Fara í efni

Fjölskylduráð

64. fundur 25. maí 2020 kl. 13:00 - 17:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Benóný Valur Jakobsson aðalmaður
  • Bylgja Steingrímsdóttir aðalmaður
  • Ásta Hermannsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Berglind Hauks varaformaður
  • Eiður Pétursson aðalmaður
  • Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir formaður
Starfsmenn
  • Jón Höskuldsson fræðslufulltrúi
  • Kjartan Páll Þórarinsson Íþrótta- og tómstundafulltrúi
  • Röðull Reyr Kárason Ritari
  • Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir fjölmenningarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Röðull Reyr Kárason Þjónustufulltrúi
Dagskrá
Jón Höskuldsson fræðslufulltrúi sat fundinn undir lið 1 - 4.
Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir fjölmenningarfulltrúi sat fundinn undir lið 5-7.
Kjartan Páll Þórarinsson íþrótta- og tómstundafulltrúi sat fundinn undir lið 8. - 13.


Benóný Valur vék af fundi kl. 15:50.

1.Staða mála á fjölskyldusviði Norðurþings vegna COVID-19

Málsnúmer 202004073Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð bókaði eftirfarandi á fund sínum þann 27. apríl sl.
"Sviðstjórar gerðu stuttlega grein fyrir starfi sviðsins. Fjölskylduráð óskar eftir því að tekin verði saman gögn um mætingu nemenda sem og starfsmanna í skólum og frístund Norðurþings á tímum covid frá 16. mars til 4. maí. Minnisblað með þessum upplýsingum verði lagt fyrir fjölskylduráð 11. maí svo hægt verði að meta umfang og viðbrögð á þessum fordæmalausu tímum og nýta þá þekkingu og þau viðbrögð til að læra af þeim."
Fjölskylduráð ræddi minnisblað sviðstjóra um mætingu nemenda og starfsmanna í skólum og Frístund Norðurþings á tímum Covid-19.
Ráðið vill koma kærum þökkum til stjórnenda, starfsmanna, nemenda og foreldra þeirra fyrir gott samstarf og úrlausnum á erfiðum viðfangsefnum.

2.Tónlistarskóli Húsavíkur - Hljómsveitarstarf unglinga

Málsnúmer 202005034Vakta málsnúmer

Fyrir fjölskylduráði liggur erindi frá Tónlistarskóla Húsavíkur um hljómsveitarstarf unglinga.
Fjölskylduráð þakkar skólastjóra Tónlistarskóla Húsavíkur fyrir erindið. Ráðið felur íþrótta- og tómstundafulltrúa og fræðslufulltrúa að gera kostnaðaráætlun og útfæra hugmyndir að rekstri slíks húsnæðis í samráði við skólastjóra Tónlistaskólans.

3.Húsnæði frístundar á Húsavík

Málsnúmer 202004032Vakta málsnúmer

Fyrir fjölskylduráði liggur minnisblað íþrótta- og tómstundafulltrúa og sérálit skólastjóra Borgarhólsskóla um húsnæði frístundar á Húsavík.
Áður var fjallað um málið á 60. fundi fjölskylduráðs.
Fjölskylduráð fjallaði um minnisblað íþrótta- og tómstundafulltrúa og sérálit skólastjóra Borgarhólsskóla um húsnæði frístundar á Húsavík. Ráðið ákveður að fengnu áliti ofantaldra að Frístund verði áfram í núverandi húsnæði. Stefnt er að auknu samstarfi við Borgarhólsskóla. Íþrótta- og tómstundafulltrúa og fræðslufulltrúa er falið í samráði við skólastjórnendur að vinna minnisblað um mögulegar útfærslur á því samstarfi.

Fjölskylduráð óskar eftir því við Orkuveitu Húsavíkur að velvilji sé fyrir því að frístundastarf fyrir börn með stuðning fái afnot af húsnæði Orkuveitunnar á Vallholtsvegi til frístundarstarfs sem og skammtímavistunnar frá og með 25. maí 2020 til til 1. júní 2022.

