Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

87. fundur 26. janúar 2021 kl. 13:00 - 16:05 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Silja Jóhannesdóttir formaður
  • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
  • Kristján Friðrik Sigurðsson aðalmaður
  • Nanna Steina Höskuldsdóttir varamaður
  • Sigurgeir Höskuldsson varamaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Smári Jónas Lúðvíksson starfsmaður í stjórnsýslu
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
  • Jónas Hreiðar Einarsson starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingarfulltrúi sat fundinn undir liðum 1-9.
Jónas H. Einarsson verkefnastjóri sat fundinn undir liðum 13-17.
Smári J. Lúðvíksson umhverfisstjóri sat fundinn undir liðum 11-13.
Ketill G. Árnason verkefnisstjóri sat fundinn undir liðum 14-15.

1.Deiliskipulag fyrir Pálsgarð og Útgarð

Málsnúmer 202009067Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu deiliskipulagshugmyndar við Útgarð og Pálsgarð. Ábendingar komu frá Friðriki Sigurðssyni f.h. Naustalæks ehf. og stjórn húsfélags Útgarðs 6. Naustalækur leggur til að aldursviðmið íbúa að Útgarði 2 verði 55 ár líkt og gildir á lóðinni að Útgarði 4-8. Ennfremur að byggingarreitur bílakjallara verði rýmkaður sem kostur er. Stjórn húsfélags Útgarðs 6 óskar þess að byggingarreitur B3 innan lóðarinnar að Útgarði 4-8 verði felldur niður, enda vandséð að pláss sé fyrir fleiri íbúðir á lóðinni en þegar hafa verið byggðar. Aðalsteinn Skarphéðinsson óskaði eftir að fá að koma inn á fund nefndarinnar til að gera grein fyrir sínum sjónarmiðum og kynnti hann þau í upphafi umfjöllunar málsins.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Aðalsteini fyrir að gera grein fyrir sínum sjónarmiðum. Ráðið frestar frekari afgreiðslu málsins.

2.Ósk um breytingu á aðalskipulagi Norðurþings 2010-2030 vegna uppbyggingu ferðaþjónustu við Meiðavelli

Málsnúmer 202101062Vakta málsnúmer

Ágústa Ágústsdóttir á Meiðavöllum óskar þess að unnið verði að breytingum aðalskipulags þannig að uppbygging ferðaþjónustu á Meiðavöllum verði möguleg til samræmis við þær hugmyndir sem kynntar hafa verið á undanförnum árum.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja undirbúning að breytingu aðalskipulags við Dettifossveg og ræða við aðra aðila á svæðinu.

3.Húsfélagið Útgarði 6-8 óskar eftir að fá að setja upp svalalokanir á allar íbúðir

Málsnúmer 202101002Vakta málsnúmer

Byggingarfulltrúi hefur heimilað uppsetningu svalalokana á allar svalir að Útgarði 6 eins og nánar er skýrt í framlögðum gögnum.
Skipulags- og framkvæmdaráð gerir ekki athugasemd við þessa afgreiðslu byggingarfulltrúa.

4.Beiðni um umsögn vegna fiskeldis Rifós hf að Röndinni á Kópaskeri

Málsnúmer 202101081Vakta málsnúmer

Matvælastofnun óskar umsagnar Norðurþings um hvort náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfssvæði fiskeldisstöðvar á Röndinni eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til neikvæðra vistfræði- eða erfðafræðiáhrifa sem leitt getur af leyfisskyldri starfsemi. Gert er ráð fyrir að hámarkslífmassi í stöðinni fari ekki yfir 400 tonn og að framleiðsla verði allt að 2.000 tonnum af laxaseiðum af Saga stofni á ársgrundvelli. Afrennsli stöðvarinnar er í frárennslislögn og stokk allt að 5 m út fyrir stórstraumsfjöru. Fyrir fundi liggja greinargerð fyrirspurnar framkvæmdaaðila um matsskyldu dags. 12. júní 2020 og ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu dags. 21. september 2020.
Hafin er uppbygging fiskeldisstöðvar á Röndinni á Kópaskeri til samræmis við ákvæði deiliskipulags svæðisins. Skipulags- og framkvæmdaráð telur ekki tilefni til að ætla að náttúrulegar aðstæður á fyrirhuguðu starfsvæði fiskeldisstöðvarinnar eða fyrirhugaðar eldistegundir, eldisstofnar eða eldisaðferðir gefi tilefni til neikvæðra vistfræði- eða erfðafræðiáhrifa.

