Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

58. fundur 11. febrúar 2020 kl. 14:00 - 16:55 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Heiðar Hrafn Halldórsson aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
  • Guðmundur Halldór Halldórsson aðalmaður
  • Birna Ásgeirsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Smári Jónas Lúðvíksson starfsmaður í stjórnsýslu
  • Kristján Þór Magnússon
Fundargerð ritaði: Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi
Dagskrá
Ragnar Bjarnason sat fundinn undir fundarliðum nr. 1-3.
Smári Jónas Lúðvíksson sat fundinn undir fundarliðum nr. 1-8.
Kristján Þór Magnússon sat fundinn undir fundarlið nr. 4.

1.Reykjaheiðarvegur - Yfirborðsfrágangur

Málsnúmer 201807037Vakta málsnúmer

Á fundinn mætir Ragnar Bjarnason frá Verkís og kynnir áhættumat og forsendur þess fyrir ráðinu. Málinu var frestað frá 57. fundi ráðsins.
Ragnar Bjarnason frá Verkís kynnir forsendur þess áhættumats sem fyrirhugað er að unnið verði eftir í tengslum við gatnagerð við Reykjaheiðarveg. Tilgangur áhættumats er að meta og bregðast við áhættuþáttum með viðeigandi hætti til þess að lágmarka líkur á óvæntum frávikum.

Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Ragnari fyrir kynninguna og felur jafnframt framkvæmda- og þjónustufulltrúa að ganga frá verksamningi við lægstbjóðanda.

2.Fyrirkomulag snjómoksturs í Norðurþingi

Málsnúmer 201907053Vakta málsnúmer

Á fundinn mætir Ragnar Bjarnason frá Verkís. Til kynningar eru drög að útboði í tengslum við snjómokstur á Húsavík.
Ragnar Bjarnason frá Verkís sat fyrir svörum skipulags- og framkvæmdasviðs varðandi drög að útboðslýsingu vegna snjómoksturs á Húsavík.

Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Ragnari fyrir skýringar á texta útboðsgagna vegna snjómoksturs á Húsavík.

3.Verkeftirlit með byggingu nýrrar slökkvistöðvar.

Málsnúmer 201809032Vakta málsnúmer

Trésmiðjan Rein hefur óskað eftir því að fá skriflegt svar og rökstuðning fyrir afgreiðslu ráðsins um málið á 56. fundi þess.

Ragnar Bjarnason frá Verkís situr fundinn undir þessum lið.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Ragnari yfirferð gagna varðandi byggingu slökkvistöðvar á Húsavík. Eftir frekari rýni gagna og í ljósi upplýsinga ákveður ráðið að snúa við fyrri ákvörðun og greiða kröfu að upphæð 1.080.000 vegna vinnu við yfirferð og leiðréttingu verkgagna frá hönnunaraðilum byggingarinnar.

4.Snjómokstur í Reykjahverfi 2019-2020

Málsnúmer 201911057Vakta málsnúmer

Á 57. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var eftirfarandi bókað:

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til að verklagsreglurnar sem hér eru framsettar verði bornar undir verktaka sem nú þegar sinnir snjómokstri í Reykjahverfi.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að óska eftir einingaverði í moksturinn fram að útboði sem fyrirhugað er í vor. Niðurstaða verður lögð fyrir ráðið á næsta fundi þess.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að semja við Fjallasýn ehf um snjómokstur í Reykjahverfi til vors 2020 á grunni þess samnings sem áður hefur verið kynntur.

5.Flutningur á skíðalyftu úr Skálamel í Reyðarárhnjúk

Málsnúmer 201908065Vakta málsnúmer

Til kynningar er uppgjör á verkefni er snýr að færslu skíðalyftu úr Skálamel að Reyðarárhnjúk og yfirferð á stöðu mála er varða aðstöðuna þar.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að fylgja eftir bilanagreiningu og viðgerð á skíðalyftu.
Ráðið felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að ræða við Landsvirkjun um tilhögun snjómoksturs á Þeistareykjavegi frá Húsavík að afleggjara skíðasvæðis við Reyðarárhnjúk um helgar.

6.Félagar í Miðjunni hæfingu óska eftir aðstöðu i Kvíabekk til að starfsrækja kaffihús sumarið 2020

Málsnúmer 202002024Vakta málsnúmer

Félagar í Miðjunni hæfingu óska eftir að starfrækja kaffihús í Kvíabekk með sama sniði og gert var sumarið 2019.
Skipulags- og framkvæmdaráð fagnar framtakinu og samþykkir erindið.

