Fara í efni

Covidpistill sveitarstjóra #14

Staðan á Norðurlandi eystra er svipuð og verið hefur, en nú eru 36 einstaklingar í einangrun vegna covid-19 og 176 í sóttkví. Alls eru 30 smitaðir á Akureyri, tveir á Húsavík, einn á Siglufirði, einn (nýtt smit) á Dalvík og tveir í Mývatnssveit. Þetta þýðir að nokkrum er batnað nú þegar á svæðinu sem við að sjálfsögðu fögnum. Staðan er sú á landsvísu að mun fleiri eru að ná sér síðustu daga af veikindunum heldur en þeir sem hafa sýkst sem eykur vonir um að við höfum náð toppi faraldursins.

Á fundi almannavarnanefndar og aðgerðastjórnar í morgun kom fram að eftirfylgni yfirvalda er mjög stíf hvað samkomubannið varðar og mun lögreglan fylgjast grannt með málum yfir páskana. Þetta er stanslaust verkefni og rétt er að brýna alla til þess að gera okkur lífið auðveldara með því að standast freistingar um ferðalög eða heimsóknir yfir páskahátíðina. Það yrði nöturleg staða uppi ef þríeykið mælti með lengingu samkomubannsins fram eftir maí í ljósi þess að fólk hafi ekki farið eftir leikplaninu yfir páskana. Flækjum málið ekki neitt og verum heima hjá okkur.

Heilbrigðisþjónustan er í föstum skorðum á starfssvæði HSN, þ.e.a.s. innan þess ramma sem í gildi er og því er yfirsýn og stjórn á stöðunni góð miðað við allt. Væntingar eru uppi um að sú verði áfram raunin um páskana þótt vitanlega sé aukið álag víða, sérstaklega á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Frá byrjun mars hafa verið tekin um 700 covid-sýni á Norðurlandi eystra og um 6,5% þeirra reynst jákvæð. Alla jafna hafa verið að greinast eitt til tvö jákvæð sýni á dag. Því miður eru ekki enn að koma dagar þar sem ekkert jákvætt sýni greinist, en sýnin eru tekin alla daga vikunnar. Ég vil taka undir með aðgerðastjórn okkar svæðis og hrósa starfsfólki HSN og SAk fyrir hreint út sagt frábært starf undanfarnar vikur. Skipulagið er gott og utanumhaldið þétt.

Dagurinn var rólegur í skólum sveitarfélagsins eins og í raun öll dimbilvikan, enda páskafrí í grunnskólum og fá börn í leikskóla. Aðeins hafa örfá börn nýtt sér úrræði frístundar á Húsavík nú í dimbilvikunni. Á samtalsfundi okkar við skólastjórnendur í dag kom fram að á starfsdegi Borgarhólsskóla þriðjudaginn eftir páska verður sérstaklega unnið að greiningu, aðstoð og eftirfylgni þess hóps barna sem lítið hefur mætt til skóla undanfarnar vikur vegna ástandsins og framhaldið rætt við foreldra og forráðamenn þess hóps. Við höfum ítrekað mikilvægi þess að heilbrigð börn mæti í skólann ef nokkur kostur er og það munum við áfram gera þar til þessu ástandi lýkur.

Að lokum er rétt að benda á tvennt. Í fyrsta lagi góða og þarfa áminningu félagsmálastjóra Norðurþings sem finna má hér. Í öðru lagi það að byggðarráð Norðurþings fundaði í morgun og samþykkti útfærslu á heimild til frestunar fasteignagjalda. Stendur það úrræði bæði einstaklingum og fyrirtækjum til boða, sem sótt geta um frestun gjaldadaga aprílmánaðar, maí og júní sem ekki kæmu þá til greiðslu fyrr en í nóvember, desember og janúar (2021). Allar upplýsingar um umsóknarferlið og fleira er snýr að fjárhagslegum viðbrögðum sveitarfélagsins má finna á heimsíðunni www.nordurthing.is.

Þá er lítið annað að gera en að þvo sér um hendur, spritta vel og skella sér heim í páskafríið. Gerum það fyrir sjálf okkur og alla aðra í kring að fylgja tilmælum og beiðnum Víðis, Þórólfs og Ölmu um að vera heima! Blessi ykkur.