4.Grænuvellir - Skóladagatal 2020-2021

Málsnúmer 202004031Vakta málsnúmer

Á 103. fundi sveitarstjórnar var eftirfarandi bókað um málið:

Hafrún leggur fram eftirfarandi bókun:
Samkvæmt þessu dagatali verður starfsmannafundum fækkað og þeir lengdir en tímasetningar breytast líka. Starfsmannafundirnir verða á mánudagsmorgnum frá kl. 08:00-12:00 í stað þess að vera á milli kl. 14:00-16:00 á föstudögum. Hvaða sjónarmið voru á bakvið þessa ákvörðun? Ef það eru hagræðingar sjónarmið myndi ég gjarnan vilja vita hvað felst í þeirri hagræðingu, hvort sem það eru fjárhagsleg sjónarmið eða ekki.
Sjónarmið fjölskylduráð að höfðu samráði við leikskólastjóra eru þríþætt: Ráðið telur það vera til hagræðingar fyrir foreldra að fækka starfsmannafundum úr sex í þrjá. Lengri fundartími starfsfólks nýtist betur hvað varðar undirbúning á faglegu starfi skólans. Fjárhagslegur ávinningur er umtalsverður þar sem ekki þarf að greiða fyrir yfirvinnu starfsfólks í hlutastarfi á fundartíma.

5.Jógvan og Friðrik á tónleikaferðalagi

Málsnúmer 202005092Vakta málsnúmer

Jógvan Hansen og Friðrik Ómar óska eftir styrk frá sveitarfélaginu vegna fyrirhugaðra tónleika á Húsavík í sumar.
Fjölskylduráð þakkar Jógvan og Friðriki Ómari fyrir erindið en hafnar því.

6.Umsókn í lista- og menningarsjóð 2020

Málsnúmer 202005048Vakta málsnúmer

Fransesco Perini sækir um styrk að upphæð 75.000 kr. í lista- og menningarsjóð Norðurþings vegna verkefnisins "VITI - Lights from North-Eastern Iceland"
Fjölskylduráð þakkar Perini fyrir umsóknina og samþykkir að styrkja verkefnið um 50.000 kr. úr lista- og menningarsjóði Norðurþings.

7.17. júní hátíðarhöld á Húsavík og afmælishátíð Húsavíkur

Málsnúmer 202003072Vakta málsnúmer

Á 103. fundi sveitarstjórnar Norðurþings þann 19. maí var samþykkt að fjölskylduráð myndi útfæra stutta dagskrá í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní.
Fjölskylduráð felur 17. júní starfshópnum að útfæra stutta dagskrá í tilefni af þjóðhátíðardeginum 17. júní. Dagskráin verður tekin upp og send út á vef Norðurþings. Dagskráin verður auglýst á vef Norðurþings og Skránni.

8.Jakinn 2020

Málsnúmer 202005032Vakta málsnúmer

Félag kraftamanna hyggst halda aflraunakeppnina Norðurlandsjakann í ágúst 2020.
Óskað er eftir þátttöku Norðurþings í keppninni.
Félagið óskar eftir 200 þúsund króna styrk og gistingu og mat fyrir keppendur.
Unninn verður sjónvarpsþáttur um keppnina þar sem sveitarfélögin fá sína kynningu ásamt umfjöllun um keppnina.
Fjölskylduráð þakkar fyrir erindið og tekur jákvætt í það. Ráðið felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að ræða við forsvarsmenn Norðurlandsjakans um nánari útfærslu á viðburðinum og kostnað honum tengdum.