5.Rifós hf. óskar eftir vatnstökuleyfi úr Snartastaðalæk

Málsnúmer 202101082Vakta málsnúmer

Rifós hf. óskar heimildar til að dæla vatni úr Snartarstaðalæk til kælingar um varmaskipti og skila út í lækinn aftur á sama stað eða skammt neðan vatnstöku. Meðfylgjandi erindi er rissmynd af framkvæmdinni. Horft er til þess að byggja upp lítinn niðurgrafinn brunn nærri vatnsbakka til að auðvelda vatnstökuna. Vatnstaka yrði eingöngu þegar kæla þarf niður fyrir flutninga og stæði þá í tvær til þrjár vikur í senn. Vatnstaka yrði 50-100 l/sek þegar mest væri.
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur jákvætt í erindið en vísar því til hverfisráðs Öxarfjarðar til umsagnar og mun taka málið aftur fyrir að viku liðinni. Ráðið gerir fyrir sitt leiti ekki athugasemd við að gerður verði brunnur til vatnstöku við Snartarstaðalæk, enda verði þess gætt að hann verði snyrtilegur og trufli ekki umferð gangandi meðfram lækjarbakkanum. Ráðið telur æskilegt að vatnstaka þessi verði neðar við lækinn en fram kemur í hugmyndum framkvæmdaaðila. Lækjarbakkinn er utan marka lands sveitarfélagsins og tilheyrir jörðinni Snartarstöðum. Því þarf umsækjandi að fá samþykki landeiganda fyrir brunninum áður en framkvæmdir hefjast.

6.Ósk um að breyta skráningu á frístundarhúsi að Stekkjarhvammi 8 í íbúðarhús

Málsnúmer 202101093Vakta málsnúmer

Benedikt Björnsson óskar þess að frístundahúsið að Stekkjarhvammi 8 í Reykjahverfi verði skráð sem íbúðarhús.
Innan frístundahúsasvæðis í Stekkjarhvammi er skráð ábúð í þremur húsum. Þann 12. september 2016 samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd sveitarfélagsins að skrá húsið að Stekkjarhvammi 1 sem íbúðarhús og einnig samþykkti skipulags- og framkvæmdaráð þann 12. febrúar 2019 að skrá húsið að Stekkjarhvammi 3 sem íbúðarhús. Þar fyrir utan er einbýlishús í jaðri frístundahúsasvæðisins og þar föst búseta. Með vísan til fordæma innan sama svæðis fellst skipulags- og framkvæmdaráð á að breyta skráningu frístundahúss að Stekkjarhvammi 8 í íbúðarhús.

7.Gullmolar ehf. óskar eftir úthlutun lóða að Höfða 4-8

Málsnúmer 202101107Vakta málsnúmer

Gullmolar ehf. óska eftir úthlutun lóða að Höfða 4-8 á Húsavík. Fyrirtækið hefur áhuga á að byggja 4-5.000 m² atvinnuhúsnæðis í einu eða fleiri húsum á lóðum Höfða 4-10. Slík uppbygging samræmist ekki núgildandi deiliskipulagi og óskar fyrirtækið samráðs við endurskoðun deiliskipulagsins.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að Gullmolum ehf. verði veitt vilyrði fyrir lóðum að Höfða 4, 6 og 8 með fyrirvörum um afgreiðslu breytingar deiliskipulags. Ráðið telur tímabært að endurskoða deiliskipulag á Höfða og felur skipulagsfulltrúa að hefja vinnu þar að lútandi.

