Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

183. fundur 12. mars 2024 kl. 13:00 - 15:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Soffía Gísladóttir formaður
  • Kristinn Jóhann Lund aðalmaður
  • Eysteinn Heiðar Kristjánsson aðalmaður
  • Ingibjörg Benediktsdóttir varaformaður
  • Birkir Freyr Stefánsson aðalmaður
  • Rebekka Ásgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
  • Sigurdís Sveinbjörnsdóttir Ritari
  • Elvar Árni Lund sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs
Fundargerð ritaði: Sigurdís Sveinbjörnsdóttir Aðstoðarmaður skipulags- og byggingarfulltrúa
Dagskrá
Bergþór Bjarnason fjármálastjóri sat fundinn undir fundarliðum 1 og 2.

1.Tjaldsvæði Norðurþings - auglýsing eftir nýjum rekstraraðila

Málsnúmer 202402045Vakta málsnúmer

Umsóknarfrestur um rekstur tjaldsvæða Norðurþings á Húsavík, Kópasker og Raufarhöfn rann út 29 febrúar sl. Alls bárust 4 umsóknir. Fyrir Skipulags- og framkvæmdaráði liggur að taka ákvörðun um næstu skref í málinu.

Bergþór Bjarnason, fjármálastjóri kom á fundinn undir þessum lið.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur sviðsstjóra að hefja viðræður við þá umsækjendur sem stóðust skilyrði útboðsins og ganga til samninga við hæfasta aðilann og leggja samninginn fyrir skipulags- og framkvæmdaráð þegar að hann liggur fyrir.

2.Framkvæmdaáætlun 2024

Málsnúmer 202310038Vakta málsnúmer

Framkvæmdaáætlun 2024 yfirfarin.
Lagt fram til kynningar.

3.Breyting á deiliskipulagi verslunar- og þjónustusvæði V3 við golfvöllinn á Húsavík

Málsnúmer 202402086Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tillaga skipulagsráðgjafa að breytingu deiliskipulags Verslunar- og þjónustusvæðis V3 við golfvöllinn á Húsavík. Breytingarnar taka mið af óskum Góðra hótela ehf. Breytingar felast í breyttum byggingarskilmálum fyrir lóð undir hótel og nýja aðkomu að lóðinni norðanverðri. Byggingarreitur og heimilað byggingarmagn á lóðinni er óbreytt.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulagsfulltrúa að kynna skipulagstillöguna skv. ákvæðum skipulagslaga.

4.Deiliskipulag Garðarsbrautar 44-48

Málsnúmer 202312069Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu skipulagslýsingar vegna deiliskipulags Garðarsbrautar 44-48 á Húsavík. Umsagnir við skipulagslýsinguna bárust frá Slökkviliði Norðurþings, Orkuveitu Húsavíkur, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Minjastofnun, Vegagerðinni, Skipulagsstofnun og Grími vélaverkstæði. Aðeins umsagnir Vegagerðarinnar og Gríms vélaverkstæðis innifela athugasemdir sem tilefni er til að vinna með við deiliskipulagsvinnuna.
Vegagerðin mælist til þess að bílastæði og inn-/útakstur af lóðum verði afmarkaður með skýrum hætti til að auka umferðaröryggi, bæði akandi og gangandi. Vegagerðin minnir á að sýna skal veghelgunarsvæði á skipulagsuppdrætti. Vegagerðin óskar þess einnig að mörk skipulagssvæðis verði miðuð við vegkannt, en nái ekki út á miðjan Norðausturveg.
Ólafur Rúnar Ólafsson, f.h. Gríms hf vélaverkstæðis gerir margháttaðar athugasemdir við skipulagslýsinguna og veitir sveitarfélaginu heimild til að bjóða Rarik aðra valkosti innan sinnar lóðar varðandi staðsetningu spennistöðvar en gengið er út frá í skipulagslýsingu.
Skipulags- og framkvæmdaráð þakkar framkomnar umsagnir og felur skipulagsfulltrúa að vinna að gerð skipulagstillögu.

5.Breyting deiliskipulags miðhafnarsvæðis

Málsnúmer 202311118Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu á tillögu að breytingu deiliskipulags Miðhafnarsvæðis Húsavíkur. Umsagnir/athugasemdir bárust frá: Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra, Minjastofnun, Vegagerðinni, Skipulagsstofnun og Magna lögmönnum f.h. Gentle Giants Hvalaferða ehf.
Aðeins umsögn Gentle Giants hvalaferða ehf. felur í sér athugasemdir við skipulagstillöguna.
Gentle Giants hvalaferðir ehf. gera athugasemdir við að staða Helguskúrs sé sýnd óbreytt á skipulagsuppdrætti og leggja til að Helguskúr verði felldur út af skipulagsuppdrætti.
Gentle Giants Hvalaferðir ehf. gera einnig athugasemdir við lengingu flotbyggju og leggja fram uppdrátt af afstöðu lengdrar flotbryggju. Óskað er upplýsinga um hvort áhrif lengingar bryggjunnar hafi verið skoðuð með fullnægjandi hætti. Ef svo er ekki er þess óskað að sveitarfélagið rannsaki hvort öryggisskilyrði fyrir inn- og útsiglingar verði ásættanleg eftir lengingu flotbryggjunnar. Ef niðurstaða sveitarfélagsins er sú að lenging nefndar flotbryggju muni ekki hafa teljandi áhrif á öryggisskilyrði er þess óskað að tillögunni verði breytt þannig að einnig verði heimild til lengingar næstu flotbryggju norðan þeirra sem lengd er skv. uppdrætti.
Skipulags- og framkvæmdaráð vísar athugasemd Gentle Giants hvalaferða ehf. um flotbryggju til umfjöllunar í stjórn Hafnasjóðs og að umsögn fenginni tekur ráðið málið fyrir að nýju.

