Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

82. fundur 10. nóvember 2020 kl. 13:00 - 15:40 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
  • Guðmundur Halldór Halldórsson aðalmaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Smári Jónas Lúðvíksson starfsmaður í stjórnsýslu
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Smári J. Lúðvíksson sat fundinn undir liðum 14-16.
Ketill Gauti Árnason sat fundinn undir lið 19.

1.Ósk um breytingu á Aðalskipulagi Norðurþings vegna uppbyggingu vindorkuvers á Hólaheiði

Málsnúmer 202009002Vakta málsnúmer

Verkfræðistofan Efla hefur lagt fram tillögu að skipulags- og matslýsingu vegna breytingar aðalskipulags Norðurþings fyrir vindorkuver á Hólaheiði á Melrakkasléttu. Alexandra Kjeld, Gréta Hlín Sveinsdóttir og Anna Rut Arnarsdóttir frá Eflu og Tryggvi Þór Herbertsson, Amandine Bugli og Elín Þorgeirsdóttir hjá Qair Energy kynntu skipulags- og matslýsinguna.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulags- og matslýsingin verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.

2.Vindorka - vöndum til verka. Erindi frá Landvernd.

Málsnúmer 202010118Vakta málsnúmer

Með bréfi til Norðurþings dags. 12. október 2020 kynnir Landvernd ritið "Virkjum vindorku á Íslandi: Stefnumótunar og leiðbeiningarrit Landverndar".
Lagt fram.

3.Breyting aðalskipulags vegna uppbyggingar í Auðbrekku

Málsnúmer 202011018Vakta málsnúmer

Til að koma til móts við sjónarmið íbúa við Auðbrekku sem fram komu við kynningu skipulagslýsingar vegna deiliskipulags fyrir svæði heilbrigðisstofnana á Húsavík er nú lagt til að fyrirhugaðri uppbyggingu verði hliðrað lítillega til suðurs. Það hefur í för með sér að útvíkka þarf svæði undir þjónustustofnanir í aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030. Fyrir fundi liggur tillaga að breytingu aðalskipulags.
Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að kynna fyrirliggjandi hugmynd að breytingu aðalskipulags samhliða hugmyndum að deiliskipulagi.

4.Deiliskipulag fyrir heilbrigðisstofnanir á Húsavík

Málsnúmer 201909080Vakta málsnúmer

Fyrir fundi liggja drög að deiliskipulagi fyrir heilbrigðisstofnanir á Húsavík sem unnin er af Alta. Tillagan er unnin til samræmis við fyrirliggjandi tillögu að nýju hjúkrunarheimili að Auðbrekku 2. Í ljósi athugasemda frá íbúum við Auðbrekku er nú lagt upp með að fyrirhugað hús verði nokkru sunnar en ætlað var við kynningu skipulagslýsingar. Hliðrun hússins kallar á breytingu aðalskipulags sbr. hér að framan.
Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að kynna fyrirliggjandi hugmyndir til samræmis við ákvæði 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga.

5.Breyting deiliskipulags í Auðbrekku

Málsnúmer 202011019Vakta málsnúmer

Við vinnslu tillögu að deiliskipulagi fyrir heilbrigðisstofnanir á Húsavík hefur komið í ljós að heppilegt er að hliðra skipulagsmörkum gildandi deiliskipulags í Auðbrekku frá 1992. Alta hefur unnið tillögu að breytingu deiliskipulagsins.
Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að kynna fyrirliggjandi hugmyndir að breytingu deiliskipulags til samræmis við ákvæði 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga.

6.Deiliskipulag fyrir Pálsgarð og Útgarð

Málsnúmer 202009067Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar vegna deiliskipulags fyrir Pálsgarð og Útgarð. Umsagnir og athugasemdir komu frá: Skipulagsstofnun, Minjastofnun, Sýslumanninum á Norðurlandi eystra, Lögreglunni á Húsavík, Heilbrigðiseftirlitinu á Norðurlandi eystra, Vegagerðinni, Umhverfisstofnun og Friðriki Sigurðssyni.
Skipulagsstofnun (tölvupóstur dags. 22. október) leggur til að skipulagið verði sameinað deiliskipulagi fyrir Útgarð 4-8 og kynnt sem breyting á fyrirliggjandi deiliskipulagi.

Skipulags- og framkvæmdaráð fellst á að skipulagstillagan verði útbúin sem stækkun skipulagssvæðis gildandi deiliskipulags fyrir Útgarð 4-8.

