Fara í efni

Fjölskylduráð

34. fundur 27. maí 2019 kl. 13:00 - 15:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
 • Benóný Valur Jakobsson varaformaður
 • Hrund Ásgeirsdóttir aðalmaður
 • Bylgja Steingrímsdóttir aðalmaður
 • Ásta Hermannsdóttir áheyrnarfulltrúi
 • Kristján Þór Magnússon bæjarstjóri
 • Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir varamaður
 • Stefán L Rögnvaldsson varamaður
Starfsmenn
 • Jón Höskuldsson Fræðslu- og menningarfulltrúi
 • Kjartan Páll Þórarinsson Íþrótta- og tómstundafulltrúi
 • Hróðný Lund félagsmálafulltrúi
 • Röðull Reyr Kárason Ritari
Fundargerð ritaði: Röðull Reyr Kárason Þjónustufulltrúi
Dagskrá
Kjartan Páll Þórarinsson íþrótta- og tómstundafulltrúi sat fundinn undir lið 1 og 7 - 8.
Sigrún Björg Aðalgeirsdóttir fjölmenningarfulltrúi sat fundinn undir lið 1
Hróðný Lund félagsmálastjóri sat fundinn undir lið 5 - 6.
Jón Höskuldsson fræðslustjóri sat fundinn undir lið 2 - 4.
Árni Sigurbjörnsson skólastjóri Tónlistarskóli Húsavíkur sat fundinn undir lið 2
Sigríður Valdís Sæbjörnsdóttir skólastjóri Grænuvalla sat fundinn undir lið 3 - 4.

1.Leiksýningin Litla Hafmeyjan sumarið 2019 á Húsavík

Málsnúmer 201905110Vakta málsnúmer

Leikhópurinn Lotta hyggst setja upp sýninguna um Litlu hafmeyjuna um Mærudagana.

Hópurinn óskar eftir að:
-Setja sýninguna upp í Skrúðgarðinum á Húsavík, 27. júlí.
-Sækja um styrk að andvirði 36.000 kr. til að greiða niður kostnað vegna auglýsinga, uppsetningar og ferðalaga.
-Að sveitarfélagið kynni sýninguna á vefsíðum bæjarins og öðrum miðlum.
Fjölskylduráð samþykkir erindi Leikhópsins Lottu eins og það kemur fyrir.

2.Tónlistarskóli Húsavíkur - Skóladagatal 2019-2020

Málsnúmer 201904131Vakta málsnúmer

Skóladagatal Tónlistarskóla Húsavíkur skólaárið 2019-2020 er lagt fram til kynningar og samþykktar.
Árni Sigurbjarnarson skólastjóri Tónlistarskóla Húsavíkur kynnti skóladagatal Tónlistarskóla Húsavíkur skólaárið 2019 - 2020. Ráðið samþykkir fyrirliggjandi skóladagatal.

Ráðið þakkar Árna og samstarfsfólki fyrir skólastarfið á liðnu skólaári og fyrir glæsilega vortónleika sem bera skólanum vitni um gott starf á liðnu ári.

3.Grænuvellir - Skóladagatal 2019-2020

Málsnúmer 201904129Vakta málsnúmer

Á 33. fundi fjölskylduráðs var skóladagatal Grænuvalla 2019 - 2020 á dagskrá og eftirfarandi bókað: Sigríður Valdís Sæbjörnsdóttir skólastjóri Grænuvalla gerði grein fyrir skóladagatali Grænuvalla 2019 - 2020. Ljóst er að gera þarf örlitlar breytingar á dagatalinu og verður það tekið til samþykktar á næsta fundi ráðsins.
Sigríður Valdís Sæbjörnsdóttir skólastjóri Grænuvalla kynnti skóladagatal Grænuvalla skólaárið 2019 - 2020. Ráðið samþykkir fyrirliggjandi skóladagatal.
Ráðið þakkar Sigríði og starfsfólki Grænuvalla fyrir starfið.

