Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

334. fundur 16. júlí 2020 kl. 08:30 - 09:45 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir formaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Hafrún Olgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir aðalmaður
  • Benóný Valur Jakobsson varamaður
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá

1.Lokun fangelsisins á Akureyri

Málsnúmer 202007041Vakta málsnúmer

Á 333. fundi byggðarráðs var bókað;
Byggðarráð mun afla sér frekari upplýsinga og taka málið aftur fyrir að viku liðinni.
Byggðarráð Norðurþings mótmælir þeirri ákvörðun Fangelsismálastofnunar að loka fangelsinu á Akureyri án nokkurs samráðs við sveitarstjórnir á Norðurlandi eystra. Yfirlýst stefna stjórnvalda hefur verið að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni og því skýtur það skökku við að fangelsismálayfirvöld taki einhliða og án nokkurs fyrirvara ákvörðun um að loka fangelsinu á Akureyri og leggja þar með niður 5 störf. Byggðarráð krefst þess að stjórnvöld grípi tafarlaust í taumana og ógildi þessa ákvörðun.
Samlegðaráhrif í starfi lögreglunnar á Norðurlandi eystra og fangelsisins á Akureyri eru og hafa um áratugaskeið verið afar mikil. Fangaverðir á vegum Fangelsismálastofnunar hafa sinnt föngum sem gista fangageymslur lögreglunnar vegna rannsóknar mála, ölvunar eða af ýmsum öðrum ástæðum og þá hefur Fangelsismálastofnun getað hagað mönnun með þeim hætti á næturnar að um lágmarksmannafla hefur verið að ræða þar sem lögreglumaður hefur alltaf verið á vakt í húsnæðinu á sama tíma.
Ef ákvörðun um að loka fangelsinu á Akureyri verður ekki afturkölluð munu að jafnaði tveir af fimm lögreglumönnum á vakt á Akureyri sinna fangavörslu flesta daga ársins. Ákvörðunin mun því að óbreyttu kalla á stóraukið fjármagn til löggæslu á Norðurlandi eystra en að öðrum kosti skerðist löggæsla á svæðinu svo um munar. Þá má ætla að sá stuðningur sem lögreglustöðvar utan Akureyrar hafa af lögreglunni á Akureyri verði í lágmarki.
Byggðarráð vill einnig benda á að verði ákvörðuninni ekki snúið munu aðstæður íbúa á Norðurlandi eystra sem þurfa að afplána dóma versna til muna með tilliti til þess að geta átt í samskiptum við fjölskyldur sínar.
Byggðarráð telur með öllu ólíðandi að Fangelsismálastofnun geti í trássi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda í byggðamálum og án samráðs við sveitarstjórnir á svæðinu tekið slíka ákvörðun um að flytja 5 störf af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið og með því sett löggæslu á svo stóru svæði landsins í algjört uppnám.
Byggðarráð skorar á dómsmálaráðherra að afturkalla ákvörðunina.

2.Rekstur Norðurþings 2020

Málsnúmer 202002108Vakta málsnúmer

Fjármálastjóri fer yfir rekstur málaflokka í framhaldi af umræðu á síðasta fundi byggðarráðs.
Lagt fram til kynningar.

3.Innheimtumál Norðurþings 2020

Málsnúmer 202006174Vakta málsnúmer

Fjármálastjóri fer yfir greiðsluáætlun vanskilaskulda viðskiptamanna.
Lagt fram til kynningar.

4.Deiliskipulag fyrir heilbrigðisstofnanir á Húsavík

Málsnúmer 201909080Vakta málsnúmer

Á 73. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var bókað;
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðaráð, í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar, að skipulagslýsingin verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að kynna skipulagslýsinguna samkvæmt ákvæðum skipulagslaga.

5.Beiðni frá Húsavíkurstofu varðandi staðsetningu á biðskýli við höfnina og varðandi tjaldstæði við Grundargarð.

Málsnúmer 202007040Vakta málsnúmer

Á 73. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var bókað;
Erindi er varðar niðursetningu á biðskýli undir Beinabakka með vísan í Eurovison song contest - story of fire saga er vísað til byggðaráðs.

Byggðarráð felur sveitarstjóra að afla frekari upplýsinga og eiga samtal við hlutaðeigandi aðila um málið.

6.Orkuveita Húsavíkur ohf - 209

Málsnúmer 2007002FVakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 209. fundar stjórnar Orkuveitu Húsavíkur ohf.
Lagt fram til kynningar.

7.Skipulags- og framkvæmdaráð - 73

Málsnúmer 2006012FVakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fundargerð 73. fundar skipulags- og framkvæmdaráðs.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 09:45.