Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

342. fundur 15. október 2020 kl. 08:30 - 11:45 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri
  • Helena Eydís Ingólfsdóttir formaður
  • Kolbrún Ada Gunnarsdóttir varaformaður
  • Hafrún Olgeirsdóttir aðalmaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason áheyrnarfulltrúi
  • Benóný Valur Jakobsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Fundargerð ritaði: Drífa Valdimarsdóttir fjármálastjóri
Dagskrá

1.Fjárhagsáætlun Norðurþings 2021

Málsnúmer 202006044Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur fjárhagsáætlun 2021 ásamt þriggja ára áætlun 2022-2024, ásamt áætlun um skatttekjur fyrir árin 2021-2024.

Einnig liggja fyrir byggðarráði drög að rekstraráætlunum fyrir málaflokka 13 - Atvinnumál, 07 - Brunamál og almannavarnir og 21 - Sameiginlegur kostnaður.

Grímur Kárason mætir á fund byggðarráðs og fer yfir rekstur málaflokks 07 - Brunamál og almannavarnir.
Byggðarráð þakkar slökkvistjóra og fjármálastjóra fyrir yfirferðina á málaflokkum 07, 13 og 21.
Byggðarráð vísar fjárhagsáætlun 2021 og þriggja ára áætlun 2022-2024 til fyrri umræðu í sveitarstjórn.

2.Innheimtumál Norðurþings 2020

Málsnúmer 202006174Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur yfirlit frá Motus um innheimtumál sveitarfélagsins þar sem af er árinu.
Lagt fram til kynningar.

3.Rekstur Norðurþings 2020

Málsnúmer 202002108Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur yfirlit yfir rekstur málaflokka fyrir tímabilið janúar til ágúst 2020.
Lagt fram til kynningar.

4.Breytingar á kjörum kjörinna fulltrúa og æðstu stjórnenda sveitarfélagsins

Málsnúmer 202010090Vakta málsnúmer

Sveitarstjóri leggur fram minnisblað. Í skjalinu kemur fram að erfiðleikar í rekstri sveitarfélaga vegna heimsfaraldursins séu óumdeildir og Norðurþing sé engin undantekning í þeim efnum. Útkomuspá fyrir fjárhagsárið 2020 bendir til þess að Norðurþing skili umtalsverðum hallarekstri og sömuleiðis á árinu 2021.

Með það að markmiði að halda í störf og auka ekki á atvinnuleysisvandann í sveitarfélaginu og þar með hættuna á brottflutningi fólks, er engu að síður mikilvægt að grípa til hagræðingaraðgerða alstaðar þar sem því verður við komið.
Byggðarráð leggur til að kjör kjörinna fulltrúa og nefndamanna lækki frá 1. janúar 2021 til þeirrar fjárhæðar sem launin námu við upphaf kjörtímabilsins, þ.e. stuðst verður við viðmiðunarfjárhæð þingfararkaups frá þeim tíma við útreikning launa. Um er að ræða liðlega 6% lækkun, við það sparist kostnaður vegna starfa sveitarstjórnar, ráða og nefnda (þ.m.t. hverfisráða), sem nemur um 3,6 mkr. Lækkunin gildir út árið 2021.

Sveitarstjóri leggur til að laun sveitarstjóra Norðurþings lækki um sama hlutfall eða 6% frá 1. janúar 2021. Sú skerðing er hagræðing uppá liðlega 1,3 mkr að meðtöldum launatengdum gjöldum. Lækkunin gildir út árið 2021.

Jafnframt leggur sveitarstjóri til, að höfðu samráði við æðstu stjórnendur, að samningsbundnum launahækkunum þeirra í janúar 2021 verði seinkað til 1. júlí 2021. Slíkt samkomulag við æðstu stjórnendur nemur hagræðingu uppá u.þ.b. 2,7 mkr með launatengdum gjöldum.

Tillögu byggðarráðs um breytingu á kjörum kjörinna fulltrúa er vísað til sveitarstjórnar.
Byggðarráð samþykkir tillögu sveitarstjóra um lækkun á kjörum sveitarstjóra og seinkun launahækkana æðstu stjórnenda sveitarfélagsins.