4.Erindi frá Framsýn stéttarfélagi varðandi leikskólagjöld í Norðurþingi

Málsnúmer 201905028Vakta málsnúmer

Á 33. fundi fjölskylduráðs var eftirfarandi erindi á dagskrá og því frestað með eftirfarandi bókun: Fjölskylduráð þakkar Framsýn fyrir erindið. Ráðið ætlar sér að safna gögnum til að svara erindinu og gert er ráð fyrir að svar liggi fyrir á næsta fundi ráðsins.
Sveitarstjóri lagði fyrir ráðið drög að svari til Framsýnar við erindi þess sem tekið var fyrir á 33. fundi fjölskylduráðs. Ráðið felur sveitarstjóra að senda svarið til hlutaðeigandi. Fjölskylduráð vill koma á framfæri meginkjarna svarsins sem fer hér á eftir:

Ráðið vill koma á framfæri þökkum til stéttarfélagsins fyrir frumkvæðisvinnuna og það aðhald sem felst í því að leita svara við spurningum sem hafa áhrif á kostnað íbúa sveitarfélagsins af þjónustu sveitarfélagsins. Óskað var eftir viðbrögðum sveitarfélagsins við niðurstöðum verðlagseftirlits ASÍ í tengslum við úttekt þess á leikskólagjöldum 16 fjölmennustu sveitarfélögum landsins, hvar kom í ljós að krónutölusamanburður á leikskólagjöldum ofangreindrar sveitarfélaga sýnir að 8 tíma vistun með fæði hjá forgangshópum eru hæst hjá Norðurþingi og almenn leikskólagjöld með fæði eru einnig í hærri kantinum. Óskað var sömuleiðis eftir skýringum á gjaldskrám Norðurþings og hvers vegna leikskólagjöld í Norðurþingi eru almennt hærri en hjá þeim sveitarfélögum sem tiltekin voru í könnun verðlagseftirlits ASÍ.

Þegar samanburður á leikskólagjöldum milli sveitarfélaga er skoðaður er mikilvægt að rýna hvað liggur að baki gjöldunum og hvernig þjónustan á yngsta skólastiginu er raunverulega innt af hendi á hverjum stað fyrir sig. Rétt er að benda á í upphafi að rekstrarviðmið sem hér á eftir verðu stuðst við miðað við árið 2017.

Þegar leikskólagjöldin á Grænuvöllum eru rýnd kemur í ljós að hlutfall leikskóla- og fæðisgjalda af heildarrekstrarkostnaði skólans var 13% árið 2017, en skv. gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga (Árbók 2017) voru aðeins þrjú af viðmiðunar-sveitarfélögunum 16 með lægra hlutfall. Þ.e.a.s. foreldrar og forráðamenn barna á Grænuvöllum eru að greiða hlutfallslega lægri hlutdeild í heildarrekstrarkostnaði leikskólans en það sem almennt gerist. Sömuleiðis kemur í ljós að fjöldi heilsdagsígilda á hvert stöðugildi var 3,58, en aðeins voru heilsdagsígildin færri hjá þremur viðmiðunarsveitarfélögum. Þetta þýðir að almennt eru færri börn á ábyrgð hvers stöðugildis við skólann, sem að okkar mati er jákvætt uppá álag á bæði starfsfólk og nemendur, heldur en ef um væri að ræða meiri fjölda barna per starfsmann. Ennfremur má draga það hér fram að rekstrarkostnaður á hvert heilsdagsígildi var 2.424.000 kr. Var rekstrarkostnaðurinn lægri hjá 11 viðmiðunarsveitarfélögum af þeim 16 sem skoðuð voru. Þess má sömuleiðis geta að Í Norðurþingi býðst foreldrum að koma með börn sín í leikskólann allt að 15 mínútum fyrir vistunartíma barns og sækja þau allt að 15 mínútum eftir að vistunartíma lýkur. Ekki er innheimt fyrir þessa þjónustu sem telst til viðbótarvistunartíma upp á 30 mínútur.


Lögð hefur verið á það mikil áhersla hjá sveitarstjórnarfulltrúum sl. ár að boðið sé upp á að foreldrar geti innritað börn sín í leikskóla 12 mánaða og að skólaganga ungbarna hefjist sem næst þeim degi er börnin verða ársgömul. Þessi þjónusta hefur gengið vel og innritun barna í leikskólum sveitarfélagsins hefur haldist frá 12 mánaða aldri, þrisvar til fjórum sinnum á ári. Engir biðlistar eru á leikskólum Norðurþings. Sé litið á gögn sem safnað var nú í vor og send voru á alla framkvæmdastjóra sveitarfélaga og fræðslustjóra þann 13. mars sl. kemur í ljós að rúmlega helmingur sveitarfélaga á Íslandi stefnir að því að innrita börn frá 9-12 mánaða. Það eru þó aðeins um 6% allra leikskólabarna á Íslandi sem raunverulega innritast í leikskóla á þessum aldri. Í 50 sveitarfélögum af 54 voru biðlistar inn á leikskóla. Alls eru 716 börn yngri en 12 mánaða á biðlistum, 908 börn á aldrinum 12-18 mánaða og 290 börn 19 mánaða og eldri. Sömuleiðis er í mjög mörgum leikskólum aðeins innritað einu sinni á ári, en ekki þrisvar til fjórum sinnum sbr. á Grænuvöllum.

