Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

57. fundur 04. febrúar 2020 kl. 14:00 - 16:45 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
  • Guðmundur Halldór Halldórsson aðalmaður
  • Heiðar Hrafn Halldórsson aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Kristján Þór Magnússon
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri
  • Berglind Jóna Þorláksdóttir Ritari
  • Röðull Reyr Kárason Ritari
Fundargerð ritaði: Berglind Jóna Þorláksdóttir skrifstofu- og skjalastjóri
Dagskrá
Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingarfulltrúi sat fundinn undir lið 1 - 3.
Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi sat fundinn undir lið 1-14.
Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri sat fundinn undir lið 1-6.
Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri sat fundinn undir lið 1-6 og 10-14.

Friðrik Sigurðsson f.h. Bakkakróks sat fundinn undir lið 1.
Sif Jónsdóttir og Hilmar Kári Þráinsson fulltrúar í Hverfisráð Reykjahverfis sátu fundinn undir lið 8.

1.Erindi Bakkakróks til Norðurþings vegna Bakkavegs 4

Málsnúmer 202001131Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur erindi Bakkakróks ehf. varðandi lóðina að Bakkavegi 4. Annars vegar er um að ræða ósk um breytingu á nýtingarhlutfalli lóðarinnar og hins vegar er óskað eftir fundi til að gera samkomulag um lagningu bráðabirgðavegar inn á lóðina, væntanlega frá núverandi vegi að verksmiðju PCC og áfram í vestur.


Á 314. fundi byggðarráðs Norðurþings var eftirfarandi bókað um málið: Byggðarráð felur sveitarstjóra að koma á fundi með forsvarsmönnum Bakkakróks ehf. og fulltrúum skipulags- og framkvæmdaráðs og byggðarráðs. Einnig felur ráðið sveitarstjóra að funda áfram um vegalagningu á Bakka með fulltrúum viðeigandi ráðuneyta.
Friðrik Sigurðsson fjármálastjóri og einn eiganda Steinsteypis ehf. kynnti málið fyrir ráðinu.


Skipulags- og framkvæmdaráð tekur jákvætt í erindið og leggur til við sveitarstjórn að nýtingarhlutfallið lóðarinnar verði 0,15 í stað 0,40 í ljósi annmarka á nýtingarmöguleikum á lóðinni. Ráðið felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa og sveitarstjóra að hefja viðræður um mögulega uppbyggingu innviða á svæðinu.

2.Erindi frá Búfesti hsf. Ósk um samþykki fyrir fráviki frá gildandi deiliskipulagi að Grundargarði 2 og Ásgarðsvegi 27

Málsnúmer 201911066Vakta málsnúmer

Nú er lokið grenndarkynningu á breytingu deiliskipulags íbúðarsvæðis Í5. Engar athugasemdir bárust.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulagsbreytingin verði samþykkt eins og hún var kynnt.

3.Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu v/Sólbrekku 21

Málsnúmer 202001126Vakta málsnúmer

Árni Pétur Aðalsteinsson og Kaja Martina Kristjánsdóttir óska eftir byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húseign sína að Sólbrekku 21 á Húsavík.
Viðbygging, sem hugsuð er sem geymsla, er steinsteypt, 77,3 m² og að mestu niðurgrafin. Þak byggingarinnar er hugsað sem útivistaraðstaða á lóðinni. Fyrir liggur skriflegt samþykki aðliggjandi nágranna að Sólbrekku 23. Teikning er unnin af Vigfúsi Sigurðssyni byggingartæknifræðingi.
Í ljósi þess að fyrirhuguð bygging er að mestu niðurgrafin og mun því hafa óveruleg áhrif á útsýni nágranna telur skipulags- og framkvæmdaráð ekki þörf á frekari grenndarkynningu og heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni þegar fullnægjandi gögnum þar að lútandi hefur verið skilað.

4.Framkvæmdaáætlun hafnasjóðs 2019

Málsnúmer 201810048Vakta málsnúmer

Óskað er eftir tilfærslu fjármagns á framkvæmdaáætlun hafnasjóðs 2019 að upphæð 2,3 m.kr. til að hægt sé að klára verkið. Fjárhæð þessi rúmast innan framkvæmdaáætlunarinnar og er því einungis um tilfærslu að ræða.
Fjármagn færist af verkinu - Ófyrirséður kostnaður á Bökugarði.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir tilfærsluna.

5.Hafnasamband Íslands - Fundargerðir 2020

Málsnúmer 202001107Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggja til kynningar 419. fundargerð hafnasambands Íslands og 20. fundargerð Siglingaráðs.
Lagt fram til kynningar.

6.Ástand göngustígs frá Húsavíkurkrikju á hafnarsvæði

Málsnúmer 202001164Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur erindi frá Valdimar Halldórssyni varðandi ástand göngustígs frá Húsavíkurkirkju á hafnarsvæði.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að kanna mögulegar útfærslur við viðhald stigans og leggja fyrir ráðið að nýju.

7.Reykjaheiðarvegur - Yfirborðsfrágangur

Málsnúmer 201807037Vakta málsnúmer

Til kynningar fyrir skipulags- og frakmvæmdaráði eru þau tilboð sem bárust í verkefnið "Gatnaframkvæmdir við Reykjaheiðarveg" sem sett hefur verið á framkvæmdaáætlun 2020.
Heiðar Hrafn Halldórsson, Hjálmar Bogi Hafliðason og Kristján Friðrik Sigurðsson bóka eftirfarandi:
Áhættumat vegna framkvæmdarinnar er fyrst núna að birtast ráðinu til kynningar. Það er því ástæða til að fresta ákvörðun um framhald verksins að svo stöddu.

