Fara í efni

Ársreikningur Norðurþings 2020

Málsnúmer 202103006

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Norðurþings - 358. fundur - 08.04.2021

Fyrir byggðarráði liggja fyrstu drög að ársreikningum sjóða og B-hluta félaga sveitarfélagsins.
Lagt fram til kynningar.

Byggðarráð Norðurþings - 359. fundur - 15.04.2021

Fyrir byggðarráði liggur ársreikningur Norðurþings fyrir árið 2020.
Á fund byggðarráðs kemur Níels Guðmundsson endurskoðandi.
Byggðarráð þakkar Níelsi fyrir góða yfirferð og vísar ársreikningnum til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Norðurþings - 112. fundur - 20.04.2021

Á 359. fundi byggðarráðs var eftirfarandi bókað;

Byggðarráð þakkar Níelsi fyrir góða yfirferð og vísar ársreikningnum til fyrri umræðu í sveitarstjórn.
Níels Guðmundsson endurskoðandi frá Enor tók til máls og fór yfir ársreikning Norðurþings.

Aðrir sem tóku til máls voru; Kristján og Bergur.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að vísa ársreikningi Norðurþings fyrir árið 2020 til síðari umræðu í sveitarstjórn.


Byggðarráð Norðurþings - 362. fundur - 12.05.2021

Fyrir byggðarráði liggur ársreikningur Norðurþings fyrir árið 2020 til undirritunar.
Ársreikningurinn er lagður fram til undirritunar og fer til síðari umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Norðurþings - 113. fundur - 18.05.2021

Á 112. fundi sveitarstjórnar Norðurþings var eftirfarandi bókað;

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að vísa ársreikningi Norðurþings fyrir árið 2020 til síðari umræðu í sveitarstjórn.

Fyrir sveitarstjórn liggur ársreikningur Norðurþings fyrir árið 2020 til síðari umræðu, ásamt endurskoðunarskýrslu Enor.
Níels Guðmundsson endurskoðandi sat fundinn undir þessum lið.

Til máls tóku: Kristján Þór, Bergur og Helena.

Meirihluti sveitarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun:
Ársreikningurinn sem hér liggur til samþykktar fyrir árið 2020 er þess eðlis að sýn okkar á hann fer eftir því hvort við horfum á glasið hálf fullt eða hálf tómt . Helstu staðreyndir rekstrar ársins 2020 liggja fyrir og samantekið má segja að áætlun samstæðunnar standist að langmestu leyti nema hvað Hafnasjóð varðar, þar sem tekjufall var meira en áætlun gerði ráð fyrir, annars vegar vegna rekstrarstöðvunar PCC BakkiSilicon hf. og hins vegar gengismunur uppgreiðslu á erlendu láni var hærri en áætlað var. Við glímdum einnig við frávik í rekstri Dvalarheimilis aldraðra Hvamms þar sem COVID-19 hafði mikil áhrif á kostnað. Leigufélag Hvamms skilar hins vegar mun betri niðurstöðu en reiknað var með vegna sölu eigna.
Rekstrargjöld hækka nokkuð milli ára en launavísitala hækkaði um 10,3% frá janúar 2020 til janúar 2021 og vísitala neysluverðs um 4,3%. Hækkun launa um 13% milli ára er því ekki langt frá vísitöluhækkuninni og spilar hækkun lífeyrisskuldbindinga þar inn enn fremur. Laun og launatengd gjöld, án lífeyrisskuldbindinga, sem hlutfall af rekstrartekjum er 59,3% á árinu 2020 og voru 59,1% á árinu 2019. Önnur rekstrargjöld hækka um 6,6%, sem er nokkuð umfram vísitölu. Þar ber að benda sérstaklega á aukinn gjaldfærðan viðhaldskostnað hjá Eignasjóði og Orkuveitu Húsavíkur.
Veltufé frá rekstri er æskilegt að sé um 10% af tekjum, og er það 9,43% í A hluta og 11,16% í samstæðunni. Tekin ný langtímalán eru langt undir áætlun í bæði A hluta og í samstæðunni og ný langtímalán að frádregnum afborgunum ársins eru aðeins um 40 milljónir í A hluta og í samstæðunni eru afborganir lána umfram ný lán tæpar 49 milljónir.
Þrátt fyrir hallarekstur A hluta á árinu 2020 og jákvæða niðurstöðu ársins 2019 þá hækkar handbært fé á árinu 2020 um 78 milljónir þótt rekstrarafkoman versni milli ára um 265 milljónir. Alls hækkar handbært fé á árinu 2020 um 209 milljónir. Því hefur vel tekist til við að tryggja lausafjárstöðu sveitarfélagsins þrátt fyrir versnandi rekstrarskilyrði.
Í A hluta hækkar veltufjárhlutfall milli ára, úr 0,99 í 1,25, ásamt eiginfjárhlutfalli, úr 16% í 17%, og skuldahlutfallið lækkar, úr 130% í 122%, skuldaviðmiðið fer úr 80% í 77%. Það er mat meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings að reikningurinn í heild sýni góða niðurstöðu í rekstri, þrátt fyrir þá óvissu sem við blasti i upphafi árs, sem og að aðhalds hafi verið gætt í fjárfestingum á árinu 2020. Bæði tekjur og gjöld eru umfram áætlanir og þannig næst niðurstaða sem er í góðu samræmi við áætlun ársins.