9.Örnefni í landi Húsavíkur

Málsnúmer 202002055Vakta málsnúmer

Á 99. fundi sveitarstjórnar Norðurþings var samþykkt eftirfarandi tillaga Hjálmars Boga:

Hjálmar leggur til eftirfarandi tillögu:
Hjálmar Bogi Hafliðason leggur til við sveitarstjórn Norðurþings að hafin verði vinna við endurútgáfu á kortabókinni, Húsavíkurland - örnefni og söguminjar í samstarfi við Safnahúsið á Húsavík. Málinu verði vísað til Fjölskylduráðs til úrvinnslu. Bókinni skal sömuleiðis koma í rafrænt form. Árið 1994 gaf Safnahúsið á Húsavík umrædda bók út og á höfundarréttinn. Bókin hefur að geyma örnefnaskrá, örnefnakort, loftmyndir, upplýsingar um gömul hús á Húsavík og fleira. Bókin hefur mikið menningarlegt gildi. Undirritaður hefur þegar rætt við forstöðumann Safnahússins á Húsavík sem hefur lýst áhuga sínum á verkefninu.
Fjölskylduráð felur fjölmenningarfulltrúa að funda fyrir lok septembermánaðar með fulltrúa Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og forsvarsmanni Urðarbrunns til að kanna áhuga þeirra á verkefninu.

10.Skíðasvæði í Reyðarárhnjúk - rekstur 2020

Málsnúmer 202001008Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð hefur til umfjöllunar opnun gönguskíðarbrautar.


Fjölskylduráð felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að sjá til þess að skíðagönguspor verði troðið um næstu Hvítasunnuhelgi og það verði síðasta skiptið á þessum skíðavetri.
Bent er á facebooksíðu Skíðasvæði Norðurþings.

11.Bréf til kjörinna fulltrúa varðandi frístundastarf fyrir 5. og 7. bekk

Málsnúmer 202005091Vakta málsnúmer

Til umfjöllunar er bréf foreldra 2007 árgangsins á Húsavík til kjörinna fulltrúa varðandi frístundastarf.
Fjölskylduráð þakkar foreldrum fyrir erindið. Ráðið felur íþrótta og tómstundafulltrúa að vinna áætlun að dagskrá og kostnaðargreiningu fyrir félagsstarf barna á aldrinum 10-13 ára fyrir sumarið 2020 eins og rætt hefur verið á síðustu fundum ráðsins. Miðað skal við 2 tíma, tvo daga í viku yfir 6 vikna tímabil að lágmarki.

Í framhaldi að skila drögum fyrir næsta vetur, kostnaðargreiningu vegna starfsmanna og hvað þurfi til þess að halda úti þessu mikilvæga starfi.

12.Sumarfrístund á Húsavík 2020

Málsnúmer 202004011Vakta málsnúmer

Til umfjöllunar eru sumarverkefni íþrótta og tómstundasviðs.
Á Húsavík verður boðið uppá frístund allan daginn fyrir 1 - 4 bekk.
Fyrir hádegi er vistun frá kl. 8 - 12.30
Eftir hádegi (sumarfrístund) er starf með sama hætti og unnið var sumarið 2019 frá kl 12.30 - 16.30 Skipulagt starf í samstarfi við félög og einstaklinga í bænum.
Börn koma klædd eftir veðri og hafa með sér nesti og hádegismat.

Tilaga að gjaldskrá er eftirfarandi:

Vikugjald:
Fyrir hádegi = 3.500 kr
Eftir hádegi = 7.000 kr
Eftir hádegi ef allt sumarið er greitt í einu lagi = 48.800 kr (10 þús kr afsláttur).

Frístundarstyrkur Norðurþings gildir fyrir námskeiðið sem er eftir hádegi (sumarfrístund).
Fjölskylduráð samþykkir að vistun fyrir hádegi sé frá kl. 08:00 - 12:30 og þar fari fram frjáls leikur og skipulagt starf með starfsfólki frístundar. Eftir hádegi frá kl. 12:30 - 16:30 er Sumarfrístund líkt og sumarið 2019 með skipulögðu starfi í samstarfi við félög og einstaklinga í bænum.

Gjaldskrá verður eftirfarandi:

Vikugjald:
Fyrir hádegi = 3.500 kr.
Eftir hádegi = 7.000 kr.
Eftir hádegi ef allt sumarið er greitt í einu lagi = 48.800 kr (10 þús kr afsláttur).