Minjastofnun (bréf dags. 28. október 2020) gerir ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna en minnir á að deiliskipulagstillaga skal koma til umsagnar hjá stofnuninni.

Umsögnin gefur ekki tilefni til breyttrar stefnu.

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra (tölvupóstur dags. 23. október) bendir á að bílastæði eru af nokkuð skornum skammti á svæðinu og því hefur fyrirhuguð byggingarlóð að Útgarði 2 verið nýtt sem bílastæði fyrir starfsemi lögreglu og almannavarna. Ennfremur er bent á að lóðin að Útgarði 2 hefur verið nýtt til snjósöfnunar að vetri.

Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulagsráðgjafa að skoða möguleika á almennum bílastæðum innan skipulagssvæðisins. Ráðið telur ekki rétt að taka varanlega frá stór snjósöfnunarsvæði í miðbænum.

Lögreglan á Húsavík (tölvupóstur dags. 19. október). Lögreglan bendir á að uppbygging lóðarinnar að Útgarði 2 muni þrengja að bílastæðum á svæðinu og gæti valdið óþægindum vegna starfsemi lögreglu og aðgerðarstjórnar Almannavarna.

Sjá hér að framan.

Friðrik Sigurðsson (tölvupóstur dags. 27. október). Friðrik veltir því upp hvort til greina kæmi að heimila íbúðarhúsbyggingu á þremur hæðum á lóðinni og að auki bílakjallara undir húsinu.

Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulagsráðgjafa að skoða skuggavarp þriggja hæða byggingar á lóðina að Útgarði 1. Ráðið leggur til að í skipulagstillögu verði heimilaður bílakjallari undir lóðaryfirborði og að gólf aðalhæðar íbúðarhúss lóðarinnar megi standa allt að 1 m yfir yfirborði götu við Útgarð.

Heilbrigðiseftirlit, Vegagerðin og Umhverfisstofnun gera ekki athugasemdir við skipulagslýsinguna í sínum umsögnum.

7.Skútustaðahreppur óskar eftir umsögn vegna endurskoðunar aðalskipulags Skútustaðahrepps

Málsnúmer 202010152Vakta málsnúmer

Skútustaðahreppur kynnir skipulags- og matslýsingu vegna endurskoðunar aðalskipulags sveitarfélags og óskar umsagna. Athugasemdafrestur vegna skipulags- og matslýsingar er til og með föstudeginum 20. nóvember n.k.
Skipulags- og framkvæmdaráð hefur ekki athugasemdir við skipulags- og matslýsinguna á þessu stigi.

8.Rifós hf. sækir um byggingarleyfi fyrir eldishúsi við Röndina á Kópaskeri

Málsnúmer 202010124Vakta málsnúmer

Rifós hf. sækir um byggingarleyfi fyrir eldishúsi við Röndina á Kópaskeri. Húsið er 2.415 m² að grunnfleti, vegghæð 6,5 m og mænishæð 9,5 m. Húsið er klætt PIR samlokueiningum. Teikningar eru unnar af Runólfi Þ. Sigurðssyni byggingartæknifræðingi hjá Al-hönnun ehf.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur að fyrirhuguð bygging sé innan ramma gildandi deiliskipulags og heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi fyrir byggingunni.

9.Rifós hf. óskar eftir leyfi fyrir borholum á Röndinni

Málsnúmer 202011021Vakta málsnúmer

Rifós hf. óskar eftir heimild til að bora holur fyrir sjótöku um 60 m norður af lóð sinni á Röndinni. Skv. gildandi deiliskipulagi er horft til að holur til sjótöku verði innan lóðar en mælingar á hitastigi í þeim holum sem boraðar hafa verið benda til að heppilegra væri að bora holur nokkru norðan við lóð.
Skipulags- og framkvæmdaráð heimilar borun til sjótöku um 60 m norðan við lóðarmörk til samræmis við erindi.

10.Umsókn um stöðuleyfi fyrir geymsluskýli við Naustagarð 2

Málsnúmer 202010215Vakta málsnúmer

Vör Húsavík ehf. óskar eftir stöðuleyfi fyrir geymsluskýli vestan við núverandi byggingu á lóðinni að Naustagarði 2. Ítarleg lýsing á fyrirhuguðu skýli ásamt rissmyndum fylgir erindi. Grunnflötur skýlisins er 112 m².
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir stöðuleyfi fyrir skýlinu til loka nóvember 2021.

