Fara í efni

Framkvæmda- og hafnanefnd Norðurþings

33. fundur 03. september 2013 kl. 16:00 - 18:00 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
  • Þráinn Guðni Gunnarsson formaður
  • Jón Grímsson varaformaður
  • Hjálmar Bogi Hafliðason aðalmaður
  • Sigurgeir Höskuldsson aðalmaður
  • Áki Hauksson aðalmaður
  • Tryggvi Jóhannsson framkv.- og þjónustufulltrúi
Fundargerð ritaði: Tryggvi Jóhannsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi
Dagskrá

1.Áki Hauksson leggur til að stofnaður verði bílastæðasjóður fyrir sveitarfélagið

Málsnúmer 201308013Vakta málsnúmer

Fulltrúi Þinglistans, Áki Hauksson, leggur til að stofnaður verði bílastæðasjóður fyrir sveitarfélagið Norðurþing.Rökin fyrir því sé einföld því mikið sé um að rútum og bílum sé lagt ólöglega, sérstaklega yfir sumartímann. Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkir að stofna Bílastæðasjóð Norðurþings og felur f&þ-fulltrúa að gera drög að reglum, samþykktum og gjaldskrá fyrir slíkan sjóð og leggja fyrir nefndina í janúar 2014.

2.Erindi frá Menningarfélaginu Úti á Túni

Málsnúmer 201306034Vakta málsnúmer

Menningarfélagið Úti á Túni óskar eftir viðræðum við framkvæmda- og hafnanefnd um framtíð efri hæðar verbúðanna. Félagið hefur ákveðnar hugmyndir um framtíðarnotkun húsnæðisins og gerir grein fyrir þeim í fylgiskjali með erindinu. Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkir ganga til viðræðna við Menningarfélagið Úti á Túni. Áki Hauksson óskar bókað:Fulltrúi Þinglistans leggur til að Verbúðarhúsið, báðar hæðir verði auglýstar til sölu og hæsta boði tekið og nýir eigendur ráðstafi því hvaða starfsemi verði í húsinu.

3.Guðmundur Karlsson óskar eftir afgirtu svæði fyrir hunda

Málsnúmer 201308032Vakta málsnúmer

Guðmundur fer þess á leit að hundaeigendum á Húsavík verði úthlutað afgirtu svæði þar sem hægt er að sleppa hundum lausum án vandræða. Framkvæmda- og hafnanefnd hafnar erindinu.

4.Málefni Slökkviliðs Húsavíkur

Málsnúmer 201305010Vakta málsnúmer

Á 30. fundi framkvæmda- og hafnanefndar 12. júní sl. samþykkti framkvæmda- og hafnanefnd að leggja til við bæjarstjórn að skipuð yrði nefnd til þess að fara yfir málefni slökkviliðanna í Norðurþingi og myndi nerfndin skila af sér fyrir 1. september n.k. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða að skipa starfshóp og fól bæjarráði að gera erindisbréf fyrir starfshópinn og skipa fulltrúa í hann. Starfshópurinn hefur nú skilað skýrslu um stöðu slökkviliðanna og gert tillögur til úrbóta og áætlað kostnað vegna þeirra. Framkvæmda- og hafnanefnd þakkar starfshópnum fyrir vel unna skýrslu. Í skýrslunni er lagt til að í sveitarfélaginu verði starfsrækt eitt slökkvilið í stað þriggja áður með starfsstöðvar á Húsavík, Kópaskeri og Raufarhöfn. Jafnframt er lagt til að einn slökkviliðsstjóri verði ráðinn og eldvarnareftirlitsmaður.Í skýrslunni er bent á mikilvægi þess að endurvinna brunavarnaráætlun.Auka þarf rekstrarframlag til málaflokksins. Framkvæmda- og hafnanefnd leggur til við bæjarstjórn að skýrslan verði lögð til grundvallar við endurskipulagningu brunavarnarmála í Norðurþingi. Í samræmi við skýrslu starfshópsins óskar framkvæmda- og hafnanefnd eftir aukafjárveitingu að upphæð 4.000.000 kr. vegna málaflokksins á árinu 2013 til bæjarráðs.

5.Jón Ketilsson, ósk um leyfi til að koma upp æðarvarpi í hólmanum í höfninni á Raufarhöfn

Málsnúmer 201308011Vakta málsnúmer

Jón Ketilsson sækir um leyfi til að reyna að koma upp æðarvarpi í hólmanum í höfninni á Raufarhöfn. Nú verpir þar eingöngu vargfugl og þarf að byrja á því að eyða honum. Jón ætlar því að sækja um undanþágu frá reglugerð um meðferð skotvopna því hann hugsar sér að skjóta vargfuglinn. Framkvæmda- og hafnanefnd tekur jákvætt í erindið enda hafi umsækjandi fengið leyfi frá þar til bærum aðilum, s.s. heilbrigðiseftirliti og lögreglu.