8.Norðlenska óskar heimildar til dreifingar á gori og blóði til uppgræðslu

Málsnúmer 202002064Vakta málsnúmer

Á 84. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs þann 24. nóvember s.l. fjallaði ráðið um minnisblað Náttúrustofu Norðausturlands um ásókn fugla á gordreifingarsvæði Norðlenska innan skógræktarsvæðis Kolviðar á Ærvíkurhöfða. Ennfremur var á fundinum fjallað um tölvupóst sem ráðinu barst frá Jóni Helga Björnssyni á Laxamýri þann 23. nóvember s.l. Við ákvörðun um að gera tilraun með losun gors á Ærvíkurhöfða var horft til umsagnar Matvælastofnunar dags. 9. júlí 2020. Þar kemur fram að um gor séu settar sömu kröfur og fyrir húsdýraáburð og því megi nota innihald meltingarvegar á land án frekari vinnslu. Ráðið ákvað að bíða með ákvörðun um framhald gorlosunar á Ærvíkurhöfða til upphafs nýhafins árs.

Sigurgeir vék af fundi undir þessum lið.

Ljóst er af athugunum Náttúrustofu Norðausturlands að máfar sækja nokkuð í gorinn skömmu eftir dreifingu. Hrafnar virðast minna sækja í gorinn en máfar, þó eitthvað sé. Jafnframt er það ljóst að áhugi máfanna á gornum er til þess að gera lítill og varir ekki lengi eftir dreifingu. Ekki hefur borið á fuglum á gorlosunarsvæðinu eftir að losun var hætt í lok október. Ásókn fugla virðist því ekki frágangssök við dreifingu gors. Ekki virðist heldur að lyktarmengun vegna losunar gors á höfðann hafi verið veruleg. Það er kunnara en frá þurfi að segja að máfar og hrafnar sækja umtalsvert að neðsta hluta Laxár og varla tilefni til að ætla að sú ásókn vaxi vegna losunar gors á Ærvíkurhöfða, með vísan til athugana Náttúrustofu Norðausturlands. Við akstur með gor um tún Ærvíkurhöfðans sukku ökutæki talsvert ofan í svörðinn og skyldu eftir djúp hjólför. Losun gors á lítt gróið land innan vandaðrar girðingar skammt frá sláturhúsi virðist umhverfisvæn leið til förgunar/nýtingar úrgangsins og ekki augljós álitlegri losunarstaður. Framkvæmda- og þjónustufulltrúa er falið að vinna að lagfæringu girðinga á landamerkjum.

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að losun gors innan skógræktarsvæðis á Ærvíkurhöfða verði áfram heimiluð. Losun verði eingöngu á þeim svæðum höfðans sem hafa afrennsli úrkomu og leysingavatns fram af höfðanum til að draga úr líkum á smithættu yfir í beitilönd við Saltvík. Eftir hvert losunartímabil þarf að lagfæra skemmdir í akstursleið. Áfram verði fylgst með ásókn fugla í gorlosunarsvæðið. Ákvörðun um heimild til losunar gors á svæðinu verði endurskoðuð ef aðstæður gefa tilefni til.

9.Verktakayfirlit framkvæmdasviðs 2020.

Málsnúmer 202012019Vakta málsnúmer

Kallað hefur verið eftir yfirliti yfir þá verktaka sem sveitarfélagið Norðurþing hefur átt í viðskiptum við á árinu 2020 sem ekki hafa farið í gegnum útboðsferli. Samantekt þeirra upplýsinga liggur nú fyrir ásamt sundurliðun á þeim greiðslum sem farið hafa á milli vegna framlagðrar vinnu verktaka á rekstrarárinu 2020.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að taka saman yfirlit yfir útboðsverk og leggja fyrir ráðið innan tveggja vikna.

