Fara í efni

Félagsmiðstöðin Tún - húsnæðismál

Málsnúmer 202006006

Vakta málsnúmer

Fjölskylduráð - 65. fundur - 03.06.2020

Félgsmiðstöðin Tún á Húsavík hefur verið starfrækt í húsnæði FSH á Húsavík undanfarin ár. Salur framhaldsskólans hefur verið leigður undir starfið en nú hefur FSH sagt upp samningnum við Norðurþing vegna áforma skólans um nýtingu á rýminu.
Finna þarf lausn á húsnæðismálum félagsmiðstöðvarinnar.
Fjölskylduráð felur íþrótta- og tómstundafulltrúi að kanna möguleika á nýju húsnæði fyrir félagsmiðstöðina Tún og kynna fyrir ráðinu þann 22.júní.

Fjölskylduráð - 67. fundur - 22.06.2020

Umfjöllun um húsnæðismál félagsmiðstöðvarinnar Túns á Húsavík.
Fjölskylduráð leitar enn að hentugu húsnæði fyrir félagsmiðstöðvarinnar Tún. Íþrótta- og tómstundafulltrúi falið að halda þeirri vinnu áfram.

Fjölskylduráð - 68. fundur - 29.06.2020

Til umræðu eru húsnæðismál félagsmiðstöðvarinnar Túns á Húsavík.
Fulltrúar B-lista framsóknar og félagshyggju og E-lista samfélagsins leggja til að hafist verði handa við byggingu sem myndi hýsa félagsmiðstöð, starfsemi Frístundar og ungmennahúss á Húsavík. Byggingin verði á svæðinu í kringum Borgarhólsskóla, Íþróttahöllina og Tún. Fjárhagsáæltun fyrir árið 2021 takið mið af þessu.

Meðfylgjandi greinargerð:
Starfsemi Frístundar á Húsavík er í óhentugu húsnæði. Félagsmiðstöð fyrir þrettán til sextán ára hefur verið í kjallara í Framhaldsskólanum á Húsavík. Samningi þar um hefur verið sagt upp og ljóst að leita þarf að bráðabirgðahúsnæði fyrir komandi vetur. Sveitarfélagið hefur ekki starfrækt félagsmiðstöð eða frístundastarf fyrir tíu til tólf ára sem stendur til bóta þó húsnæði undir starfsemina sé ekki fundið. Foreldrar þessa aldurshóps hafa kallað eftir þessari þjónustu. Frístund fyrir fatlaða er í bráðabirgðahúsnæði.
Það eru augljósir kostir að staðsetja slíka byggingu í námunda við skóla og íþróttastarf. Þannig flæðir þekking og reynsla á milli. Auk þess að nýta húsakost milli bygginga.
Sveitarstjórn hefur í þrígang samþykkt samhljóða álíka tillögu. Fyrst í febrúar árið 2019.

Virðingafyllst,
Bylgja Steingrímsdóttir
Hafrún Olgeirsdóttir
Lilja Skarphéðinsdóttir

Með tillögunni eru Lilja Skarphéðinsdóttir og Bylgja Steingrímsdóttir
Á móti tillögunni eru Benóný Valur Jakobsson, Berglind Hauksdóttir og Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir.


Berglind Hauksdóttir, Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir og Benóný Valur Jakobsson bóka eftirfarandi:
Í ljósi fjárhagstöðu sveitarfélagsins væri óábyrgt að lýsa yfir frekari byggingu húsnæðis á árinu 2021. Ljóst er að bygging nýs hjúkrunarheimilis mun á árinu 2021 taka til sín nánast allt það fjármagn sem ætlað verður til framkvæmda.
Við undirrituð teljum vissulega brýna þörf á húsnæði undir frístundaheimili en sveitarfélagið á þegar margar eignir og óvíst í hvað þær verða nýttar. Með tilkomu nýs hjúkrunarheimilis stendur Hvammur auður. Hægt væri að nýta hluta af þeirri byggingu færa til starfsemi þangað og losa þá um húsnæði sem getur hentað undir frístundastarf. Því er að okkar mati ekki tímabært að hefja byggingu á nýju húsnæði á þessum tímapunkti.

Sigríður Hauksdóttir starfsmaður félagsþjónustu kom og kynnti frístundarstarf fatlaðra sem nú er starfrækt í húsnæði Orkuveitu Húsavíkur að Vallholtsvegi 3. Lagt er til að aukið samstarf verði milli félagsþjónustu og íþrótta-og tómstundasviðs í frístundarmálum.

