Fara í efni

Saltvík ehf. óskar eftir nýjum samningi við sveitarfélagið Norðurþing um landleigu í Saltvík.

Málsnúmer 202011111

Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð - 85. fundur - 08.12.2020

Fyrir fundi skipulags- og framkvæmdaráðs liggja drög að samningi og sniðmát að samningum sem gerðir hafa verið varðandi landleigu.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að drögin verði undirstaða samnings við leigutaka en að áburðaráætlun verði hluti af samningi líkt og öðrum samningum sem sveitarfélagið gerir varðandi landleigu.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 86. fundur - 12.01.2021

Fyrir ráðinu liggja drög að samningi við Saltvík um landleigu. Ráðið þarf að taka afstöðu til draganna.
Bergur Elías leggur fram eftirfarandi tillögu:
Í meðfylgjandi samningsdrögum er kemur fram að verið er að leigja 84 hektara í landi Saltvíkur til 20 ára. Um er að ræða 9 landspildur og nær samningurinn yfir þær allar. Undirritaður telur rétt að gerður sé sér samningur um hverja landsspildu og að uppsagnarákvæði hans sér skýrt. Fram kemur að landspilda #84 sé í leigu annars aðliða og að sá samingur verði yfirtekin án auglýsingar.
Tillagan er samþykkt með atkvæðum Bergs, Guðmundar og Kristins.
Silja og Kristján greiða atkvæði á móti.

Bergur leggur fram eftirfarandi tillögu:
Að landspilda #84 sé auglýst til umsóknar þegar hún losnar.
Tillagan er samþykkt með atkvæðum Bergs, Guðmundar og Kristjáns.
Kristinn situr hjá.
Silja greiðir atkvæði á móti.


Silja hafnar tillögunum og samþykkir drögin.

Skipulags og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að útfæra samningsdrögin í samræmi við samþykkta tillögu og leggja fyrir ráðið að nýju.

Sveitarstjórn Norðurþings - 109. fundur - 19.01.2021

Silja Jóhannesdóttir óskar eftir umræðu um atvinnuuppbyggingu í Norðurþingi undir þessum fundarlið.
Til máls tóku: Silja, Hjálmar, Bergur, Kristján og Hafrún.

Silja leggur fram eftirfarandi bókun:
Undirrituð fagnar framtíðaráformum uppbyggingar í Saltvík og þykir ljóst að þarna er verið að nýta styrkleika svæðis og þekkingar sem fyrir er. Undirrituð vill koma því á framfæri að ferli Norðurþings við að útdeila lausu beitarlandi felst ekki í auglýsingaferli heldur liggur fyrir óformlegur biðlisti hjá Umhverfisstjóra og í dag er enginn á biðlista varðandi þá landsspildu sem málið hnaut um.
Silja Jóhannesdóttir

Skipulags- og framkvæmdaráð - 87. fundur - 26.01.2021

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggja athugasemdir frá Saltvík ehf. varðandi afgreiðslu ráðsins á áður innsendum erindum félagsins í tengslum við óskaða landleigusamninga Saltvík ehf.
Komist skipulags- og framkvæmdaráð að þeirri niðurstöðu að þær athugasemdir sem hér koma fram séu réttmætar og frekari breytingar á samningsdrögum óþarfar, óskar undirritaður fyrir hönd Saltvík ehf. eftir þvi að ráðið endurskoði afstöðu sína til þeirra samningsdraga sem fyrir fundi lágu þann 12.1.2020 og samþykki þau drög óbreytt sem samning milli aðila.
Fallist ráðið ekki á að þessar athugasemdir séu réttmætar óskar undirritaður eftir skýrum svörum við þeim spurningum sem fram koma í athugasemdunum.
Undirrituð leggur fram eftirfarandi breytingatillögu á afgreiðslu skipulags- og framkvæmdaráðs, varðandi sama mál frá fundi 86:
Lagt er til að skipulags- og framkvæmdaráð samþykki samningsdrög sem lágu fyrir 86. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs þar sem allar níu landsspildur eru í einum samningi og ákvæði um að Saltvík hafi forleigurétt að landsspildu 84 þar sem engin annar er á biðlista. Ráðið felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að undirrita samninginn og leggja fyrir ráðið að nýju til kynningar.
Silja Jóhannesdóttir.
Samþykkt af Kristjáni Friðriki, Nönnu, Sigurgeiri og Silju.

Bergur Elías óskar bókað:
Það er óskandi að uppbygging í landi Saltvíkur geti orðið að veruleika og óska ég fyrirtækinu alls hins besta í þeim efnum. Á síðasta fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var ákveðið að gera samning um hverja landsspildu fyrir sig til beitarnota. Nú liggur fyrir breytingartillaga frá formanni nefndarinnar á þeirri ákvörðun sem staðfest hefur verið í sveitarstjórn. Er það mat undirritaðs að fyrri samþykkt sé betri fyrir sveitarfélagið Norðurþing sem og samningsaðila þess.

Tillaga, Bergur Elías leggur til að lögfræðingur verði fenginn til að lesa yfir samningsdrögin og koma með ábendingar til nefndarinnar áður en samningur verði undirritaður. En það hefur því miður ekki verið gert.

Tillagan er felld með atkvæðum Kristjáns Friðriks, Nönnu, Sigurgeirs og Silju.

Silja óskar bókað:
Ekki hefur tíðkast hjá sveitarfélaginu að auglýsa landsspildur sem losna heldur hefur það verklag verið haft að hjá umhverfisstjóra er óformlegur biðlisti skv. verklasreglum samþykktum. Í stað þess að setja fordæmi um auglýsingarskyldu varðandi allar landsspildur er hér ákveðið í ljósi þess að Saltvík er efst á þessum lista fyrir umrædda landsspildu 84 að setja inn í samning forleigurétt. Er það gert í ljósi heildarsamhengis uppbyggingarhugmynda Saltvíkur en í þeim spilar þessi landsspilda miklu máli til framtíðar.

Skipulags- og framkvæmdaráð - 89. fundur - 09.02.2021

Á 87. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs sem haldinn var þann 26. janúar sl, var eftirfarandi bókað:

Lagt er til að skipulags- og framkvæmdaráð samþykki samningsdrög sem lágu fyrir 86. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs þar sem allar níu landsspildur eru í einum samningi og ákvæði um að Saltvík hafi forleigurétt að landsspildu 84 þar sem engin annar er á biðlista. Ráðið felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að undirrita samninginn og leggja fyrir ráðið að nýju til kynningar.
Silja Jóhannesdóttir.
Samþykkt af Kristjáni Friðriki, Nönnu, Sigurgeiri og Silju.

Fyrir liggja drög að 20 ára samkomulagi við Saltvík ehf. vegna leigu beitarhólfa í landi Saltvíkur. Samningsdrögin eru undirrituð f.h. Norðurþings og lögð fram til kynningar til samræmis við bókun ráðsins frá 26. janúar sl.
Lagt fram til kynningar.