Minnihluti sveitarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun:
Fyrir liggur, til staðfestingar, ársreikningur samstæðu Norðurþings fyrir árið 2020. Árið 2020, var svo vægt sé til orða tekið erfitt ár fyrir land og þjóð þar sem heimsfaraldur hafði mikil áhrif á atvinnustig og tekjuöflun. Vissulega er það svo að Covid 19 faraldurinn hefur komið misjafnlega niður á sveitarfélög landsins.
Í samþykktri fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 var gert ráð fyrir jákvæðri afkomu upp á um 65 m.kr. Samanburður á samþykktri áætlun og raun er sem hér segir.
Gleðilegt er að sjá að tekjur eru umtalsvert meiri en gert var ráð fyrir þrátt fyrir heimsfaraldur. Á hinn bóginn er ljóst að grunnrekstur er orðin allt of þungur eins og bent hefur verið ítrekað á, skatttekjur duga ekki fyrir launum og er launaliðskostnaður á stöðugildi tæpar ein milljón á mánuði, eða 11, 4 milljónir á ári. Haldi þessi þróun áfram mun það leiða til frekari lántöku, hækkunar gjalda á íbúa, sem er nú ærin fyrir og minni burði til fjárfestinga. Það er vilji okkar sem sitjum í minnihluta sveitarstjórnar að ráðdeild sé höfð að leiðarljósi í rekstri og vandað sé til verka þegar fjallað er um almannafé. Allir kjörnir fulltrúar eru samábyrgir í þeim ákvörðunum sem teknar eru. Bæta þarf þjónustu við börn og ungmenni í öllu sveitarfélaginu, ljúka framkvæmdum sem sveitarfélagið ræðst í og stöðva framúrkeyrslur verkefna og málaflokka. Auknar tekjur verða ekki sóttar í vasa fjölskyldna og fyrirtækja til að fóðra rekstur sveitarfélagsins.Áætlun/ Raun/ Frávik/ %
Skatttekjur/ 2.089.952/ 2.248.365/ 158.413/ 8%
Jöfnunarsjóður/ 618.038/ 722.635/ 104.597/ 17%
Aðrar tekjur/ 2.019.336/ 2.158.435/ 139.099/ 7%
Samtals tekjur/ 4.727.326/ 5.129.435/ 402.109/ 9%

Launakostnaður/ 2.634.667/ 3.063.427/ 428.760/ 16%
Annar rekstrarkost./ 1.433.824/ 1.471.210/ 37.386/ 3%

Afkoma/ 64.193/ -116.685/ -180.878/ -282%
Fjárfestingar/ 497.000/ 273.133/ -223.867/ -45%


Ársreikningur Norðurþings er samþykktur með atkvæðum Birnu, Helenu, Kolbrúnar Ödu, Kristjáns Friðriks, Kristjáns Þórs og Silju.
Bergur, Bylgja og Hrund sitja hjá.


Ársreikningur Norðurþings verður birtur undirritaður á vefsíðu sveitarfélagsins.