Auðveldlega má álykta að lægri leikskólagjöldum fylgi lægra þjónustustig og að þjónustustig leikskóla Norðurþings sé hátt. Vitanlega er það ekki algilt, en við teljum að þjónustustig og faglegt starf sé með ágætum og með því sem best gerist á landsvísu.

Hinsvegar er það svo eins og komið hefur fram hér að framan að foreldrar eru aðeins að greiða lágt hlutfall þess kostnaðar sem hlýst af rekstri leikskóla og ennfremur að sé horft til hlutfalls rekstrarútgjalda Norðurþings vegna leikskóla, af skatttekjum, þá nam það hlutfall 12%, sem er lægsta hlutfall sem reiknast hjá ofangreindum viðmunarsveitarfélögum. Því er ljóst að fjölskylduráð sem og sveitarstjórn mun yfirfara gjaldskrána gaumgæfilega í haust og velta því fyrir sér hvort hægt sé að finna leiðir til lækkunar álaga á barnafólk með lækkun leikskólagjaldanna án þess að það hafi áhrif á þjónstustig skólanna okkar og það frábæra starf sem leikskólabörnum í sveitarfélaginu er boðið uppá. Verður horft til þessa erindis sem brýningu í þessum efnum því vitanlega vill sveitarstjórn Norðurþings áfram tryggja góða þjónustu en jafnframt að hún sé ekki úr hófi fram kostnaðarsöm fyrir foreldra ungra barna. Það er verðugt markmið.

Að lokum er rétt að leiðrétta nokkuð sem fram kom í könnun verðlagseftirlits ASÍ sem hér er vitnað til. Þannig er að hádegismatur í Borgarhólsskóla er sagður kosta 513 krónur og í Öxarfjarðarskóla 636 krónur. Hið rétta er að morgunverður, ávaxtastund og hádegismatur kosta alls 499 krónur í Borgarhólsskóla og í Öxarfjarðarskóla kosta morgun-, hádegisverður og síðdegishressing 636 krónur. Það er því rangt og villandi að tala um að aðeins hádegimatur kosti 513 kr í Borgarhólsskóla og aðeins hádegsiverður kost 636 kr í Öxarfjarðarskóla. Þetta leiðréttist hér með.

5.Öldungaráð 2018 - 2022

Málsnúmer 201806213Vakta málsnúmer

Sveitarfélögin Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Langanesbyggð, Svalbarðshreppur og Tjörneshreppur óska eftir því að fá að tilnefna sinn fulltrúa inn í öldungaráð Norðurþings.
Fjölskylduráð tekur jákvætt í erindi sveitarfélaganna á starfsvæði félagsþjónustu Norðurþings um að hvert þeirra eigi sinn fulltrúa í Öldungaráði Norðurþings. Fjölskylduráð felur félagsmálastjóra að undirbúa erindið til staðfestingar í sveitarstjórn Norðurþings.

6.Samningur við FEB um leigu á húsnæði og samstarf um félagsstarf.

Málsnúmer 201905125Vakta málsnúmer

Fyrir ráðinu liggur samningur um leigu á húsnæði Félags eldri borgara á Húsavík og nágrenni (FEB) og samstarf um félagsstarf fyrir eldri borgara.
Fjölskylduráð samþykkir fyrirliggjandi samning á milli Norðurþings og Félags eldri borgara á Húsavík og nágrennis með áorðnum breytingum. Fjölskylduráð felur félagsmálastjóra að skrifa undir samninginn með fyrirvara um staðfestingu í sveitarstjórn Norðurþings.

7.Golfklúbburinn Gljúfri - Starfsstyrkur 2018 og 2019

Málsnúmer 201905128Vakta málsnúmer

Til kynningar er ársreikningur Golfklúbbsins Gljúfra árið 2018.
Klúbburinn innheimti ekki seinni hluta starfsstyrks árið 2018 en óskar eftir að fá hann greiddan út nú á þessu ári.
Fjölskylduráð samþykkir að heimila útgreiðslu á seinnihluta starfsstyrks fyrir árið 2018.

Ráðið minnir á að það er á ábyrgð félaga og samtaka sem gera samning við sveitarfélagið að innheimta starfsstyrki í samræmi við þá sammninga sem gerðir hafa verið.

8.Stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytis í íþróttamálum

Málsnúmer 201905130Vakta málsnúmer

Til kynningar er stefnumótun mennta- og menningarmálaráðuneytis í íþróttamálum.
Stefna mennta- og menningarmálaráðuneytis í íþróttamálum lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 15:00.