5.Skerðing á kjörum starfsmanna Grænuvalla - yfirlýsing starfsmanna

Málsnúmer 202010085Vakta málsnúmer

Borist hefur bréf frá stéttarfélaginu Framsýn ásamt yfirlýsingu starfsmanna leikskólans Grænuvalla þar sem fjallað er um skerðingu á kjörum starfsmanna Grænuvalla og þess krafist að þær verði afturkallaðar.
Benóný, Hafrún, Helena og Kolbrún Ada leggja fram eftirfarandi bókun:
Norðurþing er eina sveitarfélagið, svo vitað sé til, sem hefur enn ekki sagt upp neysluhlésgreiðslum. Um er að ræða 11 fasta yfirvinnutímum sem greiddir hafa verið samhliða föstum mánaðarlegum launagreiðslum. Heimild til uppsagnar byggir á 11. forsenduákvæði í kjarasamningi Félags Leikskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga (gildistími 1. júní 2014 - 31. maí 2015) sem Norðurþing yfirfærði einnig á félagsmenn annarra stéttarfélaga sem starfa á Grænuvöllum. Undirrituð telja því ekki að um sé að ræða fordæmalausa ákvörðun um breytingar á sérkjörum starfsmanna í leikskólum.
Fyrir ákvörðuninni eru nokkrar forsendur sem verður að horfa til, bæði vegna þess að ekki er um kjarasamningsbundið ákvæði að ræða og sömuleiðis er aðeins hluti leikskólastarfsfólks í Norðurþingi að njóta þessara sérkjara.
Neysluhlésgreiðslur voru á sínum tíma greiddar vegna vinnu starfsmanna á matartíma. Starfsmenn hafa aftur á móti undanfarin ár, þrátt fyrir greiðslurnar, fengið sitt neysluhlé. Staðreyndin er sú að greiðslurnar eru óútskýrðar og því sem slíkar viðbótarkjör við umsamin kjör sem kjarasamningar kveða á um.
Eins og fjallað hefur verið um í byggðarráði Norðurþings, á fundi ráðsins þann 17. september sl., var lagt fram minnisblað um þær aðgerðir til hagræðinga sem unnið er að eða ráðist hefur verið í og á hvaða grunni þær aðgerðir eru. Þar var eftirfarandi kynnt:
Byggðarráð hefur þegar falið sveitarstjóra að vinna til samræmis við tillögur í minnisblaði frá 17. september sl., með það fyrir augum að ná hagræðingu á ýmsum sviðum rekstrar Norðurþings. Um er að ræða aðgerðir á eftirfarandi grunni.
- Misræmi í greiðslum til starfsmanna í tengslum við launagreiningu jafnlaunavottunar leiðréttar þar sem við á.
- Nýráðningar unnar eftir verklagsreglu jafnlaunavottunar og launaröðun fylgi kjarasamningi.
- Bakvaktafyrirkomulag starfsmanna samræmt á milli deilda og fyrirtækja sveitarfélagsins.
- Óútskýrðum föstum greiðslum vegna yfirvinnu sagt upp ef engin tilfallandi yfirvinna er innt af hendi á móti greiðslunum.
- Ekki verði greitt fyrir unna yfirvinnu þar sem um fastar yfirvinnugreiðslur er að ræða. Fari raunverulega unnin yfirvinna umfram greidda tíma er möguleiki á endurskoðun á ársgrundvelli.
- Sagt verður upp föstum aksturgreiðslum/akstursstyrkjum þar sem við á og eingöngu verður greiddur akstur samkvæmt akstursdagbók.
- Bakvaktir verða ekki hluti af starfi æðstu stjórnenda heldur er þeim sinnt af almennum starfsmönnum.

Sem ákveðið mótvægi við þær breytingar sem uppsögn þessara kjara starfsmanna Grænuvalla felur í sér hvetja undirrituð sveitarstjóra til þess að í viðræðum sveitarfélagsins og starfsmanna Grænuvalla um styttingu vinnuvikunnar verði horft til möguleikans á auknu starfshlutfalli starfsmanna en með óbreyttum vinnutíma m.v. núverandi vinnutilhögun.

