Fara í efni

Flutningur á skíðalyftu úr Mel í Reyðarárhnjúk

Málsnúmer 201908065

Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð - 41. fundur - 20.08.2019

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur ósk frá Skíðadeild Völsungs, um kostnaðarþátttöku Norðurþings vegna fyrirhugaðra flutninga skíðalyftubúnaðar úr Melnum í Reyðarárhnjúk.
Færsla skíðamannvirkja í eigu Norðurþings, að fyrirhuguðu útivistarsvæði við Reyðarárhnjúk hefur verið í umræðunni um langt skeið og hefur að undanförnu, aukinn þungi verið lagður í samráðsvinnu hagsmunaaðila og skipulagsvinnu vegna þeirra áforma. Með samstilltu átaki hagsmunaaðila, áhugasamra verktaka og sveitarfélags, telja menn að mögulegt sé að ráðast í verkefnið í haust, á kostnaðarlega ásættanlegum forsendum.
Óskað er afstöðu skipulags- og framkvæmdaráðs til fyrirliggjandi tillagna.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar erindið og telur afar jákvætt hversu vasklega áhugafólk hefur gengið fram í þessum málum. Sett var á framkvæmdaáætlun fimm milljónir til uppbyggingar á skíðasvæði við Reyðarárhnjúk og því lítið til fyrirstöðu að fjármagna þá fjárhæð sem upp á vantar skv. fyrirliggjandi kostnaðaráætlun áhugahóps. Ráðið samþykkir fyrirliggjandi beiðni og mun leggja verkefninu til 12,9 milljónir.

Fjölskylduráð - 40. fundur - 02.09.2019

Fyrir fjölskylduráði liggur erindi frá Skíðadeild Völsungs um flutning á skíðalyftu úr Skálamel uppá Reykjaheiði.
Fjölskylduráð lýsir yfir fullum stuðningi og fagnar framtaki Skíðadeildar Völsungs, áhugasamra verktaka og sveitarfélagsins sem standa fyrir flutningi skíðalyftunar úr Skálamelnum yfir í Reyðarárhnjúk. Ráðið telur fyrirhugaða framkvæmd vera lyftistöng fyrir skíðaíþróttina á Húsavík.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 43. fundur - 11.09.2019

Böðvar Bjarnason og Garðar Héðinsson komu á fundinn f.h. áhugahóps um uppbyggingu á útivistarsvæði við Reyðarárhnjúk og kynntu fyrirhugaða uppsetningu á skíðalyftu á svæðinu.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Böðvari og Garðari fyrir kynninguna og felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að vera áfram í samstarfi við áhugahópinn.
Ráðið samþykkir framkvæmd við uppsetningu á skíðalyftu og aðstöðusköpun á svæðinu.

Fjölskylduráð - 51. fundur - 09.12.2019

Vinna við flutning og uppsetningu á skíðalyftu í Reiðarárhnjúk fer senn að ljúka.
Verkið hefur gengið afar vel og er úttekt frá Vinnueftirliti fyrirhuguð nú í byrjun desember.
Íþrótta- og tómstundafulltrúi gerði grein fyrir stöðu verksins.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 58. fundur - 11.02.2020

Til kynningar er uppgjör á verkefni er snýr að færslu skíðalyftu úr Skálamel að Reyðarárhnjúk og yfirferð á stöðu mála er varða aðstöðuna þar.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að fylgja eftir bilanagreiningu og viðgerð á skíðalyftu.
Ráðið felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að ræða við Landsvirkjun um tilhögun snjómoksturs á Þeistareykjavegi frá Húsavík að afleggjara skíðasvæðis við Reyðarárhnjúk um helgar.