7.Sorpmóttaka Raufarhöfn

Málsnúmer 202002028Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggja málefni sorpmóttöku á Raufarhöfn.
Sorpmóttaka á Raufarhöfn er staðsett við Sjávarbraut á Raufarhöfn þar sem áður var síldarþró SR, en aðgengi að svæðinu hefur verið óheft frá því það var tekið í notkun fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan.
Fyrir liggur að stýra þurfi aðgengi að sorpmóttökunni og manna svæðið á opnunartíma í þeim tilgangi að bæta umgengni og skráningu sorps við losun, en gerð er krafa um upprunaskráningu við reglubundin skýrsluskil til Umhverfisstofnunar. Upprunaskráning nær að mestu til fyrirtækja en fram að þessu hafa fyrirtæki einnig haft frjálsan aðgang að móttökunni.
Ekki er gert ráð fyrir að gjaldskylda losun né taka upp klippikort og ekki verður ráðið starfsfólk til þess að sinna sorpmóttöku á Raufarhöfn.
Opnunartími hefur verið auglýstur 13:00-17:00 alla þriðjudaga og verður honum stýrt úr Þjónustumiðstöð á Raufarhöfn. Fyrirhugaður opnunartími mun verða endurmetinn út frá reynslu ef þurfa þykir.
Skipulags- og framkvæmdaráð vísar umfjöllun um opnunartíma sorpmóttöku á Raufarhöfn til hverfisráðs Raufarhafnar til umsagnar.

8.Ökutæki 2019-2020

Málsnúmer 201909007Vakta málsnúmer

Fyrirhuguð er sala á MAN vörubifreið, Iveco Daily pallbifreið og Suzuki Jimmy bifreið þjónustumiðstöðvar, en þessi tæki hafa í dag takmarkað notagildi í þjónustumiðstöð.
Óskað er heimildar til þess að nýta söluandvirði áður nefndra tæka til þess að fjármagna kaup á Palfinger krana sem mun verða settur á nýjan Iveco Daily pallbíl sem verður afhentur Norðurþingi í sumar.
Óskað er eftir heimild til að fjárfesta í krana að upphæð 2,5 m.kr. þar sem áætlað er að sala á þremur bílum muni skila svipaðri upphæð inn í reksturinn. Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir kaupin.

9.Breyting á aðalskipulagi vegna fiskeldis á Kópaskeri

Málsnúmer 201909029Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu á breytingu aðalskipulags vegna fyrirhugaðs fiskeldis á Röndinni á Kópaskeri. Breyting aðalskipulags var auglýst samhliða deiliskipulagi svæðisins. Athugasemdir bárust frá níu aðilum, en þær athugasemdir snúast að langmestu leiti um deiliskipulagið. Athugasemdirnar og viðbrögð við þeim eru því bókaðar undir þeim lið fundargerðarinnar.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að breyting aðalskipulags verði samþykkt eins og hún var kynnt. Skipulags- og byggingarfulltrúa verði falinn frekari framgangur skipulagsbreytingarinnar.

