Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

166. fundur 05. september 2023 kl. 13:00 - 14:15 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Soffía Gísladóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund aðalmaður
  • Eysteinn Heiðar Kristjánsson aðalmaður
  • Ingibjörg Benediktsdóttir varaformaður
  • Birkir Freyr Stefánsson aðalmaður
  • Rebekka Ásgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
  • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
  • Elvar Árni Lund sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir stjórnsýslufulltrúi
Dagskrá

1.Öxarfjarðarskóli - Skipulag skólasvæðis við Öxarfjarðarskóla

Málsnúmer 202305071Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráð bókaði eftirfarandi á 158. fundi sínum 30 maí sl.
"Skipulags- og framkvæmdaráð felur sviðsstjóra skipulags- og framkvæmdasviðs að fá kostnaðaráætlun í hönnun á skólalóðinni og leggja fyrir ráðið að nýju."
Kostnaðaráætlun fyrir hönnun skólalóðar við Öxarfjarðarskóla í Lundi liggur nú fyrir og er lögð fram til ráðsins til kynningar.
Skipulags- og framkvæmdaráð vísar kostnaðaráætluninni til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2024. Sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs er falið að hefja undirbúning verksins á þessu ári.

2.Húsnæði fyrir frístund barna

Málsnúmer 202111135Vakta málsnúmer

Á 161. fundi fjölskylduráðs 29.08.2023, var eftirfarandi bókað:

Fjölskylduráð þakkar spretthóp um staðsetningu frístundahúsnæðis og félagsmiðstöðvar á Húsavík, fyrir vel unnin störf.

Niðurstaða spretthópsins er að leggja til að byggt verði við austurenda Borgarhólsskóla, í átt að Framhaldsskólanum. Ráðið gerir engar athugasemdir við niðurstöður spretthópsins og vísar niðurstöðunum til umfjöllunar í skipulags- og framkvæmdaráði með tilliti til byggingarframkvæmda og skipulagsmála á svæðinu.
Skipulags- og framkvæmdaráð gerir engar athugasemdir við niðurstöðu spretthópsins og vísar málinu til umfjöllunar í sveitarstjórn.

3.Tillaga vegna viðhalds á félagsaðstöðu í Íþróttahöllinni á Húsavík

Málsnúmer 202308052Vakta málsnúmer

Á 161. fundi fjölskylduráðs 29.08.2023 var eftirfarandi bókað: Undirritaðar leggja fram eftirfarandi tillögu:

Frá haustdögum árið 2017 hefur sá hluti húsnæðis íþróttahallarinnar sem hefur verið hugsaður fyrir félagsaðstöðu og kaffiaðstöðu í tengslum við íþróttastarfsemi og viðburði í íþróttahöllinni verið nýttur undir frístundastarfsemi. Vegna fjölgunar notenda frístundar 1.-4. bekkjar hefur verið fundinn staður í húsnæði Borgarhólsskóla á meðan unnið verður að því að byggja nýtt húsnæði fyrir frístundastarfsemi. Húsnæðið er þar af leiðandi ekki í neinni notkun á vegum sveitarfélagsins um þessar mundir og ekki fyrirséð að sveitarfélagið hafi sérstök not af því í framtíðinni fyrir starfsemi á sínum vegum. Undirritaðar leggja því til við skipulags- og framkvæmdaráð að farið verði í viðhald á rýminu, s.s. málningu, gólfefni og hljóðvist. Það er ósk okkar að viðhaldinu verði hraðað eins og hægt er. Að viðhaldsvinnu lokinni leggjum við til að Íþróttafélaginu Völsungi verði afhent rýmið til afnota að nýju, sem hluta af félagsaðstöðu sinni, með þeim kvöðum að rýmið verði hægt að nota í tengslum við viðburði sem fram fara í íþróttahöllinni og eru ótengdir félaginu s.s. í tengslum við 1. maí, 17. júní, tónleika eða annað slíkt sem ekki fellur undir hefðbundið íþróttastarf og viðburði því tengdu.

Helena Eydís Ingólfsdóttir - fulltrúi D lista
Hanna Jóna Stefánsdóttir - fulltrúi B lista
Bylgja Steingrímsdóttir - fulltrúi B lista

Tillagan er samþykkt samhljóða og henni verði vísað til skipulags- og framkvæmdaráðs.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að gera nauðsynlegar úrbætur í haust til að hægt sé að nýta rýmið að nýju.

4.Umsókn um lóð að Hraunholti 3

Málsnúmer 202308070Vakta málsnúmer

Belkod ehf óskar eftir byggingarlóðinni að Hraunholti 3 á Húsavík til uppbyggingar einbýlishúss.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að lóðinni verði úthlutað til Belkod ehf.

5.Umsókn um byggingarleyfi fyrir þjónustuhúsi í Vesturdal

Málsnúmer 202309009Vakta málsnúmer

Vatnajökulsþjóðgarður óskar eftir byggingarleyfi fyrir þjónustuhúsi í Vesturdal. Fyrir liggja teikningar af húsi og afstöðmynd unnar af Argos ehf. Fyrirhuguð bygging er 18,5 m² að grunnfleti.
Soffía vék af fundi undir þessum lið.

Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir erindið og heimilar byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi fyrir húsinu þegar fullnægjandi gögnum þar að lútandi hefur verið skilað inn.

6.Vinnureglur um umsagnir vegna rekstrarleyfa til sölu gistingar

Málsnúmer 202308064Vakta málsnúmer

Á fundi ráðsins 29. ágúst s.l. óskuðu Kristinn Lund og Aldey Unnar Traustadóttir eftir endurskoðun vinnureglna vegna rekstrarleyfis til sölu gistingar. Núgildandi vinnureglur voru samþykktar 2018 og endursamþykktar án breytinga í apríl 2018. Fyrir liggja drög að breyttum vinnureglum.
Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að eftirfarandi vinnureglur verði lagðar til grundvallar veitinga umsagna vegna rekstrarleyfa til sölu gistingar frá 1. október 2023:

1. Ekki verði veittar jákvæðar umsagnir fyrir nýjum rekstrarleyfum til sölu gistingar í íbúðarhverfum í þéttbýli skv. gildandi aðalskipulagi.

2. Við umsögn vegna endurnýjunar rekstrarleyfis til sölu gistingar innan íbúðarsvæða skal horfa til þess hvort nægilegur fjöldi bílastæða sé innan lóðar eða á nálægum almennum bílastæðum.

3. Á miðsvæðum og verslunar- og þjónustusvæðum í þéttbýli verði jákvæð umsögn sveitarfélags háð því að sýnt sé fram á nægilegan fjölda bílastæða innan lóðar eða á nálægum almennum bílastæðum.

4. Í dreifbýli er jákvæð umsögn sveitarfélagsins háð því að umferð gesta sé ekki líkleg til að valda umtalsverðri truflun til nágranna. Það gildir m.a. um frístundahúsasvæði.

Með reglum þessum falli út vinnureglur sem settar voru í apríl 2018.

Fundi slitið - kl. 14:15.