Fara í efni

Skipulags- og umhverfisnefnd

15. fundur 04. apríl 2017 kl. 09:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Röðull Reyr Kárason aðalmaður
  • Örlygur Hnefill Örlygsson varaformaður
  • Soffía Helgadóttir aðalmaður
  • Jónas Hreiðar Einarsson aðalmaður
  • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfull
  • Guðmundur Halldór Halldórsson varamaður
Starfsmenn
  • Margrét Hólm Valsdóttir
Fundargerð ritaði: Gaukur Hjartarson Skipulags- og byggingafulltrúi
Dagskrá

1.Breyting aðalskipulags Holtahverfis

Málsnúmer 201612058Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu breytingar aðal- og deiliskipulags Holtahverfis. Engar formlegar athugasemdir bárust við aðalskipulagsbreytinguna. Á hinn bóginn voru gerðar athugasemdir við deiliskipulagsbreytingarnar sem í raun eiga að hluta til við um breytingu aðalskipulagsins. Athugasemdir við deiliskipulagstillöguna og viðbrögð við þeim eru bókuð í næsta lið fundargerðar.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að þær athugasemdir sem bárust við deiliskipulagsbreytingu gefi ekki tilefni til breytinga á auglýstri tillögu að aðalskipulagsbreytingu.

Nefndin leggur því til við sveitarstjórn að auglýst tillaga að aðalskipulagsbreytingu verði samþykkt eins og hún var kynnt og skipulags og byggingarfulltrúa falið senda tillöguna til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun.

2.Breyting deiliskipulags Holtahverfis

Málsnúmer 201612059Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningarferli breytingar deiliskipulags Holtahverfis. Athugasemdir bárust í þrennu lagi:

1. Ragnar Hermannsson f.h. Trésmiðjunnar Reinar gerir með tölvupósti 21/3 athugasemdir í tveimur liðum:
1.1: Óskað er eftir því að deiliskipulagsbreytingin heimili þakhalla til samræmis við þegar byggð raðhús.
1.2: Heimilt verði að byggja 4-6 íbúðir á hvorri óbyggðu raðhúsalóð við Lyngholt.

2. Athugasemdir í þremur töluliðum dags. 17/3 og undirritaðar af 18 íbúum/fasteignaeigendum í Holtahverfi.
2.1: Tímasetning kynningar skipulagslýsingar yfir jól og kynningarfundar 4. janúar sé gagnrýniverð. Gagnrýndur er skortur á samráði við íbúa vegna fyrirhugaðra breytinga skipulagsins og fyrirliggjandi samningur við PCC SR um uppbyggingu í hverfinu.
2.2: Óæskilegt sé að byggingarfélög byggi upp stóran hluta íbúðarhverfis. Hætt sé við einsleitni í hverfinu auk þess sem búast megi við lágmarksgæðum húsa við slíka uppbyggingu. Einkennilegt sé að troða litlum íbúðum í parhúsum inn á áður skipulagðar einbýlishúsalóðir. Einsleitar litlar parhúsaíbúðir án bílgeymslu falli illa að fyrirliggjandi byggð í Holtahverfi. Í breytingartillögunni felst léleg nýting bygingarlands því hvergi á Húsavík er að finna betra byggingarland fyrir einbýlishús á einni hæð en í Holtahverfi. Nægt rými sé fyrir litlar íbúðir í Reit.
2.3: Ekki er í tillögunni að finna umfjöllun um umhverfis- og samfélagsleg áhrif þeirra breytinga sem lagt sé upp með. Deiliskipulagsbreytingin feli í sér 45% fjölgun íbúða í E-hluta Holtahverfis og það muni stórauka umferð um hverfið. Deiliskipulagsbreytingin feli í sér verulega rýrnun lífsgæða fyrir íbúa Holtahverfis.
3. Helena Eydís Ingólfsdóttir gerir athugasemdir í tveimur tölusettum liðum í bréfi dags. 23/3.
3.1: Tímasetning kynningar skipulagslýsingar og almenns kynningarfundar á jólum bendi til þess að sveitarstjórn kærði sig ekki um athugasemdir eða ábendingar íbúa vegna skipulagslýsingarinnar og sé á engan hátt í anda íbúalýðræðis. Það verði að teljast ámælisvert að sveitarstjórn Norðurþings hafi gert samkomulag við PCC Seaview Residences ehf um úthlutun lóða á E-svæði Holtahverfis þar sem horft er til uppbyggingar sem ekki sé í samræmi við gildandi deiliskipulag. Ennfremur brjóti úthlutun lóða til PCC SR á eigin vinnureglum sveitarfélagsins um lóðarúthlutanir.
3.2: Horft sé til þess að íbúðum innan Holtahverfis fjölgi úr allt að 55 íbúðum í allt að 75 íbúðir. Aðkomuleiðir að Holtahverfi liggi um Þverholt og Baughól en báðar þær götur liggja að Stórhóli. Aukning bílaumferðar um Þverholt og Baughól mun valda umtalsverðri aukningu í loft- og hávaðamengun við Baughól og Stórhól.