10.Deiliskipulag vegna fiskeldis á Röndinni Kópaskeri

Málsnúmer 201811029Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu deiliskipulags vegna fyrirhugaðs fiskeldis á Röndinni á Kópaskeri. Athugasemdir og ábendingar bárust frá níu aðilum.
Nú er lokið kynningu deiliskipulags vegna fiskeldis á Röndinni á Kópaskeri. Athugasemdir og ábendingar bárust frá níu aðilum:
1.
Vegagerðin, bréf dags. 21/1. Engar athugasemdir.
2.
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra (HNE), bréf dags. 17/1.
2.1
HNE telur að gera verði nánari grein fyrir afsetningu seyru.
2.2
HNE telur að gera verði grein fyrir hvernig komið verður í veg fyrir að seiði berist í viðtaka.
2.3
Bent er á að fráveita skuli vera samkvæmt reglugerð um fráveitur og skólp nr. 798/1999.
2.4
Bent er á að mikilvægt sé að við hönnun fráveitu verði tekið tillit til aðstæðna.
2.5
Bent er á að í greinargerð er fjallað um fráveitur frá fjósum, sem ekki eru til staðar á svæðinu.
2.6
Bent er á misræmi í umfjöllun skipulagstillögunar um mengun vegna lyfja.
3.
Minjastofnun, bréf dags. 28/1. Minjastofnun samþykkir skipulagstillöguna með fyrirvara um meinta kálgarða sem skráðir voru innan byggingarreits við fornleifaskráningu svæðisins. Óvissa er um hvort þær minjar heyri undir lög um menningarminjar nr. 80/2012 og hyggst minjavörður kynna sér minjarnar nánar þegar aðstæður á vettvangi leifa.
4.
Umhverfisstofnun (UST), bréf dags. 30/1.
4.1
UST bendir á að skv. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 798/1999 skuli öllu skólpi veitt til sjávar minnst 5 m niður fyrir meðalstórstraumsfjöruborð eða 20 m út frá meðalstórstraumsfjörumörkum enda séu skilyrði í 6. og 10. gr. uppfyllt. Auk þess er óheimilt að leiða skólp þannig að frárennslisop opnist til hafna.
4.2
UST bendir á að skv. 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum úr jörðu að nýting auðlinda úr jörðu er háð nýtingarleyfi Orkustofnunar.
4.3
UST bendir á að fyrirhugað byggingarsvæði sé innan svæðis nr. 537 í Náttúruminjaskrá. Mikilvægt sé að forðast rask á náttúruminjum svæðisins eins og kostur er við framkvæmdirnar.
5.
Náttúruverndarnefnd þingeyinga (NÞ), tölvupóstur dags. 4/2.
5.1
NÞ telur að gera þurfi betur grein fyrir áhrifum umfangsmikillar töku jarðsjávar á grunnvatnsstöðu á svæðinu og að gera verði ráð fyrir vöktun á grunnvatnsstöðu vegna starfseminnar í ljósi þess hversu nálæg votlendi eru fuglarík og að á svæðinu sé að finna sjaldgæfar vistgerðir með hátt verndargildi.
5.2
Skýra þarf út með sannfærandi hætti hvernig komið verði í veg fyrir að seiði úr eldinu sleppi til sjávar í Öxarfirði. NÞ telur óásættanlegt ef hætta sé á að seiði sleppi í sjó með frárennsli.
5.3
NÞ bendir á að áður en framkvæmd hefst við fyrirhugað fiskeldi á Röndinni þurfi að fara fram úttekt á náttúrunni í kring og þá einkum votlendinu austan við skipulagssvæðið. Þar fyrir utan þarf að liggja fyrir nánari kortlagning á jarðminjum til að tryggja vernd þeirra.
6.
Náttúrufræðistofnun, tölvupóstur dags. 5/2.
6.1. NÍ bendir á að stofnunin kom á framfæri athugasemdum við kynningu skipulagslýsingar þó það komi ekki fram í greinargerð skipulagstillögunnar. Í athugasemdum komi fram upplýsingar um jarðfræði svæðisins sem hefði mátt nota í áhrifamat.
6.2. Ekki er gerð athugasemd við að skipulagið ná fram að ganga að því tilskyldu að rask verði í lágmarki við framkvæmdir á svæðinu og þess sérstaklega gætt að raska ekki jarðminjum.
7.
Veðurstofa Íslands, bréf dags. 5/2. Veðurstofan telur með öllu ófært að ekki skuli fjallað í greinargerðinni um sjávarflóð og þá hættu sem af þeim getur stafað og vísar til fyrri umsagnar stofnunarinnar um það efni.
8.
Skipulagsstofnun, bréf dags. 29/1. Stofnunin bendir á að lagfæra þarf mynd á deiliskipulagsuppdrætti sem sýnir hluta gildandi aðalskipulags til samræmis við aðalskipulagsbreytingu. Stofnunin bendir einnig á að ekki er heimilt að veita byggingarleyfi fyrr en niðurstaða Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir.
9.
Eigendur jarða Brekku og Garðs, bréf dags. 4/2. Sigurður Sigurjónsson lögmaður kemur fram eftirfarandi athugasemdum f.h. jarðareigenda:
9.1
Gerð er athugasemd við að íbúðarhúsið í Garði sé ekki talið meðal húsa næst skipulagssvæðinu.
9.2
Jarðareigendur telja líklegt að svo mikil dæling á grunnvatni sem fyrirhuguð sé muni hafa áhrif á vatnshæð í tjörnum sem eru á svæðinu.
9.3
Miðað við að úrgangur úr fráveitu sökkvi ekki telja landeigendur líkur á að hann verði við yfirborð sjávar. Tíðar hafgolur að sumri muni verða til þess að skítur, óþefur og fita frá eldinu muni koma upp í fjöruna fyrir landi Brekku og inn í hafnarkrókinn á Kópaskeri.


Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar fram komnar athugasemdir og ábendingar.
1.
Umsögn Vegagerðarinnar gefur ekki tilefni til breytinga á skipulagstillögunni.
2.1. Ýmsar leiðir eru mögulegar til að afsetja seyru frá fiskeldinu. Í áætlunum hefur verið gert ráð fyrir að samkomulag náist um að nýta hana til uppgræðslu og að aðeins í neyðartilvikum verði hún urðuð á viðurkenndum urðunarstað. Ráðið gerir ráð fyrir að nánari umfjöllun um afsetningu seyru verði í tengslum starfsleyfi stöðvarinnar og telur ekki tilefni til breytinga á skipulagstillögunni vegna athugasemdarinnar.
2.2. Gert er ráð fyrir þreföldu öryggi gegn því að seiði sleppi út í viðtaka frá fiskeldinu. Fyrsta vörnin felst í stálrist við útfall vatns úr kari. Önnur vörnin felst í að affallsvatn fer í gegn um þéttan tromlufilter sem telst fiskheldur og loks er fiskheld seiðagildra á affallinu. Það er því afar ósennilegt og allt að því útilokað að seiði sleppi í gegn um þessi þrjú varnarkerfi. Færð verði inn í kafla 5.8.6 um áhrifamat setningar um að afar ósennilegt sé að seiði sleppi til sjávar í ljósi þeirra þreföldu varna sem að ofan er lýst.
2.3. Greinargerð deiliskipulags verður uppfærð þannig að skýrt sé að fylgt verði ákvæðum reglugerðar um fráveitur og skólp nr. 798/1999.
2.4. Sett verði inn setning í greinargerð þar sem áréttað verði að við hönnun fráveitu verði tekið tillit til aðstæðna.
2.5. Umfjöllun þar sem minnst er á fráveitu frá fjósum er bein tilvísun í gildandi aðalskipulag og þarna samhengis vegna. Athugasemdin gefur ekki tilefni til breytinga á skipulagstillögunni.
2.6. Í kafla 5.4 í greinargerð eru lyf nefnd sem mögulegur áhrifsþáttur í mengun fráveitu. Niðurstaða í áhrifamati í kafla 5.8.6 er hinsvegar sú að ekki verði mengun vegna lyfja í ljósi þess að notkun lyfja í fiskeldi er ekki heimil. Þarna er því ekki um að ræða misræmi í greinargerðinni. Athugasemdin gefur ekki tilefni til breytinga á skipulagstillögunni.
3. Umsögn Minjastofnunar gefur ekki tilefni til breytinga á deiliskipulagstillögunni. Þó er áréttað að skráðum minjum innan byggingarreits verði ekki raskað fyrr en Minjavörður hefur gengið úr skugga um mikilvægi þeirra nú á vordögum.
4.1. Greinargerð skipulagstillögu verði breytt þannig að skýrt sé að fylgt verði ákvæðum 2. mgr. 9. gr. laga nr. 798/1998 um að öllu skólpi verði veitt til sjávar minnst 5 m niður fyrir meðalstórstraumsfjöruborð eða 20 m út frá stórstraumsfjörumörkum.
4.2. Í greinargerð verði bætt setningu um að nýting auðlinda úr jörðu er háð nýtingarleyfi Orkustofnunar með tilvísun til 6. gr. laga nr. 57/1998.
4.3. Fram kemur í greinargerð skipulagsins að fyrirhugað byggingarsvæði er inni á svæði á Náttúruminjaskrá. Einnig kemur fram í kafla 2.6 að sjávarbakkinn verði sérstaklega verndaður fyrir framkvæmdum og afmarkað verndarsvæði um hann þar sem röskun á landi sé óheimil. Skipulags- og framkvæmdaráð telur að fyrirliggjandi skipulagstillaga feli í sér verndun helstu náttúruminja. Ráðið telur því athugasemdina ekki gefa tilefni til breytinga á skipulagstillögunni.
5.1. Í greinargerð deiliskipulagstillögunnar kemur fram að að horft sé til þess að dæla til eldisins að jafnaði 150 l/sek af jarðsjó af meira en 50 m dýpi. Fyrir liggur skýrsla frá Alvarr sem gerir grein fyrir að yfir því lagi jarðsjávar sem sótt verður til er lag af ferskvatni. Ekki er gert ráð fyrir töku ferskvatns til fiskeldisins. Fiskeldisstöðin Árlax ehf dældi upp umtalsverðu magni af jarðsjó á svæðinu um miðjan níunda áratug síðustu aldar og ekki var annað að sjá við þá vatnstöku að vatnslekt svæðisins sé góð. Þar fyrir utan er talið að um Snartarstaðalæk renni að jafnaði hátt í 500 l/sek af fersku vatni til sjávar (Orkustofnun OS89039/VOD-08B). Það virðist því afar ósennilegt, að vatnstaka vegna fyrirhugaðs fiskeldis muni hafa áhrif á grunnvatnsstöðu votlendis í nágrenninu. Ráðið telur ekki tilefni til að fyrirskrifa vöktun á grunnvatnsstöðu í deiliskipulagstillögunni í ljósi ofangreinds. Skipulags- og framkvæmdaráð telur ábendinguna því ekki gefa tilefni til breytinga á skipulagstillögunni.
5.2. Því sem næst útilokað er að seiði úr fiskeldinu nái til sjávar um fráveitu sbr. umfjöllun 2.2.
