því raun og veru hægt að hefjast handa nú þegar. Að vísa til fjárhagsáætlunar í þessu samhengi er ekki við hæfi þar sem fjármunir hafa verið eyrnamerktir til verkefnisins. Málið snýst um að taka ákvörðun.
Bergur Elías Ágústsson

Bergur Elías leggur fram eftirfarandi tillögu með vísan til bókunar.
Lagt er til að gengið verði í verkið með þeim fjármunum sem eyrnamerktir hafa verið sem eru um 50 m.kr. Þurfi meiri fjármuni skal það tekið með viðauka eða sett inn í framkvæmdaáætlun næsta árs.
Tillagan er samþykkt með atkvæðum Bergs Elíasar Ágústssonar, Ástu Hermannsdóttur, Guðmundar H. Halldórssonar og Kristins J. Lund.
Silja Jóhannesdóttir situr hjá.



Fjölskylduráð - 92. fundur - 31.05.2021

Á 360. fundi Byggðarráðs Norðurþings var eftirfarandi bókað: Byggðarráð vísar málum númer 1 - 6 og 9 til skipulags- og framkvæmdaráðs og máli númer 7 til fjölskylduráðs. Byggðarráð tekur undir mál númer 6.

7. liður fundargerðar Hverfisráðs Raufarhafnar fjallar um ósk Hverfisráðs við fjölskylduráð að séð verði til þess að leikskólinn á Raufarhöfn verði opin áfram á komandi hausti þrátt fyrir að mögulega verði lágmarksfjöldi barna ekki uppfylltur.
Fjölskylduráð hefur engin áform um að loka leikskóladeildinni á Raufarhöfn að svo stöddu.