Skipulags- og umhverfisnefnd þakkar athugasemdir og ábendingar. Nefndin gerir eftirfarandi tillögur til sveitarstjórnar um viðbrögð við athugasemdunum:

1.1: Nefndin fellst á að fella niður ákvæði um lágmarkshalla þaka í því ljósi að þegar hefur ítrekað verið vikið frá þessu ákvæði.
1.2: Nefndin fellst á að á lóðinni að Lyngholti 26-32 verði gert ráð fyrir fjögurra íbúða raðhúsi með bílgeymslum eins og gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir en á lóðinni að Lyngholti 42-52 megi byggja allt að sex íbúðir án bílgeymslu eins og kynnt var.

2.1: Nefndin tekur ekki undir að tímasetning kynningar skipulagslýsingar og kynningarfundar hafi verið sérlega gagnrýniverð. Skipulagslýsingin er einfalt skjal sem fyrst og fremst er ætlað kynna áætlan um að leggja fram skipulagstillögu og tilgreina hvernig fyrirhugað er að standa að vinnslu hennar. Lýsingin í þessu tilviki samanstóð af þremum myndskreyttum A4 blöðum af einföldum og fljótlesnum texta sem hægt var að nálgast um heimasíðu Norðurþings. Slík lýsing krefst varla langrar yfirlegu þeirra sem vilja kynna sér málið. Það er ekki skipulags- og umhverfisnefndar að fjalla sérstaklega um samkomulag Norðurþings við PCC SR, en á það bent að samkomulagið felur í sér eðlilega fyrirvara um afgreiðslu skipulagsbreytinga. Nefndin tekur ekki undir sjónarmið um að breytingartillagan feli í sér verulegar breytingar. Gatnakerfi er það sama og áður var, sem og lóðarskipan að mestu. Heimilað byggingarmagn í hverfum við Langholt (byggingarsvæði C, D & E) vex um 3,3% skv. útreikningum skipulagsfulltrúa og íbúðum fjölgar um 15 (16%).
Nefndin telur athugasemdir þessa töluliðar ekki gefa tilefni til breytinga á deiliskipulagstillögunni.

2.2: Nefndin telur að uppbygging lágreistra og lítilla parhúsa á 13 lóðum geti fallið prýðilega að þeirri byggð einbýlishúsa og raðhúsa sem fyrir er á svæðinu. Parhúsin verða um margt svipuð þeim fjölbreyttu einbýlishúsum sem þegar hafa byggst á svæðinu. Nefndin tekur undir sjónarmið bréfritara um að umrætt byggingarland henti vel undir einbýlishús ekki síður en parhús. Við húsnæðisúttekt á síðasta ári kom hinsvegar skýrlega fram að skortur væri á minni íbúðum í sérbýli á Húsavík, en hér væri óvenju hátt hlutfall einbýlishúsa. Því var mótuð sú stefna að skynsamlegt væri að skipuleggja lóðir undir minni sérbýli eins og hér er horft til.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur athugasemdir þessa töluliðar ekki gefa tilefni til breytinga á skipulagstillögunni.

2.3: Skipulags- og umhverfisnefnd tekur undir sjónarmið bréfritara um að líkur séu til þess að umferð um Langholt aukist nokkuð vegna þeirra skipulagsbreytinga sem um ræðir. Þó heimilað byggingarmagn sé aðeins að aukast um 3,3% frá gildandi deiliskipulagi horfir til þess að íbúðum fjölgi um 15 (16%). Skynsamlegt virðist að áætla að umferðaraukning verði þarna á milli, eða af stærðargráðunni 10%. Nefndin telur að skipulagsbreytingin muni hafa óveruleg áhrif á umferð um þegar byggðar íbúðargötur í Holtahverfi. Nefndin getur á þeim grunni alls ekki tekið undir sjónarmið bréfritara um "stóraukna umferð" eða "umtalsverð umhverfis- og samfélagsleg áhrif". Almennt virðist ekki skynsamlegt að draga þá ályktun að breytingin muni fela í sér "verulega rýrnun lífsgæða fyrir íbúa í Holtahverfi".
Skipulags- og umhverfisnefnd telur athugasemdir þessa töluliðar ekki gefa tilefni til breytinga á skipulagstillögunni.

