Fara í efni

Skipulags- og framkvæmdaráð

98. fundur 25. maí 2021 kl. 13:00 - 13:50 í stjórnsýsluhúsi Norðurþings
Nefndarmenn
 • Benóný Valur Jakobsson formaður
 • Kristinn Jóhann Lund varaformaður
 • Guðmundur Halldór Halldórsson aðalmaður
 • Bergur Elías Ágústsson aðalmaður
 • Ásta Hermannsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
 • Gaukur Hjartarson skipul.- og byggingarfulltrúi
 • Gunnar Hrafn Gunnarsson framkv.- og þjónustufulltrúi
 • Þórir Örn Gunnarsson hafnarstjóri
 • Hermína Hreiðarsdóttir Ritari
 • Smári Jónas Lúðvíksson starfsmaður í stjórnsýslu
 • Ketill Gauti Árnason starfsmaður í stjórnsýslu
Fundargerð ritaði: Hermína Hreiðarsdóttir þjónustu- og skjalafulltrúi
Dagskrá
Gunnar Hrafn Gunnarsson framkvæmda- og þjónustufulltrúi sat fundinn undir liðum 1-2.
Þórir Örn Gunnarsson hafnastjóri sat fundinn undir liðum 1-2.
Smári J. Lúðvíksson umhverfisstjóri sat fundinn undir lið 3.

1.Ósk um að bann verði lagt við netaveiðum á göngusilungi í sjó í Skjálfandaflóa

Málsnúmer 202105034Vakta málsnúmer

Skipulags- og framkvæmdaráði hefur borist erindi frá Fiskistofu um tillögur að netaveiðibanni við Skjálfanda.

Fiskistofa gefur Norðurþingi kost á að koma sjónarmiði sínu á málinu til Fiskistofu fyrir 4 júní nk.

Sveitarfélagið Norðurþing hafnar alfarið þeim málatilbúnaði sem lagður hefur verið fram af hálfu veiðifélaga á vatnasvæði Laxár í Aðaldal og erindi til Fiskistofu byggir á til grundvallar kröfu sömu veiðifélaga um bann við nýtingu Norðurþings á hlunnindum sem fylgja sjávarjörðum í eigu sveitarfélagsins og lögvarðar hafa verið með skýrum hætti af hálfu löggjafans.
Ekkert bendir til annars en að þær silungsveiðar sem stundaðar hafa verið fyrir landi Húsavíkur og byggja á þeim veiðiheimildum sem Norðurþing úthlutar árlega, séu bæði varfærnar og sjálfbærar, enda heimildir Norðurþings til úthlutunar veiðileyfanna bæði skýrar og óumdeildar og byggja á gildandi lögum um nýtingu hlunninda sjávarjarða.
Ljóst er að umrædd atlaga veiðifélags Laxár í Aðaldal og annarra sambærilegra er ekki sú fyrsta þar sem sótt er með jafn ómálefnalegum hætti að löglegri nýtingu hlunninda af hálfu eigenda sjávarjarða. Til rökstuðnings kröfu Norðurþings um frávísun málsins er horft til álits Umboðsmanns Alþingis (Mál nr. 4340/2005 og 4341/2005) þar sem til umfjöllunar eru stjórnvaldsákvarðanir í tengslum við takmarkanir á veiðum göngusilungs í sjó líkt og nú er kallað eftir af hálfu veiðifélags Laxár í Aðaldal að Fiskistofa beiti sér fyrir. Í því áliti gagnrýnir Umboðsmaður meðal annars þann sama skort á málefnalegum sjónarmiðum sem lögð eru til grundvallar stjórnvaldsákvörðun og nú er gert, en ekki síður að rannsóknarregla stjórnsýslulaga sé ekki að fullu virt, frekar en nú. Gagnrýni, álit og niðurstaða Umboðsmanns Alþingis í tengslum við þau mál virðist því í öllum aðalatriðum einnig eiga við í því máli sem hér um ræðir.
Verði málinu fram haldið á þeim forsendum sem lagt hefur verið upp með af hálfu veiðifélaganna og Fiskistofu, byggt á jafn einhliða, haldlitlum og illa ígrunduðum gögnum og raun ber vitni, sér sveitarfélagið Norðurþing sig knúið til þess að verjast málinu af fullum þunga.