Eftirfarandi afslættir gilda fyrir Sumarfrístund eftir hádegi og eru eftirfarandi:
50% systkinaafsláttur fyrir annað barn.
100% systkinaafsláttur fyrir þriðja barn.
25% afsláttur fyrir einstæða foreldra.


Ráðið óskar eftir því að íþrótta- og tómstundafulltrúi leggi fyrir ráðið á næsta fundi þess drög að starfáætlun frístundar fyrir hádegi sumarið 2020.


13.Hverfisráð Raufarhafnar 2019 - 2021

Málsnúmer 201908035Vakta málsnúmer

Á 326. fundi Byggðarráðs Norðurþings var máli nr. 2 úr fundargerð Hverfisráðs Raufarhafnar þann 28.apríl 2020 vísað til fjölskylduráðs þar sem óskað var eftir formlegum svörum við eftirfarandi spurningum:
1. Hvernig verður opnunartíma háttað í sumar?
2. Hvernig verður opnunartíma háttað á komandi vetri?
Verður tekið tillit til óska heimamanna um opnunartíma?
3. Hvaða dag verður framkvæmdum lokið í húsinu og vatn komið í laugina.
4. Þar sem börn komust ekki í Lund í sundkennslu þetta vor spyrjum við: hvort lögboðin sundkennsla verði í boði hér á Raufarhöfn, það sem eftir lifir skólaárs.
Fjölskylduráð þakkar hverfisráðinu fyrirspurnirnar.

1. Hvernig verður opnunartíma háttað í sumar?
Ráðið ítrekar bókun sína frá því á 56. fundi og 61. fundi ráðsins, um opnunartíma sundlaugarinnar í sumar, þ.e. virka daga frá kl. 16:30 - 19:30 og um helgar frá kl. 14:00 - 17:00.

2. Hvernig verður opnunartíma háttað á komandi vetri?
Verður tekið tillit til óska heimamanna um opnunartíma?
Ráðið ítrekar bókun sína frá 57. fundi ráðsins að opnunartími sundlaugarinnar næsta vetur verði ákveðinn á fundi ráðsins í ágúst.

3. Hvaða dag verður framkvæmdum lokið í húsinu og vatn komið í laugina?
Framkvæmdum er nú lokið við sundlaugina og verið er að láta renna í laugina og hita vatnið. Vonir standa til að hægt verði að opna sundlaugina næstkomandi föstudag, 29. maí.

4. Þar sem börn komust ekki í Lund í sundkennslu þetta vor spyrjum við: hvort lögboðin sundkennsla verði í boði hér á Raufarhöfn, það sem eftir lifir skólaárs?

Þann 21. apríl sendu skólastjórar á Raufarhöfn og í Lundi sviðstjórum og sveitarstjóra bréf þar sem þeir tilkynntu um ákvörðun sína um að fella niður skólasund vorið 2020 vegna Covid-19 og að nemendur fái sundkennslu þess í stað haustið 2020. Stefnt er á kennslu á Raufarhöfn og í Lundi.


14.Fjöldasamkomur í Norðurþingi sumarið 2020

Málsnúmer 202004054Vakta málsnúmer

Í ljósi umræðu um fjöldasamkomur á 103. fundi sveitarstjórnar Norðurþings vill fjölskylduráð koma eftirfarandi á framfæri. Fjölskylduráð lagði til við sveitarstjórn að Norðurþing stæði ekki fyrir skipulagðri dagskrá á Mærudögum í ljósi fjöldatakmarkana vegna Covid-19. Ráðið tekur að sjálfsögðu ekki afstöðu til þess hvernig eða hvort að félagasamtök, íbúar og fyrirtæki standi fyrir viðburðum þessa helgi svo sem knattspyrnuleiki, leikhópurinn Lotta, garðatónleikar, hlöðuball, Mærudagshlaup o.s.frv. enda hefur sveitarfélagið ekki staðið fyrir þessum viðburðum hingað til. Ráðið hvetur þó alla til að hlýða fyrirmælum yfirvalda varðandi fjölda og fjarlægðartakmarkanir sem gilda munu á þeim tíma.

Fundi slitið - kl. 17:00.