Fara í efni

Byggðarráð Norðurþings

403. fundur 11. ágúst 2022 kl. 08:30 - 10:58 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Hafrún Olgeirsdóttir formaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason varaformaður
  • Aldey Unnar Traustadóttir aðalmaður
  • Áki Hauksson áheyrnarfulltrúi
  • Benóný Valur Jakobsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Bergþór Bjarnason fjármálastjóri
  • Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Bergþór Bjarnason fjármálastjóri
Dagskrá
Undir lið nr. 1. sat fundinn Grímur Kárason slökkviliðsstjóri.

Undir lið nr. 5. sat fundinn Ketill Gauti Árnason verkefnastjóri.

Undir lið nr. 10. mættu á fundinn Pétur Pétursson og George Kong frá Tesseract.

1.Slökkvilið Norðurþings heimild til sölu og kaupa á bifreið.

Málsnúmer 202207039Vakta málsnúmer

Slökkvilið Norðurþings óskar eftir heimild til að selja tvær eldri bifreiðar, óskað er eftir því að fá að nýta söluandvirði bifreiðanna tveggja til að kaupa lítinn bíl til að nota í eldvarnareftirliti á svæði liðsins.

Grímur Kárason slökkviliðsstjóri mætir á fund byggðarráðs.
Byggðarráð heimilar sölu á tveimur eldri bifreiðum og að kaupa lítinn bíl til að nota í eldvarnareftirliti á svæði liðsins. Kaupin útheimta ekki aukin útgjöld fyrir sveitarfélagið.

2.Afgreiðsla Íslandspósts á Kópaskeri

Málsnúmer 202207038Vakta málsnúmer

Á 402. fundi byggðarráðs þann 04.08.2022 var bókað; Byggðarráð felur sveitarstjóra að vinna drög að umsögn til Byggðastofnunar fyrir næsta fund ráðsins þann 11.08.2022.

Beiðni frá Byggðastofnun um umsögn vegna fyrirhugaðra breytinga á póstafgreiðslu Íslandspósts á Kópaskeri:

Með bréfi dagsettu 3. ágúst 2022, óskar Byggðastofnun eftir umsögn sveitarfélagsins Norðurþings vegna fyrirhugaðra breytinga Íslandspósts á afgreiðslu fyrirtækisins á Kópaskeri. Óskað er eftir að umsögnin taki a.m.k. til þessara atriða:
1.
Fjöldi íbúa á því svæði sem afgreiðslustaðnum er ætlað að þjóna.
2.
Stærð þess svæðis sem afgreiðslustaðurinn þjónar.
3.
Möguleika íbúa á að sækja þjónustu annað.
4.
Samgöngur á svæðinu.
5.
Fjöldi afgreiðslna á afgreiðslustaðnum á ári.
6.
Annað sem getur haft áhrif á möguleika íbúa á að sækja póstþjónustu sem fellur undir alþjónustu.

Óskað var eftir að svar bærist Byggðastofnun fyrir 17. ágúst.
Svar Byggðaráðs:
Fjöldi íbúa á þjónustusvæði afgreiðslustaðarins á Kópaskeri er alls 135 manns. Stærð svæðisins er u.þ.b. 16 hektarar. Vel greiðfært er um svæðið nema þá helst í verstu vetrarveðrum. Öll heimili og flest fyrirtæki eru í göngufæri við núverandi afgreiðslu Íslandspósts. Íbúar svæðisins hafa ekki möguleika á að sækja póstþjónustu annað nema þá að keyra 43 km til Raufarhafnar eða 100 km til Húsavíkur. Fjöldi afgreiðslna hjá Íslandspósti á Kópaskeri er um 10 afgreiðslur á dag. Póstlagðar eru um 1 skráð sending að meðaltali á dag í afgreiðslunni og afhendingar skráðra sendinga eru að meðaltali um 12 á dag í afgreiðslunni.
Tilkynning barst Norðurþingi frá Íslandspósti í júlí þar sem fyrirtækið kynnti fyrirhugaða lokun afgeiðslu sinnar á Kópaskeri. Í tilkynningu frá Íslandspósti kom fram vilji fyrirtækisins til að setja upp 44 hólfa póstbox á Kópaskeri og allri dreifingu bæði bréfa og pakka í þéttbýli yrði dreift í gegnum póstbox. Ef ekki væri vilji til að stíga það skref þá mun Íslandspóstur sinna þjónustunni með póstbílaþjónustu og landpóstaþjónustu eins og lagt er upp með í tilkynningu Íslandspósts.