11.Umsókn um stækkun byggingarreits og hækkun nýtingarhlutfalls við Naustagarð 2

Málsnúmer 202010216Vakta málsnúmer

Vör Húsavík ehf. óskar eftir að við endurskoðun deiliskipulags hafnarsvæðis verði byggingarreitur Naustagarðs 2 útvíkkaður eins og nánar er sýnt á rissmynd og nýtingarhlutfall hækkað í 0,4.
Skipulags- og framkvæmdaráð mun taka erindið fyrir við umfjöllun um breytingar á deiliskipulögum hafnarsvæðisins sem fyrirhugaðar eru nú í vetur.

12.Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Héðinsbraut 4

Málsnúmer 202008052Vakta málsnúmer

Karl Óskar Geirsson óskar byggingarleyfis fyrir viðbyggingu við Héðinsbraut 4. Fyrir liggur teikning unnin af Knúti Jónassyni byggingarfræðingi hjá Faglausn. Fyrirhuguð bygging er 65,3 m² að flatarmáli og 220 m3 að rúmmáli. Fyrir liggur skriflegt samþykki annara aðila að lóðinni. Skipulags- og byggingarfulltrúi grenndarkynnti erindið lóðarhöfum að Héðinsbraut 2 og hafa þeir komið sjónarmiðum á framfæri. M.v. fyrirliggjandi gögn má ætla að á fyrirhuguðum byggingarstað séu niðurgrafnir eldsneytistankar sem settir voru niður með leyfi fyrrverandi lóðarhafa og bæjaryfirvalda árið 1992.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur sig ekki í stöðu til að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingunni í ljósi þess að fyrir eru tankar innan lóðar sem settir voru niður með samþykki þáverandi lóðarhafa og sveitarfélagsins.

13.Umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Hraunholti 5

Málsnúmer 202010208Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur samþykkt byggingaráform Brynhildar Gísladóttur og Höskuldar Skúla Hallgrímssonar fyrir einbýlishúsi að Hraunholti 5. Húsið er 198,4 m² að grunnfleti, klætt liggjandi klæðningu. Teikningar eru unnar af Ragnari Hermannssyni byggingarfræðingi hjá Trésmiðjunni Rein.
Skipulags- og framkvæmdaráð gerir ekki athugasemdir við þessa afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa.

14.Gjaldskrá vegna hunda- og kattahalds 2021

Málsnúmer 202010014Vakta málsnúmer

Á 344. fundi byggðarráðs var bókað;
Byggðarráð beinir því til skipulags- og framkvæmdaráðs að það endurskoði gjaldskrá vegna hunda- og kattahalds með tilliti til raunkostnaðar við þjónustuna, sem felur í sér ormahreinsun, tryggingar, eftirlit og umsýslu.
Skipulag- og framkvæmdaráð samþykkir tillögu byggðaráðs og hvetur hunda- og kattaeigendur til að skrá dýrin sín og bendir á að innifalið í skráningargjaldi er ormahreinsun. Ráðið vísar endurskoðaðri gjaldskrá til byggðarráðs.

15.11-Umhverfismál - Rekstraráætlun 2021

Málsnúmer 202010167Vakta málsnúmer

Á 81. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi tekið fyrir:
Rekstraráætlanir framkvæmdasviðs 2021.
Til umræðu í skipulags- og framkvæmdaráði eru drög að rekstraráætlun málaflokks "11-Umhverfismál" fyrir árið 2021. Rekstraráætlun umhverfismála fellur ekki innan þess ramma sem teiknaður hefur verið í tengslum við fjárhagáætlunargerð ársins 2021, en í því samhengi þarf að skoða hvaða þjónustu innan málaflokksins hægt er að skera niður og/eða fella út.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að uppfæra áætlun með tilliti til launakostnaðar sumarstarfsmanna og leggja aftur fyrir ráðið að viku liðinni.

Rekstraráætlun "11-Umhverfissvið" fyrir árið 2021 hefur verið uppfærð m.t.t. áætlaðs launakostnaðar sumarstarfsmanna sem gert hafði verið ráð fyrir, t.a.m. varðandi skrúðgarð og við hirðingu opinna svæða innan þéttbýlis. Einnig hafa leiðréttingar verið gerðar þar sem tilefni hefur verið til, en þær aðgerðir duga þó ekki að fullu til þess að færa áætlaðan rekstur málaflokksins niður í þann ramma sem úthlutað hefur verið.
Kallað er eftir aðgerðum skipulags- og framkvæmdaráðs varðandi þann niðurskurð sem þarf að eiga sér stað svo hægt verði að stilla verkefnum tengdum umhverfismálum til samræmis við úthlutað fjármagn til málaflokksins.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir framlagða tillögu og vísar henni til byggðaráðs.

