Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

23. fundur 12. febrúar 2019 kl. 13:00 - 14:50 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
 • Silja Jóhannesdóttir formaður
 • Heiðar Hrafn Halldórsson aðalmaður
 • Kristján Friðrik Sigurðsson áheyrnarfulltrúi
 • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
 • Guðmundur Halldór Halldórsson aðalmaður
 • Gísli Þór Briem varamaður
Starfsmenn
 • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
 • Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri
 • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
 • Smári Jónas Lúðvíksson starfsmaður í stjórnsýslu
 • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Þórir Örn Gunnarsson hafnastjóri sat fundinn undir lið 1-6.
Gaukur Hjartarson skipulags- og byggingarfulltrúi sat fundinn undir lið 2-8.
Smári J. Lúðvíksson umhverfisstjóri sat fundinn undir lið 7-8.
Ketill Gauti Árnason verkefnastjóri á framkvæmdasviði sat fundinn undir lið 9.

1.Hafnasamband Íslands - Fundargerðir 2019

Málsnúmer 201901117Vakta málsnúmer

Lagt fram til kynningar.

2.Rifós hf óskar eftir umfjöllun um breytingu á deiliskipulagi

Málsnúmer 201811121Vakta málsnúmer

Nú er lokið kynningu á tillögu að breytingu deiliskipulags fiskeldis Rifóss að Lóni í Kelduhverfi.

Skipulagsstofnun tilkynnti með tölvupósti 2. janúar um að ekki væru gerðar athugasemdir við skipulagstillöguna á þessu stigi.

Umhverfisstofnun (UST) gerir með bréfi dags. 17. janúar nokkrar athugasemdir við skipulagstillöguna:

1. UST telur að svæði sem breytingartillagan fjallar um falli undir lið 2. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Mikilvægt sé að framkvæmdasvæði sé lýst nánar og lagt mat á hvernig tillagan hefur áhrif á jarðminjar. Mikilvægt sé að jarðminjum verði ekki raskað og staðsetning byggingarreits taki mið af jarðminjunum.

2. UST telur mikilvægt að það komi fram hvert flatarmál bygginga verður innan byggingarreits. Minnt er á kafla 2.2.1 í Landskipulagsstefnu þar sem fram kemur að skipulagsáætlanir skuli taka mið af hefðum, landslagi og staðhætti hvað varðar gæði og yfirbragð byggðar. Stofnunin telur að hús eða skýli yfir allt að 20 eldisker og með allt að 9 m mænishæð muni líklega hafa áhrif á landslag og ásýnd svæðisins.

Ekki komu aðrar athugasemdir eða ábendingar við skipulagstillöguna.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings þakkar framkomnar athugasemdir.

1. Byggingarreitur kerja (reitur C) er allur hulinn lausum jarðefnum þ.e. sandi og mold. Þar er því ekki um að ræða jarðmyndanir með verulegt verndargildi. Á byggingarreit F standa klappir að nokkru leiti upp úr lausa jarðveginum, en þar er engu að síður um að ræða jafnt yfirborð án mikilvægra jarðmyndana. Byggingarreitir voru á sínum tíma valdir með það í huga að lágmarka röskun hrauns. Deiliskipulagsbreytingin felur ekki í sér stækkun byggingarreita eða tilfærslu þeirra frá gildandi deiliskipulagi. Byggingarreitum hefur þegar verið raskað að stórum hluta í tengslum við þegar heimilaðar framkvæmdir á grundvelli gildandi deiliskipulags. Þar eru nú risin fjögur stór ker. Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulagsráðgjafa að lýsa nánar aðstæðum innan byggingarreita í greinargerð og jafnframt lýsa mati á líkleg áhrif á jarðminjar.

2. Rétt er að skipulagstillagan gerir ráð fyrir umtalsverðu byggingarmagni á lóðinni. T.a.m. er byggingarreitur C nálega hektari að flatarmáli sem markar þá hámark samanlagðra þakflata. Skipulagstillagan gengur út frá að lóðarhafi geti ákveðið innan byggingareits yfir hvaða ker er byggt á hverjum tíma og því óljóst um hversu margar byggingar verða reistar innan byggingarreits og þar með stærð hvers skýlis. Hámarksvegghæð húsa er aðeins hálfum metra yfir vegghæð stærstu kerja. Að teknu tilliti til eðlilegs þakhalla og mögulega breiðra bygginga verður hámarksþakhæð þaka 9,0 m að teljast hófleg. Byggingar innan byggingarreita munu vissulega hafa áhrif á ásýnd svæðisins. Ákvæði eru í deiliskipulagskilmálum um að hús verði lituð í náttúrulegum litatónum til að lágmarka ásýndaráhrif. Skipulags- og framkvæmdaráð óskar eftir því að bætt verði við ákvæðum um að hönnun húsa taki mið af umhverfinu til að mannvirki falli sem best að landslagi.

Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að skipulagstillagan verði samþykkt með ofangreindum breytingum.

3.Deiliskipulag vegna nýs hjúkrunarheimils á Húsavík

Málsnúmer 201902042Vakta málsnúmer

Dvalarheimili aldraðra - Hvammur óskar eftir því að sveitarfélagið hefji undirbúning af gerð deiliskipulags fyrir reitinn sem nú hýsir núverandi byggingar heimilisins og aðra tengda starfsemi. Sérstaklega er þess óskað að deiliskipulag skilgreini byggingarheimild fyrir 60 rýma hjúkrunarheimili, allt að 3.900 m² að flatarmáli, norðan Brekkuhvamms við Skálabrekku.
Skipulags- og framkvæmdaráð fagnar fyrirhugaðri uppbyggingu á hjúkrunarheimili og mikilvægt er að hefja þessa vinnu sem fyrst.
Ráðið felur skipulags- og byggingarfulltrúa að láta vinna skipulagslýsingu fyrir tilgreint deiliskipulag.

4.Tillaga að breytingu á skógræktarsvæði í landi Höfða

Málsnúmer 201902011Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar um breytta afmörkun skógræktarsvæðis í landi Höfða á Melrakkasléttu.

Fyrir liggur hnitsett afstöðmynd skógræktarsvæðis og yfirlýsing frá Isavia um að ekki séu gerðar athugasemdir við afmörkun svæðisins.

Fjallað var um tilkynningu um skógræktarsvæði í landi Höfða á árinu 2018 og komu þá fram athugasemdir vegna nálægðar svæðisins við Raufarhafnarflugvöll. Breytt afmörkun felst í að skógræktarsvæðið er nú lengra frá flugvelli en áður var gert ráð fyrir. Ekki er málsett fjarlægð skógræktarsvæðis frá þjóðvegi.
Skipulags- og framkvæmdaráð veitir jákvæða umsögn um afmörkun skógræktarsvæðisins svo fremi að það verði alfarið utan veghelgunarsvæðis þjóðvegar.

5.Birgir Þ. Þórðarson og María Alfreðsdóttir óska eftir að breyta skráningu á Stekkjarhvammi 3, úr frístundahúsi í íbúðarhús.

Málsnúmer 201902016Vakta málsnúmer

Birgir Þ. Þórðarson og María Alfreðsdóttir óska eftir því að húsnæði þeirra að Stekkjarhvammi 3 í Reykjahverfi verði skráð sem íbúðarhúsnæði. Tiltekið er í umsókn að þau hafa átt lögheimili í húsinu frá árinu 2005.
Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir breytta skráningu húsnæðisins.