6.Ósk um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Álfhól 9

Málsnúmer 202403030Vakta málsnúmer

Einar Páll Þórisson og Elva Héðinsdóttir óska byggingarleyfis fyrir viðbyggingu ofan á bílskúrsþak að Álfhóli 9 á Húsavík. Meðfylgjandi erindi eru teikningar unnar af Birki Kúld, byggingarfræðingi hjá BK Hönnun ehf. Viðbygging verði úr timbri og klæðning veggja að utan með loftræstri álklæðningu. Flatarmál viðbyggingar er 48,3 m². Meðfylgjandi umsókn er skriflegt samþykki nágranna að Uppsalavegi 8, 10 og 12, Baughóli 7 og 9 og Álfhóli 7.
Skipulags- og framkvæmdaráð telur grenndarkynningu fullnægjandi og heimilar byggingarfulltrúa að samþykkja byggingaráformin þegar fullnægjandi gögn þar að lútandi hafa borist embættinu.

7.Ósk um umsögn vegna Aðalskipulag Vopnafjarðarhrepps

Málsnúmer 202402124Vakta málsnúmer

Vopnafjarðarhreppur kynnir nú hugmyndir að heildarendurskoðun Aðalskipulags Vopnafjarðarhrepps á Skipulagsgátt. Óskað er umsagna og athugasemda. Gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins var staðfest í október 2008 og var ætlað að gilda til ársins 2026. Frá staðfestingu þess hafa verið gerðar lagabreytingar er snúa að skipulagsmálum, ný skipulagslög, lög um náttúruvernd, mannvirkjalög og lög um menningarminjar.
Skipulags- og framkvæmdaráð gerir ekki athugasemdir á þessu stigi.

8.Ósk um umsögn um rekstrarleyfi veitinga vegna Golfskálans við Katlavöll

Málsnúmer 202403024Vakta málsnúmer

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar umsagnar um rekstrarleyfi vegna veitingaleyfis í flokki C til handa Golfklúbbi Húsavíkur.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að veita jákvæða umsögn um erindið.

9.Ósk um leyfi fyrir skilti fyrir Hlöðufell Restaurant ehf.

Málsnúmer 202402122Vakta málsnúmer

Rekstraraðli Hlöðufell Restaurant ehf óskar eftir heimild til að setja upp skilti á einhvern þriggja ljósastaura við Garðarsbraut á svæðinu frá Bjarnahúsi að Íslandsbanka.
Skipulags- og framkvæmdaráð veitir byggingarfulltrúa heimild til að samþykkja skilti á ljósastaur milli Garðarsbrautar 5 og 7.

10.Skilti fyrir söfnin á Húsavík

Málsnúmer 202402084Vakta málsnúmer

Sigríður Örvarsdóttir, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Þingeyinga óskar leyfis Norðurþings til að setja upp tvö skilti sem merkja Safnahúsið á Húsavík, Hvalasafnið á Húsavík og Könnunarsafnið og að auki eitt leiðbeinandi skilti við Verbúðarþak sem vísar veginn að Safnahúsi.
Skipulags- og framkvæmdaráð gerir ekki athugasemd við að sett verði upp skilti á þaki Hafnarstéttar 19 að fengnu samþykki lóðarhafa. Ráðið samþykkir ekki aðrar hugmyndir að skiltum né að taka þátt í kostnaði við uppsetningu skiltis.

11.Endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi stuðningskerfa í landgræðslu og skógrækt

Málsnúmer 202402114Vakta málsnúmer

Matvælaráðuneytið hefur falið Landi og skógi að hefja endurskoðun á núverandi fyrirkomulagi stuðningskerfa í landgræðslu og skógrækt. Tilgangur þessa erindis nú er að kalla eftir ábendingum sem nýst geta við vinnuna við að móta tillögur að endurskoðuðu stuðningskerfi, en markmiðið er að til verði tillaga að heildstæðu stuðningskerfi málaflokksins innan stofnunarinnar sem jafnframt styður við stefnu stjórnvalda á sviði loftslagsmála, verndunar líffræðilegrar fjölbreytni og byggðamála.

Stuðningskerfin sem um ræðir eiga að efla þátttöku einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana í landgræðslu og skógrækt, meðal annars í samræmi við opinberar stefnur í umhverfismálum, loftslagsmálum, landbúnaði og atvinnumálum.
Lagt fram til kynningar.

12.Regluverk um búfjárbeit - sjónarmið matvælaráðuneytis

Málsnúmer 202402118Vakta málsnúmer

Matvælaráðuneyti hefur sent Norðurþingi minnisblað frá febrúar 2024 vegna regluverks um búfjárbeit.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 15:00.