Tómstunda- og æskulýðsnefnd Norðurþings

48. fundur 09. febrúar 2016 kl. 16:00 - 18:45 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Erna Björnsdóttir formaður
  • Jóhanna Sigr Kristjánsdóttir aðalmaður
  • Dögg Stefánsdóttir aðalmaður
  • Áslaug Guðmundsdóttir aðalmaður
  • Gunnar Illugi Sigurðsson aðalmaður
Fundargerð ritaði: Kjartan Páll Þórarinsson Tómstunda- og æskulýðsfulltrúi
Dagskrá

1.Sundlaug Raufarhafnar

201508055

Á fundi tómstunda og æskulýðsnefndar Norðurþings þann 24. nóvember 2015 var samþykkt fjárhagsáætlun sviðsins fyrir árið 2016. Fundargerðin og áætlunin í heild sinni var staðfest í bæjarstjórn Norðurþings þann 1. Desember 2015.
Í áætlun ársins 2016 voru áætlaðar um 10 milljónum minna en árið 2015 fyrir rekstur íþróttamiðstöðvarinnar á Raufarhöfn. Greinargerð fylgdi fjárhagsáætluninni þar sem fyrirhugaðar breytingar á rekstri íþróttamiðstöðvarinnar voru kynntar.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd ákveður að loka sundlauginni yfir vetrartíman eins og samþykkt var með greinargerð fjárhagsáætlunar 2016.

Ákvörðunin tekur gildi eftir sumaropnun. Laugin verður lokuð frá 1. nóvember til 31. mars ár hvert.

Í framkvæmdaáætlun Norðurþings fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir kaupum á heitum potti fyrir íþróttamiðstöðina á Raufarhöfn.

Opnunartími íþróttahússins að undanskilinni sundlauginni verður með óbreyttum hætti og aðgangur að heitum potti fylgir almennum opnunartíma.

Einnig verður opnunartími sundlaugar rýmri yfir sumartímann. Sú breyting tekur gildi sumarið 2016.

Tómstunda og æskulýðsfulltrúa er falið að vinna að endurskipulagningu á starfsmannahaldi íþróttamiðstöðvarinnar til samræmis við aðrar íþróttamiðstöðvar sveitarfélagsins.

Tómstunda- og æskulýðsnefnd ítrekar við framkvæmda og hafnanefnd að hafinn verði undirbúningur á framkvæmdum við Íþróttamiðstöðina á Raufarhöfn sem fyrst.

2.Ungmennaráð Norðurþings

201201039

Í æskulýðslögum nr. 70/2007 er kveðið á um að sveitarfélög skuli hlutast til um að stofna ungmennaráð og eru þau hugsuð til að vera sveitarstjórnum til rágjafar um málefni ungs fólks í viðkomandi sveitarfélagi og til að kynna lýðræðisleg vinnubrögð fyrir ungu fólki.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd samþykkir fyrirliggjandi drög að erindisbréfi ungmennaráðs.

3.Jakinn 2016

201510133

Magnús Ver Magnússon sækist eftir samstarfi og styrk frá Norðurþingi varðandi Jakan, aflraunamót Norðurlands.

Jakinn er aflraunamót sem stefnt er að halda dagana 15-17 ágúst víðsvegar um Norðurland.

Sótt er um 140.000 króna styrk, gistiaðstöðu og eina máltíð fyrir keppendur og aðstandendur.

Erindið er samþykkt.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd fagnar framtakinu og telur viðburð af þessu tagi hafa jákvæð samfélagsleg áhrif.

Tómstunda og æskulýðsfulltrúa er falið að vera í samskiptum við mótshaldara.

4.Vinabæjarsamskipti - Áhugi Provincetown MA í USA að tengjast Húsavík

201602022

Áhugi er frá Provincetown í MA í Bandaríkjunum að gerast vinabær Húsavíkur og sveitarfélagsins Norðurþings.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd sem fer með vinabæjarsamskipti sveitarfélagsins, lýsir yfir ánægju sinni með áhugann frá Provincetown.

Nefndin felur tómstunda- og æskulýðsfulltrúa að vera í samskiptum við fulltrúa Provincetown og kynna nefndinni síðar.

5.Frístundakort 2016

201602021

Til umræðu voru almennar reglur og fyrirkomulag á frístundakortum.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd leggur fram endurskoðaðar reglur við frístundarkort. Verð er óbreytt skv gjaldskrá ársins 2016 en orðalag og úthlutunarreglur hafa verið endurskoðaðar og uppfærðar.

Tómstunda og æskulýðsfulltrúa er falið að auglýsa reglur um frístundakort.

6.Ráðstefna: Skipta raddir ungs fólks máli ?