10.Saltvík ehf. óskar eftir nýjum samningi við sveitarfélagið Norðurþing um landleigu í Saltvík

Málsnúmer 202011111Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggja athugasemdir frá Saltvík ehf. varðandi afgreiðslu ráðsins á áður innsendum erindum félagsins í tengslum við óskaða landleigusamninga Saltvík ehf.
Komist skipulags- og framkvæmdaráð að þeirri niðurstöðu að þær athugasemdir sem hér koma fram séu réttmætar og frekari breytingar á samningsdrögum óþarfar, óskar undirritaður fyrir hönd Saltvík ehf. eftir þvi að ráðið endurskoði afstöðu sína til þeirra samningsdraga sem fyrir fundi lágu þann 12.1.2020 og samþykki þau drög óbreytt sem samning milli aðila.
Fallist ráðið ekki á að þessar athugasemdir séu réttmætar óskar undirritaður eftir skýrum svörum við þeim spurningum sem fram koma í athugasemdunum.
Undirrituð leggur fram eftirfarandi breytingatillögu á afgreiðslu skipulags- og framkvæmdaráðs, varðandi sama mál frá fundi 86:
Lagt er til að skipulags- og framkvæmdaráð samþykki samningsdrög sem lágu fyrir 86. fundi skipulags- og framkvæmdaráðs þar sem allar níu landsspildur eru í einum samningi og ákvæði um að Saltvík hafi forleigurétt að landsspildu 84 þar sem engin annar er á biðlista. Ráðið felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að undirrita samninginn og leggja fyrir ráðið að nýju til kynningar.
Silja Jóhannesdóttir.
Samþykkt af Kristjáni Friðriki, Nönnu, Sigurgeiri og Silju.

Bergur Elías óskar bókað:
Það er óskandi að uppbygging í landi Saltvíkur geti orðið að veruleika og óska ég fyrirtækinu alls hins besta í þeim efnum. Á síðasta fundi skipulags- og framkvæmdaráðs var ákveðið að gera samning um hverja landsspildu fyrir sig til beitarnota. Nú liggur fyrir breytingartillaga frá formanni nefndarinnar á þeirri ákvörðun sem staðfest hefur verið í sveitarstjórn. Er það mat undirritaðs að fyrri samþykkt sé betri fyrir sveitarfélagið Norðurþing sem og samningsaðila þess.

Tillaga, Bergur Elías leggur til að lögfræðingur verði fenginn til að lesa yfir samningsdrögin og koma með ábendingar til nefndarinnar áður en samningur verði undirritaður. En það hefur því miður ekki verið gert.

Tillagan er felld með atkvæðum Kristjáns Friðriks, Nönnu, Sigurgeirs og Silju.

Silja óskar bókað:
Ekki hefur tíðkast hjá sveitarfélaginu að auglýsa landsspildur sem losna heldur hefur það verklag verið haft að hjá umhverfisstjóra er óformlegur biðlisti skv. verklasreglum samþykktum. Í stað þess að setja fordæmi um auglýsingarskyldu varðandi allar landsspildur er hér ákveðið í ljósi þess að Saltvík er efst á þessum lista fyrir umrædda landsspildu 84 að setja inn í samning forleigurétt. Er það gert í ljósi heildarsamhengis uppbyggingarhugmynda Saltvíkur en í þeim spilar þessi landsspilda miklu máli til framtíðar.

11.Fyrirspurn frá hverfisráði Öxarfjarðar: Gámaplan við Þverá í Öxarfirði.

Málsnúmer 202101095Vakta málsnúmer

Að mati hverfisráðs Öxarfjarðar eru aðstæður á gámasvæðinu við Þverá taldar óásættanlegar og að mati herfisráðsins er afar brýnt að ráðast í breytingar svo sem jarðsvegsskipti sem allra fyrst. Undanfarin ár hefur verið allt að því ófært fyrir fólksbíla hluta árs vegna leysingarvatns sem þar safnast og myndar talsverða drullu. Þess má geta að þetta tiltekna gámaplan er eini staðurinn í Öxarfirði þar sem hægt er að fara með brotajárn og gróft heimilissorp og því er afar mikilvægt að aðgengi sé gott.
Óskað er afstöðu skipulags- og framkvæmdaráðs til ábendinga sem settar eru fram af hverfisráðsi Öxarfjarðar í tengslum við úrbætur á gámasvæði við Þverá.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að skoða heildstætt gámasvæði í Kelduhverfi og Öxarfirði með staðsetningu og kostnað við framkvæmdir í huga. Leggja skal þau gögn fyrir ráðið um mánaðarmótin mars - apríl 2021.