Umsögn/afstaða frá kjörnum fulltrúum:
Byggðarráð Norðurþings fékk kynningu á fyrirhuguðum breytingum á afgreiðslu Íslandspóst á Kópaskeri á síðasta fundi sínum þann 4. ágúst sl. Ljóst er að við þessar breytingar verður ekki lengur póstafgreiðsla á staðnum heldur munu íbúar vera þjónustaðir á annan hátt. Íbúar sveitarfélagsins hafa sumir hverjir reynslu af notkun póstboxa þar sem að minnsta kosti eitt er staðsett í sveitarfélaginu en það er staðsett fyrir utan starfandi póstafgreiðslu svo hægt er að nýta þá þjónustu, kjósi aðilar það, eða ef einhver vandamál koma upp við afgreiðsluna. Ljóst er að ekki verður hægt að afgreiða frímerki, umslög, kassa undir pakka og þess háttar í gegnum póstbox svo draga má þá ályktun að sú þjónusta verði lögð niður.
Ráðið hefur efasemdir um þær áætlanir um að auka þjónustu við að afhenda pakka heim. Oft á tíðum er það gert á hefðbundnum vinnutíma og líkur á því að sendingin komist þar af leiðandi ekki til skila. Ef ákveðið verður að fara þá leið, verður pósturinn að sjá til þess að íbúar geti nálgast sendinguna án þess að þurfa að keyra alla leið til Húsavíkur.
Byggðarráð leggur ríka og mikla áherslu á að fyrirhugaðar breytingar muni ekki hafa í för með sér skerðingu á þjónustu gagnvart íbúum sveitarfélagsins og að leitað verði allra leiða til að koma til móts við íbúa svo að þörfum þeirra verði mætt. Ráðið bendir á möguleika á samstarfi við búðina, Skerjakollu um sölu á frímerkjum, umslögum og kössum til að skerða ekki þá þjónustu.

Byggðarráð felur sveitarstjóra að senda Byggðastofnun ofangreinda umsögn.

3.Þjónustusamningur Norðurþings vegna félagsþjónustu

Málsnúmer 202207028Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur til kynningar efni fundar sem haldin var þann 09.08.2022.
Samningurinn "Sameiginlegt þjónustusvæði um almenna og sértæka félagsþjónustu", aðilar samnings eru Norðurþing, Þingeyjarsveit, Langanesbyggð og Tjörneshreppur.
Næsti fundur vegna samningsins verður væntanlega í fyrstu viku september. Einnig er að fara af stað vinna ráðgjafa við úttekt á þjónustu og rekstri félagsþjónustunnar.
Lagt fram til kynningar.

4.Styrkbeiðni vegna rekstur Aflsins 2022

Málsnúmer 202208017Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur styrkbeiðni frá Aflinu:

"Við hjá Aflinu leitum nú til ykkar um stuðning við starf okkar. Um það bil fjórðungur þeirra sem til okkar leita eru búsettir utan Akureyrar og því mikilvægt fyrir öll sveitarfélög að þjónusta Aflsins sé öflug og að við getum haldið áfram að þróa starfið. Það er einlæg von okkar að þið takið erindinu vel og séuð tilbúin til að styðja við starfsemina með fjárstyrk."
Byggðarráð samþykkir að veita Aflinu styrk að upphæð 125 þ.kr vegna ársins 2022.