5.3. Skipulags- og framkvæmdaráð tekur ekki undir sjónarmið Náttúruverndarnefndar um þörf fyrir úttekt á nálægum votlendissvæðum vegna fyrirhugaðra framkvæmda vegna afgreiðslu deiliskipulags. Raunar virðist langsótt að fyrirhugað fiskeldi muni hafa neikvæð áhrif á lífríki þeirra. Nefndin telur heldur ekki þörf á sérstakri kortlagningu jarðminja á svæðinu, enda í skipulaginu afmarkað verndarsvæði um helstu minjar í fyrirliggjandi tillögu. Þess verður gætt að halda framkvæmdum utan veglína og byggingarreita í lágmarki. Ráðið telur því ekki tilefni til breytinga á skipulaginu vegna athugasemdarinnar.
6.1. Skipulags- og framkvæmdaráð biðst velvirðingar á að fallið hafi niður að tiltaka athugasemdir Náttúrfræðistofnunar við kynningu skipulagslýsingar. Það verður lagfært í skipulagstillögunni.
6.2. Eins og fram kemur í greinargerð deiliskipulagsins hefur fyrirhuguðu framkvæmdasvæði þegar verið raskað umtalsvert enda stóð þar áður fiskeldisstöð. Í 2. kafla greinargerðar er lögð sérstök áhersla á að við allar framkvæmdir verði þess gætt að valda eins litlu jarðraski og mögulegt er jafnframt því sem fella skuli framkvæmdir að umhverfinu sem kostur er. Í því ljósi telur skipulags- og framkvæmdaráð athugasemdina ekki gefa tilefni til breytinga á skipulagstillögunni.
7. Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur leitað upplýsinga um sjávarflóð við suðurenda randarinnar. Ekki er vitað til þess að sjór hafi gengið yfir Röndina, en þekkt er að sjór hefur gengið upp í mýrina innan við Röndina. Einn heimildarmaður, Guðmundur Örn Benediktsson, hefur eftir föður sínum heitnum að suðurendi Randarinnar hafi spillst í sjávarflóði 1934, án þess að tiltaka nánar um hvað þá gerðist. Núverandi hafnarmannvirki eru hinsvegar líkleg til að verja Röndina að nokkru fyrir NV sjógangi. Jafnframt telur hann að það gerist næsta reglulega að flóð gangi að og jafnvel upp á þjóðveg um mýrinna nærri Snartarstaðakirkju. Annar heimildarmaður, Jón Grímsson, telur afar ósennilegt að sjávarflóð muni raska fyrirhugaðri byggingarlóð og bendir í því samhengi á að hann viti ekki til þess að sjór hafi nokkurntíma gengið nærri því húsi sem hefur staðið á svæðinu frá því það var byggt snemma á níunda áratug síðustu aldar. Á háflóði á hádegi 10. febrúar 2020 stóð óvenju hátt í sjó og mat Jón Grímson stöðuna þá þannig að um 1,5 m hefði vantað í hæð til þess að sjór næði upp að fyrirliggjandi húsi. Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til að sett verði inn í kafla greinargerðar um náttúruvá eftirfarandi setningar: “Ekki hafa fundist í heimildum gögn um sjávarflóð á skipulagssvæðinu. Munnlegar heimildir geta þess þó að í aftakaveðri 1934 hafi suðurendi Randarinnar spillst (Guðmundur Örn Benediktsson). Röndin er nú að nokkru varin fyrir ágangi sjávar af grjótvörnum hafnarmannvirkja. Sjór hefur ítrekað gengið inn í mýrina austan Randarinnar og þá jafnvel í einhverjum tilvikum gengið yfir veg nærri Snartarstaðakirkju (Guðmundur Örn Benediktsson). Ekki er vitað til þess að nokkurntíma hafi flætt að því eina húsi sem stendur á skipulagssvæðinu (Jón Grímsson), en það var byggt snemma á níunda áratug síðustu aldar. Við hönnun mannvirkja innan lóðarinnar er rétt að horfa til þess að mögulega geti flætt um lóðina.? Að sama skapi verði ábendingar um sjávarflóð nefnd í köflum 3.1 og 3.6 í greinargerðinni. Ráðið sér ekki tilefni til frekari breytinga á skipulagstillögunni vegna þessarar ábendingar.
8. Mynd úr aðalskipulagi verður uppfærð í deiliskipulaginu til samræmis við ábendingu Skipulagsstofnunar. Ekki verður veitt byggingarleyfi fyrir mannvirkjum fyrr en fyrir liggur niðurstaða Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.
9.1. Bætt verður við upplýsingum um íbúðarhúsið í Garði í greinargerð deiliskipulags.
9.2. Skipulags- og framkvæmdaráð telur afar ósennilegt að fyrirhuguð dæling jarðsjávar muni hafa nokkur áhrif á vatnshæðarstöðu í nærliggjandi votlendi sbr. umfjöllun 5.1. Ráðið telur því athugasemdina ekki gefa tilefni til breytinga á deiliskipulagstillögunni.
9.3. Hreinsibúnaði á fráveituvatni er ætlað að sigta frá allar lífrænar agnir og því fari aðeins uppleyst lífrænar efni til sjávar. Því er afar ósennilegt að affall frá stöðinni myndi flotefni eða set í sjó. Ráðið telur því ábendinguna ekki gefa tilefni til breytinga á deiliskipulaginu. Við vinnslu starfsleyfis fyrir landeldisstöðina verða losunarmörk næringarefna og annara lífrænna efna ákvörðuð út frá fóðurnotkun eldisins, hreinsun frárennslis og aðstæður við útrás í viðtaka.

