Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

102. fundur 20. júlí 2021 kl. 13:00 - 15:05 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Benóný Valur Jakobsson formaður
  • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
  • Ásta Hermannsdóttir aðalmaður
  • Nanna Steina Höskuldsdóttir aðalmaður
  • Heiðar Hrafn Halldórsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri
  • Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Kristján Þór magnússon sveitarstjóri
Dagskrá

1.Stigi frá hafnarstétt að Garðarsbraut

Málsnúmer 202107047Vakta málsnúmer

Til umræðu er ástand stigans sem liggur niður á miðhafnarsvæðið ofan af Hafnarstétt 19. Stiginn er orðinn hættulegur sökum slaks ástands hans og fyrir liggur að taka ákvörðun um hvort hann verði fjarlægður tímabundið.
Formaður skipulags- og framkvæmdaráðs leggur til að stiganum ofan af þaki Hafnarstéttar 19 og niður á hafnarsvæðið verði lokað að sinni, vegna slysahættu. Málið verði tekið aftur fyrir og ákvörðun um hugsanlega endurbyggingu stigans tekin í ágúst.

2.Breyting á deiliskipulagi Norðurhafnar

Málsnúmer 202106036Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tillaga að breytingu deiliskipulags Norðurhafnarsvæðis á Húsavík. Breytingartillagan felur fyrst og fremst í sér að skipulagssvæðið minnkar frá gildandi skipulagi þar sem lagt er upp með að lóðir og viðlegukanntar á Naustagarði og lóð slippsins (H3) fylgi hér eftir deiliskipulagi miðhafnarsvæðisins.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðaráð, í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar, að skipulagstillagan verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga.

3.Skipulag miðhafnarsvæðis

Málsnúmer 202002134Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tillaga að breytingu deiliskipulags miðhafnarsvæðis á Húsavík. Breytingartillagan felur í sér ýmsar breytingar sem ræddar hafa verið í skipulags- og framkvæmdaráði á undanförnum mánuðum. Meðal breytinga er stækkun skipulagssvæðisins þannig að miðhafnarskipulagið taki yfir lóðir og viðlegukannta Naustagarðs og slippsins. Ennfremur gerir tillagan ráð fyrir að Hafnarstétt 1 og 3 verði tengd með viðbyggingu til samræmis við hugmyndir sem áður hafa verið kynntar ráðinu. Fyrirhuguð bygging mun loka á umferðarleið milli húsanna sem skilgreind er í gildandi deiliskipulagi, en í stað þeirrar leiðar er gert ráð fyrir kvöð um nýja umferðarleið milli Hafnarstéttar 3 og Hafnarstéttar 5.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við byggðaráð, í sumarleyfisumboði sveitarstjórnar, að skipulagstillagan verði kynnt skv. ákvæðum skipulagslaga og til samræmis við minniháttar breytingar samþykktar á fundinum.

4.Fyrirspurn vegna lóðar undir gagnaversstarfsemi við Bakka

Málsnúmer 202107045Vakta málsnúmer

GreenBlocks ehf óska eftir tímabundnum afnotum lóðar Tröllabakka 1 (F1) á iðnaðarsvæðinu á Bakka. Ætlunin er að byggja upp gagnaver á lóðinni. Fyrst um sinn yrði uppbyggingin í formi lausra gámaeininga en horft til varanlegri uppbyggingar síðar. Á þessu stigi er horft til afnota af lóðinni til tveggja ára.
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur jákvætt í erindið en frestar tillögugerð að lóðarúthlutun. Í ljósi viljayfirlýsingar sem gerð var við Carbon Iceland á síðasta ári leggur skipulags- og framkvæmdaráð til að byggðaráð taki við formlegri afgreiðslu málsins til samræmis við skuldbindingar sem finna má í viljayfirlýsingunni. Á lóðinni standa nú vinnubúðir, en gert er ráð fyrir að eigendur fjarlægi þær áður en til úthlutunar kemur.

5.Umræður um viðhorfskönnun um hugmyndir að breytingum á aðalskipulagi vegna vindorkugarðs á Hólaheiði

Málsnúmer 202107051Vakta málsnúmer

Til fundarins kemur Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir frá Þekkingarneti Þingeyinga til að ræða útfærslu á fyrirhugaðri viðhorfskönnun meðal íbúa Norðurþings um hugmyndir að breytingum á aðalskipulagi vegna vindorkugarðs á Hólaheiði.
Skipulags-og framkvæmdaráð þakkar Lilju Berglind fyrir komuna á fundinn og gagnlegar upplýsingar. Ráðið felur skipulags- og byggingarfulltrúa að taka saman á einn stað á vefsíðu Norðurþings kynningu á hugmyndum að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins í tengslum við mögulegan vindorkugarð á Hólaheiði. Ráðið hvetur íbúa Norðurþings og þá sérstaklega þá sem búa í nálægð við mögulegan vindorkugarð að kynna sér hugmyndir að breytingu á aðalskipulagi vel og vandlega. Fyrirhugað er að framkvæmd verði viðhorfskönnun meðal íbúa á áhrifasvæði mögulegs vindorkugarðs í ágúst. Skipulags- og framkvæmdaráð fagnar fyrirætlunum hverfisráðs Kópaskers um að efna til íbúafundar um málið eftir miðjan ágúst. Skipulags- og framkvæmdaráð vísar málinu og undirbúningi viðhorfskönnunar til frekari umræðu og útfærslu í byggðarráði.

6.Drög að íbúakönnun um húsnæðismál á Kópaskeri og við Öxarfjörð

Málsnúmer 202107050Vakta málsnúmer

Unnið hefur verið að gerð íbúakönnunar um húsnæðismál á Kópaskeri og nágrenni, í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu leiguhúsnæðis á Kópaskeri, á vegum Bríetar leigufélags. Til fundarins kemur Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir frá Þekkingarneti Þingeyinga til að ræða fyrirhugaða íbúakönnun um húsnæðismál á Kópaskeri og við Öxarfjörð.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar Lilju fyrir komuna á fundinn. Ráðið samþykkir fyrirliggjandi drög að íbúakönnun um húsnæðismál á Kópaskeri og Öxarfirði og óskar eftir því að sveitarstjóri vinni málið áfram í samráði við fulltrúa Þekkingarnetsins. Ráðið leggur til að þessi niðurstaða verði kynnt í byggðarráði.

7.Áhyggjur af velferð barna og umferðarhraða

Málsnúmer 202104144Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tillaga frá lögreglunni á Norðurlandi eystra sem gæti dregið úr slysahættu hjólandi ungmenna á gatnamótum Baughóls og Fossvalla. Eftir að málið hafði verið skoðað af hálfu lögreglunnar á Húsavík og rætt við þau börn sem þarna fara um á hverjum degi, virðist að mati lögreglu sem skynsamlegasta lausnin felist í því að færa gangbrautina austan við gatnamót Fossvalla og Baughóls og ráðast samhliða í frágang neðsta hluta gangstéttar austan megin í Bóbabrekkunni svo hún verði fær hlaupahjólum og gangandi umferð að Fossvöllum.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir tillögu lögreglunnar og felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að vinna kostnaðar- og verkáætlun og leggja fyrir ráðið í ágúst.

Fundi slitið - kl. 15:05.