Ráðið óskar eftir hækkun á ramma sem nemur 3.379.894 kr.

16.Hraðatakmarkanir á Húsavík og annarra þéttbýlisstaða innan Norðurþings

Málsnúmer 201709113Vakta málsnúmer

Á 79. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs 06.10.2020 var eftirfarandi bókað:
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að útbúa drög að auglýsingu í stjórnarskrártíðindi og leggja fyrir ráðið að viku liðinni. Drögin skulu byggð á fyrirliggjandi gagni þar sem tekið er tillit til ábendinga lögreglu varðandi stöðvunarskyldur sem ættu að vera biðskyldumerkingar. Einnig varðandi Sólvelli inn á Fossvelli. Einnig að taka tillit til ábendinga ökukennara varðandi hægri rétt á tveimur gatnamótum upp á Höfða. Ekki skal bæta við merkingum við bílastæði við Uppsalaveg sem var tillaga en lögregla telur óþarft. Við Árgötu inn á Garðarsbraut skal taka stöðvunarskyldu af.
Óskað er heimildar skipulags- og framkvæmdaráðs á umferðarmerkingum innan þéttbýlis Húsavíkur og heimildar til þess að auglýsa fyrirhugaðar merkingar í Stjórnartíðindum svo þær geti öðlast gildi.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að breyta auglýsingu með tilliti til umferðahraða við Norðausturveg (þjóðv. 85) inn á Héðinsbraut norðan Húsavíkur (við Gónhól til suðurs) að gatnamótum við Traðargerði til samræmis við fyrirliggjandi kort. Ráðið heimilar auglýsinguna að öðru leiti og vísar henni til afgreiðslu í sveitarstjórn.

17.Strandverðir Íslands - kynning.

Málsnúmer 202011008Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur verkefnið Strandverðir Íslands - Veraldarvinir til kynningar.
Lagt fram til kynningar.

18.Hverfisráð Raufarhafnar 2019 - 2021

Málsnúmer 201908035Vakta málsnúmer

Fyrir fundi Skipulags- og framkvæmdaráðs liggur fundargerð Hverfisráðs Raufarhafnar frá 28.10.2020, en hún er lögð fyrir ráðið án viðkomu í byggðaráði þar sem innihaldið lýtur mestmegnis að viðhaldi húsnæðis og hafnarmannvirkja.

Skipulags- og framkvæmdararáð hefur tekið saman minnisblað og fær hverfisráð það sent.

19.Málefni sundlauga og íþróttahúss á Raufarhöfn

Málsnúmer 202002007Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur tilboð frá Seglagerðinni Ægi, minnisblað frá rekstraraðila sundlaugar á Raufarhöfn, íþrótta- og tómstundafulltrúa Norðurþings, ásamt skýrslu frá Verkís varðandi orkunotkun íþróttamiðstöðvarinnar. Um er að ræða að fjárfestingu í seglyfirbreiðslu yfir sundlaugina þar svo hægt verði að lágmarka varmatap úr lauginni og halda uppi ásættanlegu hitastigi á vatninu sem oft hefur verið vandamál, sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Yfirbreiðslan hefur fjölþættan tilgang en með minni raka minnkar þörfin fyrir loftræsingu og dregur úr rakaskemmdum á byggingarhlutum.
Óskað er afstöðu skipulags- og framkvæmdaráðs til fjárfestingarinnar, en um endurnýjun eldri einangrunardúks er að ræða sem var fjarlægður fyrir nokkru vegna lélegs ástands og afleiddra vandamála.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að endurnýja einangrunardúkinn.

20.Fjárhagsáætlun hafnasjóðs 2021

Málsnúmer 202008134Vakta málsnúmer

Fyrir ráðinu liggja drög að fjárhagsáætlun hafnasjóðs fyrir árið 2021. Málinu var frestað á 81. fundi ráðsins.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir framlagða tillögu og vísar henni til byggðarráðs.

21.Gjaldskrár hafnasjóð 2021

Málsnúmer 202010019Vakta málsnúmer

Á 81. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:
Umræða um gjaldskrár hafna fyrir árið 2021.
Lagt fram til kynningar.

Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir fyrirliggjandi gjaldskrá og vísar henni til byggðarráðs.

Fundi slitið - kl. 15:40.