5.Nýir og endurnýjaðir rammasamningar Ríkiskaupa 2022

Málsnúmer 202205111Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur yfirlit um rammasamninga Ríkiskaupa.

Rammasamningur Ríkiskaupa sem snýr að þjónustu iðnmeistara fyrir sveitarfélög rennur sitt skeið 6. september nk. Norðurþing er aðili að samningnum og taka þarf umræðu um hvort sveitarfélagið hyggst halda áfram að vera aðili að þessum kafla rammasamninganna eða segja sig úr honum.
Samningur RK 17 tók gildi 07.09.2020 og gildir í tvö ár. Ríkiskaup hefur síðan heimild til þess að framlengja samninginn tvisvar sinnum um eitt ár í senn.
Byggðarráð þakkar Katli fyrir komuna á fundinn og góða samantekt á þeim rammasamningum Ríkiskaupa sem Norðurþing er aðili að.
Byggðarráð mun taka málið upp á næsta fundi sínum og taka ákvarðanir hvað varðar endurnýjun á þeim samningum sem renna út á næstu vikum.

6.Frístund - Beiðni um viðauka við fjárhagsáætlun

Málsnúmer 202206131Vakta málsnúmer

Á 123. fundi fjölskylduráðs 9. ágúst 2022, var eftirfarandi bókað: Fjölskylduráð þakkar skólastjóra Borgarhólsskóla fyrir komuna. Fjölskylduráð samþykkir framlagða viðaukabeiðni vegna fjölgunar stöðugilda í frístund fyrir 1.-4. bekk á haustmisseri.
Ráðið óskar eftir því við byggðarráð að viðauki uppá á 4.500.000 kr. verði samþykktur.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi viðauka að upphæð 4.500.000 kr. og vísar honum til staðfestingar í sveitarstjórn.

7.Viðauki félagsþjónusta

Málsnúmer 202208011Vakta málsnúmer

Á 123. fundi fjölskylduráðs 9. ágúst 2022, var eftirfarandi bókað: Fjölskylduráð samþykkir framlagða viðaukabeiðni vegna veikinda starfsfólks félagsþjónustu Norðurþings.
Ráðið óskar eftir því við byggðarráð að viðauki uppá á 85.164.678 kr. verði samþykktur.
Byggðarráð samþykkir fyrirliggjandi viðauka að upphæð 85.164.678 kr. og vísar honum til staðfestingar í sveitarstjórn.
Ráðið vekur athygli á því að kostnaðurinn er kominn til vegna nokkurra þátta, þar á meðal veikinda starfsfólks, rekstur nýs íbúðakjarna og vanáætlunar af hálfu sveitarfélagsins.

8.Skipun fulltrúa í stjórn Húsavíkurstofu 2022

Málsnúmer 202208009Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggur að skipa í stjórn Húsavíkurstofu, samkvæmt samkomulagi á Norðurþing tvo fulltrúa í stjórn.
Byggðarráð tilnefnir þau Birki Frey Stefánsson og Huld Hafliðadóttur sem fulltrúa Norðurþings í stjórn Húsavíkurstofu.

9.Fundargerðir stjórnar Húsavíkurstofu 2021-2022

Málsnúmer 202107017Vakta málsnúmer

Fyrir byggðarráði liggja til kynningar fundargerðir Húsavíkurstofu frá maí og júní 2022. Einnig liggur fyrir fundargerð stjórnarfundar frá mars 2022.
Lagt fram til kynningar.

10.Tesseract gagnaver á Bakka

Málsnúmer 202208018Vakta málsnúmer

Á fund byggðarráðs mæta fulltrúar Tesseract en félagið hefur uppi áform um að koma upp gagnaveri á Íslandi og hefur áhuga á að staðsetja það á iðnaðarsvæðinu á Bakka.
Byggðarráð þakkar fulltrúum Tesseract fyrir komuna og upplýsandi kynningu á þeirra hugmyndum um uppbyggingu á svæðinu.

Fundi slitið - kl. 10:58.