2.Aðgerðir Norðurþings í tengslum við COVID-19

Málsnúmer 202009043Vakta málsnúmer

Á 351. fundi byggðarráðs var bókað;
Byggðarráð telur ekki tilefni til frekari aðgerða vegna Covid-19 m.t.t. innheimtu og frestunar gjalda. Aðgerðir stjórnvalda hafa komið mörgum fyrirtækjum að gagni og skuldastaða fyrirtækja við sveitarfélagið er góð. Allar ákvarðanir um aðgerðir vegna COVID-19 hafa nú runnið sitt skeið fyrir utan að samningur við Húsavíkurstofu gildir út árið 2021.
Byggðarráð beinir því til skipulags- og framkvæmdaráðs að kanna hvort tilefni geti verið til að fella niður farþegagjöld hluta ársins 2021 eða allt árið.
Skipulags- og framkvæmdaráð ákveður að innheimta farþegagjöld fyrir árið 2021 samkvæmt gjaldskrá.

3.Ósk um heimild til landvinnslu til undirbúnings trjáræktar

Málsnúmer 202105120Vakta málsnúmer

Árni Sigurbjörnsson fyrir hönd skógræktarfélags Húsavíkur óskar eftir að félaginu verði heimilað að vinna land undir gróðursetningu trjáa skv. landgræðsluskógasamningi sumarið 2021. Til stendur að halda áfram gróðursetningum í landi Saltvíkur austan þjóðvegar og í lúpínubreiðum í Grásteinsheiði. Meðfylgjandi erindi eru rissmyndir af fyrirhuguðum gróðursetningarsvæðum.
Skipulags- og framkvæmdaráð fellst á að tilgreint land verði unnið fyrir gróðursetningar sumarsins.

4.Deiliskipulag fyrir Pálsgarð og Útgarð

Málsnúmer 202009067Vakta málsnúmer

Nú er lokið almennri kynningu deiliskipulags fyrir Pálsgarð og Útgarð. Umsagnir bárust frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra (bréf dags. 20. apríl), Minjastofnun Íslands (bréf dags. 16. apríl) og Eignasjóði Norðurþings (tölvupóstur 20. maí). Minjastofnun og Heilbrigðiseftirlit gera ekki athugasemdir við skipulagstillöguna. Eignasjóður telur að lækka þurfi hæðarkóta á þaki bílakjallara að Útgarði 2 þannig að hann verði að lágmarki 10 cm undir gólfi Pálsgarðs 1.
Skipulags- og framkvæmdaráð tekur undir sjónarmið Eignasjóðs um hæðarkóta þaks yfir bílakjallara og fellst á að hámarks hæð á yfirborði þaks verði 10 cm undir endanlegu gólfi Pálsgarðs 1. Skipulags- og framkvæmdaráð leggur til við sveitarstjórn að deiliskipulagið verði samþykkt með þeirri breytingu og skipulagsfulltrúa falið að ganga frá gildistöku deiliskipulagsins.

5.Sýslumaðurinn á Norðulandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi gistingar v/ Garðarsbraut 15D

Málsnúmer 202105093Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar um rekstrarleyfi vegna sölu gistingar (flokkur II) í íbúð 0203 að Garðarsbraut 15D (F2152563).
Skipulags- og framkvæmdaráð telur sig ekki í stöðu til að veita jákvæða umsögn um erindið þar sem ekki liggur fyrir umsögn/samþykki húsfélags fyrir atvinnustarfsemi í eigninni (sbr. 1. mgr. 27 gr. laga um fjöleignahús).

6.Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra óskar eftir umsögn um rekstrarleyfi v/ Skjálfandi Apartments

Málsnúmer 202105104Vakta málsnúmer

Óskað er umsagnar vegna rekstrarleyfis til sölu gistingar í íbúðum að Stóragarði 13.
Skipulags- og framkvæmdaráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að veita jákvæða umsögn vegna erindisins.

7.Ósk um leigu á íbúðarhúsnæði

Málsnúmer 202105136Vakta málsnúmer

Fyrir liggur ósk um að fá á leigu íbúðarhúsnæði í eigu Norðurþings. Íbúðin er á söluskrá og stendur tóm. Um er að ræða leigu til þriggja mánaða fyrir starfsmenn sumarfrístundar.
Fyrir liggur ósk frá íþrótta- og tómstundafulltrúa um að leigja íbúð að Garðarsbraut 83 í eigu Norðurþings til þriggja mánaða fyrir starfsmenn sumarfrístundar. Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkir tímabundna leigu.

Fundi slitið - kl. 13:50.