12.Fyrirspurn frá hverfisráði Öxarfjarðar: Snjómokstur í Öxarfjarðarhéraði.

Málsnúmer 202101094Vakta málsnúmer

Hverfisráð Öxarfjarðar óskar eftir því að sjá samninginn við þá aðila sem sjá um snjómokstur á svæðinu, í því samhengi vill hverfisráð benda á að gangstéttar eru ekki mokaðar á Kópaskeri.
Þá óskar ráðið einnig eftir svörum við hvers vegna snjómoksturinn í Öxarfjarðarhéraði var ekki boðinn út.
Í dag sér Norðurþing um snjómokstur í Kelduhverfi og Kópaskeri og með helmingamoksturssamninga við Vegagerðina annars staðar á svæðinu. Nýbúið er að bjóða út snjómokstur í Reykjahverfi og Húsavík og verið er að skoða hvernig það kemur út. Ráðið þakkar erindið og ábendingar um gangstéttir.

13.Þórseyri - Staða á húsnæði og viðhald

Málsnúmer 202002112Vakta málsnúmer

Ástand fasteigna sveitarfélagsins í landi Þórseyrar í Kelduhverfi hefur farið hnignandi síðustu ár og líklega fátt annað fyrirliggjandi en að rífa það sem eftir stendur. Fyrir liggur erindi frá eiganda jarðarinnar Syðri-Bakka í Kelduhverfi varðandi fyrirséðar aðgerðir af hálfu Norðurþings í þá veru að bregðast við þessu ástandi fasteigna sveitarfélagsins á Þórseyri í Kelduhverfi.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar fyrir ábendingarnar. Unnið er að því að skilgreina lóð í kringum húsin með þann möguleika í huga að selja eignina. Ef sú vinna dregst þá felur ráðið framkvæmda- og þjónustufulltrúa að huga að frágangi eigna.

14.Skjálftasetrið - Endurnýjun á samkomulagi við Skjálftafélagið á Kópaskeri um Skólahúsið á Kópaskeri

Málsnúmer 202101104Vakta málsnúmer

Skjálftafélagið, félag áhugafólks um járðskjálftasetur á Kópakseri óskar eftir endurnýjun á samningi um leigu á Skólahúsinu á Kópaskeri
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að endurnýja drög að samningi og leggja fyrir ráðið að nýju. Ráðið felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að leggja fram kostnaðaráætlun varðandi viðhald tengt leka.

15.Umhverfis- og auðlindaráðuneytið: Til umsagnar stefnur, lög og frumvörp 2021

Málsnúmer 202101056Vakta málsnúmer

Óskað er eftir umsögnum um drög að stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um meðhöndlun úrgangs 2021-2032. Meginmarkmið stefnunnar eru að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, vinna að kolefnishlutleysi Íslands og að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.
https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2875
Lagt fram til kynningar.

16.Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið: Til umsagnar stefnur, lög og frumvörp 2021

Málsnúmer 202101106Vakta málsnúmer

Óskað er eftir umsögnum um drög að nýrri reglugerð um starfsemi Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Lögð er til heimild sjóðsins til að úthluta sveitarfélögum sérstökum framlögum á árunum 2021 og 2022 vegna tiltekinna framkvæmda.
https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2885
Lagt fram til kynningar.

17.Suðurfjara - Búðará og fylling.

Málsnúmer 201810023Vakta málsnúmer

Óskað er afstöðu Skipulags- og framkvæmdaráðs til þess að farið verði í verðkönnun varðandi verkefni sem snýr að afmörkun landfyllingar undir byggingalóðir í suðurfjöru (suðurfyllingu) með grjótvörn. Sú framkvæmd yrði til þess að mögulegt verði að taka við nothæfu efni sem fellur til á svæðinu t.a.m efni sem fellur til við jarðvegsframkvæmdir í tengslum við fyrirhugaða byggingu hjúkrunarheimilis við Auðbrekku.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir að farið verði í verðkönnun.

Fundi slitið - kl. 16:05.