6.Ragnhildur Þorgeirsdóttir og Jóhannes Árnason, Höskuldarnesi óska eftir því að girðing í landi Höskuldarness verði fjarlægð

Málsnúmer 201308005Vakta málsnúmer

Fyrir nefndinni lá bréf frá Ragnhildi og Jóhannesi í Höskuldarnesi þar sem þau óska eftir að girðing sem sveitarfélagið reisti nýverið í landi Höskuldarness verði fjarlægð. Þau telja að land Höskuldarness sem lenti Raufarhafnarmegin við girðinguna hafi verið ráðstafað þriðja aðila án þeirra samþykkis og eru þau ósátt við það.Enn fremur óska þau eftir svörum við fjórum spurningum sem snúa að kostnaði við girðinguna og svo um fyrirkomulag beitarmála innan bæjargirðingu Raufarhafnar. Framkvæmda- og hafnanefnd þakkar fyrir erindið og felur f&h-fulltrúa að svara bréfritara og ná samkomulagi um lokun hólfsins.

7.Eimskip óskar eftir samstarfi um hafnarþjónustu á Húsavík

Málsnúmer 201308035Vakta málsnúmer

Fyrir fundinum lá bréf frá Eimskipi þar sem félagið lýsir yfir áhuga á að bjóða fram þjónustu sína varðandi hafnarvinnu á Húsavík í tengslum við væntanlega stóriðju og aðra atvinnuuppbyggingu á svæðinu og að koma að vinnu um þróun og uppbyggingu hafnarsvæðisins og þeirrar starfsemi sem þar verður. Eimskip lýsir einnig yfir áhuga á því að gera langtímasamning við Húsavíkurhöfn um hafnarvinnu fyrir PCC og önnur fyrirtæki sem verða með starfsemi á svæðinu. Framkvæmda- og hafnanefnd lýsir sig reiðubúna til viðræðna við Eimskip.

8.Eigendur Bjarnastaða, Austaralands, Ferjubakka og Sigtúns óska eftir að stofna deild úr fjallskilafélagi Öxfirðinga

Málsnúmer 201308047Vakta málsnúmer

Eigendur Austaralands, Sigtúna, Bjarnastaða og Ferjubakka óska með bréfi eftir við sveitarfélagið að fá að stofna deild út úr fjallskiladeild Öxarfjarðar (Öxarfjarðardeild) fyrir þessar jarðir því þær eru á afmörkuðu svæði og eigendur hafa ekki nýtt sér upprekstur á önnur afréttarlönd. Framkvæmda- og hafnanefnd frestar afgreiðslu málsins. Nefndin felur f&h-fulltrúa að afla gagna um málið hjá fjallskilastjórn á svæðinu og leggja fyrir nefndina. Reglugerð um fjallskil er þegar í gildi.

9.Beiðni um hönnun og gerð útboðsgagna vegna vegagerðar að Bakka

Málsnúmer 201309001Vakta málsnúmer

Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkir að veita bæjarstjóra heimild til að óska eftir við Vegagerðina, að hún taki að sér hönnun og undirbúning útboðsgagna fyrir breytingar á Húsavíkurhöfn og iðnaðarvegi á skipulögðu iðnaðarsvæði vegna fyrirhugaðra iðjuvera í landi Bakka við Húsavík.

10.Axel Yngvason, rekstur ferðaþjónustunnar í Lundi

Málsnúmer 201209045Vakta málsnúmer

Axel, sem rekið hefur ferðaþjónustu í Lundi undanfarin ár, hefur lýst því yfir að hann muni ekki sækjast eftir að reka ferðaþjónustu þar á næsta ári. Sveitarfélagið vinnur að deiliskipulagi fyrir svæðið. Framkvæmda- og hafnanefnd leggur til við bæjarstjórn að Heimavistarhúsið/íbúð í Lundi verði auglýst til sölu þegar deiliskipulag hefur verið samþykkt.

11.Tillaga frá Hjálmari Boga Hafliðasyni, vistgötur á Húsavík

Málsnúmer 201309002Vakta málsnúmer

Hjálmar Bogi gerir tillögu um að Heiðargerði og neðri hluti Höfðavegar verði gerður að vistgötu til þess að minnka umferðarhraða og auka öryggi gangandi vegfarenda. Vistagta er gata þar sem umferð gangandi vegfarenda og hægfara farartækja -eins og reiðhjóla, hjólaskauta eða hjólabretta -hefur forgang fram yfir umferð bíla. Framkvæmda- og hafnanefnd felur f&h-fulltrúa að kynna málið fyrir íbúum viðkomandi gatna. Framkvæmda- og hafnanefnd mun taka málið upp á næsta fundi.

Fundi slitið - kl. 18:00.