Hjálmar Bogi leggur fram eftirfarandi bókun:
Á fundi bæjarráðs Húsavíkurkaupstaðar þann 23. mars árið 2000 var eftirfarandi samþykkt: Starfsfólk á leikskólum Húsavíkur sem matast inn á deildum með börnum í hádeginu fái greiddar 11 klst. í yfirvinnu á mánuði miðað við að matast sé með börnum alla virka daga. Málið á sér lengri sögu en það.
Það eru liðin 20 ár og sannarlega ástæða til að endurskoða þessa samþykkt enda gildir hún aðeins fyrir starfsfólk leikskóla á Húsavík og nær ekki til annarra starfa í sambærilegum störfum. Þessu ákvæði var komið á í mörgum sveitarfélögum enda starfsfólk að selja eigin neysluhlé til að sinna þjónustu við nemendur eða einhvers konar kaup kaups. Víðast hvar hefur þetta ákvæði verið afnumið með einhverjum hætti og á ákveðnum tíma. Starfsfólk Grænuvalla hafa fengið þessar greiðslur óháð starfshlutfalli.
Greiðslurnar eru viðbót við kjarasamningsbundnar greiðslur og því um sérkjör að ræða.
Það kreppir að í rekstri sveitarfélagsins og víða í samfélaginu. Í lok septembermánaðar var starfsfólki Grænuvalla tilkynnt um uppsögn á neysluhlésgreiðslunum sem felur í sér skerðingu á kjörum og stór biti að kyngja og því mikilvægt að vanda til verka þegar ákvæðið er endurskoðað. Það hefur ekki tekist nægilega vel eins og sjá má í yfirlýsingu starfsfólks Grænuvalla. Það er ástæða til að sveitarfélagið fundi aftur með starfsfólki og stéttarfélögum sem um ræðir til að vinna úr málinu.
Það hefði verið meiri reisn yfir því að byrja að endurskoða laun kjörinna fulltrúa, launin okkar. Í stað þess að byrja m.a. á lægst launaðasta starfsfólkinu þegar rýnt er í rekstur sveitarfélagsins.


Byggðarráð felur sveitarstjóra að bregðast við beiðni starfsmanna og stéttarfélaga þeirra um fund.
Kristján Þór Magnússon vék af fundi klukkan 11:30.

6.Trúnaðarmál

Málsnúmer 202009107Vakta málsnúmer

Fært í trúnaðarmálabók.

7.Úthlutun byggðakvóta - sérreglur Norðurþings

Málsnúmer 202010078Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur að staðfesta sérreglur vegna úthlutunar byggðakvóta.
Byggðarráð samþykkir að óska eftir því að eftirfarandi sérreglur muni gilda um úthlutun byggðakvóta í sveitarfélaginu:

Ákvæði reglugerðar nr. XXX/2020 gilda um úthlutun byggðakvóta Raufarhafnar og Kópaskers með eftirfarandi viðauka/breytingum:
a) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess aflamarks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal skipt hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2020 til 31. ágúst 2021.
b) Ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélagi af bátum sem ekki eru skráðir innan viðkomandi sveitarfélags á sama tíma, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.
c) Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2020 til 31. ágúst 2021.

8.Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða

Málsnúmer 202010089Vakta málsnúmer

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur opnað fyrir umsóknir um framlög sem veitt eru til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða. Fyrir byggðarráði liggur að leggja til við SSNE hugmyndir að verkefnum til að sækja um styrk til framkvæmda.
Byggðarráð Norðurþings óskar eftir því við SSNE að sótt verði um í C1 vegna verkefnisins „Hraðið“. Verkefnið byggir á verkefninu Þróun og þekking sem nú þegar er áhersluverkefni SSNE. Verkefnið fellur að ýmsum markmiðum byggðaáætlunar 2018-2024, sérstaklega að A.3 um rannsóknavirkni, vísindastarfsemi og nýsköpun á landsbyggðinni.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir.

9.Skotstjóranámskeið á Húsavík

Málsnúmer 202010091Vakta málsnúmer

Sævar Logi Ólafsson, fyrir hönd Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar, óskar eftir umsögn sveitarfélagsins vegna námskeiðs í uppsetningu og framkvæmd skoteldasýninga í samvinnu við björgunarsveitina Garðar og Kiwanisklúbbinn á Húsavík. Námskeiðið verður haldið laugardaginn 28. nóvember nk.
Byggðarráð veitir jákvæða umsögn og samþykkir afnot af landi sveitarfélagsins að því gefnu að sóttvarnar- og öryggireglur séu virtar.

10.Aðalfundur Samtaka orkusveitarfélaga 2020.

Málsnúmer 202010096Vakta málsnúmer

Boðað er til aðalfundar Samtaka orkusveitarfélaga 2020 fimmtudaginn 29. október nk. kl. 13:00 í fjarfundi.
Byggðarráð leggur til að Kristján Þór Magnússon verði fulltrúi Norðurþings á fundinum og Gunnar Hrafn Gunnarsson til vara.

Fundi slitið - kl. 11:45.