201601087

Ráðstefnan "Skipta raddir ungs fólks máli?" er hugsuð fyrir þá sem standa að baki ungmennaráðum sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka auk fulltrúa ungmennaráðanna sjálfra. Þeir sem hafa áhuga á störfum ungmennaráða almennt eða vilja koma á laggirnar ungmennaráði eru einnig velkomnir. Á ráðstefnunni verður farið í að skoða hugmyndafræðina á bakvið ungmennaráð, kynnt verða til leiks verkfæri sem ungmennaráð geta nýtt í starfi sínu ásamt því að ungmennaráð sem hafa náð góðum árangri með að virkja ungt fólk til þátttöku og áhrifa munu kynna störf sín.

Árið 2016 verða ungmennaráð og þátttaka ungs fólks í brennidepli hjá Evrópu unga fólksins og er þessi ráðstefna fyrsti hluti af árs löngu verkefni. Það verkefni mun innihalda tvær ráðstefnur um málefni ungmennaráða, fjölþjóðlegt námskeið og námsferðir erlendis til að sækja þekkingu á starfsemi ungmennaráða og möguleikum til að auka áhrif ungs fólks með því að virkja það til þátttöku.

Ráðstefnan fer fram á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 18. febrúar 2016 frá kl. 10:15 - 16:15 og er ráðstefnugjaldið 3.000 krónur.

Innifalið í ráðstefnugjaldinu eru tvö kaffihlé og glæsilegt hádegisverðarhlaðborð á VOX Restaurant.

Evrópa unga fólksins í samstarfi við Samband Íslenskra sveitarfélaga, SAMFÉS, Umboðsmann barna og Ungmennafélag Íslands standa að ráðstefnunni. Evrópa unga fólksins styrkir ferðakostnað þátttakenda af landsbyggðinni.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd leggur til að tómstunda- og æskulýðsfulltrúi sæki ráðstefnuna "Skipta raddir ungs fólks máli".

7.Ungt fólk og lýðræði 2016

201512042

Ungmennaráð Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) stendur nú í sjöunda sinn fyrir ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er Niður með grímuna - geðheilbrigði ungmenna á Íslandi og mun hún fara fram 16. - 18. mars á Hótel Selfossi. Ungmennaráð UMFÍ hefur veg og vanda að ráðstefnunni en jafnframt koma Héraðssambandið Skarphéðinn og Sveitarfélagið Árborg að undirbúningi.

Ungmennaráð UMFÍ hefur fengið til liðs við sig fagfólk frá Kvíðameðferðarstöðinni. Áhersla verður lögð á óformlegt nám og virka þátttöku í vinnustofum ráðstefnunnar. Þátttakendur fá senda spurningalista um stöðu geðheilbrigðismála í sínu sveitarfélagi eftir 5. febrúar. Spurningarlistum þarf að skila til UMFÍ á netfangið ragnheidur@umfi.is fyrir 4. mars. Útkoma spurningalistanna koma til með að skipa mikilvægt hlutverk í vinnu ráðstefnunnar. Frekari upplýsingar um dagskrá og vinnutilhögun berast um miðjan febrúar.

Ráðstefnan er ætluð ungu fólki á aldrinum 16 - 25 ára. Fjöldi þátttakenda verður takmarkaður við 80 manns eða tvo þátttakendur frá hverju sveitarfélagi auk starfsmanns ef vill. Þátttakendum yngri en 18 ára verður að fylgja fullorðinn einstaklingur. Þátttökugjald eru 12.000kr. fyrir hvern einstakling. Innifalið eru allar ferðir, uppihald og ráðstefnugögn.

Tómstunda og æskulýðsnefnd felur tómstunda- og æskulýðsfulltrúa að kanna áhuga ungmenna á ráðstefnunni og veitir heimild til að senda allt að þrjá fulltrúa.

8.Norðurorg

201510083

Söngkeppnin Norðurorg 2016 var haldin í Íþróttahöllinni á Húsavík föstudaginn 29. janúar 2016.

Um 530 manns mættu á viðburðinn ásamt ca. 20 starfsmönnum. Viðburðurinn í heild sinni gekk vonum framar enda nóg af sjálfboðaliðum sem tilbúnir voru til að hjálpa.

Félagsmiðstöðin Tún sá um framkvæmd keppninar og 10. bekkur var með sjoppu á staðnum.
Tómstunda- og æskulýðsnefnd vill þakka starfsmönnum félagsmiðstöðvarinnar Túns sem og starfsnema á tómstunda og æskulýðssviði, Kristni Lúðvíkssyni fyrir vel unnin störf og flottan viðburð. Einnig þakkar nefndin öllum sjálfboðaliðum sem komu að keppninni á einn eða annan hátt.

9.Kynning tómstunda- og æskulýðsfulltrúa

201401054

Tómstunda og æskulýðsfulltrúi fór yfir helstu verkefni sviðsins.
Lagt fram til kynningar

Fundi slitið - kl. 18:45.