6.Kæra Gentle Giants-Hvalaferða ehf. vegna framkvæmda við Hafnarstétt 13

Málsnúmer 201809090Vakta málsnúmer

Fyrir liggur tillaga sveitarstjóra Norðurþings, Kristjáns Þórs Magnússonar, að samkomulagi við Gentle Giants - Hvalaferðir vegna hleðsluveggja sem reistir voru utan við heimiluð mörk við Hafnarstétt 13 á síðasta ári. Tillagan felur í sér málamiðlun af hálfu sveitarfélagsins þar sem boðin er ótímabundin frestun á niðurrifi veggjar austan Flókahúss en gengið út frá að veggir norðan og vestan lóðar verði færðir til þess sem heimilað hefur verið. Tillagan felur einnig í sér ásetning um að ljúka frágangi umhverfis lóðina og að sveitarfélagið muni leita samkomulags við eiganda Helguskúrs varðandi aðkomu til lokafrágang suðurhliðar Flókahúss. Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti hugmyndir lóðarhafa Hafnarstéttar 13 að frágangi málsins, eins og fram koma í tölvupósti lögmanns Gentle Giants - Hvalaferða til sveitarstjóra 8. febrúar s.l.
Skipulags- og framkvæmdaráð fellst fyrir sitt leiti á tillögur sveitarstjóra að framlagðri málamiðlun sem er eftirfarandi:
-Norðurveggur sem reistur var utan heimilda (langveggur í austur/vestur) verði færður svo hann standi innan þess ramma sem framkvæmdinni var heimilaður skv. ákvörðun sveitarstjórnar Norðurþings. Ekki hefur verið gengið endanlega frá veggnum og skv. sérfræðiáliti hægt að taka vegginn niður án mikilla vandkvæða eða skemmda á þeim steinum sem límdir hafa verið saman nú þegar.
-Austurveggur (langveggur í norður/suður) fær að halda sér eins og hann stendur í dag, en þinglýst kvöð á eiganda Hafnarstéttar 13 að komi til breytinga á fasteign sem stendur á lóð Hafnarstéttar 15 („Helguskúr“) til samræmis við gildandi deiliskipulag (tilfærsla/niðurrif) geti Norðurþing farið fram á það við eiganda Hafnarstéttar 13 að veggurinn verði fjarlægður til samræmis við deiliskipulag.
-Heimtaug hitaveitu OH við norðausturenda „Helguskúrs“ verði á þessum tímapunkti ekki færð með þeim hætti að lögn endi utan við núverandi legu veggjarins aftan við Hafnarstétt 13, heldur verði sú kvöð á húseiganda Hafnarstéttar 13 að aldrei megi hefta aðgengi OH að svæðinu komi til bilana og kostnaður vegna bilunar sem raskar með einhverjum hætti fyrirhuguðum frágangi aftan við húseignina að Hafnarstétt 13, lendi ekki á OH af þessum sökum.
-Svæði sveitarfélagsins á milli lóða við Hafnarstétt 9 og 13 verði hannað og gert snyrtilegt til samræmis við umhverfið í kring, þannig að hellulögn og frágangur allur tóni vel við næsta nágrenni. Áætlað er að tillaga verði unnin af umhverfisstjóra Norðurþings og Guðmundi Vilhjálmssyni/GG. GG greiði kostnað við frágang þennan sem nemur 160 cm norðan við steinvegg sem færður verður til samræmis við ofangreint.
-Sveitarstjóri og eða aðrir hlutaðeigandi starfsmenn Norðurþings munu leggja sig alla fram um að sátt megi nást milli eigenda Hafnarséttar 13 og 15 um endanlegan frágang eldvarna og klæðningar milli eignanna og að framkvæmdum við það verk verði lokið hið fyrsta.

7.Upptaka á fyrirkomulagi landleigusamninga 2017-2018

Málsnúmer 201702177Vakta málsnúmer

Endurupptaka á máli "upptaka á fyrirkomulagi Landleigusamninga 2017-2018" frá síðasta fundi.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að kynna drögin að landleigusamningum og fyrirkomulagi fyrir hagsmunaaðilum.

8.Hundasvæði á Húsavík.

Málsnúmer 201902041Vakta málsnúmer

Hundaeigendum í Norðurþingi eru umhugað um að komið verði upp hundasvæði þar sem þeir geti farið og leyft hundunum að hlaupa á öruggu svæði fyrir bæði þá og íbúa Norðurþings. Formaður skipulags- og framkvæmdaráðs leggur fram tillögu um að hundasvæði verði fundinn staður og gerð kostnaðar- og rekstraráætlun til að leggja fyrir ráðið eftir tvær vikur. Einnig að það verði gert í samráði við hundasamfélagið á Húsavík en það samfélag er með virkan hóp á facebook.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að fá kostnaðar- og rekstraráætlun og gera áhættugreiningu fyrir hundasvæði og stefnt er að því að það svæði verði á Flatarholti eða við Hvamm við Búðará.
Guðmundur H. Halldórsson situr hjá við afgreiðslu málsins.

9.Sambýlið Pálsgarði: Ósk um úrbætur

Málsnúmer 201901049Vakta málsnúmer

Fyrir skipulags- og framkvæmdaráði liggur erindi þar sem óskað er eftir úrbótum á viðhaldi í sambýlinu Pálsgarði.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur framkvæmda- og þjónustufulltrúa að fara í úrbætur á þaki á milligangi og laga aðgengi að húsinu.

Fundi slitið - kl. 14:50.