Fjölskylduráð felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að ræða við húseigenda (OH) og félagsmálastjóra um samnýtingu á húsnæðinu að Vallholtsvegi 3 sem húsnæði fyrir félagsmiðstöðina Tún.

Fjölskylduráð - 70. fundur - 10.08.2020

Fyrir fjölskylduráði liggur bókun frá Félagi eldri borgara á Húsavík og nágrennis á fundi félagsins.
Benóný, Berglind og Heiðbjört þakka félagi eldri borgara fyrir ábendinguna en vilja koma á framfæri að hvergi er minnst á flutning félagsmiðstöðvar í húsnæði Hvamms í bókun fjölskylduráðs þann 29.júní sl.
Eingöngu voru reifaðar hugmyndir um mögulegan flutning einhverar starfsemi Norðurþings sem félli vel að þeirri starfsemi sem fyrir er í húsnæði Hvamms, það gæti svo leitt til þess að húsnæði losnaði sem hentað gæti frístundarstarfsemi.

Fulltrúar B og E lista leggja fram eftirfarandi bókun:

Lögð var fram tillaga B og E lista þess efnis að íþrótta- og tómstundafulltrúa væri falið að kanna húsakost, nýjan sem gamlan og myndi hýsa félagsmiðstöð ungmenna. Sú skýrsla hefur enn ekki verið til umræðu í sveitarstjórn því tökum við undir andmæli FEBHN um notkun á Hvammi undir frístundastarf ungmenna að óathuguðu máli.

Arna Ýr Arnarsdóttir
Hrund Ásgeirsdóttir

Fjölskylduráð - 75. fundur - 12.10.2020

Áframhaldandi umfjöllun um húsnæðismál félagsmiðstöðvar á Húsavík.
Fjölskylduráð heldur áfram vinnu varðandi húsnæðismál fyrir félagsmiðstöðina Tún. Félagsmiðstöðinni stendur til boða að leigja húsnæði Björgunarsveitarinnar Garðars, Rauða krossins og Slysavarnafélags kvenna Húsavík, Naustið. Ráðinu líst vel á þessa hugmynd þar sem húsnæðið gæti hentað vel undir starfsemi félagsmiðstöðvar.

Ráðið felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að vinna málið áfram.

Fjölskylduráð - 76. fundur - 26.10.2020

Til umræðu eru húsnæðismál fyrir félagsmiðstöðina á Húsavík.
Aldey Unnar Traustadóttir [fulltrúi V-lista], Benóný Valur Jakobsson [fulltrúi S-lista] og Heiðbjört Ólafsdóttir [fulltrúi D-lista] leggja til að húsnæði Björgunarsveitarinnar Garðars, Rauða Krossins og Slysavarnarfélags Kvenna Húsavík, Naust, verði tekið til leigu undir starfsemi félagsmiðstöðvar 5. - 10. bekkjar á Húsavík til a.m.k næstu þriggja ára. Við leggjum til að sá tími verði vel nýttur til að finna félagsmiðstöðinni varanlegt húsnæði. Starfsfólk félagsmiðstöðvar hefur verið með í ráðum og líst vel á þetta úrræði.

Við felum íþrótta- og tómstundafulltrúa að ganga til samnings um leigu á húsnæðinu og leggja drög að samningi fyrir ráðið á næsta fundi þess 2. nóvember n.k.

Aldey Unnar Traustadóttir, Benóný Valur Jakobsson, Heiðbjört Ólafsdóttir og Arna Ýr Arnarsdóttir greiða atkvæði með tillögunni. Hrund Ásgeirsdóttir situr hjá.

Fjölskylduráð - 77. fundur - 02.11.2020

Fjölskylduráð hefur til umfjöllunar húsnæðismál Félagsmiðstöðvarinnar Túns á Húsavík.
Fjölskylduráð felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að ganga frá leigusamning til þriggja ára við eigendur húsnæðisins Naust. Húsnæðið mun hýsa starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Tún.

Fjölskylduráð - 80. fundur - 07.12.2020

Til kynningar er lokaútgáfa húsaleigusamnings fyrir félagsmiðstöðina Tún á Húsavík sem verður til húsa í Nausti (hús Björgunarsveitarinnar).
Samningurinn er til þriggja ára.
Lagt fram til kynningar.