3.1: Nefndin tekur ekki undir að tímasetning kynningar skipulagslýsingar og kynningarfundar hafi verið sérlega gagnrýniverð. Skipulagslýsingin er einfalt skjal sem fyrst og fremst er ætlað kynna áætlan um að leggja fram skipulagstillögu og tilgreina hvernig fyrirhugað er að standa að vinnslu hennar. Lýsingin í þessu tilviki samanstóð af þremum myndskreyttum A4 blöðum af einföldum og fljótlesnum texta sem hægt var að nálgast um heimasíðu Norðurþings. Slík lýsing krefst varla langrar yfirlegu þeirra sem vilja kynna sér málið. Það er ekki skipulags- og umhverfisnefndar að fjalla sérstaklega um samkomulag Norðurþings við PCC SR, en á það bent að samkomulagið felur í sér eðlilega fyrirvara um afgreiðslu skipulagsbreytingar. Nefndin telur ekki að ráðstöfun lóða til PCC SR brjóti í bága við vinnureglur um lóðarúthlutanir í Norðurþingi þar sem segir skýrlega í gr. 3.4: "Skipulags- og byggingarnefnd er í sérstökum tilvikum heimilt að veita vilyrði fyrir lóðum, öðrum en einbýlishúsalóðum, án undangenginna auglýsinga, þegar sótt er um
lóðir innan skipulagðra svæða eða á óskipulögðum svæðum, sem ekki hafa verið auglýstar sem byggingarlóðir. Endanleg úthlutun getur þó ekki farið fram fyrr en að loknum skipulagsbreytingum, sé þeirra þörf og að fengnu samþykki sveitarstjórnar."
Skipulags- og umhverfisnefnd telur athugasemdir þessa töluliðar ekki gefa tilefni til breytinga á skipulagstillögunni.

3.2: Heimilað byggingarmagn á byggingarsvæðum C, D og E við Langholt eykst um 3,3% frá gildandi deiliskipulagi og íbúðum fjölgar um 15 (16%). Skynsamlegt virðist að áætla að umferðaraukning í Langholti verði þarna á milli, eða af stærðargráðunni 10%. Sú umferð mun fara um Langholt og Þverholt og etv. eitthvað um Baughól meðan ekki hefur verið opnuð önnur leið frá Langholtshverfunum. Hlutfallsleg umferðaraukning í Þverholti verður, eðli máls skv., verulega lægri en í Langholti. Ekki verður því séð að umferðaraukningin um Þverholt muni valda umtalsverðri aukningu á hávaða- og loftmengun við Baughól og Stórhól.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur athugasemdir þessa töluliðar ekki gefa tilefni til breytinga á skipulagstillögunni.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að götustubbur sem til bráðabirgða er nefnt x-holt á deiliskipulagstillögunni verði gefið heitið Lágholt með tilvísun til örnefnisins Breiðulágar. Ennfremur leggur nefndin til að y-holt verði nefnt Hraunholt með vísan til nýuppgötvaðs hrauns í götustæðinu.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til undir töluliðum 1.1 og 1.2. hér að ofan. Gildistaka skipulagsins verði auglýst þegar samhliða auglýst aðalskipulagsbreyting hefur öðlast gildi.

3.Breyting á deiliskipulagi miðhafnarsvæðis

Málsnúmer 201411063Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti athugasemdir Skipulagsstofnunar vegna deiliskipulags Miðhafnarsvæðis dags. 13. mars s.l. og umsagnir Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra dags. 30. mars og Minjastofnunar dags 29. mars vegna skipulagsins.

Minjastofnun óskar þess að settur verði inn texti í greinargerð "Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands". Einnig er bent á að Hafnarstétt 3 fellur undir 30. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 og því skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands áður en farið er í breytingar á húsinu.

Heilbrigðiseftirlitið gerir ekki athugasemdir við deiliskipulagið.

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti þær breytingar sem unnar hafa verið á skipulagstillögunni vegna framkominna ábendinga.

Ennfremur kynnti skipulags- og byggingarfulltrúi ósk Gentle Giants dags. 30. mars þar sem óskað er eftir að heimilaður verði 25° þakhalli og 7,95 m mænishæð á Flókahúsi sem fyrirtækið hefur nýverið samið um kaup á.