Kristinn Jóhann Lund tekur undir bókunina.

Skipulags- og framkvæmdaráð frestar ákvörðunartöku þangað til að frekari kynning á áhættumati liggur fyrir.

8.Snjómokstur í Reykjahverfi 2019-2020

Málsnúmer 201911057Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggja drög að tímabundnum samningi vegna snjómoksturs í Reykjahverfi og er gert ráð fyrir að samningurinn muni gilda út apríl 2020. Óskað er afstöðu ráðsins til fyrirliggja samningsdraga og ákvörðunar um val á verktaka svo hægt sé að ganga frá snjómoksturssamningi í Reykjahverfi hið fyrsta.
Hilmar Kári Þráinsson og Sif Jónsdóttir frá hverfisráði Reykjahverfis sátu fundinn undir þessum lið.

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til að verklagsreglurnar sem hér eru framsettar verði bornar undir verktaka sem nú þegar sinnir snjómokstri í Reykjahverfi.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að óska eftir einingaverði í moksturinn fram að útboði sem fyrirhugað er í vor. Niðurstaða verður lögð fyrir ráðið á næsta fundi þess.

9.Ökutæki 2019-2020

Málsnúmer 201909007Vakta málsnúmer

Fyrir fundi liggur kynning á framvindu fjárfestingar framkvæmdasviðs á nýju ökutæki.
Vinnutækið er Iveco Daily 70S18HA8 WX 4X4 og verður útbúin 3way sturtupalli og Palfinger PK4200A krana.
Mun nýr bíll leysa af hólmi eldri og óhagkvæma Man vörubifreið, eldri Iveco Daily bifreið auk Ford transit pallbíl sem þegar hefur verið færður yfir til hafnarinnar.
Uppsetning bílsins miðast við að geta sinnt öllum daglegum verkefnum Þjónustumiðstöðvar allt árið um kring, bæta vinnuaðstöðu og sjálfbærni starfsfólks í verkefnum þar sem færa þarf þunga hluti/tæki eða við smávægilega efnisflutninga. Ásamt því er bíllinn þannig útbúinn að hann geti unnið við erfiðar aðstæður þar sem aðgengi er ekki gott.
Lagt er upp með að tækið verði selt út á daggjaldi samkvæmt gjaldskrá Þjónustumiðstöðvar Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

10.Umsókn um lóð norðan Kópaskers.

Málsnúmer 201909028Vakta málsnúmer

Hverfisráð Öxarfjarðar sendi erindi og bað um að fá þetta mál til umsagnar vegna nálægðar lands við þorpið, fyrirætlanir um að nýta lífrænan úrgang sem áburð og hættu á foki.
Skipulags- og framkvæmdaráð frestar undirritun á samningi og vísar erindinu til umsagnar í Hverfisráð Öxarfjarðar.

11.Hverfisráð Raufarhafnar 2019 - 2021

Málsnúmer 201908035Vakta málsnúmer

Fyrir ráðinu liggur fundargerð fundar Hverfisráðs Raufarhafnar og fulltrúa Norðurþings frá því 30. janúar síðastliðinn. Mikið var rætt um framtíð Breiðabliks og SR - lóðarinnar. Til kynningar fyrir ráðið og umræðu.
Lagt fram til kynningar.

12.Byggðaáætlun - Náttúruvernd og efling byggða

Málsnúmer 202001130Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur erindi frá SSNE vegna byggðaáætlunar-náttúruvernd og efling byggða. SSNE óskar eftir hugmyndum að mögulegum verkefnum sem falla undir þann lið byggðaáætlunarinnar.
Skipulags- og framkvæmdaráð hvetur hverfisráð Norðurþings til að skoða verkefnið með þeirra svæði að leiðarljósi. Skilafrestur á hugmyndum er til 24. febrúar n.k.

13.Gallupkönnun - Þjónusta sveitarfélaga 2019

Málsnúmer 201909091Vakta málsnúmer

Norðurþing var eins og undanfarin ár þátttakandi í árlegum spurningavagni Gallup um þjónustu sveitarfélaga á Íslandi. Könnunin fór fram í nóvember og desember 2019 og liggja niðurstöður nú fyrir til kynningar.
Lagt fram til kynningar.

14.Upplýsandi skýrslur frá Þekkingarneti Þingeyinga

Málsnúmer 202001116Vakta málsnúmer

Þekkingarnet Þingeyinga hefur gefið út þrjár skýrslur sem hagnýta má til grundvallar stefnumörkun og ákvarðanatöku á ýmsum sviðum. Skýrslurnar eru; samantekt á mannfjöldaþróun í Þingeyjarsýslum á tímabilinu 2010-2019 og niðurstöður viðhorfsrannsóknar um búsetugæði í Þingeyjarsýslum árið 2018 og samanburður við hliðstæða könnun frá 2009.
Sú þriðja fjallar um niðurstöður rannsóknar um svæðisbundna stýringu hafsvæða með Skjálfanda sem raundæmi. Þar er tekið á skipulagi haf- og strandsvæða og ferlinu í kringum það. Skýrslan liggur hér fyrir til kynningar.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 16:45.