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan með ofangreindum breytingum verði samþykkt og gildistaka þess auglýst þegar breyting aðalskipulags hefur tekið gildi.

11.Breyting á aðalskipulagi vegna hjúkrunarheimilis

Málsnúmer 201910111Vakta málsnúmer

Föstudaginn 7. febrúar kynnti skipulags- og hyggingarfulltrúi tillögu að breyttu aðalskipulagi vegna fyrirhugaðs hjúkrunarheimilis í Auðbrekku á opnu húsi. Ekki hafa borist neinar ábendingar um lagfæringar á tillögu að breytingu aðalskipulags og fyrir fundi liggur því sama tillaga og var til umfjöllunar á fundi ráðsins 28. janúar s.l.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði óbreytt kynnt til samræmis við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga.

12.Viðbragðsáætlun - Kórónaveiran

Málsnúmer 202002009Vakta málsnúmer

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent sveitarfélögum leiðbeiningar til framlínustarfsmanna og link á landsáætlun um heimsfaraldur inflúensu vegna Kórónaveirunnar; https://www.almannavarnir.is/utgefid-efni/landsaaetlun-um-heimsfaraldur-influensu/?wpdmdl=20834. Einnig er benta á ítarlegar upplýsingar á heimasíðu landlæknis; https://www.landlaeknir.is/koronaveira/

Á 315. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað: Byggðarráð vísar leiðbeiningunum til fjölskylduráðs og skipulags- og framkvæmdaráðs til kynningar.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 16:55.