Nefndin fellst á óskir lóðarhafa um að heimila þakhalla Flókahúss að Hafnarstétt 13 í 25°, en telur ekki rétt að samþykkja umbeðna aukningu í mænishæð í ljósi þess að önnur hús á svæðinu eru lægri.

Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem búið er að gera og gildistaka þess auglýst.

4.Norðurhöfn. Tillaga að breyttu deiliskipulagi.

Málsnúmer 201610076Vakta málsnúmer

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti tillögu skipulagsráðgjafa að breytingum deiliskipulags Norðurhafnar. Skipulagsbreytingin er sett fram sem uppdráttur og sjálfstæð greinargerð.
Skipulags- og umhverfisnefnd felur skipulagsfulltrúa að láta vinna breytingar á skipulagsuppdrætti og greinargerð áður en breytingartillagan verður sett í kynningu.

5.Deiliskipulag við heimskautsgerði

Málsnúmer 201601040Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu deiliskipulags heimskautsgerðis við Raufarhöfn. Engar athugasemdir bárust á kynningartíma.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði samþykkt eins og hún var kynnt.

6.Umsókn um skráningu nýrrar landeignar Klifshaga 2, Öxarfirði

Málsnúmer 201703147Vakta málsnúmer

Óskað er eftir samþykki fyrir stofnun lóðar í Klifshaga 2 skv. hnitsettum uppdrætti.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að lóðarstofnunin verði samþykkt.

7.Umsókn um byggingarleyfi fyrir þrjú hús að Meiðavöllum

Málsnúmer 201703155Vakta málsnúmer

Óskað er eftir byggingarleyfi fyrir þrjú lítil gestahús við Meiðavelli. Fyrir liggur mynd af húsum og rissmynd af afstöðu þeirra.
Skipulags- og umhverfisnefnd frestar málinu og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að afla frekari upplýsinga.

8.Ragnar Hermannsson sækir um leyfi til breytinga á Hafnarstétt 1, neðri hæð fyrir hönd Hvalasafnsins og Steinsteypis ehf.

Málsnúmer 201703170Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til breytinga á neðri hæð Hvalsafnsins að Hafnarstétt 1. Meðfylgjandi umsókn eru teikningar unnar af Ragnari Hermannssyni byggingarfræðingi.
Skipulags- og umhverfisnefnd fellst fyrir sitt leyti á framkvæmdina og felur byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögn hafa borist.

9.Ragnar Hermannsson fyrir hönd Elliða Hreinssonar, sækir um leyfi til að breyta tröppum og kjallararými á Ásgarðsvegi 4.

Málsnúmer 201703171Vakta málsnúmer

Ragnar Hermannsson fyrir hönd Elliða Hreinssonar, sækir um leyfi til að breyta tröppum og kjallararými á Ásgarðsvegi 4. Meðfylgjandi umsókn eru teikningar af húsinu. Fyrir liggur umsögn Minjastofnunar sem gerir ekki athugasemdir við framkvæmdina.
Skipulags- og umhverfisnefnd gerir ekki athugasemdir við framkvæmdirnar og felur byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögn hafa borist.

10.Sýslumaðurinn óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi fyrir Hótel Norðurljós, Einar E. Sigurðsson.

Málsnúmer 201703172Vakta málsnúmer

Óskað er eftir umsögn um rekstrarleyfi fyrir Hótel Norðurljós á Raufarhöfn.
Skipulags- og umhverfisnefnd veitir jákvæða umsögn um erindið.

11.Landsnet; Umsókn um framkvæmdaleyfi vegna strenglagnar frá nýju tengivirki Landsnets á Bakka að tengivirki PCC BakkiSilicon hf.

Málsnúmer 201704001Vakta málsnúmer

Óskað er eftir leyfi til að leggja 11 og 33 kV háspennustrengi frá tengivirki Landsnets að Tröllabakka 6 að lóðinni að Bakkavegi 2. Meðfylgjandi umsókn er ítarleg lýsing mannvirkja og nánari upplýsingar um framkvæmdina ásamt yfirlitskorti, teikningum og öðrum upplýsingum í samræmi við 7. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi.
Skipulags- og umhverfisnefnd telur að fullnægjandi gögn hafi verið lögð fram með umsókn og að framkvæmdin sé í samræmi við deiliskipulag.

Nefndin leggur því til við sveitarstjórn að leyfið verði veitt.

Fundi slitið.